Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vesturl., sagði það sína skoðun að best færi á því að Alþingi hefði aðsetur á Þingvöllum, sínum forna þingstað og að því mundi koma. Ég er honum sammála og hef oftar en einu sinni lýst þessari skoðun. En það er ekki á dagskrá núna og það er ekki tímabært enn þá að ræða um þann möguleika.
    Það er ýmislegt í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag sem er nauðsynlegt að koma inn á. Í raun og veru er þessi umræða í ýmsum efnum harla einkennileg, enda líka þannig til hennar stofnað. Á síðustu dögum þingsins í fyrra kemur fram tillaga um að veita forsetum heimild til þess að festa kaup á Hótel Borg. Af hverju skyldi þetta hafa komið á síðustu dögum þingsins og, mér liggur við að segja, hlaupið í óðagoti til að koma með þessa tillögu? Af hverju? Fyrir þá tilviljun að um þær mundir er Hótel Borg auglýst til sölu. Tillagan hefði ekki komið annars. Það er hlaupið til, nánast af tilviljun, til að gera ráðstafanir sem væru hrein bábylja nema höfð væri í huga framtíðarlausn á húsnæðismálum Alþingis, og ekki gengi í bága við fyrirætlanir, vilja og samþykktir Alþingis um húsnæðismál sín.
    Þessi tillaga hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Hún er svo borin fram fyrir jól í vetur. Og hvað sem líður vinnubrögðum í hv. fjvn. ber svo við að þegar hún kemur hér til umræðu er enn þá Hótel Borg á dagskrá og nú er búið að selja Hótel Borg. Ekki er nú hægt að missa af glæpnum og umræðan skal vera eftir sem áður. Ég er ekki sammála meiri hl. fjvn. Ég vil ekkert umboð til handa forsetum til þess að kaupa nýtt hús, hvorki Hótel Borg né annað. Ég er sammála till. minni hl. fjvn. Hún er meinlaus, gerir ekkert til, enda sagði hv. frsm. minni hl. að í till. fælist ekkert sem forsetar hefðu ekki umboð til þess að gera án þess að till. væri samþykkt.
    Ég ætla ekki að ræða meira um þessa till. En það er fullkomin ástæða til að ræða um húsnæðismál Alþingis almennt. Og það hefur líka verið kallað eftir því af ýmsum ræðumönnum að það væri gert, menn segðu hreint og afdráttarlaust hver væri skoðun þingmanna í því efni. Ég vil að sjálfsögðu ekki skorast undan þessu. Það væri hægt í fáum orðum að rekja sögu húsnæðismála Alþingis frá upphafi. Það væri hægt með fáum orðum af því að það hefur svo lítið skeð, þó gefið hafi verið timbur um 1020 í kirkju á Þingvöllum, svokallaða þingmannakirkju, og þó að byggt hafi verið Lögréttuhús á átjándu öld, sem var orðið ónýtt um aldamótin 1800 þegar Alþingi flutti til Reykjavíkur.
    Það mætti líka rekja í fáum orðum söguna um byggingu þessa húss þar sem við nú stöndum. Það er lærdómsríkt fyrir okkur í dag að lesa þá sögu, hvernig voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að eyðileggja þessa framkvæmd. Og það er sláandi hvað rökin voru þá svipuð því sem við nú heyrum þegar menn, undir hvers konar yfirskini, eru að draga úr viðleitni þingsins til þess að búa sómasamlega að sínum eigin

húsnæðismálum. En ég ætla ekki að gera þetta. Og ég ætla ekki heldur að fara að lýsa ástandi þingsins með tilliti til húsakosts hér. Við vitum það allir þingmenn álíka vel.
    Það var ekki að ófyrirsynju, og það legg ég áherslu á, að Alþingi samþykkti árið 1981 ályktun sem varðar húsakost þingsins. Það var gert í tilefni af 100 ára afmæli Alþingishússins. Hún var bæði viðeigandi og tímabær þingsályktunin frá 1981. Þá lá málið þannig fyrir að til þess að mæta vanda Alþingis var um tvo kosti að velja. Annars vegar var um að ræða að reisa nýtt Alþingishús, hins vegar að efna til framkvæmda sem gerðu mögulegt að nota núverandi Alþingishús til frambúðar, eins og það var orðað. Hvaða kostur var valinn, að nota núverandi Alþingishús til frambúðar eða byggja nýtt Alþingishús? Það vitum við allir hv. þingmenn. Það var valinn sá kostur að nota Alþingishúsið sem nú er til frambúðar en gera það mögulegt með því að efna til byggingarframkvæmda.
