Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég held óhjákvæmilegt sé að segja hér örfá orð og víkja fyrst að þeim fullyrðingum sem fram hafa komið hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Norðurl. v. að fjvn. hafi illa unnið að þessu máli og komið í veg fyrir þinglega meðferð ( Gripið fram í: Og tekið sér vald.) og tekið sér vald.
    Ég las hér upp úr grg. þessarar þáltill. þar sem fram kom að fjvn. gat alls ekki átt von á því að Reykjavíkurborg tæki sig til og keypti Hótel Borg. Forsetarnir höfðu upplýst að áhugi væri ekki til staðar hjá borginni að kaupa. Það var því alls ekki til þess að skapa einhvern frest fyrir borgina sem á þetta var fallist heldur einfaldlega til að skapa eðlilegan umþóttunartíma til þess að menn gætu þá hugsað sitt mál. Þá hygg ég að staðan hafi verið sú í fjvn. að e.t.v. hafa þrír eða fjórir verið hlynntir því að þetta yrði heimilað en hinir á móti.
    Nú vill það svo til að báðir þeir þingmenn Norðurl. v. sem hér töluðu hafa setið sem formenn í nefndum í vetur. Annar þeirra situr á máli frá fjvn., hefur setið á því alllangan tíma, gefur þá skýringu að annir í annarri deild stöðvi afgreiðslu málsins og telur þó að skaplega sé unnið ef nefndin kemur saman á þriggja vikna fresti. Ég verð að segja eins og er að hætt er við að lítið yrði afgreitt út úr fjvn. ef hún tæki þau vinnubrögð til fyrirmyndar og kæmi saman á þriggja vikna fresti, en þeir sem þar sitja og starfa tækju sig til og mættu fyrst og fremst á nefndarfundum hjá öðrum nefndum þegar menn eru boðaðir til fundar á tveimur stöðum í einu, sem því miður hefur mjög oft orðið.
    Annað er það að hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur verið að ganga frá máli inn til Alþingis sem ætlast er til að sé afgreitt á þessu þingi. Það hefur verið í efri deild alllengi. Nú vill svo til að þar situr um þriðjungur þingmanna. Það er sanngjarnt reikningsdæmi að reikna út hvenær væri þá eðlilegt að Alþingi Íslendinga muni ljúka ef sú deild, hin stærri, fengi jafnan umhugsunartíma um það mál og fyrri deild hefur haft. Og skyldi þá engan undra að þar sem mikill meiri hluti þingmanna situr, eða um 2 / 3 , hefðu menn eitthvað um málið að segja. Að því viðbættu vil ég minna á það að í þeirri nefnd veit ég ekki betur en sé enn þingmál sem samþykkt var í neðri deild í fyrra og fór upp í efri deild og stoppaði þar og er nú enn í nefnd hjá hv. 3. þm. Norðurl. v.
    Þetta er nú staða mála. Það er út af fyrir sig ákaflega eðlilegt að menn séu strekktir í lok þingsins þegar menn hafa þurft að inna af hendi mikla vinnuskyldu en það er ekki rétt eða skynsamlegt að láta reita sig svo til reiði að menn gleymi því að það eru fleiri nefndir í þinginu. Ég sé ekki betur en að margt sé óafgreitt í þeim. Ég ætla þó ekki að bera á formenn þeirra nefnda að þeir vinni illa sín störf.
    Hér er óhjákvæmilegt að víkja örfáum orðum að hv. 4. þm. Austurl. Hann vaknaði af værum blundi í deildinni áðan, hafði lítt fylgst með, situr þó nálægt þessu púlti, og hafði reynt eftir bestu getu að henda

reiður á því hve margir framsóknarmenn hefðu staðið upp og talað. Ekki var talan stór en engu að síður hafði talning mistekist, þrátt fyrir ásetning. Einnig kom í ljós að hann var ekki betur að sér um þann málflutning sem þeir höfðu uppi haft og mátti leiðrétta það allt einnig. Þegar ég hafði ætlað að leiðrétta rangindi hans í þessum efnum tvívegis taldi hann rétt að hefja persónulegt skítkast í minn garð. Það læt ég mér í léttu rúmi liggja en aumt er það þegar menn telja að slíkur vopnaburður bjargi þeim frá því að vera hálfsofandi við störf hér í deildinni.
