Páll Pétursson:
    Frú forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. er eiginlega búinn að segja það sem mér bjó í brjósti og ég get tekið undir allt sem hann sagði. Fjvn. hefur tekið sér vald til þess að koma í veg fyrir að þetta mál næði fram að ganga og þurfti ekkert að spyrja Alþingi þar um hver vilji þess væri. Ég sé hins vegar ekki tilganginn í því að eyða tíma í að ræða þessa tillögu hér og nú. Það er upplýst að jafnvel þó þessi heimild yrði samþykkt, ef forsetar Alþingis fyndu upp á því að vilja þráast við að vera hér í Kvosinni áfram og færu að reyna að kaupa einhver hús, þá þarf það auðvitað að ganga til fjvn. Ég sé því ekki ástæðuna fyrir því að eyða tíma í að ræða þessa þáltill. Þetta er mál sem er búið og er lítil ástæða til að vera að eyða tímanum í það hér á síðustu dögum þingsins. Nema þá að það vaki fyrir hæstv. fjvn. að forsetarnir fari að bjóða í ráðhús sem er í byggingu hérna í Kvosinni. Er það eina húsið sem ég sé að gæti hugsanlega hentað til þarfa þingsins ef falt væri. Kann að vera að það sé ómaksins vert fyrir þá herra í fjvn. að fara að kanna það og taka upp viðræður þar um.