Raforkuver
Mánudaginn 30. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 1098 um breytingu á lögum nr. 60 4. júní 1981, um raforkuver o.fl., eins og það kom frá hv. Ed. Frv. þetta er flutt til þess að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi í framhaldi af undirritun yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Atlantsálsaðilanna hinn 13. mars sl., en yfirlýsingin hefur að geyma ásetning um að ljúka samningum um nýtt álver.
    Meginefni þessa frv. má lýsa í þremur greinum. Í fyrsta lagi er hér lagt til að í lög um raforkuver, með samsvarandi breytingum á lögum um Landsvirkjun, verði bætt heimildum fyrir tvær virkjanir, þ.e. Búrfellsvirkjun með allt að 310 mw. afli og Kröfluvirkjun með allt að 60 mw. afli.
    Í öðru lagi er hér lagt til að sérstök heimild verði veitt til að reisa og reka jarðgufuvirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 76 mw. afli, í tveimur áföngum. Í upphaflegri gerð frv. var lagt til að heimild yrði veitt fyrir fyrri áfanga raforkuframleiðslu að Nesjavöllum, þ.e. 38 mw., en meiri hl. iðnn. Ed. og deildin öll varð sammála um að leggja til allt að 76 mw. heimild og er ég samþykkur þeirri breytingu.
    Í þriðja lagi er lagt til að 2. gr. laga um raforkuver verði umorðuð nokkuð og framkvæmdarvaldinu verði settar almennar reglur um röðun framkvæmda sem ráðast skuli af væntanlegri orkunýtingu. Í ákvæðum til bráðabirgða í frv. þessu er hins vegar lagt til að lögfest verði tiltekin röð virkjanaframkvæmda takist samningar um nýtt álver, eins og að er stefnt, og Landsvirkjun verði veitt heimild til að verja allt að 300 millj. kr. til undirbúningsframkvæmda á árinu 1990 til þess að unnt verði að sjá hinu nýja væntanlega álveri fyrir nægri raforku á árinu 1994.
    Eins og þegar hefur komið fram í máli mínu er þetta frv. flutt í samræmi við viljayfirlýsingu frá 13. mars sl., en þar er miðað við að reist verði
álbræðsla með 200 þús. tonna framleiðslugetu á ári er hefja skuli rekstur á árinu 1994. Áætluð raforkuþörf hins nýja álvers, að meðtöldu orkutapi við flutning orkunnar til iðjuversins frá orkuverunum, er um 2970 gwst. á ári og aflþörfin, sem þessu svarar, 355 mw. Nærri lætur að orkuþörf álversins sé um 3 / 4 hlutar af heildarsölu orkunnar hér á landi um þessar mundir.
    Það hafa verið gerðir á því ítarlegir útreikningar hvernig hagkvæmast yrði að afla orku til hins nýja álvers. Í ákvæðum til bráðabirgða í frv. er gerð tillaga um tiltekna röð orkuframkvæmda til viðbótar við Blönduvirkjun til að mæta orkuþörf hins nýja iðjuvers. Hér er um að ræða, eins og ég sagði áðan, í viðbót við Blönduvirkjun, en henni þarf að ljúka, í fyrsta lagi Fljótsdalsvirkjun, í öðru lagi stækkun Búrfellsvirkjunar um 100 mw. ásamt lokaáfanga Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni, og í þriðja lagi fyrsta áfanga Nesjavallavirkjunar til raforku og stækkun Kröfluvirkjunar.
    Hér er í öllum meginatriðum um sömu virkjanaframkvæmdir að ræða og Alþingi samþykkti

með þál. um virkjanaframkvæmdir og orkunýtingu hinn 6. maí 1982. Eina beina viðbótin er að með frv. er leitað heimildar Alþingis fyrir jarðvarmavirkjun á Nesjavöllum sem var ekki með í þeirri röð virkjana.