    Í þáltill. frá 1981 var mælt svo fyrir að efnt skyldi til samkeppni um gerð og skipulag nýbyggingar fyrir starfsemi þingsins. Skyldi samkeppni við það miðuð að heimkynni Alþingis verði áfram í núverandi þinghúsi svo og byggingum í næsta nágrenni þess. Þannig var þetta orðað. Snemma árs 1985 var hafinn undirbúningur að því að koma fram vilja Alþingis í málinu. Fengin var aðstoð Arkitektafélags Íslands við framkvæmd á samkeppni nýbyggingarinnar og dómnefnd var skipuð sjö mönnum. Dómnefndin vann að undirbúningi og gerð keppnislýsingar í samráði --- já, í samráði við hverja haldið þið? Í beinu samráði við þingflokkana. Þannig voru drög að keppnislýsingu, útboðsskýringum og verkefnalýsingu send þingflokkunum til umsagnar þar sem skýrt var frá öllu fyrirkomulagi og kröfum sem dómnefndin hugðist gera í samræmi við lausn verkefnisins. Auk þess höfðu þáv. forsetar þingsins fundi með formönnum þingflokkanna til kynningar og skýringa eftir því sem gerð keppnislýsingar miðaði áfram. Fékk dómnefndin ýmsar ábendingar frá þingflokkunum vegna þess að þetta samráð var haft.
    Annar hluti þessarar nýbyggingar var ætlaður til aðstöðu fyrir þingnefndir, þingflokka, skrifstofu Alþingis, bókasafn, skjalasafn og mötuneyti. Einnig var
gert ráð fyrir sérhönnuðu húsrými fyrir ræðuritun, tölvuvinnslu og sjónvarpsupptöku. Enn fremur var ætluð aðstaða fyrir útgáfu Alþingistíðinda og dreifingu þeirra og afgreiðslu til almennings. Þá var einnig um að ræða húsrými fyrir húsvörslu, heilsurækt, póstafgreiðslu o.s.frv. Hinn hluti byggingarinnar var ætlaður fyrir skrifstofur þingmanna ásamt tilheyrandi forrýmum og fundaherbergjum.
    Með tilliti til fyrirhugaðra nota var nýbyggingunni ætlað að vera sem næst Alþingishúsinu. Það var forsenda fyrir öllum þessum hugmyndum að nýbyggingin yrði sem næst Alþingishúsinu. Þó var lögð áhersla á að nálægð húsanna yrði ekki til lýta fyrir útlit Alþingishússins svo að stíll þess nyti sín eftir sem áður. Þess vegna var gert ráð fyrir því að

nýbyggingin væri tengd Alþingishúsinu með neðanjarðargöngum. Þá þurfti að gæta þess við staðsetningu nýbyggingarinnar að möguleikar yrðu fyrir hendi ef rétt þætti í framtíðinni að reisa nýtt Alþingishús á lóðaspildum þeim sem Alþingi hefur yfir af ráða á svæði því sem markast af Templarasundi, Kirkjustræti, Tjarnargötu og Vonarstræti. Af þessum ástæðum var gert ráð fyrir því að nýbyggingin yrði látin standa annars vegar við Kirkjustræti vestanvert við Alþingishúsið og hins vegar við Tjarnargötu.
    Þegar nýbyggingin yrði tengd við Alþingishúsið var að því stefnt að gerðar yrðu nokkrar breytingar á innra fyrirkomulagi þinghússins. Hugmyndin var að herbergjaskipan og frágangur innan húss yrði færður sem næst upprunalegri
gerð. Sömuleiðis var unnið að breytingum á innanstokksmunum þingsalanna beggja svo að rými þar mætti verða til frambúðar. Það er óþarft að taka það fram að þeirri fyrirætlan var fljótt komið í framkvæmd svo sem búið hefur verið við nú í þrjú ár.
