Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson (frh.) :
    Herra forseti. Sl. laugardag fóru fram allítarlegar umræður um þetta mál og allar helstu staðreyndir þess höfðu þá verið dregnar fram. Ég óskaði sérstaklega eftir því í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir lágu að hæstv. fjmrh. kæmi til umræðunnar. Enn er málið þannig vaxið að nauðsynlegt er að hann verði viðstaddur þessa umræðu og ég sé nú að hæstv. ráðherra er genginn í salinn.
    Það sem hér hefur komið fram er í stuttu máli það að hæstv. ríkisstjórn gaf fyrirheit um að áburðarverð hækkaði ekki meira en um 12% til bænda í tengslum við þá kjarasamninga sem gerðir voru í byrjun þessa árs. Þá þegar var ljóst og um það full samstaða meðal þeirra manna sem skipa stjórn Áburðarverksmiðjunnar að brúa þyrfti bilið á milli tekna og gjalda verksmiðjunnar og verksmiðjan þyrfti að fá mun hærra verð fyrir áburðinn en ríkisstjórnin hafði gefið fyrirheit um að hann yrði seldur á til bænda. Um þetta var ekki ágreiningur á milli fulltrúa í stjórn Áburðarverksmiðjunnar og í allri meðferð málsins, fund eftir fund, kemur fram að þessi ágreiningur er ekki fyrir hendi innan stjórnarinnar og síðan kemur að því að meiri hluti stjórnar tekur ákvörðun um áburðarverð.
    Ég lít svo á og hef lýst þeirri skoðun minni að til þess að unnt sé að standa við fyrirheitið við verkalýðshreyfinguna, að áburðarverð hækki ekki meira en um 12% og hafi þar af leiðandi ekki áhrif umfram það á búvöruverð, verði að brúa bilið með framlögum úr ríkissjóði og taka um það ákvörðun á fjáraukalögum. Ég lýsti því yfir sem afstöðu okkar sjálfstæðismanna að þetta bil yrði að brúa. Í umræðunni kom einnig fram af hálfu hv. 2. þm. Norðurl. v. nánari útlistun á því á hvaða grundvelli við teldum að unnt væri að ljúka málinu þannig að allir hefðu sóma af og enginn efaðist um að bæði ríkisstjórn og Alþingi ætluðu að standa við þau fyrirheit sem gefin voru og í þessu efni var lýst nákvæmri tillögu til sátta af okkar hálfu í þessari umræðu.
    Mín spurning til hæstv. fjmrh. er einfaldlega þessi: Er hann tilbúinn til að ræða um hugsanlega lausn á þessu máli í ljósi þeirra viðhorfa sem hér hafa komið fram?
    Herra forseti. Ég þarf ekki í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið að fara frekari orðum um stöðu málsins, vísa að því leyti til upphafsræðu minnar í þessari umræðu, en tel eðlilegt að varpa þessari fyrirspurn fram til hæstv. fjmrh.