    Ég held aftur á móti að það hið stóra sem hlýtur að vera umhugsunarefni hér, og fullyrt hefur verið þannig að ég held að því sé ekki á móti mælt, sé að hæstv. borgarstjóri hefur logið að forsetum þingsins. Og e.t.v. bendir margt til þess að hann hafi gert það vísvitandi. Það vil ég þó ekki fullyrða. En hann hefur logið að þeim um sinn ásetning. Hugsanlega munu slæmar tungur halda því fram að það hafi verið til þess að ná samningum um bílastæði við Alþingi Íslendinga. Ef það væri tilfellið er það mjög alvarlegt mál. Samskipti Alþingis og Reykjavíkurborgar hljóta að þurfa að vera með þeim hætti að þeir aðilar sem þar stýra málum, þó þeir séu ekki sammála í stjórnmálum, geti átt heiðarlegar viðræður og heiðarlega upplýsingaöflun. Ég vitna hér aðeins til þess efnislega svars sem hæstv. forseti gaf mér við þeirri fyrirspurn sem ég beindi til hans varðandi efni í greinargerð. Og vænti ég að hv. 8. þm. Reykv. hafi hlýtt á það svar og geri sér grein fyrir hvað það er sem þar kom fram, sem ekki verður skoðað á annan veg en að forseti hafi búið við það að borgarstjórinn hafi logið í ákveðnu máli. ( EKJ: Hverju á borgarstjórinn að hafa logið?) Hverju á borgarstjórinn að hafa logið? Það kemur fram í minnisblaði frá Jóni Tómassyni borgarlögmanni að ekki hafi verið áhugi af hálfu borgarstjórans á því að kaupa Hótel Borg. Þetta veit ég að hv. 8. þm. Reykv. veit þó hann telji nú að það sé hugsanlegt að hann neyðist til að verja rangan málstað.
    Ég tel það hárrétt sem hér hefur komið fram að auðvitað eiga Reykvíkingar að hafa um það meira að segja en aðrir hvernig staðið er að skipulagsmálum
þessarar borgar. Þó er það nú svo að meðan hún er höfuðborg Íslands er ekki óeðlilegt að þjóðin öll hafi þar eitthvað um að segja. Ég tel þess vegna mjög brýnt að fá úr því skorið hvort Alþingi á þess kost með skynsamlegum hætti að halda áfram veru sinni hér í miðbæ Reykjavíkur án þess að farið verði í stórbyggingar, sem mér sýnist að margt bendi til að sé ákaflega hæpið að ráðast í vegna þess skipulags sem hér er og þeirra byggingarframkvæmda sem orðið hafa í Tjörninni. Ég hallast því mjög að því að það sé skynsamlegt að kanna það núna á næstu árum hvort einhver lausn sé á því máli hvar menn gætu orðið sæmilega ásáttir um að hafa Alþingishús með sína starfsemi í framtíðinni.
    Ég vil undirstrika það að ég tel að í ljósi þess að við lifum í samfélagi þar sem stöðugt verður meira og meira tillit að taka til öryggismála, hvort sem

okkur líkar það betur eða verr, hljóti það að ýta á eftir ákvörðun um að þannig verði staðið að málefnum þingsins að ekki sé um hvert húsnæðið vítt og breitt að ræða þar sem komið sé fyrir dyravörðum sem eigi að gæta örfárra þingmanna og þess að þar ryðjist menn ekki inn óboðnir. Ég tel að það hljóti að vera mikill sparnaður í rekstri þingsins ef hægt væri að standa þannig að húsakynnum að útgönguleiðir væru ekki mjög margar úr því húsnæði sem þar er.
    Þetta segi ég hér og nú vegna þess að mér finnst að það sé grundvallaratriði að þingmenn geti æsingarlaust um þetta talað og um þá stöðu sem þessi mál eru í. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekkert við það að athuga að áfram verði rekið hótel þar sem hótel var í miðbænum ef það er einlægur ásetningur manna að gera það og ekkert nema gott um það að segja. En það kallar jafnframt á það að menn verða að endurskoða það í þeirri stöðu sem við erum hvernig skynsamlegt sé að standa að því að byggja upp aðstöðu fyrir þingið án þess að hér þurfi að vera miklu meira starfslið en eðlilegt getur talist ef húsakynni væru vel skipulögð.