Öryggi á vinnustöðum
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þetta mál var til umræðu á laugardaginn var. Þá kom upp umræða um atriði í þessum brtt. sem tilgreindar eru í frv. við lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og þá sérstaklega hvað varðar skilgreininguna í 1. gr., þ.e. að ungmenni í lögum þessum skuli merkja unglinga á aldursskeiðinu 16--18 ára. Vegna þeirrar umræðu sem þar kom upp og vegna þess að það er í raun skilningur flm. að fyrst og fremst sé um unglinga á aldrinum 16 og 17 ára að ræða, eins og kemur reyndar fram í lögunum í öðrum greinum, þá hafa flm. fallist á að gera eftirfarandi breytingar á 1. gr. Síðari efnismgr. orðist svo:
    ,,Ungmenni merkja í lögum þessum unglinga 16 og 17 ára.``
    Í öðru lagi er brtt. við 3. gr. frv. Í stað orðsins ,,ungmenni`` í síðari mgr. greinarinnar komi: unglingar 16 og 17 ára.
    Með þessum hætti er engu breytt um það sem tekur til unglinga í þessu frv. Lögin munu því áfram vera eins og nú er hvað varðar þann aldurshóp. Hins vegar er breytingin áfram í skilgreiningunni á börnum, þ.e. að barn merki í lögum þessum einstakling innan 16 ára aldurs. Nær þá frv. tilgangi sínum, ef það nær fram að ganga á þennan hátt, að vernda fyrst og fremst þau börn sem yngri eru gegn óhóflegri vinnu og sérstaklega hættulegum aðstæðum og hættulegum vélum. Ég vona að þetta komi til móts við þær athugasemdir sem hér komu fram þegar frv. var síðast rætt.