Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 5. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson):
    Herra forseti. Ég hef lofað --- þá er hæstv. menntmrh. mættur. Ég ætlaði að fara að segja það að ég hefði lofað hæstv. menntmrh. því að ég skyldi ekki halda hér ræðu mína um þetta mál öðruvísi en hann væri viðstaddur. Ég sé að hann er kominn hér. (Gripið fram í.) Ég hef alveg beint samband við hæstv. menntmrh. hér úr ræðustólnum.
    Í umræðunum hér um áramótin 1987/1988 sagði ég að ég teldi að dómurinn um þá fiskveiðistefnu sem við höfðum búið við þá í þrjú ár og var verið þá að samþykkja til þriggja ára mundi verða sá að þar hefðu átt sér stað mikil mistök þegar sú leið var valin að afhenda útgerð umráðarétt yfir fiskveiðiréttindunum og ég er enn sömu skoðunar þó að nú eigi enn að fara að framlengja þetta kerfi, sem betur fer ekki til neins ákveðins árafjölda heldur ótímabundið. Ég undirstrika það að ég lít svo á að þegar verið er að samþykkja þetta ótímabundið þá séum við að samþykkja það til þess að við getum breytt fiskveiðistjórnarlögunum hvenær sem við viljum. Um leið og búið er að gera þau að venjulegum lögum er hægt að breyta þeim með einfaldri samþykkt Alþingis. Við þurfum ekki að bíða eftir neinum ákveðnum gildistíma laganna, og við þurfum reyndar aldrei að gera það, en menn voru með hugann við fyrri lög á þann veg að menn töldu að þau hefðu verið samþykkt til þess að gilda í þrjú ár. M.a. vegna þess tel ég að ekki hafi komið til þess á tímabilinu að þeim yrði breytt þó að þeir, sem með stjórn þessara mála hafa farið á liðnum árum, kannski fyrst og fremst liðnum missirum, fyndu fyrir því að kerfið hafði bilað og skilaði ekki því sem þeir höfðu ætlast til og á því voru ýmsir vankantar sem nauðsynlegt var að breyta til þess að það væri nú ekki enn þá verra en það var raunverulega, þ.e. svokallaður sóknarmarkshluti kerfisins var farinn að virka alveg öfugt við það sem tilætlunin með kerfinu var.
    Undirbúningur að framlagningu þessa frv., sem hér er verið að fjalla um, er búinn að vera ærið langur. Sett var á stofn samráðsnefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna og ýmissa aðila sem kallaðir voru hagsmunaaðilar, voru það og eru, og margir fundir haldnir í þeirri nefnd til undirbúnings frv. sem við erum að fjalla hér um. Svo virtist á tímabili, eða ráðuneytið gaf það út, að mikil samstaða væri í þessari nefnd um það að skila sameiginlegu áliti. Þegar hinir svokölluðu starfshópar úr þessum nefndum skiluðu áliti á sl. hausti var mikið af því látið að um málið væri ein allsherjarsamstaða. Það gerðist m.a. vegna þess að meiri hlutarnir í hópunum, sem voru stundum fulltrúar úr ráðuneytinu og framámenn ýmissa hagsmunahópa, skiluðu yfirleitt áliti á þann veg að menn vildu halda þessu kerfi áfram eða byggja á því í aðalatriðum. Sjónarmið okkar sem vorum þar í minni hluta voru talin, ég vil nú ekki segja að þau hafi verið talin það lítilsigld, heldur létu svo fáir aðilar að sér kveða þar að hitt var talið yfirgnæfandi.
