Lánasýsla ríkisins
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka þær jákvæðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér í þessari hv. deild eins og það fékk í hv. Ed. Umræðurnar um frv. hafa hins vegar snúist kannski meira um almenn atriði og ég ætla ekki að blanda mér inn í þær umræður á þessu stigi en svara örfáum orðum þeim spurningum sem voru bornar fram til mín hér rétt áðan.
    Ég tel það vera alveg rétt sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson sagði að verði frv. að lögum, sem mér sýnist nú að það verði, geti það skapað grundvöll til þess að auðvelda ýmiss konar skipulagsbreytingar og hagræðingu í sjóðakerfinu og fækkun þeirra opinberu sjóða sem þar eru og sú hugmynd sem hann nefndi er eitt af þeim atriðum sem mjög koma til álita í þeim efnum. Ég hafði ekki viljað blanda því hér og nú inn í frv. sem hér er flutt. En ég tel að það sé eitt af því sem vandlega þurfi að huga að.
    Innlend fjármögnun ríkissjóðs hefur það sem af er þessu ári gengið allvel. Það seldust að verulegu leyti spariskírteini á móti þeirri innlausn sem var í upphafi ársins og sala ríkisvíxla hefur verið með mjög hagstæðu móti. Ég tel hins vegar þörf á því að skoða möguleika á að setja á markað nýja tegund af pappírum sem eru aðeins lengri en ríkisvíxlarnir eru í dag en kannski skemmri en spariskírteini, og sú lánasýsla sem hér er verið að ræða um gæti einmitt verið eðlilegur vettvangur til þess að þróa á markaðnum pappíra af því tagi sem ég veit að bæði sjóðir og viðskiptabankar hafa áhuga á að skoða.
    Ég er því miður ekki með nákvæmar tölur við hendina vegna þess að ég bjóst ekki við þessum spurningum hér inni í þessari umræðu en er reiðubúinn til að láta þær í té við síðari umfjöllun um málið hér í þessari hv. deild.