Yfirstjórn umhverfismála
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Óþarft er að rekja þá miklu umræðu sem orðið hefur hér í þessari hv. deild um umhverfismálin. Ég minni þó á að þau voru lögð fram sem tvö mál, þ.e. annað fjallaði um stofnun umhverfisráðuneytis og hitt málið fjallaði um verkefni þess ráðuneytis.
    Einna harðastar þóttu mér deilurnar um það hvort stofna ætti umhverfisráðuneyti. Það mál hefur nú verið afgreitt og er umhverfisráðuneyti staðreynd. Ég vænti þess að menn sætti sig við þá ákvörðun hvort sem þeir hafa áður verið henni andsnúnir eða ekki.
    Verkefni umhverfisráðuneytisins verða að sjálfsögðu mörg og mikil. Ég vek athygli á því að mjög glöggt hefur komið fram í allri umræðu um umhverfismál hér á landi upp á síðkastið að sannarlega er þörf á að taka markvisst á þeim málum. Ég vek athygli á t.d. mengun sem er í fjörum þessa lands og hefur
nýlega verið umræðuefni í fjölmiðlum og ég vek athygli á því átaki sem gert er til að græða upp landið þar sem greinilega hefur komið fram hve mjög það hefur spillst á undanförnum árum. Fleira gæti ég þannig að sjálfsögðu rakið sem ég veit að hv. þm. eru allir sammála um að afar brýnt sé að lagfæra. Þar sem umhverfisráðuneyti er staðreynd vona ég að allir hv. þm. séu sammála um að búa þurfi það ráðuneyti vel úr garði til þess að það geti sinnt þessum mikilvægu verkefnum. Ég hef þegar falið því nokkur mikilvæg verkefni með reglugerð, m.a. samræmingu á þeim málum sem falla undir mörg ráðuneyti. Engu að síður eru enn mörg verkefni sem ekki eru færð til þess sem tvímælalaust verður að gerast.
    Í því frv. sem hér er til umræðu er einmitt um það fjallað, þ.e. þau verkefni sem eiga að færast til umhverfisráðuneytis. Mér er það mikið kappsmál að um þróun og uppbyggingu umhverfisráðuneytis geti orðið sem mestur friður, nú þegar stofnun þess er orðin að veruleika. Ég gekk í það nokkru fyrir páskahlé að athuga hvort samkomulag gæti orðið um að fresta gildistöku nokkurra greina í þessu frv. á meðan skipulag viðkomandi mála væri betur athugað og taldi líkur á að um það gæti orðið samkomulag. Svo varð þó ekki að lokum, því miður. Ég hef ákveðið að láta á það reyna þegar menn skoða þessi mál betur hvort sá grundvöllur sem þá var um rætt gæti orðið að samkomulagi um afgreiðslu frv. Ég hef því lagt fram brtt. á þskj. 1065 þar sem raktar eru þær tillögur sem fyrst og fremst var rætt um í því sambandi. Ætla ég að hlaupa hratt yfir þessi ákvæði.
    Í þessum brtt. geri ég ráð fyrir því að 8.--14. gr. frv. taki ekki gildi fyrr en lokið er endurskoðun á starfsemi þeirra stofnana og þeim lögum sem um þær stofnanir fjalla sem um er getið í þessum greinum. Þarna er fyrst og fremst um að ræða heilbr.- og trmrn., þ.e. Hollustuverndina. Þar er um að ræða Siglingamálastofnun, þ.e. mengun sjávar, og þar er um að ræða Geislavarnir og eiturefnanefnd. Í 2. lið, sem er ákvæði til bráðabirgða, er síðan gert ráð fyrir að umhverfisráðherra leggi fram á haustþingi frv. til laga

um umhverfisvernd og umhverfisverndarstofnun. Í því frv. verði ákveðið skipulag mengunar- og geislavarna á landi, í lofti og sjó. Síðan segir í 2. brtt.: ,,Umhverfisráðherra skal þó við gildistöku þessara laga hafa með höndum yfirstjórn og samræmingu hvers konar mengunarvarna og getur ákveðið aðgerðir í því sambandi.`` Umhverfisráðherra hefur þegar skipað þessa nefnd til að fjalla um umhverfisvernd og umhverfisverndarstofnun og gerir ráð fyrir því að frv. um þá stofnun verði tilbúið á haustmánuðum.
    Með tilliti til þess að þessi mál eru á æðimörgum höndum er að mínu mati óhjákvæmilegt að umhverfisráðherra fái strax það verkefni að sjá um yfirstjórn og samræmingu þessara mála. Ég þarf vitanlega ekki að nefna mörg dæmi um það. Menn vita að þegar um þessi mál er að ræða, þá koma margir að þeim, ekki bara Hollustuvernd heldur Öryggiseftirlit og fjölmargir fleiri aðilar.