    Ég benti á það einmitt í umræðum um þetta að

hlutirnir væru nú ekki svona einfaldir heldur væri greinilegt að bæði í ráðgjafarnefndinni og úti í þjóðfélaginu væri mikil umræða á annan veg en þann að framlengja þá fiskveiðistefnu sem við höfum búið við á undanförnum árum. Sú varð raunin að þegar til þess kom að ráðgjafarnefndin skilaði af sér í janúar sl. skilaði meiri hluti aðila, mætti segja, sérálitum, sérálitum sem voru afgerandi á þann hátt að þau voru með beinar tillögur um það að breyta þessu kerfi. Frv. var síðan lagt hér fyrir hv. Alþingi 15. febr. sl. og fyrsti fundur í sjútvn. deildarinnar þar sem fjallað var um frv. var 23. febr. Þann sama dag mun hafa verið mælt fyrir frv. hér í hv. deild og 1. umr. átti sér stað þá á sérstökum tímapunkti hér í hv. deild rétt ... (Gripið fram í.) Menntmrh. hefur sagt að hann muni láta slag standa með það að fara héðan svona í 10 mínútur, missa þann hluta úr ræðunni og hann biður bara hv. deildarþingmenn að fylgjast vel með þannig að ég sé ekki að segja eitthvað sem ekki falli saman við fyrrverandi og núverandi stefnu Alþb. í þessum málum. ( HBl: Ólafur kemur nú í staðinn Ragnar. Þú sérð að hann passaði upp á.) Það er kannski ekki alveg sama hvort það er Ólafur Ragnar, hæstv. fjmrh., eða hvort það er hæstv. menntmrh. Svavar Gestsson. Við höfum nú heyrt það að þeir hafa svolítið breytilegar skoðanir á ýmsum hlutum. Annar þeirra styður ákveðið G-listann en hinn svona kannski og kannski ekki hér í Reykjavík. ( Gripið fram í: Bæði og.) Já. Þó að Ólafur telji allt gott og gilt sem ég segi getur verið að menntmrh. finnist nauðsynlegt að fylgjast með því og gagnrýna það. ( Gripið fram í: Er ástandið svona í flokknum?) Svona er ástandið í flokknum. ( HBl: Það er gott að Ólafur Ragnar er kominn, hæstv. fjmrh.) Það er mjög gott. Ég er ánægður yfir því að hafa mína ráðherra, sem ég kalla svo, hér í þingsalnum meðan ég held ræðuna. (Gripið fram í.) Já. Þó að ég beri nú mikla respekt fyrir hæstv. umhvrh. Júlíusi Sólnes, þá er ég nú ekki farinn að kalla hann ,,minn ráðherra``. ( Umhvrh.: Það kemur seinna.) Það gæti komið einhvern tíma seinna, já.
    Ég var að skýra frá því að þegar 1. umr. um þetta frv. fór fram hér í hv. deild var það eins og oft hefur komið fyrir áður að tíminn var nokkuð takmarkaður. Þetta mun hafa verið síðasti fundur deildarinnar fyrir
Norðurlandaráðsfund og þinghlé. Og það varð þess valdandi að ekki nema sumir af hv. þm. í deildinni sem ætluðu sér að fjalla um frv. gerðu það og það var,
að mínu mati, og ég held að ég hafi nokkra vissu fyrir því að ég sé að fara þar með rétt mál, vegna ákveðinna óska stjórnenda þingsins og jafnvel ríkisstjórnarinnar um að umræðan yrði sem styst þannig að hægt væri að ganga frá málinu á þessum knappa fundartíma sem var til ráðstöfunar. Ég undirstrika það hins vegar að í ráðgjafarnefndinni var það samhljóða álit að nauðsynlegt væri að vinna þetta mál á þann hátt að það yrði afgreitt hér af hv. Alþingi fyrir þinglok og sumir hverjir í nefndinni voru óánægðir yfir því að ekki skyldi hafa unnist tími til þess að afgreiða málið í desember. Það fuku jafnvel

