Öryggi á vinnustöðum
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Frsm. félmn. (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Af því að ég var upphafsmaður að því að ræða þetta atriði sem hv. flm. hefur nú gert brtt. við á þeim fundi þegar við ræddum þetta síðast, þá vil ég taka það fram að ég tel þetta ásættanlega niðurstöðu eins og hv. þm. leggur þetta fram núna. Við í hv. félmn. höfum rætt þetta og erum sammála um að mæla með samþykktinni á þessa leið. Þá er þetta óbreytt frá gildandi lögum hvað varðar unglinga en aldursmark barna er hækkað upp að 16 ára aldri. 2. gr. frv. er náttúrlega mjög góð grein og ég hef engar athugasemdir við hana.
    Þó svo að ég samþykki þetta þá tel ég nauðsynlegt að menn skoði það í haust eða síðar hvort ástæða er til að breyta þessu með vinnutíma unglinga. Eins og ég sagði hér í ræðu minni síðast þá tel ég það svona á mörkum að binda vinnutíma unglinga 16 og 17 ára við þessa tíu tíma. En það er síðari tíma mál og ég samþykki fyrir mitt leyti og þakka flm. fyrir að hafa flutt þessa brtt. sem gerir málið ásættanlegra núna, að ekki sé verið að taka 18 ára aldurinn inn til viðbótar.