    Það má með sanni segja að forsenda þessa virkjanafrv., sem ég mæli nú fyrir, séu þær rannsóknir sem fram hafa farið á grundvelli þeirrar stefnu sem Alþingi markaði á árunum 1981 og 1982. Þær hafa verið umfangsmiklar og án þeirra væri ekki unnt að ráðast í þessar framkvæmdir með þeim hætti sem hér er leitað heimildar til að fullnægðum þeim skilyrðum, sem getið er hér áður í mínu máli og í greinargerð frv., þ.e. að samningar takist um að byggja hér nýtt álver. Samtals er áætlað að fjárfesting í raforkukerfinu verði rúmlega 31 milljarður kr. á tímabilinu 1990--1995 og að þessum framkvæmdum fylgi samanlagt um 2900 ársverk. Ef ekki yrði um frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar að ræða á þessum árum er áætlað að fjárfestingar í raforkukerfinu mundu nema einungis tæplega 5 milljörðum kr. og mannaflaþörf þeirra vegna yrði innan við 500 ársverk þessi sex ár.
    Með öðrum orðum, ef ekki koma til ný stórkaup á orku í þeim mæli sem hér er gert ráð fyrir er ekki þörf á frekari virkjunarframkvæmdum, sem um munar, fyrr en á næstu öld. Um nánari lýsingu á þeim virkjanaframkvæmdum sem heimilda er leitað fyrir í frv. leyfi ég mér, virðulegi forseti, að vísa til fskj. með því.
    Til þess að unnt verði að sjá Atlantsálverinu fyrir nægri orku veturinn 1994--1995 þarf Landsvirkjun nú að hefja hönnun og undirbúning framkvæmda þeirra vegna þegar á þessu ári. Með hliðsjón af þessu er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að Landsvirkjun verði veitt heimild til 300 millj. kr. lántöku á þessu ári. Ákvarðanir um þessar framkvæmdir, og það hvort nýta skuli þessar heimildir, verða teknar í einstökum atriðum eftir því sem samningum um álverið vindur fram og ekki í framkvæmdirnar ráðist nema samningar séu í sjónmáli.
    Ég mun nú víkja nokkuð að undirbúningi og viðræðum um nýtt álver sem að sjálfsögðu er undirstaðan, forsenda þeirra virkjunaráforma sem þetta frv. fjallar um. Með undirritun viljayfirlýsingarinnar frá 13. mars, sem ég hef þegar vitnað til, náðist mikilvægur áfangi í því þýðingarmikla stefnumáli
þessarar ríkisstjórnar að nýta innlendar orkulindir, vatnsorku og jarðvarma, til atvinnuuppbyggingar.
    Í yfirlýsingunni kemur fram að í álverinu verði notuð nýjasta tækni við framleiðslu og steypu á áli og nýjustu og fullkomnustu mengunarvarnir. Það er gert ráð fyrir því í því sem nú er rætt að bandaríska félagið Alumax muni eiga allt að 40% hlut í álverinu, en sænska félagið Granges og hollenska félagið Hoogovens Aluminium allt að 30% hvort félag. Það er gert ráð fyrir að ameríska félagið Alumax muni annast stjórn hins nýja álvers í daglegum rekstri og reyndar forstöðu um framkvæmdir. Í yfirlýsingunni er staðfest að gera þurfi eftirtalda samninga á grundvelli heimildarlaga um nýtt álver.

    1. Takast þurfa heildarsamningar milli íslenska ríkisins og Atlantsálsaðilanna um byggingu og rekstur álversins þar sem kveðið yrði á um réttindi og skyldur aðilanna hér á landi.
    2. Takast þarf orkusölusamningur milli álversins og Landsvirkjunar sem tryggi að heildartekjur af orkusölu til álversins geri gott betur en að standa undir kostnaði vegna virkjana sem í þarf að ráðast eingöngu vegna þessarar sölu.
    3. Gert hefur verið ráð fyrir að Atlantsálverið geri samning við hlutaðeigandi sveitarfélög um hafnar- og lóðaraðstöðu fyrir hið nýja iðjuver.