nokkuð stór orð út í þá tillögu hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar þegar hann stakk upp á því á fundi rétt fyrir jól að þessu máli yrði frestað yfir áramótin sem var þó raunin á að gert var. Og eins og ég sagði áðan hafðist það að ljúka málinu í janúar og ég held að það hafi verið, ég held að ég fari þar með rétt mál, 23. jan. sem það var afgreitt út úr nefndinni, þ.e. mánuði áður en 1. umr. fór hér fram í hv. deild. Þá voru allir mjög hvetjandi þess að nú yrði tekið til við að ræða málið hér á hv. Alþingi til þess að báðar deildir hv. Alþingis fengju nægan tíma til að fjalla um málið. Ég er alveg viss um það að allir nefndarmenn gengu út frá því sem vísum og öruggum hlut að það kæmi aldrei til að önnur deild þingsins, við vissum nú ekki þá fyrir hvora deildina þetta yrði lagt, í þessu tilfelli Nd., stæði jafnvel frammi fyrir því að hafa þetta mál til umfjöllunar kannski aðeins í tvo daga, þetta mikilsverða mál sem talið var nauðsynlegt að fjalla um á vettvangi stjórnmálaflokkanna og á vettvangi svokallaðra hagsmunaaðila í marga mánuði að önnur deild Alþingis fengi ekki nema tveggja daga tíma til þess að fjalla um þetta mikilsverða mál. Ég er alveg viss um að ef ég hefði sagt það að ég þekkti nú vinnubrögðin á þann veg að þessu máli hefði alltaf verið ýtt undan og það hefði verið talin óskastaða að leysa þetta mál á einhverri ögurstund hefðu menn ekki talið mig fara þar með rétt mál. Það gæti ekki verið að stjórn þingsins og ráðuneytisins væri á þann veg að málinu yrði haldið hér inni í sjútvn. Ed. allar götur frá 23. febr. til 2. maí. (Gripið fram í.) Ja, þetta mun hafa verið 30. apríl sem það var tekið út úr nefndinni, til 30. apríl. En þetta er raunin.
    Mér þykir mjög miður að slíkt skuli hafa skeð vegna þess að, eins og ég hef sagt áður, ég veit að almenningur í landinu ætlaðist til þess að hv. Alþingi hefði tíma og aðstöðu til að skoða þetta frv. mjög rækilega og að hv. þm. veltu ýmsum möguleikum fyrir sér og reyndu að komast að breiðu samkomulagi um lausn þessa máls. Sú hefur því miður ekki orðið raunin á.
    14. mars var byrjað að ræða frv. á sameiginlegum fundum beggja deilda og voru haldnir sjö sameiginlegir fundir. Á þeim fundum var fyrst og fremst rætt við svokallaða hagsmunaaðila sem flestir höfðu verið þátttakendur í ráðgjafarnefndinni sem fjallaði um frv. á undirbúningsstigi. 9. apríl var svo farið að skoða frv. í sjútvn. Ed. Tólf fundir hafa verið haldnir í þeirri virðulegu nefnd. Frv. var yfirfarið rækilega og nefndarmenn gerðu grein fyrir skoðunum sínum á frv. og einnig stefnu flokka sinna í málinu. Ég undirstrika það sérstaklega að farið var sérstaklega vel yfir frv. sjálft eftir að hætt var að fjalla um málið á sameiginlegum fundum. Formaður nefndarinnar stjórnaði því verki mjög vel og í annan tíma hef ég ekki verið viðstaddur umfjöllun um frv. sem hefur verið rækilegar og betur yfirfarið en þetta frv. var yfirfarið í nefndinni. Og eins og ég sagði tíunduðu menn skoðanir sínar og það kom greinilega í ljós að mikill ágreiningur var um málið og það vissu það svo sem allir við upphaf umræðnanna. Það var bæði

ágreiningur innan nefndarinnar og það var vitað líka að viss ágreiningur var í sumum flokkum a.m.k. En það virtist, og það segi ég, vera á þann hátt að ríkisstjórnin sem þetta frv. kom frá --- þetta var stjfrv. þó að það hefði verið á þann veg að sumir flokkar a.m.k. eins og t.d. Alþb. lýstu ekki yfir beinum stuðningi við frv. heldur lýstu því yfir að heimilt væri að leggja það fram en allir þingmenn flokksins hefðu og mundu ef þannig lægi fyrir flytja brtt. og styðja brtt. og í grundvallaratriðum væri flokkurinn ekki sammála ýmsum höfuðatriðum í frv. Á þessum fundum var ekki, þótt stjórn hv. þm. Stefáns Guðmundssonar hafi verið góð á nefndafundunum, gerð nein tilraun til að samræma sjónarmið innan nefndarinnar. Það gerðist ekkert í því máli. Við flettum frv. og skoðuðum það allar götur til 21. apríl. Þá voru liðnir nærri tveir mánuðir frá því að frv. var lagt fram í deildinni og við stóðum að mörgu leyti í sömu sporum og þegar við fjölluðum um málið hér í hv. deild 23. febr.
