Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal stytta mál mitt, en mér þykir rétt að víkja aðeins að því sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði. Hann lét að því liggja að hagsmuna Alþingis hafi ekki verið nógu vel gætt á undanförnum árum með tilliti til tilkomu ráðhússins hér í grenndinni. Þetta er mál sem hv. þm. hefur áður hreyft á þessu þingi og líka á síðasta þingi og ég var til andsvara í bæði skiptin eða í öll skiptin sem hann hefur nefnt þetta. Ég vil taka það fram hér að þessar hugmyndir hv. þm. eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Ég hygg að rétt sé að það eina sem fram hefur komið til borgaryfirvalda til að vara við áhrifum af byggingu stórhýsa hér í grennd við Alþingi hafi einmitt verið í tíð fyrrv. forseta á þessum tíma en ekki áður. Og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að vísa í bréf sem forsetar Alþingis skrifuðu 24. mars 1988 til borgaryfirvalda varðandi þetta mál. Þar segir m.a.:
    ,,Alþingishúsið er nú of lítið fyrir Alþingi. Úr þessu er nú bætt með því að koma starfsemi þingsins fyrir í sex húsum auk Alþingishússins. Eru hús þessi bæði ófullnægjandi og óhentug. Jafnframt er búið við þrengsli í sjálfu Alþingishúsinu. Gert er ráð fyrir að núverandi Alþingishús verði notað til frambúðar, en til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að byggja hús í nálægð Alþingishússins fyrir þá starfsemi sem rúmast ekki þar. Þeim húsum er ætlaður staður á landspildunni sem Alþingi hefur til umráða, annars vegar milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis og hins vegar milli Templarasunds og Tjarnargötu.
    Alþingi leggur áherslu á að tekið verði fullt tillit til þarfa þess við ráðstöfun byggingarlóða í næsta nágrenni Alþingishússins.``
    Ég held að ekki þurfi að fjölyrða frekar um þetta.
    Ég átti von á að hæstv. forseti svaraði eða tjáði sig um þau atriði sem ég gerði einkum að umtalsefni og voru sérstök ádeila á störf hennar sem forseta
varðandi byggingarmál Alþingis. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það sem ég hef áður sagt um þetta efni. En með því að hæstv. forseti tjáir sig ekki um þetta lít ég svo á að þögn sé sama og samþykki um meginatriði þess sem ég hélt fram.