Skipan prestakalla
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Ég mæli hér fyrir frv. sem flutt er á þskj. 1094, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, en frv. þetta hefur nú verið samþykkt af hv. Ed. með nokkrum breytingum frá því það var upphaflega lagt fram á þskj. 678.
    Áður en ég rek efni frv. vil ég víkja nokkrum orðum að undirbúningi þess. Upphaflega var hér um að ræða tvö frv., annars vegar frv. til laga um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Það frv. var lagt fram á 108. löggjafarþingi 1985--1986 en hlaut ekki afgreiðslu. Haustið 1988 skilaði nefnd er skipuð var til þess að endurskoða lög um skipan prestakalla og prófastsdæma frv. til laga um skipan prestakalla og prófastsdæma. Bæði frv. fjölluðu um náskyld efni, þ.e. um stjórnskipun kirkjunnar og þá starfsmenn er gegna eiga störfum í þágu hennar.
    Að athuguðu máli þótti rétt að steypa þessum frv. saman sem hér eru til umfjöllunar. Frv. hefur komið til umfjöllunar á kirkjuþingi, í kirkjuráði og á prestastefnu. Það hefur verið sent til umsagnar til prófasta landsins er lagt hafa það fyrir á fundum heima í héruðum og einnig nú aftur sent til prófasta í meðförum Ed. og allshn. Ed. Alþingis. Frv. hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það var lagt fyrir kirkjuþing á haustdögum 1988. Hér er um nokkuð viðamikið mál að ræða fyrir þjóðkirkjuna er snertir stjórnsýslulega uppbyggingu hennar og starf hennar í heild. Ég mun í örstuttu máli gera grein fyrir meginbreytingunum sem frv. mun hafa í för með sér ef að lögum verður.
    Í I. kafla frv. er gerð grein fyrir skipan prestakalla og prófastsdæma. Prófastsdæmi landsins eru nú 15 en samkvæmt frv. verða þau 16 talsins. Gert er ráð fyrir að Reykjavíkurprófastsdæmi sem er langstærsta prófastsdæmi landsins verði skipt í tvö prófastsdæmi. Samkvæmt gildandi lögum er prestaköllum skipað með lögum nema í Reykjavíkurprófastsdæmi. Í frv. er gert ráð fyrir að sama skipan gildi í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmum og gilt hefur í Reykjavíkurprófastsdæmi, að ráðherra ákveði skipan prestakalla með reglugerð. Með þessu móti er hægara að breyta prestakallaskipaninni og laga hana að byggðaþróuninni. Utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis þótti þó ekki ástæða til að breyta frá gildandi lögum að ákveða prestakallaskipanina með lögum. Frv. gerir ráð fyrir að utan Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins verði fjögur prestaköll lögð niður en jafnframt er gert ráð fyrir að þrjú ný verði tekin upp. Mörkum milli prestakalla er í nokkrum tilfellum breytt. Breytingar á skipan prestakalla eru í grófum dráttum þessar:
    Í Rangárvallaprófastsdæmi fækkar prestaköllum um eitt þar sem Kirkjuhvolsprestakall er lagt niður og sóknir þess færðar undir Fellsmúla- og Oddaprestakall. Einnig er sú breyting gerð að Stórólfshvolssókn er færð undir Breiðabólsstaðarprestakall.
    Í Árnessprófastsdæmi er stofnað Þorlákshafnarprestakall. Í Snæfellsness- og

Dalaprófastsdæmi er eitt prestakall lagt niður, Söðulsholtsprestakall, en eitt stofnað, Ingjaldshólsprestakall með prestssetur á Hellissandi.
    Í Barðastrandarprófastsdæmi er Sauðlauksdalsprestakall lagt niður en stofnað nýtt prestakall, Tálknafjarðarprestakall.
    Siglufjarðarprestakall er flutt frá Eyjafjarðarprófastsdæmi í Skagafjarðarprófastsdæmi. Miðgarðssókn í Grímsey færist frá Glerárprestakalli undir Akureyrarprestakall.
    Í Þingeyjarprófastsdæmi fækkar prestaköllum um eitt þar sem lagt er til að Háls- og Staðarfellsprestaköll sameinist og nefnist Ljósavatnsprestakall. Alls fækkar því prestaköllum yfir landið í heild um eitt.
    Samkvæmt 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að í hverju prestakalli verði aðeins einn sóknarprestur. Jafnframt er heimilt að ráða aðstoðarprest eða presta í mjög fjölmennum prestaköllum. Með þessari breytingu ætti að vera leyst úr vissum stjórnunarlegum árekstrum sem hafa einstaka sinnum komið upp í tvímenningsprestaköllum.
    Í 4. gr. og 6. gr. eru rýmkaðar heimildir ráðherra til að leggja niður prestaköll fari íbúafjöldi niður fyrir 250 manns eða taka upp ný prestaköll ef nauðsyn krefur eða breyta mörkum prestakalla án þess að til þurfi að koma lagabreyting.
    Í 8. gr. eru ítarlegri ákvæði um prestssetur en eru í gildandi lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma. Helstu nýmæli í II. kafla frv. er fjallar um sérþjónustuembætti eru þau að ráðherra er heimilað að ráða sérstaka farpresta til starfa í einu eða fleiri prófastsdæmum er annist forfalla- og aðstoðarþjónustu og tiltekin sérverkefni. Heimild þessi takmarkast að sjálfsögðu við þær fjárveitingar er fást hverju sinni. Líkur eru til þess að fjölmenn prófastsdæmi mundu fyrst og fremst nýta sér þennan möguleika. Sem nýmæli mætti nefna að frv. gerir ráð fyrir aukinni prestsþjónustu á sjúkrastofnunum.
    III. kafli frv. fjallar um embættisgengi presta. Helstu nýmæli í þeim kafla eru að ítarlegri skilyrði en nú gilda eru sett um skipun eða setningu í
prestsembætti. Þar er m.a. kveðið á um skyldubundna þjálfun í a.m.k. fjóra mánuði áður en kandídatar hljóta vígslu. Skv. 17. gr. skal biskup gæta þess að eigi veljist aðrir til prestsþjónustu í þjóðkirkjunni en þeir sem til þess eru hæfir.
    IV. kafli frv. fjallar um ýmis ákvæði um presta og starfsskyldur þeirra. Hér er um nokkur nýmæli að ræða sem að nokkru hafa mótast af framkvæmd. Lögð er nokkur áhersla á samstarf presta innan hvers prófastsdæmis. Er það í samræmi við þróun síðari ára.
    V. kaflinn fjallar um prófasta. Þessi kafli er allítarleg upptalning á verkefnum prófasta og réttarstöðu. Að verulegu leyti er hér verið að fjalla um verkefni sem þeir annast nú þegar.
    Í VI. og VII. kafla frv. er fjallað um embætti biskups Íslands og embætti vígslubiskupa. Í áðurgreindu frv. til laga um starfsmenn þjóðkirkju Íslands var gert ráð fyrir að landinu yrði skipt í þrjú