    4. Atlantsálsaðilarnir hafa lagt áherslu á það fyrir sitt leyti að samningur um meginskilmála varðandi mengunarvarnir verði undirritaður samhliða aðalsamningi um nýtt álver og tel ég það hyggilegt fyrirkomulag. Takist þessir samningar í september, eins og að er stefnt, mun ég leggja fyrir Alþingi frv. til heimildarlaga um álverið í október á næsta hausti með það að markmiði að afla samþykkis Alþingis fyrir lok þessa árs.
    Ég vík þá nokkrum orðum að staðsetningu hins nýja álvers sem enn hefur ekki verið ákveðið. En á grundvelli viðræðnanna við Atlantsálsaðilana hefur hins vegar verið ákveðið að gera nákvæman samanburð á stofn- og rekstrarkostnaði við nýtt álver á fjórum svæðum á landinu:
    1. Við Eyjafjörð.
    2. Við Hvalfjörð.
    3. Við Reyðarfjörð.
    4. Á Reykjanesi, og á ég þá við skagann allan frá Straumsvík að Þorlákshöfn. Þá vega þungt ýmis sjónarmið önnur en kostnaður, sem erfitt er að verðleggja, samskipti við aðila vinnumarkaðarins og sveitarstjórnir, svo að ekki sé minnst á umhverfismál. Staðsetningin verður ákveðin að loknum öllum þessum athugunum. Staðarvalið er að mínu áliti órjúfanlegur hluti af heildarsamningum um álverið og verður af Íslands hálfu lögð rík áhersla á að staðarvalið sjálft stuðli að jafnvægi í atvinnu- og byggðaþróun auk þess sem tekið verði tillit til arðsemis- og umhverfissjónarmiða. Hefur ríkisstjórnin reyndar ályktað um það sérstaklega, eins og lesa má í grg. frv.
    Í undirbúningi þessa máls í iðnrn. hefur verið lögð á það rík áhersla að tryggja að ýtrustu kröfur um mengunarvarnir og umhverfisvernd verði gerðar í hinu nýja álveri. Í mengunarreglugerð þeirri sem nú gildir eru m.a. kröfur um loftgæði sem eru afar strangar varðandi brennisteinstvíildi. Hins vegar eru þar ekki kröfur varðandi flúor. Það er hugsanlegt að á grundvelli reglugerðarinnar kynni að verða krafist mismunandi mengunarvarna eftir því hvar álverið verður staðsett. Slíkt mun m.a. ráðast af dreifingarspá um loftmengun sem nú er unnið að, m.a. af norskum ráðgjöfum iðnrn., Norsk Institutt för luftforskning, NILU. Það sem er kjarni málsins að sjálfsögðu er að alls staðar verði eftir aðstæðum gerðar sömu kröfur frá sjónarmiði manneskjunnar, frá sjónarmiði gróðurfars og dýralífs, eftir því hvernig aðstæður bjóða.

    Það er gert ráð fyrir að í hinu nýja álveri verði notuð framleiðslutækni frá hinu franska fyrirtæki Pechiney sem stendur einna fremst í veröldinni í smíði slíkra tækja. Tæknin verður hin fullkomnasta sem völ er á eða önnur hliðstæð tækni þeirri sem Pechiney hefur boðið. Reynslutölur frá álverum sem eru byggð með þessari tækni sýna að með svokallaðri þurrhreinsun á útblæstri frá álverinu má ná um 98% hreinsun af því flúormagni sem frá bræðsluferlinu kemur. Í þessu sambandi má nefna að flúor í útblæstri álvera í Noregi minnkaði úr 5,4 kg á hvert framleitt tonn árið 1960 í 1,05 kg á tonn að meðaltali árið 1988, þ.e. niður í minna en fimmtung af því sem var fyrir 30 árum. Þessar tölur gefa einnig til kynna þá byltingu sem orðið hefur í mengunarvörnum í álverum og líka í álverunum sem vinnustað. Það er því með engu móti hægt að bera nýtt álver, sem nú skal reist, saman við ver sem voru reist á sjöunda áratugnum, t.d. álver Ísals í Straumsvík.
