Lánasýsla ríkisins
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það hefur að vísu verið gerð tilraun til þess að drepa þessu máli nokkuð á dreif við þessa umræðu, einkanlega af hálfu þingmanns hér sem ábyrgð ber á frv. sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, en ég ætla ekki að blanda mér í það. Ég ætla að hafa aðeins örfá orð um þetta mál og láta það koma fram að ég styð frv. Ég starfaði að þessum málum í þó nokkur ár hér á árum áður og geri mér vel grein fyrir því hversu gríðarlega nauðsynlegt það er að haldið sé vel og skynsamlega utan um skuldir ríkisins og leitað sé allra tiltækra ráða á öllum tímum til þess að lágmarka vaxtakostnað af innlendum og erlendum skuldum ríkissjóðs. Og ég held að það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í þessu frv. sé skynsamlegt, spor í rétta átt eins og sagt hefur verið, og að um skipan sem þessa eða skipulagsbreytingu eigi menn að geta sameinast óháð því hverjir fara með stjórnvöldin á hverjum tíma því að það viðfangsefni sem við er að glíma á þessu sviði er að sjálfsögðu í eðli sínu óháð því hverjir fara með fjármál ríkisins. Þetta er viðfangsefni sem taka verður traustum tökum óháð því hverjir stjórna fjármálum ríkisins. Þess vegna tel ég að frv. sé til bóta og horfi til betri stýringar á þessum málum og lýsi þess vegna stuðningi við frv.