Gjald af erlendum lánum vegna skipasmíða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég sé að verkin tala hjá ríkisstjórninni. Hún er ekki fáanleg til þess að endurgreiða þetta sérstaka gjald vegna innlendra skipasmíða. Það eru nú efndirnar við fögru orðin. Í ræðu hæstv. fjmrh. í gær kom fram að uppsafnaður söluskattur yrði ekki endurgreiddur vegna sl. árs. ( VS: Því var ekki svarað.) Þögn er sama og yfirlýsing í þessu efni þannig að það eru engar horfur á því að við það verði staðið heldur. En ég veit, herra forseti, að miklum fjármunum verður varið til þess að gefa út fagrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um umhyggju hennar fyrir skipasmíðaiðnaði samt sem áður. Þetta bitnar auðvitað illa á stöðum eins og Akranesi, stöðum eins og Akureyri. Ég segi nei.