    Í því sambandi vil ég þó geta þess að nú er verið að setja vélknúinn lokunarbúnað á bræðslukerin í Ísal, auk ýmissa annarra aðgerða til að draga þar úr mengun. Vinnuumhverfi í nútímaálveri er því annað og betra en í gömlum álverum sem oft er miðað við í málflutningi um þetta efni. Þannig er ekki þörf á því lengur að opna jafnan bræðslukerin til þess að sinna þeim og í raun felast mörg
störf í kerskála í því núorðið að fylgjast með stjórntækjum. Slík störf henta, a.m.k. flest hver jafnt konum sem körlum.
    Í könnun þeirri sem bandaríska verkfræði- og byggingarfyrirtækið Bechtel og kanadíska ráðgjafarfyrirtækið Lavalin gerði á hagkvæmni þess að reisa og reka nýtt álver á Íslandi er gert ráð fyrir rúmlega 600 ársverkum í nýju álveri. Umrædd ráðgjafarfyrirtæki könnuðu sérstaklega hvað ætla mætti að mörg starfa í nýju álveri hentuðu konum jafn vel og körlum og komust að þeirri niðurstöðu að allt að þriðjungur þeirra, eða rúmlega 200, mundu verða eftirsóknarverð störf fyrir konur. Alls er gert ráð fyrir að til byggingar álversins þurfi um 2400 ársverk. Þar má ætla að um fimmtungur verði erlent vinnuafl. Stofnkostnaður við byggingu þessa mikla iðjuvers er áætlaður 42 milljarðar kr. á verðlagi ársins 1989 og er áætlaður framkvæmdatími 36--40 mánuðir. Við rekstur álversins er gert ráð fyrir rúmlega 600 ársverkum þegar það er komið í fulla framleiðslu, eins og ég hef þegar nefnt.
    Þeir sérfræðingar sem fylgjast með þróun á málmmarkaði spá stöðugri aukningu í notkun áls á næstu árum. Það er gert ráð fyrir stöðugri aukningu í öllum helstu greinum eftirspurnar, þ.e. til byggingariðnaðar, sem er sú grein sem nú nýtir mest af áli, umbúðaiðnaðar, sem er álíka stór notandi en vex þó hraðar, en aðrir sem nýta ál í verulegum mæli eru framleiðendur heimilistækja, flutningatækja og ýmiss konar rafbúnaðar. Heildarnotkun á hrááli í heiminum er nú um 17 millj. tonna og þar af er notkunin í Vestur-Evrópu rúmlega 4,2 millj. Því er spáð að til aldamótanna næstu muni notkun áls í

Vestur-Evrópu aukast í um það bil 4,6 millj. tonna. Heildarframleiðslugeta álveranna í Vestur-Evrópu er nú um 4 millj. tonna, en því er spáð að um aldamót hafi framleiðslugetan í Vestur-Evrópu dregist saman í um það bil 3,6 millj. tonna. Það er því þörf á innflutningi á áli til Vestur-Evrópu um næstu aldamót um eina milljón tonna.
    Atlantsálsaðilarnir áætla að mestur hluti þeirra 200 þús. tonna af áli sem þeir ráðgera að framleiða hér á landi á hverju ári eftir 1994 verði flutt til Vestur-Evrópu. En reyndar starfa þau fyrirtæki sem að þessu verki standa á báðum mörkuðunum. Beggja vegna Atlantsála eru Atlantsálsfyrirtækin með sölu, einkum Alumax sem hefur mikla framleiðslu, bæði víða um Bandaríkin og um Vestur-Evrópu.
