Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hér er til umræðu er allsérstætt að því leyti að ríkisstjórnin hefur bundið hendur sínar með samningum við verkalýðshreyfinguna án þess að hafa tryggt fjármagn til að standa við það sem hún hefur lofað. Og frv. gerir ráð fyrir að reka eigi Áburðarverksmiðjuna með verulegu tapi til að koma til móts við þetta. Við getum farið aftur til þeirra tíma sem slíkt var gert, í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, sem varð til þess að Áburðarverksmiðjan stóð höllum fæti í nokkur ár á eftir og áburðarverð varð að hækka allverulega. Það er því óhæfa að ætla að neyða fyrirtæki til að selja vörur á miklu lægra verði en það ræður við. Þess vegna er það eina leiðin í þessu að hæstv. ríkisstjórn tryggi fjármagn til þess að niðurgreiða áburðinn ef þeir ætla að standa við þetta. Það er auðvitað ekki hægt að velta þessu yfir á fyrirtækið með þeim hætti að næsta ár, rétt um kosningar, fellur víxillinn ef þessi blessuð ríkisstjórn verður þá ekki farin frá völdum miklu fyrr, og þá stendur Áburðarverksmiðjan uppi með það að hún þarf að hækka áburðinn miklu meira en hún hefði þurft. Það er ekki sú stefna sem ríkisstjórn hverju sinni á að hafa, að velta vandanum á undan sér með þessum hætti. Ég tel að það hljóti að vera krafa okkar hér í þinginu að ríkisstjórnin falli frá þessu frv. og í staðinn finni hún lausn á því að greiða þetta niður, sem er jafnvont, þannig að Áburðarverksmiðjan og rekstur hennar og stjórnendur verði ekki settir upp við vegg með þessum hætti eins og hér er gert. Þetta er náttúrlega hið versta mál, eins og ákveðinn maður segir. Það að ætla sér að láta næstu ríkisstjórn taka við þeim vanda sem hér er verið að skapa er óhæfa. Vitandi það að það verður eiginlega enginn af þeim ráðherrum sem eru í þessari ríkisstjórn í næstu ríkisstjórn. Því ætla ég að vona að frv. verði ekki samþykkt óbreytt.