Sementsverksmiðja ríkisins
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 1051 sem er eins og það kemur frá hv. Ed. Hefur orðið nokkur breyting á því frv. sem flutt var á þskj. 757 um að stofna hlutafélag um Sementsverksmiðju ríkisins. Breytingin er eingöngu smávægileg orðalagsbreyting á 1. gr. frv.
    Tilgangurinn með frv. er, eins og kemur fram í heiti þess, að breyta rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar í hlutafélag. Meginefni frv. má lýsa í stuttu máli í sex liðum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að sérstök matsnefnd meti eignir Sementsverksmiðjunnar og verði þetta mat haft til hliðsjónar við ákvörðun hlutafjár í hinu væntanlega félagi.
    Í öðru lagi er lagt til að stofnað verði hlutafélag um Sementsverksmiðjuna og hlutverk félagsins verði gert víðtækara en Sementsverksmiðjunnar. Þá verði félaginu heimilað að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum eða sameignarfélögum.
    Í þriðja lagi er lagt til að ekki verði heimilt að selja hlutabréf í Sementsverksmiðjunni hf. nema samþykki Alþingis komi til með lagabreytingum.
    Í fjórða lagi er lagt til að við verksmiðjuna starfi sérstök samstarfsnefnd starfsmanna og stjórnar og lögbundið samráð verði haft við Akraneskaupstað um málefni félagsins.
    Í fimmta lagi er lagt til að skipuð verði sérstök undirbúningsnefnd til þess að undirbúa stofnun félagsins er yfirtaki rekstur verksmiðjunnar.
    Í sjötta lagi er svo lagt til að stofnfundur félagsins verði haldinn ekki síðar en 31. des. 1990 og hlutafélagið nýja yfirtaki reksturinn miðað við næstu áramót.
    Fyrir hv. þingnefnd liggur reyndar frv. með sama heiti og það frv. sem hér er til umræðu. Flm. þess frv. er hv. 1. þm. Reykv. Á þessum tveimur frv., þótt þau hafi sömu meginstefnu, er hins vegar verulegur munur. Eins og ég tók fram í umræðum um frv. hv. 1. þm. Reykv., sem kom til umræðu hér í deildinni fyrr á þessu þingi, lýsti ég þeirri skoðun að fjalla þyrfti nánar um málefni Sementsverksmiðjunnar áður en Alþingi gæti tekið afstöðu til málsins. Þar ætti m.a. að nýta þá reynslu sem fengist hefði við lagasetningu um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg sem breytt var í hlutafélag á liðnu ári, Prentsmiðjuna Gutenberg hf., á grundvelli frv. sem ég flutti hér á þingi. Auk þess benti ég á að nauðsynlegt væri að tryggja betur tengsl milli starfsmanna og stjórnenda þessa fyrirtækis.
    Í öðru lagi nefndi ég að vegna þess hversu mikilvæg Sementsverksmiðjan er fyrir Akranes væri æskilegt að samráð við bæjarfélagið væri bundið í lög.
    Í þriðja lagi taldi ég skynsamlegt að kveða skýrar á um það hvernig framkvæma ætti mat á eignum verksmiðjunnar til þess að leggja til grundvallar við ákvörðun hlutafjár.
    Í fjórða lagi taldi ég heppilegt að skipa undirbúningsnefnd til þess að undirbúa félagsstofnunina og annast nauðsynlega samningagerð

fyrir hönd hins væntanlega félags og semja drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið. Þetta var gert með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga.
    Í fimmta lagi benti ég svo á að í 8. gr. er kveðið skýrt á um það að ríkissjóður geti ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema fyrir liggi samþykki Alþingis með lagabreytingum.
    Öll þessi atriði hafa þannig verið tekin til greina í því frv. sem hér er til umræðu.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki að svo stöddu ástæðu til að gera frekari grein fyrir frv. Mér virðist það mikið framfaramál, bæði fyrir verksmiðjuna sjálfa en ekki síst fyrir það byggðarlag þar sem hún er staðsett. Ég bendi á að forsendurnar fyrir því að reka fyrirtækið sem ríkisfyrirtæki með sérstökum reglum sem óneitanlega voru fyrir hendi í upphafi rekstrarins séu nú ekki lengur til staðar. Sértilhögun sú sem þá var ákveðin helgaðist að mínu áliti fyrst og fremst af því að þá var um að ræða stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða, að ég nú ekki tali um Akranesbæ, og stofnun fyrirtækisins og rekstur höfðu í upphafi í för með sér afar mikla breytingu á atvinnuháttum í Akranesbæ. Nú er þetta fyrirtæki svo sannarlega orðið að grónum borgara í byggðarlaginu og því eðlilegt að það taki þátt, með öllum réttindum og skyldum, í starfsemi bæjarins eins og önnur fyrirtæki gera þar um slóðir.
    Ég vil mælast til þess, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. þessarar deildar.