Gjald af erlendum lánum vegna skipasmíða
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Mig langar með örfáum orðum að tjá hug minn til þessa frv. Ég efast ekki um að hv. flm. gangi gott eitt til með flutningi frv. en hér er kannski ekki um einfalt mál að ræða t.d. vegna þess að með samþykkt þess værum við hugsanlega að mismuna starfsgreinum þar sem um er að ræða aðrar starfsgreinar sem teldu sig eflaust hafa sama rétt og þessi til endurgreiðslu á lántökugjaldi.
    Ég tel aðalatriðið í þessu máli að ríkisstjórnin grípi til aðgerða til eflingar skipasmíðaiðnaði þó að þær verði ekki nákvæmlega það sem um getur í frv. Ég vil nefna það í þessu sambandi, eins og hv. flm. nefndi reyndar áðan, að í Slippstöðinni á Akureyri er skip sem ekki hefur selst. Það kostar Slippstöðina hvorki meira né minna en um 5 millj. á mánuði að sitja uppi með þetta skip óselt og þar af eru um 3 millj. eingöngu vaxtakostnaður. Og þó að ég geti kannski ekki ætlast til þess að ríkisstjórnin selji skipið þá hlýtur hún að geta komið Slippstöðinni til hjálpar í þessu erfiða máli á annan hátt.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því t.d. hvað líði að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt en þar á Slippstöðin á Akureyri inni hærri upphæð en nemur þessu lántökugjaldi, kannski tvisvar sinnum hærri. Það munu vera um 8--10 millj.
    Þá vil ég nefna að nú nýlega hefur verið gerður samningur um smíði á 37 m skipi við útgerðaraðila í Vestmannaeyjum, sem heitir Óskar Matthíasson og er virtur útgerðarmaður, þannig að verkefnastaðan er kannski ekki svo afleit nú á næstu mánuðum og á næsta vetri ef það mál gengur upp sem ég trúi ekki annað en að muni gera. Fiskveiðasjóður hefur reynst nokkuð erfiður varðandi nýsmíðina en ég skal ekki trúa því fyrr en ég tek á því að hann samþykki ekki lánafyrirgreiðslu vegna þessa samnings.
    Í sambandi við það vil ég nefna, og það snýr kannski meira að iðnrh., að nefnd hefur verið að störfum vegna erfiðleika í skipasmíðaiðnaði sem tengist Appledore-skýrslu svokallaðri. Hún hefur ýmsar tillögur fram að færa til bóta í þessari starfsgrein og manni dettur í hug hvort ekki væri hugsanlegt að ríkissjóður styrkti smíðar á þessu skipi þar sem um það yrði að ræða að ákveðnar hugmyndir yrðu innfærðar á það verk.
    Ég ætla ekki að hafa lengra mál að sinni. Ég mun hlýða með athygli á svör hæstv. fjmrh. og hvort hann er með á takteinum einhverjar aðgerðir til hjálpar skipasmíðaiðnaðinum sem kannski yrðu honum ekki síður að gagni en samþykkt frv. sem hér um ræðir. Fer það eftir hans máli hvort ég styð álit meiri hl. eða minni hl.