Grunnskóli
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Fyrr í vetur lagði ég fyrir Alþingi frv. til laga um grunnskóla þar sem gert var ráð fyrir heildarendurskoðun á grunnskólalögum, núgildandi ákvæðum þeirra. Frv. hefur sætt meðferð í hv. Nd. og verið ítarlega um það fjallað. Niðurstaða hv. menntmn. Nd. var sú að þar sem hér er um að ræða stjórnarskrá grunnskólans svo að segja í landinu þá væri nauðsynlegt að fjalla ítarlegar um málið. Engu að síður væri ástæða til þess að taka út úr málinu einn þátt þess og reyna að ná afgreiðslu á því á þessu þingi þar sem um er að ræða það jafnréttisákvæði að sex ára börn, hvar sem þau búa á landinu, geti sótt skóla á jafnréttisgrundvelli. Þessir þættir voru teknir út úr grunnskólafrv. í sameiginlegu nál. menntmn. Nd. þar sem fulltrúar allra flokka sem þar eiga sæti skrifuðu upp á málið. Það var samstaða um málið einnig í atkvgr. í hv. Nd. og eina breytingin sem þetta frv. gerir ráð fyrir snertir, eins og ég sagði áður, sex ára börnin.
    Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða það mál frekar að sinni sérstaklega þar sem það hefur þegar reyndar verið rætt í tengslum við önnur mál hér í hv. Ed. og legg því til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.