    Samkeppnin um nýbyggingu Alþingis var auglýst í febrúar 1986 og skilafrestur var í júní. En þegar í desember 1985 hafði Alþingi gefið út fréttatilkynningu þar sem vakin var athygli arkitekta á hinni væntanlegu samkeppni. Þessi samkeppni fór fram eftir samkeppnireglum Arkitektafélags Íslands. Rétt til þátttöku höfðu allir félagsmenn Arkitektafélags Íslands og þeir aðrir sem hafa leyfi til að leggja aðalteikningar fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur. Í þessari samkeppni bárust 25 tillögur. Það var álit dómnefndar að tillögurnar sem komið höfðu í þessa samkeppni væru almennt í mjög háum gæðaflokki. Höfundarnir lögðu sig fram um verk sitt og framsetning þeirra almennt var sérstaklega góð og skýr. Með tilliti til þess að um var að ræða byggingu í kjarna miðborgarinnar og í nágrenni friðaðra bygginga lagði dómnefndin megináherslu á aðlögun að umhverfinu og tengsl við Alþingishúsið með tilliti til sveigjanleika og hagkvæmnissjónarmiða. Þá hafði dómnefndin í huga að nýbyggingunni hæfði látlaus virðuleiki hið ytra og innra þar sem þar færi fram starfsemi sem ætti heima í þinghúsinu sjálfu, ef rými hefði leyft.
    Ég hef viljað gefa lýsingu á því sem ég hef hér tilgreint svo ekki færi milli mála hvað þarna var um að ræða. En ég vil svo aðeins taka fram til viðbótar að eftir ítarlega meðferð og athugun á tillögunum samþykkti dómnefndin einróma að veita þrenn verðlaun, 1., 2. og 3. verðlaun. Auk þess samþykkti dómnefndin einróma kaup á fimm tillögum. Fyrstu verðlaun hlaut ungur arkitekt, Sigurður Einarsson. Í umsögn dómnefndar um tillögu hans sagði m.a.:
    ,,Byggingin fellur vel að Alþingishúsinu og húsalínu Kirkjustrætis. Glerturninn sem varðar innganginn styður virðuleik Alþingishússins á áþekkan hátt og turn Dómkirkjunnar. Aðkoma að húsinu er í samræmi við þau markmið sem höfundur gefur sér og inngangur er einkar vel gerður. Yfirsýn innan húss er mjög góð, svo og staðsetning hinna ýmsu deilda.``

    Lok samkeppninnar og afhending verðlauna var síðsumars 1986. Eftir að Alþingi kom saman haustið 1986 var hafist handa að kynna þingmönnum nánar teikninguna er hlaut fyrstu verðlaun. Málið var rætt á sameiginlegum fundum forseta þingsins og formanna þingflokkanna. Þá var tillagan útskýrð og farið yfir teikninguna á sérfundum með þingmönnum hvers þingflokks. Það var gert af arkitektum þeim sem sæti höfðu átt í dómnefndinni.
    Í framhaldi af þessari meðferð málsins komu forsetar þingsins þá og formenn þingflokkanna sér saman um að leggja fram brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 1987. Samkvæmt tillögunni var gert ráð fyrir 12 millj. kr. vegna hönnunarkostnaðar á næsta ári. Sú grein var gerð fyrir þeirri tillögu að þessi upphæð væri um helmingur þess sem áætlaður heildarkostnaður vegna hönnunar nýbyggingar mundi nema, sú útfærsla teikningarinnar sem var talin nauðsynleg til skýringar svo að hægt væri að leggja málið fyrir Alþingi til ákvörðunar. Það var mat manna að nánari útlistun og aðlögun þyrfti að teikningunni eins og hún kom af borði verðlaunahafa áður en málið yrði lagt fyrir Alþingi til ákvörðunar, ekki um hvort hafin skyldi bygging þegar í stað heldur um það hvort fullkomin hönnun á þessari teikningu ætti að fara fram. Þessi brtt. á fjárlögum var samþykkt og hliðstæð tillaga var samþykkt fyrir árið 1988. Og þá var litið svo á, haustið 1988, að þetta verk væri komið það langt og komið í það horf sem gert var ráð fyrir til þess að hægt væri að leggja málið til ákvörðunar fyrir Alþingi, hvort ætti að fullhanna þetta hús.