    Byggðastofnun hefur gert nokkra athugun á áhrifum nýs álvers á búsetu og vinnumarkað og í þeim dæmum sem lýst er í grg. með frv. er miðað við staðsetningu ýmist í Eyjafirði, Reyðarfirði eða á höfuðborgarsvæðinu. Að mati stofnunarinnar kemur ávallt hluti af margfeldisáhrifum nýrra starfa í álverinu fram á höfuðborgarsvæðinu óháð því hvar á landinu það yrði reist. Að teknu tilliti til þessara áhrifa, margfeldisáhrifanna, mundi nýtt álver sem reist yrði á höfuðborgarsvæðinu leiða af sér um 1900 störf á því svæði. Nýtt álver við Eyjafjörð mundi skapa þar um 1500 ársverk eða sem jafngildir um 17% fjölgun starfa, en álver við Reyðarfjörð mundi hafa í för með sér um 1300 ársverk heima í héraði eða sem jafngildir um 56% fjölgun starfa á því vinnusvæði. Grg. þessi er birt sem fskj. nr. 4 með frv. Stofnunin vinnur nú að endurbótum á þessum athugunum og á sambærilegri athugun miðað við staðsetningu við Þorlákshöfn og þar með atvinnuáhrifum á Árborgarsvæði, á Suðurnesjum, þ.e. sunnan við Straumsvík, og við Hvalfjörð.
    Þjóðhagsstofnun hefur kannað þjóðhagsleg áhrif 200 þúsund árstonna álvers, sem reist yrði á árunum 1991--1994, og virkjana sem slíkum framkvæmdum mundu tengjast, eins og lýst er í fskj. 5 með frv. Þetta starf er enn í gangi, en niðurstaðan sem nú hefur fengist er sú að hagvöxtur á mælikvarða landsframleiðslunnar er talinn verða um 3% á ári á tímabilinu 1991--1997 verði hér reist nýtt álver af þessari stærð, sem bera má saman við þá spá sem Þjóðhagsstofnun hefur gert, án slíkra framkvæmda, sem felur í sér um 2% hagvöxt á ári. Álverið mundi því leiða til þess að landsframleiðslan yrði rúmlega 5% hærri árið 1997 en hún ella yrði. Hér er um verulega aukningu hagvaxtarmöguleika að ræða, aukningu sem mundi gera það að verkum að metin milli Íslands og nálægra landa þeirra sem við gerum oftast samanburð við í hagvexti yrðu jöfnuð, en því miður hafa Íslendingar dregist nokkuð aftur úr grannþjóðum sínum hvað þetta varðar síðustu tíu árin.
    Þá er talið að kaupmáttur ráðstöfunartekna líkt og landsframleiðslan yrði um 5% hærri í lok þessa fimm ára tímabils með álveri en án þess og atvinnuleysið fimmtungi úr hundraðshluta minna. Erlendar skuldir mundu óhjákvæmilega aukast nokkuð á

framkvæmdaskeiðinu og ná hámarki árið 1994 og verða þá um 53% af landsframleiðslunni. Síðan færu þær lækkandi í hlutfalli við framleiðslu. Til samanburðar má nefna að erlendar skuldir án álversins og nauðsynlegra orkuframkvæmda þess vegna yrðu um 40% af landsframleiðslunni 1994.
    Ég vil þó halda því fram við þessa virðulegu þingdeild að slík skuldaaukning sé ekki áhyggjuefni. Þvert á móti væri hún vísbending um það að greiðslugeta þjóðarbúsins muni fara vaxandi sem stuðlar að því að við gætum aukið okkar lánstraust en ekki rýrt það. Þjóðhagsstofnun áætlar að útflutningsverðmæti afurða frá álverinu verði um 21 milljarður kr. miðað við meðalgengi bandaríkjadollars 1989. ( Forseti: Svo mikla virðingu ber forseti
fyrir hátíðisdegi verkalýðsins 1. maí að hann vill að þessum fundi ljúki fyrir kl. 12.) Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Það er minna en hálf mínúta eftir af því og ég vona að ég fái að ljúka ræðunni. --- Í þessu felst að samanlagður útflutningur áls gæti orðið rúmur fimmtungur af heildarútflutningi árið 1997, ef þessar áætlanir standast.
    Hæstv. forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um frv. að sinni, en ítreka nauðsyn þess að heimildir þær til virkjana og undirbúnings þeirra á þessu ári, sem frv. fjallar um, verði veittar. Brýnt er að nauðsynlegur undirbúningur orkusölu til væntanlegs álvers geti hafist á þessu ári. Þess vegna er frv. flutt.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. að lokinni þessari umræðu.