    Þá gerðist það allt í einu að haldinn er fundur --- ja, það er kannski ekki rétt að segja allt í einu, það höfðu gerst smáhlutir á undan. Við fréttum af því, nefndarmenn í sjútvn., að kallaður hefði verið saman fundur ráðherra og þar hefðu mætt líka tveir stjórnarþingmenn, hv. þm. Stefán Guðmundsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson, þ.e. formenn úr sjávarútvegsnefndunum. Þetta var á þeim tíma sem málið var í höndum sjútvn. Ed. þannig að okkur fannst þetta svolítið skrýtin vinnubrögð, að allt í einu væru hafnir samráðsfundir til hliðar við
nefndina á þennan hátt, en formaður okkar bætti fljótt úr því með þessum fundi sem ég var að nefna hér áðan, 21. apríl. Hann gekkst fyrir því að slíkur fundur yrði haldinn í góðu samkomulagi við okkur hina stjórnarsinnana í nefndinni. Og þá gerist það, eins og reyndar er komið fram hér í umræðunni áður og hv. 3. þm. Vestf. benti á, að fram koma tillögur frá aðilum ríkisstjórnarinnar sem voru á þann hátt að þar var ekki verið að breyta orðalagi eða fullkomna aflamarkskerfið eða setja upp einhverjar girðingar við það að sala á óveiddum fiski yrði eitthvað pínulítið heft, heldur voru það hreinar grundvallarbreytingar á fiskveiðistefnunni. Það var sem sagt lagt til að tekinn yrði ákveðinn hluti af því aflamarki sem leyft yrði að veiða og settur á uppboð og tekinn af honum auðlindaskattur. Við fengum síðan í framhaldi af þessu að sjá plögg sem staðfestu það að einn af stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar bar þessa stefnubreytingu sérstaklega fyrir brjósti, þ.e. Alþfl. Ég þarf svo sem ekki að fjalla mikið meira um það vegna þess að hv. 3. þm. Vestf. útskýrði það allrækilega hér í ræðu sinni áðan og eins hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson.
    En þarna voru allt í einu komnar tillögur og nú var allt í einu kominn tími til þess að fara að ræða þetta mikilsverða mál, ekki á þeim grunni sem gert var ráð fyrir í ýmsum samþykktum sem komið höfðu fram bæði í bókunum í ráðgjafarnefndinni og ýmsum umsögnum sem nefndin hafði fengið um að það þyrfti

að breyta frv. á þann veg að byggðirnar nytu meira öryggis í sambandi við úthlutun aflamarks og það höfðu líka komið beinar tillögur um það að fiskvinnslufólkið, fiskvinnslustöðvarnar, nyti þar einhvers réttar. Nei, það var ekki tekið undir þessar hugmyndir, heldur var nú allt í einu tekið undir þær hugmyndir sem ég var að nefna áðan, að taka einhvern hluta af aflamarkinu, aflaheimildunum og úthluta þeim á grunni uppboðs eða með því þar með að taka beint gjald fyrir það, fyrsta skrefið til auðlindaskatts.