    Á þessum tímamótum eða um það leyti sem Alþingi kom saman 1988 var dreift áfangaskýrslu nýbyggingar Alþingishússins, sem ég held hér á, til allra þingmanna. Þar er útfærð teikning verðlaunahafans, ýmsu breytt og skýringar gefnar. Á sama tíma var líka tilbúið líkan af þessari byggingu og það var gert til sýningar fyrir hv. alþm. til að þeir gætu gert sér sem gleggsta grein fyrir því hvað hér væri um að ræða og það átti að gerast í byrjun þings 1988. Og í byrjun þings eða nokkrum dögum áður var líkanið komið í þetta hús og beið þess að vera sett til sýningar. Hafa menn séð þetta líkan?
    Það var breyting á forsetadæminu í þinginu í byrjun þessa þings og hæstv. forseti Sþ., sem á að hafa forustu í þessu efni, hefur ekki séð ástæðu til að sýna þetta líkan. Það hefur verið kallað eftir því, m.a. úr þessum ræðustól, en hæstv. forseti Sþ. segir ekkert. Ég ætla ekki með orðum að fordæma þetta framferði. Menn geta hver og einn dæmt um það sjálfir hvort þetta séu eðlileg vinnubrögð. En hver er ástæðan fyrir því að þessum vinnubrögðum er beitt? Hver er ástæðan fyrir því að forsetar leggja ekki fram til ákvörðunar Alþingis samkeppnistillögu sem fékk verðlaun með útfærslum öllum sem búið var að gera samkvæmt áfangaskýrslunni frá haustinu 1988? Hvers vegna hefur það ekki verið gert? Forsetar verða að svara fyrir þetta. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.
    Framferði forseta, og sérstaklega forseta Sþ., eftir

að hér er komið málum er þess eðlis að ekki verður hjá því komist að víkja að því máli. Vegna hvers verður ekki hjá því komist? Það er vegna þess að málið hefur ekki verið lagt fyrir, nýbyggingarmálið, í því formi sem gert var ráð fyrir og búið var að undirbúa og það er vegna hegðunar hæstv. forseta frá því að þetta skeði. Og í hverju skyldi nú sú hegðun vera fólgin? Hæstv. forseti hefur við hvert tækifæri lýst því yfir að byggingarmál sem um var rætt og samkeppni fór fram um og undirbúin var til ákvarðanatöku á Alþingi, væri búið mál eða a.m.k. í biðstöðu til mjög langs tíma. Hvað kemur hæstv. forseta til þess að segja þetta? Það er von að spurt sé. Hæstv. forseti hefur svarað þessu og hefur ítrekað við hvert mögulegt tækifæri sem hann hefur fundið til þess að drepa á dreif byggingarmálum Alþingis, láta ekki taka afstöðu til þeirra. Forsendan er sú að ekki sé möguleiki og brostin forsenda fyrir öllum þessum hugmyndum, fyrir þáltill. frá 1981, fyrir útboðinu 1986, fyrir vinnunni sem unnin var 1986, 1987 og 1988 vegna þess að ráðhúsið væri að koma við Reykjavíkurtjörn.
    Þegar samþykktin var gerð 1981, þegar samkeppnisútboðið var gert 1986 og öll vinna við þetta, áður en allt þetta kom til, lá fyrir að ráðhúsið kæmi þar sem það er. Samkvæmt skipulagi Reykjavíkur og deiliskipulagi frá 1967 var gert ráð fyrir ráðhúsi við Tjörnina. Það var þá að vísu fyrir miðju Vonarstræti, á lakari stað frá sjónarmiði Alþingis en það er staðsett nú. Það var búið að staðsetja ráðhúsið þar sem það er þegar farið var að vinna að nýbyggingarmálinu, það var búið. ( Forseti: Má ég spyrja hv. 4. þm. Vestf. hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni vegna þess að nú munu þingflokksformenn gerast óþolinmóðir að fá sitt fólk til funda. Hugmyndin er að fresta fundi til kl. 6.30, en þá er raunar gert ráð fyrir að fundir hefjist í deildum, þ.e. í Ed. en fundi í Nd. yrði frestað þangað til eftir kvöldmat, þannig að menn viti hvernig hugmyndin er að halda áfram hér í kvöld. Ég vildi þess vegna spyrja hv. þm. hvort hann geti lokið ræðu sinni nú á mjög skömmum tíma eða hvort hann vill fresta henni.) Ég vildi, hæstv. forseti, gera tilraun til þess að ljúka ræðunni á mjög skömmum tíma. ( Forseti: Þá er það leyft.)
