Sementsverksmiðja ríkisins
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil biðjast velvirðingar á því að láta hv. deild bíða eftir mér og láta ræðustólinn standa tóman. Ég kem eingöngu hér upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Ég fagna tilvist þess og að loks skuli sjást fyrir endann á þessu máli.
    Þegar frv. hv. þm. Friðriks Sophussonar um sama efni var hér til umræðu tók ég þátt í þeim umræðum og lýsti einnig stuðningi við það. Ég hlustaði þá glöggt á hæstv. iðnrh. og ábendingar hans sem nú eru flestar ef ekki allar komnar inn í þessa samsuðu, sem ég vil svo kalla, úr frv. hv. þm. Friðriks Sophussonar og ábendingum hæstv. ráðherra.
    Ég styð þetta frv. fyrst og fremst vegna þess að ég tel að hér sé verið að stíga fyrsta skrefið í þá átt að færa Sementsverksmiðjuna yfir í hendur einkaframtaksins og að verið sé að opna möguleika á því að selja hlutabréf fyrirtækisins á frjálsum markaði, þó seinna verði. Ég tel einsýnt að 8. gr. frv. opni fyrir þann möguleika. Þó hún geri ráð fyrir því að til þess þurfi samþykki Alþingis þá hygg ég að með tíð og tíma muni slíkur meiri hluti eiga eftir að líta dagsins ljós hér á Alþingi sem veiti samþykki sitt fyrir því að hlutabréf fyrirtækisins verði seld á almennum markaði.
    Ég ætla ekki að fjalla neitt efnislega um þetta frv. Ég vildi eingöngu koma hér upp til þess að lýsa stuðningi við það. Þó get ég ekki annað en tekið undir vangaveltur hv. þm. Friðriks Sophussonar um kosningu stjórnar fyrirtækisins og tel það ekkert óeðlilegt að á meðan hlutabréf eru öll í eigu ríkissjóðs og ríkisins sé það Alþingi sem kjósi stjórn yfir þetta fyrirtæki en seinna meir ráði vægi hlutabréfseignaraðila því hvernig kosið er í stjórn fyrirtækisins.
    Hæstv. forseti. Fleira held ég að ég þurfi ekki að segja um þetta frv. og læt því máli mínu lokið.