Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Út af spurningu hv. síðasta ræðumanns vil ég endurtaka það sem ríkisstjórnin hefur samþykkt í þessu máli. Þar segir:
    ,,Gerð verði ítarleg útttekt á rekstrarafkomu og stöðu Áburðarverksmiðjunnar fyrir næsta haust og metnar forsendur fyrir nauðsynlegum verðbreytingum á framleiðslu ársins 1991 til að vinna upp rekstrartap á þessu ári. Fyrirsjáanlegt rekstrartap ársins sem ekki sýnist svigrúm til að bæta upp á næsta ári verði tekið til meðferðar við afgreiðslu fjáraukalaga á síðari hluta ársins.``
    Ríkisstjórnin er því alveg sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Að sjálfsögðu getum við ekki velt á undan okkur mikilli hækkun yfir á næsta ár.
    Ég get upplýst það að ég átti um helgina viðræður við verksmiðjustjóra Áburðarverksmiðjunnar einmitt um þetta atriði og hann segir mér að með þeim framkvæmdum sem þeir hafa verið í undanfarið og eru í núna geri þeir ráð fyrir því að það verði veruleg hagræðing í rekstri verksmiðjunnar. Vissulega hefðu þeir viljað hafa þessa hækkun eitthvað meiri, en þeir telja nú vandann ekki eins mikinn og kom fram í ýmsum ræðum hér sl. laugardag. (Gripið fram í.) Já. Það var því heldur bjartara hljóð í þeim fannst mér en ég hafði heyrt hér á laugardaginn.