nokkurn veginn jafnsett biskupsdæmi. Hér er lagt til að landið verði áfram eitt biskupsdæmi. Hins vegar verði embætti vígslubiskupa landsins, sem eru tveir samkvæmt frv., efld. Með þessari tilhögun verða vígslubiskuparnir með vissum hætti aðstoðarmenn biskups er geti sinnt ýmsum samskiptum við söfnuði og presta landsins. Skv. 42. gr. er gert ráð fyrir að þeir sitji hina fornu biskupsstóla í Skálholti og á Hólum. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir verði sóknarprestar er þjóni Skálholtsprestakalli og Hólaprestakalli.
    Þótt hér sé gengið skemmra en frv. um starfsmenn þjóðkirkjunnar gerði ráð fyrir er komið að nokkru til móts við sjónarmið þeirra sem vildu efla biskupsþjónustu í landinu. Í gildandi lögum eru sárafá ákvæði um embætti biskupa. Ákvæði um biskup og biskupsembættið er að verulegu leyti í samræmi við þá lagaframkvæmd sem í gildi hefur verið undanfarin ár. Þess má geta að nýlega hefur farið fram endurskipulagning á starfsskipulagi biskupsstofu. Stofnuð hefur verið fræðslu- og þjónustudeild og ráðinn hefur verið skrifstofustjóri er annast m.a. fjármálastjórn. Frv. ýtir undir þá þróun að efla biskupsembættið en jafnframt eru efld tengsl biskupsembættisins við presta og söfnuði með aukinni þátttöku vígslubiskupanna. Rétt er að gera sér grein fyrir hvað sú breyting kostar er frv. felur í sér. Embætti vígslubiskupanna hafa tiltölulega lítinn aukakostnað í för með sér, en eins og áður er á minnst er gert ráð fyrir að guðfræðikandídatar starfi í fjóra mánuði undir handleiðslu prests. Gengið er út frá að ráðherra setji reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Hér verður um einhvern aukakostnað að ræða sem er launakostnaður guðfræðikandídata umræddan reynslutíma. Með góðri skipulagningu mundu starfskraftar guðfræðikandídata geta nýst í fjölmennum prestaköllum. Eins og fyrr greinir mun prestaköllum utan Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins fækka um tvö.
    Frv. gerir ráð fyrir að heimilt verði að ráða farpresta til aðstoðar- og forfallaþjónustu í prófastsdæmum. Hér er um heimild að ræða sem háð er vilja fjárveitingavaldsins. Einnig má benda á að gert er ráð fyrir að núverandi farprestsembætti, sem eru tvö, verði lögð niður.
    Gera má ráð fyrir einhverjum stofnkostnaði vegna breytinga á prestakallaskipaninni. Má þar einkum nefna byggingu prestsseturs í Þorlákshafnarprestakalli, Ingjaldshólsprestakalli, Tálknafjarðarprestakalli og Hvammstangaprestakalli en á móti kemur væntanleg sala á fimm prestssetrum.
    Hæstv. forseti. Ég vil að þessu mæltu draga saman í örfá orð þau fimm meginatriði sem ég tel einkenna þetta frv. Það er í fyrsta lagi að frv. miðar að því að færa löggjöf um kirkjuleg málefni til þarfa nútímans en jafnframt að hún búi yfir þeim sveigjanleika er dugi til nokkurrar frambúðar. Það er í annan stað að frv. er byggt á samruna tveggja frv. er hafa verið til umfjöllunar víða um land á undanförnum árum. Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir að Ísland verði áfram

eitt biskupsdæmi. Í fjórða lagi gerir frv. ráð fyrir að embætti vígslubiskupa verði efld og þeir sitji hin fornu biskupssetur að Skálholti og Hólum. En seinast en ekki síst, kostnaðarauki er samþykkt frv. hefði í för með sér er mjög óverulegur utan sá er ákveðinn yrði við samþykkt fjárlaga hverju sinni.
    Að svo mæltu legg ég til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði máli þessu vísað til 2. umr. og hv. allshn.