Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég sé að hvorki forseti neðri deildar eða formaður þingflokks framsóknarmanna eru hér til þess að hlýða á mál manna, en hv. forseti neðri deildar kom með ákveðnar spurningar til þingmanna sem hann krafðist að fá svör við. Það eru nú venjulegir mannasiðir að menn, þegar þeir krefja aðra um svör, séu þá til taks til að taka við svörum. Það hefur alltaf legið fyrir hver mín afstaða hefur verið í þessu máli eftir að ákveðið var að byggja ráðhúsið hér í Tjörninni. Það liggur fyrir að ég taldi, og tel enn, að það hafi verið illa haldið á málum Alþingis í sambandi við það mál og að það er ósannað mál hvort, og allar líkur fyrir því, að Alþingi hafi átt hluta af þeirri lóð sem ráðhúsið stendur á. Eftir að ákveðið var að byggja þetta ráðhús þá varð mér það ljóst að til frambúðar gat Alþingi ekki verið á þessum stað. Og ef Alþingi hefur sett niður á annað borð út af þessu máli þá var það þá en ekki nú.
    Hins vegar skil ég ekkert í þeim samningi sem virðulegur forseti sameinaðs þings las upp áðan. Þar sem það er sýnilegt að enn þá er borgarstjórinn í Reykjavík að þrengja að Alþingi. Svo ekki rýmkast nú um plássið við þann samning.
    Ég lofaði virðulegum forseta að vera stuttorður og ætla að láta það duga. En ég kann því mjög illa að menn séu að leggja fyrirspurnir fyrir þingmenn, en hlaupa síðan út.