Sementsverksmiðja ríkisins
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Það liggur við að maður segi loksins, loksins, þegar þetta frv. kemur hér til 1. umr. í Nd. A.m.k. þrisvar ef ekki fjórum sinnum hafa verið lögð fram frv. um þetta efni. Þau hafa nokkuð verið að breytast í gegnum tíðina en þau frv. sem ég hef lagt fram, bæði á yfirstandandi þingi og eins á síðasta þingi, voru þó frv. sem segja má að markað hafi lokagerð þess frv. sem hér er til umræðu.
    Síðasta haust þegar það frv., sem hæstv. ráðherra minntist á og ég lagði fram, var til umræðu kom hæstv. ráðherra í ræðustól og sagði frá því efnislega hvernig hann vildi breyta frv. og gerði skýra grein fyrir því í sinni ræðu. Þau atriði sem komu fram hjá hæstv. ráðherra strax í nóvember sl. eru flest ef ekki öll þau sömu og koma fram í þessu frv. sem breyting á fyrirliggjandi frv. Ég vil rifja það upp, bæði fyrir hæstv. ráðherra og eins fyrir aðra, að í umræðunni þá lýsti ég því yfir að mér þætti eðlilegt að hv. iðnn. neðri deildar, sem fékk málið til meðferðar, tæki allar þessar hugmyndir hæstv. ráðherra til greina. Ég lýsti því yfir að ég væri tilbúinn til að beita mér fyrir því. Málið kom að sjálfsögðu til umræðu í hv. nefnd. Ég lét dreifa þar ræðu hæstv. ráðherra en ekki reyndist áhugi á því að afgreiða frv. með þeim sömu breytingum öllum sem hér er verið að leggja til í þessu nýja frv. Ástæðan var auðvitað sú að þá hafði ekki tekist samkomulag á milli stjórnarflokkanna um að afgreiða þetta mál inn í þingið sem stjfrv. Það er út af fyrir sig ekkert stórmál hvernig þessa hluti ber að. Aðalatriðið er að sjálfsögðu það að koma í gegnum þingið frv. þessa efnis.
    Hæstv. ráðherra gerði grein fyrir þeim breytingum sem hann hefur gert á frv. frá því að það var unnið af tveimur mönnum í iðnrn. á sínum tíma, síðast sumarið 1988. Í fyrsta lagi að bæjarfógetinn á Akranesi skuli skipa þriggja manna matsnefnd til þess að láta fara fram mat á eignum Sementsverksmiðju
ríkisins. Í öðru lagi, sem ég átta mig nú ekki á til hvers er, hefur 2. gr. breyst þannig að út hefur fallið námarekstur úr upptalningu á því hvað félagið eigi að annast. Er það í sjálfu sér ekkert stórmál því félagið hefur nokkuð frjálsar hendur samkvæmt upptalningunni sem nú er í 2. gr. Kannski má segja að námarekstur tilheyri þeirri efnavinnslu sem þar er minnst á. Í þriðja lagi er tekið fram að fulltrúar í stjórn hlutafélagsins skuli skipaðir eða kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn svo og varamenn þeirra, sem er auðvitað sjálfsagt og ávallt var gengið út frá að yrði gert eins og er um önnur hlutafélög. Þá, og það er kannski ein meginbreytingin, er gert ráð fyrir því nú að við Sementsverksmiðjuna starfi samstarfsnefnd sem skipuð sé þremur fulltrúum frá hvorum, stjórn verksmiðjunnar annars vegar og starfsliði hins vegar. Síðan er tilgreint hvert hlutverkið sé. Þetta atriði er auðvitað óþarfi að hafa í lögum. Það var hægt að framkvæma þennan hlut með einfaldri samþykkt eða yfirlýsingu. Jafnvel er spurning hvort eðlilegt sé að lögbinda slíka samstarfsnefnd

öðruvísi en að skoða þá nánar hvort slíkar samstarfsnefndir eigi ekki yfirleitt að starfa í fyrirtækjum eins og þessu, á meðan þau eru í eigu ríkisins. Þá er lagt til að lögbundið sé að halda tvo samráðsfundi með fulltrúum Akraneskaupstaðar. Hef ég síst á móti því að það sé gert, en bendi á að það er mjög óvenjulegt að ákveðnu fyrirtæki sé fengið það hlutverk með lögum að eiga samráð við fulltrúa viðkomandi kaupstaðar, en síst hefði ég á móti því að slíkt verði gert.
