Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Mér er ljúft og skylt að upplýsa hv. 2. þm. Reykn. um þann samning sem gerður var í góðri samvinnu við borgaryfirvöld um nýtingu svæðisins hér í kringum Alþingishúsið. Eins og hv. þm. hafa fundið á sjálfum sér á undanförnum árum hefur varla verið manngengt hér á milli húsa og auðvitað hinu háa Alþingi til stórsmánar hvernig þetta svæði hefur litið út. Við töldum okkur skulda Reykvíkingum og umhverfi okkar það að reyna að taka til hér á svæðinu miðað við þær aðstæður sem við búum nú við. Okkur var það ljóst að með tilkomu hins nýja ráðhúss breytist auðvitað allt umhverfi hér og hvað sem okkur ýmsum kunni að þykja um staðsetningu ráðhússins, þá er það nú staðreynd og ber auðvitað að umgangast það síðan sem slíkt. Okkur var alveg ljóst að stórbyggingar á vegum Alþingis færu varla saman við þá miklu byggingu sem þarna er að rísa og okkur var fullkomlega ljóst að hún þyrfti rými svo að hún gæti þá notið sín. Eflaust er þetta hið fegursta hús þegar það verður fullbyggt. Um þetta ræddum við við borgarstjórann í Reykjavík. Síðan höfum við í vetur látið vinna ágæta skipulagsteikningu að þessu svæði sem stóð til að sýna hv. þm. fyrir þinglok. Þar hafa að komið bæði landslagsarkitektar borgarinnar, Gunnar Ingibergsson, húsameistari okkar hér á Alþingi, skrifstofustjóri og fjármálastjóri og ýmsir þeir aðrir sem vit hafa á slíkum málum, einnig Stefán Hermannsson fyrir hönd borgarstjóra. Þessi samningur sem loksins var undirritaður nú sl. mánudag hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, og nú vænti ég að hv. 2. þm. Reykn. vilji hlýða á:
    ,,Forsetar Alþingis annars vegar og borgarstjórinn í Reykjavík fyrir hönd borgarsjóðs hins vegar gera með sér svofelldan samning um bráðabirgðafrágang og afnot af lóðum Alþingis vestan Alþingishússins:
    1. gr. Húsið Tjarnargata 3C verður fjarlægt, en Reykjavíkurborg gefur kost á lóð undir það á horni Túngötu og Garðastrætis. Gatnagerðargjöld og önnur gjöld verða eins og venjulegar reglur segja til um.
    2. gr. Reykjavíkurborg lætur ganga frá grunnum eftir fjarlægð hús, Tjarnargötu 5A og 3C, lætur malbika stæði, gera gangstéttir, gróðursetja og setja upp nýja lýsingu, allt samkvæmt teikningu sem báðir aðilar samþykkja. Miða skal við að heildarfjöldi bílastæða verði 120 og að góð göngutengsl verði milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis yfir lóðina.
    3. gr. Aðilar láta sameiginlega gera yfirlitsuppdrátt og tilnefna hvor sinn fulltrúa til að hafa umsjón með því. Reykjavíkurborg lætur gera séruppdrætti.
    4. gr. Við inn- og útkeyrslu verður settur upp hliðbúnaður og gjaldtökutæki fyrir fastanotendur á vegum Alþingis og skammtímanotendur og fastanotendur sem greiða gjald. Sérstök innkeyrsla frá Kirkjustræti með búnaði verður sett fyrir 16 sérmerkt stæði næst Alþingishúsi. Reykjavíkurborg lætur setja upp þennan búnað og annast rekstur hans og viðhald. Reykjavíkurborg felur bílastæðasjóði fyrir sína hönd daglegan rekstur. Alþingi fær á hverjum tíma afnot af

tilteknum fjölda aðgangskorta, án greiðslu á leigu, en fyrir endurnýjun korta er greitt skilagjald, 1000 kr.
    5. gr. Reykjavíkurborg sér um og kostar hirðu svæðisins og viðhald allt og rekstur, svo sem merkingu akreina og bílastæða og orku vegna lýsingar. Alþingi greiðir fasteignagjöld af lóðinni eins og verið hefur.
    6. gr. Áætlaður stofnkostnaður vegna þessara bráðabirgðabreytinga er 30 millj. kr. Greiðir Alþingi 5,5 millj. kr. en borgarsjóður það sem á vantar.
    7. gr. Reykjavíkurborg lætur setja hitalagnir í gangstíga og bílastæði, eins og sýnt verður á teikningum, og telst lagning þeirra hluti stofnkostnaðar. Við upphitun bílastæða og gangstíga verður notað vatn frá húsum Alþingis eftir því sem við verður komið. Viðbótarhiti fæst með hitaveituvatni og skiptist árlegur rekstrarkostnaður vegna þess milli aðila í hlutfalli við þann fjölda bílastæða sem hvor aðili hefur afnot af.
    8. gr. Vegna tilkostnaðar síns hefur borgarsjóður afnot af lóðinni og tekjur af þeim hluta bílastæða sem leigður er út í a.m.k. 10 ár frá því að stæðið er tekið í notkun. Gert er ráð fyrir að bílastæðasjóður njóti tekna af 67 stæðum, Alþingi nýti allt að 50 stæði og að eigendur Vonarstrætis 10 hafi afnot af 5 stæðum.
    9. gr. Samningur þessi framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn sé honum ekki sagt upp með sex mánaða fyrirvara.

Reykjavík, 23. apríl 1990.

    Forsetar Alþingis fyrir hönd Alþingis, Guðrún Helgadóttir, Jón Helgason, Geir H. Haarde.
    Borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson.``
    Til upplýsingar skal þess einnig getið að á síðari stigum þessara samningsviðræðna féllst Reykjavíkurborg á að hita einnig upp bílastæðin sem við höfum nú. Við lögðum á það mikla áherslu að allt svæðið yrði tekið rækilega í gegn, og þar með lítil svæði kringum þau hús sem nú standa við Vonarstræti, þannig að þarna yrði falleg heildarmynd, þ.e. fallegar hellulagnir, sem sjá má á teikningum, svo og runnagróður til prýði og ljós og
bekkir ef Reykvíkingar vilja hvíla sig og horfa á hið fallega, nýja ráðhús sitt. Ég hygg því að mönnum bregði í brún á hausti komanda þegar þessum aðgerðum er lokið því að þær munu hefjast nú þegar. Munum við auglýsa á allra næstu dögum húsið að Tjarnargötu 3C og erum mjög ánægð yfir því að þetta gamla og sögufræga hús, sem m.a. Indriði Einarsson bjó í á sínum tíma, verður áfram í miðbænum. Það fær mjög góða lóð á horni Garðastrætis og Túngötu og verður því varla sýndur meiri sómi. Við höfum því í stuttu máli átt hið ágætasta samstarf og skilning beggja aðila við Reykjavíkurborg og teljum að Alþingi hafi verulega komið þarna til móts við þarfir Reykjavíkurborgar vegna tilkomu hins nýja ráðhúss.
    Ég ætla ekki að ræða gang mála sem á eftir komu. Ég skil þau ekki, vil ekki skilja þau og þau komu mér að sjálfsögðu á óvart. Einasta niðurstaðan sem ég hef komist að, eftir allar þær samræður og viðræður sem um þessi mál hafa farið fram, er að forseti Sþ. er

ótrúlega bláeygður í samskiptum við annað fólk.