    Í 2. lið ákvæðis til bráðabirgða er tekið fram, til að taka af allan vafa, að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins skulu, þrátt fyrir ákvæði 1. gr. frv., eins og það var samþykkt við 2. umr., starfa óbreytt þar til lög um þær stofnanir hafa verið endurskoðuð. Segja má að þetta sé óþarfi, en ég vildi bara taka af öll tvímæli því um þetta hefur verið nokkur misskilningur. Ég taldi að ekki mundi saka að taka þetta fram, þó að samkvæmt 1. gr. starfi umhverfisráðuneytið einnig að eftirliti og aðgerðum til verndar gróðri. Hygg ég að enginn hafi út af fyrir sig neitt við það að athuga.
    Í 3. lið ákvæðis til bráðabirgða geri ég ráð fyrir því, og er reyndar skylda lögð á forsrh., að leggja fyrir Alþingi frv. til laga sem feli í sér endurskoðun á þeim lögum sem upp eru talin þarna á eftir. Þar verða jafnframt ákveðin nánar einstök verkefni og stofnanir umhverfisráðuneytis sem eftirtalin lög fjalla um. Þau lög eru um þær stofnanir sem í nýrri 21. gr., sem ég las í upphafi lýsingar minnar á þessum brtt., er gert ráð fyrir að taki ekki gildi fyrr en slík endurskoðun hefur farið fram. Það eru í fyrsta lagi lög um Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins, lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lög um eiturefni og hættuleg efni og lög um Geislavarnir ríkisins. Þá eru það einnig lög um Siglingamálastofnun ríkisins, lög um varnir
gegn mengun sjávar, lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd alþjóðasamning gegn mengun sjávar af völdum olíu og lög um bann við losun hættulegra efna í sjó, sem einnig varða Siglingamálastofnun.
    Ég skal hafa stutt mál um þetta. Ég þarf ekki að bæta við þau mörgu orð sem hafa fallið um þetta mál en vil þó leggja á það áherslu að hér er leitað eftir samkomulagi. Hér er að mínu mati gengið mjög til móts við marga sem hafa talið ákvæði þessa frv., sem fjalla um þau atriði sem í brtt. er gert ráð fyrir að fresta, vera mörg ekki nægilega ljós eða nægilega unnin. Ég vek t.d. athygli á deilum um Hollustuverndina. Um hana eru reyndar skiptar skoðanir. Á hún að falla í heilu lagi undir

umhverfisráðuneytið eða aðeins mengunardeild hennar? Skoðanir eru skiptar um þetta innan flokka og milli flokka og ég hef með þessu fallist á fyrir mitt leyti að Hollustuverndin verði áfram óskipt innan heilbrrn. þar til lög um hana hafa verið endurskoðuð og þar til fyrir liggja tillögur umhverfisráðherra um hvernig mengunarmálum verður hagað í svokallaðri umhverfisverndarstofnun, sem hefur hlotið það heiti í þessum brtt. Einnig mundu innan þeirrar stofnunar verða verkefni sem varða mengun sjávar, eiturefni o.fl. Að því verki öllu loknu, þ.e. þegar liggur fyrir tillaga um umhverfisverndarstofnun og endurskoðun á þessum lögum, ætti ekki lengur að vera nokkrum vafa undirorpið að þau mál eru fullkomlega unnin.
    Ég hef í dag fengið bréf frá forstöðumönnum ýmissa stofnana þar sem lagt er til að því frv. sem hér er til umræðu verði frestað. Ég vek athygli á því að með því sem ég legg hér fram er reyndar gengið verulega til móts við margar þessar stofnanir eins og Hollustuvernd ríkisins, eiturefnanefnd, Siglingamálastofnun, Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins, Geislavarnir ríkisins, svo að segja má að gert sé ráð fyrir því að fresta að meiri hluti þeirra stofnana falli undir umhverfisráðuneytið. Hins vegar vek ég athygli á því að forstöðumenn stofnana eins og t.d. Náttúruverndarráðs skrifa ekki hér undir. Vitanlega er afar mikilvægt að Náttúruverndarráð, sem er lykilstofnun í umhverfismálum, komi sem allra fyrst til starfa hjá umhverfisráðuneytinu.
    Ég vil lýsa þeirri eindregnu von minni að um þetta geti orðið samkomulag og málið verði afgreitt farsællega frá þessu þingi. Ég vona að þróun og vöxtur þessa mikilvæga umhverfisráðuneytis fái að vera með friði og spekt, hefjast þegar en þó tekin skref af skrefi og friður náist bæði hér á þingi og við þær fjölmörgu stofnanir sem þarna þurfa að koma að málum.