    Ég var að tala um þá kenningu, að ráðhúsið hefði komið í veg fyrir þetta. Ég var að segja að hæstv. forseti hefði sagt þetta í tíma og ótíma. Það hefur gengið á síbylja þessara ósanninda allan tímann meðan hefur verið leitast við að eyðileggja raunhæfar aðgerðir, eða a.m.k. ákvörðun Alþingis um það, í byggingarmálunum.
    Ég tek hérna af handahófi. Það er 15. okt. 1988 --- er það ekki tveim eða þrem dögum eftir að hæstv. forseti er kjörinn forseti? --- þá hleypur hæstv. forseti fram á völlinn og segir að ráðhúsið breyti öllu, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ráðhúsið breytir auðvitað öllu í sambandi við byggingu alþingishúss. Það er t.d. engin leið að gera sér grein fyrir hvernig umferðin verður í kringum húsið eða næsta nágrenni,

því veit enginn hvort pláss verður fyrir stækkun alþingishússins. Þegar hún var áformuð var ekki farið að ræða um ráðhúsið.`` Hvar er þetta? Í Dagblaðinu 15. okt. 1988. Þá segir hæstv. forseti í öðru blaði: ,,Ég held að það mál sé í mikilli biðstöðu.`` Þ.e. byggingarmálið. ,,Þegar farið var að tala um þinghús hér á reitnum vissu menn ekki að við hliðina á því yrði ráðhús Reykjavíkurborgar.`` Hvar er þetta sagt? Þetta er sagt í Nýju helgarblaði 9. des. 1988. Það er af nógu að taka. Ég skal taka aðeins eina tilvitnun í viðbót. Hún er svohljóðandi: ,,Þegar þingið fór smám saman að nálgast að verða nútímaþjóðþing þá kviknar hugmynd um að byggja þarna á svæðinu og undirbúningur hefst. Síðan er byrjað að byggja ráðhús Reykjavíkur á nánast sama stað. Það gjörbreytir allri stöðu málsins.`` Hvar er þetta sagt? Þetta er sagt 27. jan. 1989 í Nýju helgarblaði. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta.
    Það er ábyrgðarlaust af forsetum Alþingis, og þá tilnefni ég sérstaklega forseta sameinaðs Alþingis, að halda svo á málum að öllu starfi sem hafði verið unnið frá 1981 þegar þingsályktun Alþingis var samþykkt um húsakost Alþingis sé kastað á dreif og reynt að stinga því undir stól með þeim hætti sem ég hef hér greint frá. En það er hálfu verra að segja ósannindi um þessi mál eins og hæstv. forseti sameinaðs þings er staðinn að. Því það er ekkert annað en
ósannindi það sem hæstv. forseti segir um áhrif ráðhússins. Ráðhúsið var komið til áður, eins og ég áður sagði, en nokkuð var farið að útfæra og bjóða út samkeppnisgögnin 1986. Og allt sem gert var í þessu efni var gert í fullkomnu samráði við borgarstjóra. Það var gengið þannig frá þeim málum að forstöðumaður borgarskipulagsins í Reykjavík var einn af þeim sem voru í dómnefndinni. Það var engin tilviljun. Það var gert af hálfu okkar forseta til þess að það gæti enginn ágreiningur eða árekstrar komið á milli Alþingis og Reykjavíkurborgar. Og auðvitað átti það ekki að koma og þarf ekki að koma ef haldið er með réttum hætti á málum Alþingis.