    Um það sem hæstv. ráðherra minntist á og er í 8. gr. frv., að ríkissjóður geti ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis, vil ég taka fram að slíkt ákvæði var í hinu frv. Og loks er í 9. gr. fjallað um undirbúningsnefnd, eins og reyndar eðlilegt er að sé starfandi til þess að annast nauðsynlega samningsgerð fyrir hönd væntanlegs hlutafélags. Slíkt er auðvitað alltaf gert eða langoftast og þarf ekki lög um það atriði fremur en flest annað það sem hæstv. ráðherra hefur þurft að setja inn í frv. til að kaupa aðra stjórnarflokka til fylgis við það.
    Mér finnst frv. ekki hafa batnað en skil það mjög vel að hæstv. ráðherra hefur þurft að breyta frv. til að koma til móts við sína samstarfsflokka. Ég tel fulla ástæðu til þess að þetta frv. verði að lögum á yfirstandandi þingi og mun síst koma í veg fyrir það. Ein er þó sú spurning sem vaknar þegar um þetta mál er fjallað og hún er sú hvort hyggilegt sé að hæstv. ráðherra skipi fulltrúa í stjórn hlutafélagsins til eins árs í senn eða hvort sá háttur skuli viðhafður að hv. Alþingi kjósi stjórnina hlutfallskosningu. Með þessu er ég ekki að leggja þessa hugmynd til og mun ekki flytja um það brtt. en bendi á að í vissum tilvikum þar sem verið er að breyta opinberu atvinnufyrirtæki í hlutafélag og þar sem gert er ráð fyrir því að allir hlutir séu í eigu ríkisins, a.m.k. fyrst um sinn, kann að vera eðlilegt að Alþingi kjósi áfram stjórn slíks félags eða kjósi þá menn sem hæstv. ráðherra tilnefnir síðan í stjórnina. Ég tel það vera augljóslega rétt að hæstv. iðnrh. á hverjum tíma fari með hlut ríkisins í hlutafélaginu.
    Á undanförnum árum hefur Sementsverksmiðjan grætt talsvert fé. Framleiðslan hefur verið allmikil. Árið 1975 var hún 160 þús. tonn. Síðan hefur hún dregist nokkuð saman vegna minni framkvæmda, einkum vegna minni virkjanaframkvæmda. Árin 1985 og 1986 var hún í lágmarki og fór niður í 111 þús. tonn árið 1986 en síðan jókst framleiðslan á nýjan leik 1987 og 1988 var hún komin í 132 þús. tonn. Á sl. ári dróst framleiðslan hins vegar saman og aðeins voru seld 117.500 tonn sem er nokkru minna en árin tvö á undan, en þó meira en 1985 og 1986. En þá brá svo við að halli varð á rekstri verksmiðjunnar. Er það vissulega nokkurt umhugsunarefni að skoða ársreikninga Sementsverksmiðjunnar fyrir sl. ár og sjá að tap af rekstri verksmiðjunnar er á því ári yfir 76 millj. kr., þar af 56 millj. kr. af reglulegri starfsemi. Þetta er tíundað í ársskýrslu verksmiðjunnar sem dreift var á Alþingi í dag og gefur til kynna að gera þurfi

nokkrar breytingar á rekstri til þess að verksmiðjan geti haldið áfram að sýna ágóða í reikningum sínum. Verksmiðja eins og Sementsverksmiðjan á að geta gert það í öllu venjulegu árferði og ég tel að árferðið í fyrra hafi ekkert verið óvenjulegt séu kaup á sementi á undanförnum árum skoðuð til samanburðar.
    Hæstv. ráðherra hefur oft í ræðu og riti haldið fram ýmsum frjálslyndum skoðunum. Hann hefur verið mikill stuðningsmaður þess að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði hér á landi og fagna ég því auðvitað að hæstv. ráðherra hefur með því skipað sér í hóp þeirra sem hafa skilning á því að gera þarf veigamiklar breytingar hér á landi í þeim efnum til þess að hægt sé að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækja. Hæstv. ráðherra hefur einnig lýst áhuga sínum á því að breyta ýmsum starfandi opinberum atvinnufyrirtækjum í hlutafélög. Hann hefur nefnt til sögunnar, auk Sementsverksmiðju ríkisins og Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg sem hann lagði fram frv. um í fyrra og varð að lögum þá, ríkisviðskiptabankana og sýnt fram á að það væri til ábata í undirbúningi okkar undir það að samræma leikreglur okkar þeim leikreglum sem gilda í Vestur-Evrópu ef ríkisviðskiptabankarnir breyttust í hlutafélög.
