Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að vekja sérstaka athygli á því að sú vinnutilhögun sem hefur verið viðhöfð í fjvn. vegna þáltill. um kaup á Hótel Borg er fullkomlega eðlileg. Það eru mörg fordæmi fyrir því, bæði frá fyrri tíð og eins núna við afgreiðslu mála á þessu þingi, að þingmál hafa verið í nefndum jafnlengi og þessi þáltill. hefur verið. Sum hver hafa reyndar verið afgreidd en hins vegar eru þau því marki brennd, a.m.k. sum hver, að þau kosta ríkissjóð ekki eina einustu krónu. Það hlýtur að vera eðlilegt með fjárfestingu sem kostar jafnmikið og hér um ræðir að hún sé tengd öðrum afgreiðslum sem varða fjárlög eða fjárlagagerð hér á Alþingi. Og það hefði þá verið nær fyrir forseta þingsins að athuga þetta mál með þeim hætti að koma því á framfæri sem heimild við fjárlagagerð ef áhuginn er svona óskaplega mikill fyrir þessu máli.
    Ég ætla hins vegar að taka það skýrt fram að í þetta mál, kaupin á Hótel Borg, hefur fengist sú niðurstaða sem ég tel langsamlega ákjósanlegasta. Borgin verður rekin sem hótel við Austurvöll og hún verður uppfærð með tilliti til þess að gegna sínu hlutverki þar af miklum sóma. Ég hef fundið það vel síðustu daga hvað þessi niðurstaða nýtur mikilla vinsælda hér í Reykjavík. Og auðvitað er það grundvallaratriði í þessum efnum að skoðanir þess sveitarfélags sem hér á hlut að máli fái að koma fram og verði niðurstaðan í slíku máli sem þessu. Það er grundvallaratriði.
    Það vekur nokkra eftirtekt við þessa umræðu hver þáttur þingmanna Framsfl. er í henni. Ég held að ég hafi rétta tölu á því að þeir séu búnir að nesta sig hingað upp í ræðupúlt einir þrír. ( Gripið fram í: Það eru a.m.k. fimm.) Nú, það er ekkert annað, og allir eru mikið að barma sér, reyndar með grátstafinn í kverkunum, yfir því að hafa tapað af þessum kaupum. ( ÓÞÞ: Það er rangt líka.) Þetta kemur út af fyrir sig ekki (Gripið fram í.) Ekki
hv. varaformaður fjvn., hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur í þessu máli. Bið ég hann afsökunar, enda er hann þekktur fyrir það að kunna betur að stjórna fjármálum en t.d. hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. En samt sem áður er þetta áberandi við þessa umræðu og gildir þá einu hvort framsóknarmennirnir eru fjórir eða fimm. Þetta kemur mér ekkert á óvart því kaupglaðari menn þekki ég tæpast í sambandi við heimildir í kringum fjárlög. Það er t.d. búið að taka ákvarðanir á þessum vetri fyrir atbeina og harðfylgi framsóknarmanna um kaup á fasteignum sem sannarlega orka tvímælis og í rauninni var aldrei meiri hluti fyrir í fjvn. Alþingis.
    Það er m.a. af þessari reynslu sem menn ættu að hafa fullan vara á með að gefa heimildir fyrir kaupum á fasteignum. Og ég tek undir það sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að af því er sannarlega mikil reynsla og slæm. Það á bara ekki saman með neinum hætti að viðhafa stöðugan niðurskurð á lífsnauðsynlegum framkvæmdum, eins og vegamálum

og öðrum þarflegum framkvæmdum víða út um land, en berjast aftur á móti fyrir stöðugum eignakaupum hér á þessu svæði. Tillaga minni hl. fjvn. í þessum efnum er langsamlega skynsamlegasti kosturinn. Það eru næg verkefni að vinna að fyrir forseta þingsins að leita eftir húsnæði og gera samanburð á ýmsum kostum í þeim efnum. Og það er eðlilegt að að þeirri niðurstöðu fenginni taki Alþingi málið til meðferðar og segi sitt síðasta orð í því.
    Tillaga minni hlutans er þess vegna bæði ábyrg og skýr. Ég vil vekja athygli á því að það hefur skýrlega komið fram í þeirri umfjöllun sem hefur farið fram í fjvn. um þessi væntanlegu húsakaup að hér í miðborginni er mikið af húsnæði sem Alþingi gæti hugsanlega fest kaup á.
    Ég undirstrika svo sérstaklega í þessum efnum að vinnubrögð fjvn. hafa verið með fullkomlega eðlilegum hætti. Það hlýtur að vera hafður góður vari á slíkri heimildaveitingu sem þessari. Ég minni á að daglega berast þær fréttir að það eigi að fara að kaupa hús, Útvegsbanka eða einhver slík hús sem á að fara að kaupa og alltaf er ríkið eða einhverjar stofnanir sem ríkinu eru tengdar þar kaupandinn. Það er fullkomlega eðlilegt að menn spyrni við fótum í þessum efnum og það er að minni hyggju ekkert vit í því að ganga lengra en minni hlutinn hefur hér lagt til.
    Ég ítreka það svo í lokin að ég tel að það hafi verið góður kostur að Reykjavíkurborg eignaðist Hótel Borg. Ég er viss um að það verður til framdráttar fyrir umhverfið hér í miðborginni.