Sementsverksmiðja ríkisins
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Eins og hér hefur komið fram og hv. þm. vita þá hafa nú á undanförnum árum verið nokkuð skiptar skoðanir um þá breytingu sem hér er lögð til, að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Nokkur frv. hafa verið lögð fram um það efni. Ég tel að með því stjfrv. sem hér liggur fyrir hafi verið tekið tillit til flestra þeirra atriða sem ágreiningur var um og ýmissa þeirra ábendinga sem komu fram við þau frv. sem hér hafa verið til meðferðar á Alþingi á undanförnum árum og fullt tillit tekið til sjónarmiða þeirra sem hafa viljað koma sínum skoðunum fram. Ekki síst frá aðilum á Akranesi og þá á ég að sjálfsögðu við bæjarstjórn Akraness og fleiri aðila sem hafa lagt til ákveðnar breytingar sem eru komnar inn í þetta frv. Ég tel að í öllum aðalatriðum sé samkomulag um að þetta mál nái fram að ganga, eins og hér hefur komið fram áður.
    Ég tel að ákvæðin um samstarfsnefnd og samráðsfundi séu mjög til bóta og raunar nýjung í svona lögum og eiga áreiðanlega eftir að skila árangri fyrir starfsemi verksmiðjunnar. Það er náttúrlega mikilvægt að það sé samhent fólk sem þarna starfar og ekki verði ágreiningur um meginatriði í stefnu verksmiðjunnar.
    Fyrirtæki eins og þessi verksmiðja, sem eins og allir vita hefur verið mikilvæg kjölfesta í atvinnulífinu á Akranesi og haft mikil áhrif á uppbyggingu á Akranesi á undanförnum árum, mun áreiðanlega, ef vel er á haldið, geta haft víðtæk áhrif á önnur atvinnutækifæri. Það kemur í ljós með þeim breytingum sem gerðar hafa verið t.d. á lögunum um Járnblendiverksmiðjuna að möguleikar eru á því að svona verksmiðjur geti haft bein áhrif til atvinnuauka eða nýjunga í atvinnurekstri ef þær ná árangri í sínum eigin rekstri, sem er mikilvægt.
    Ég vil með þessum fáu orðum lýsa því yfir að ég tel að það frv. sem hér liggur fyrir fullnægi öllum þeim meginatriðum sem komið hafa fram um þessa breytingu á verksmiðjunni. Þeim athugasemdum sem höfðu komið fram áður hefur verið fullnægt með þessu frv. Ég lýsi því yfir að ég vænti þess að Alþingi ljúki afgreiðslu frv. á þessu þingi.