    Hæstv. ráðherra hefur bent á að ef slíkt væri gert væri auðveldara fyrir fyrirtæki eins og ríkisviðskiptabankana að afla nýs eigin fjár öðruvísi en að gera það með því að reksturinn skili fjármunum til að bæta eiginfjárstöðuna. Kannski er nýjasta dæmið í bankaheiminum, þ.e. sameining Landsbankans og Samvinnubankans, gott dæmi um það hvernig hægt hefði verið að standa öðruvísi að málum ef Landsbankinn hefði verið hlutafélag, jafnvel þótt allir hlutirnir hefðu verið í eigu ríkisins. Þá hefði staðan verið sú að eigendur Samvinnubankans, þeir sem vildu áfram eiga hlut í banka, hefðu getað skipt á bréfum og eignast hluta í þessum sameiginlega nýja banka sem kemur til með að bera nafn Landsbankans. Þannig hefði eiginfjárstaðan styrkst en ekki veikst eins og nú hefur gerst með sameiningunni. En eins og öllum er ljóst er eiginfjárstaða Landsbankans með þeim hætti að teflt er á tæpasta vað með sameiningu sem á sér stað með þeim hætti að Landsbankinn þarf að kaupa hlutabréf eigenda Samvinnubankans og borga í mörgum tilvikum verulegar fjárhæðir út úr bankanum.
    Nú kann vel að vera, herra forseti, að ýmsum þyki ég vera kominn í skógartúr, farinn að ræða um bankana og að hvaða gagni það gæti komið ef ríkisviðskiptabankarnir yrðu gerðir að hlutafélögum, jafnvel þótt hlutaféð væri allt í eigu ríkisins. En svo er nú aldeilis ekki. Þetta eru náskyld mál. Hæstv. ráðherra hefur í nýlegri grein einmitt viðrað þá hugmynd að gera eigi gangskör að því að breyta fleiri opinberum fyrirtækjum í hlutafélög með það að markmiði í tímans rás að selja hlutaféð á almennum markaði. Af þessu tilefni finnst mér ástæða til þess að rifja það upp að fyrir efri deild liggur nú frv. til breytinga á tekju- og eignarskattslögum. Samkvæmt

því frv. eru lagðar til þær breytingar að búast má við því að fyrirtæki muni loksins skrá hlutabréf sín á verðbréfaþingi Íslands. Það er mjög mikilvægt, ekki síst þegar við erum að ræða um hlutafélög í eigu ríkisins sem síðar meir gætu orðið eign almennings í landinu, ef hægt er að fá slíka skráningu og selja síðan í tímans rás þessi bréf í litlum skömmtum.
    Ég vil lýsa ánægju minni með það að hæstv. ráðherra skuli hafa viðrað slíkar skoðanir því þær skoðanir fara nákvæmlega saman við skoðanir sjálfstæðismanna sem telja í fyrsta lagi eðlilegt að breyta opinberum atvinnufyrirtækjum í hlutafélög, jafnvel þótt hlutirnir séu allir í eigu ríkisins. Síðar meir sé eðlilegt að hlutirnir séu seldir á hlutabréfamarkaði og þá ekki í svo stórum skömmtum að það kunni að hafa slæm áhrif á markaðinn.
    Herra forseti. Ég hef nú nokkuð lýst þessu frv., sagt frá því að fyrir hafi legið í hv. deild frv. sama efnis sem var svo líkt að í raun hefði verið miklu eðlilegra að flytja brtt. við það frv. enda bauðst flm. frv. til að taka þær allar til greina eins og þeim var lýst í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann talaði í því máli fyrr á þessu þingi. Hæstv. ráðherra kaus að leggja fram stjfrv. og það er í sjálfu sér afar eðlilegt. Mér finnst ýmis þau atriði sem komið hafa inn í frv. síst vera til bóta en skil vel að nauðsynlegt er fyrir hæstv. ráðherra að setja slík ákvæði í frv. til þess að fá fylgi við frv. í
öðrum stjórnarflokkum en Alþfl. Þar sem málið er mikilvægt og gefur gott fordæmi finnst mér ástaða til þess að gera ekki neinar frekari athugasemdir við frv. né heldur að leggja fram brtt. Mér finnst þvert á móti ástæða til þess að flýta því að þetta mál geti orðið að lögum og mun gera mitt til þess í hv. nefnd að flýta fyrir afgreiðslu þess.