    Það voru að koma ýmsar bókanir. Við fórum að sjá tillögur, eins og ég nefndi. Ég held að rétt sé að ég lofi hv. þm. að heyra fyrstu tillögurnar sem komu fram í sambandi við breytingarnar á frv. af því að þessi dagur og dagsetning hefur verið mönnum nokkuð töm til umræðu. Það sé rétt að heyra hverjar þær tillögur voru sem voru lagðar fyrir þennan sameiginlega fund ráðherranna og fulltrúa stjórnarflokkanna í sjútvn. Ed. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þessar hugmyndir, sem kallaðar voru, um stjórn fiskveiða, Hugmyndir til að samræma sjónarmið, Drög 21.4.1990, með leyfi forseta. Textinn heitir ,,Byggðamál og leiga veiðiheimilda``:
    ,,Fram hafa komið sjónarmið um að enda þótt nauðsynlegt sé að tryggja möguleika á þróun í útgerð og fiskvinnslu beri að taka í meira mæli en gert hefur verið tillit til hagsmuna einstakra útgerðarstaða sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti. Í frv. er komið til móts við þessi sjónarmið með því að kveða á um tilkynningarskyldu við sölu á skipi eða veiðiheimildum. Hugmyndir um forkaupsrétt við sölu skips úr byggðarlagi virðast ekki geta náð tilgangi sínum vegna þess hversu auðvelt er að sniðganga þær. Sama á við um hugmyndir um að ákveðinn hluti veiðiheimilda verði eftir við sölu skips úr byggðarlagi. Lagt er til að Úreldingarsjóður verði efldur og honum ætlað stærra hlutverk en gert er í því frv. sem nú er til umfjöllunar í Ed., m.a. varðandi byggðamál. Sjóðnum verði árlega fengnar til ráðstöfunar aflaheimildir er nema helmingi þeirra aflaheimilda sem nýttust árið á undan vegna skerðingar á aflamarki við ísfisksútflutning. Verði verulegt atvinnuleysi í byggðarlagi vegna sölu fiskiskipa milli útgerðarstaða er stjórn sjóðsins að fenginni umsögn stjórnar Byggðastofnunar heimilt að bjóða til leigu hluta þessara veiðiheimilda gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu á viðkomandi stað. Er í þessum tilvikum heimilt að víkja frá ákvæðum 7. gr. frv. um Úreldingarsjóð varðandi verðlagningu veiðiheimilda sé þess þörf. Þær aflaheimildir sem ekki verður ráðstafað til að mæta staðbundnum vandamálum með ofangreindum hætti skal stjórn sjóðsins leigja hæstbjóðanda samkvæmt reglum 2. mgr. 7. gr. úreldingarsjóðsfrv. Þessar ráðstafanir verða gerðar með breytingum á frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa.``
    Hér með hef ég lesið 1. liðinn í þessum hugmyndum og þarna er fyrsta kveikjan að þessum áfanga á sölu veiðileyfa sýnd. Hún er tengd því að

nota Úreldingarsjóðinn sem einhvern björgunarsjóð þegar að því kæmi að farið yrði að finna fyrir kerfinu, það væri farið að virka á þann hátt að byggðirnar stæðu uppi án nokkurs aflaréttar, þ.e. kvótalausar.
    Það er svolítið skemmtileg setning í þessu í sambandi við það sem síðar kom fram. Það er sagt að ,,hugmyndir um forkaupsrétt við sölu skips úr byggðarlagi virðist ekki geta náð tilgangi sínum vegna þess hversu auðvelt er að sniðganga þær``. Núna er aftur á móti sagt að forkaupsréttur sveitarfélaga á skipum sé hið mesta byggðamál og meira að segja er það rökstutt á þann veg að með því sé verið að verða við óskum Alþb. um byggðakvóta. Í þessu plaggi hér er því lýst yfir að forkaupsrétturinn sé tiltölulega gagnslaus, en nú er sagt, þegar verið er að mæla fyrir ágæti breytingartillagnanna, að forkaupsrétturinn sé hluti af byggðakvótaóskum Alþb. Ég vil nú frekar taka trúanlega þá setningu sem stendur
hér og kom í upphafi inn í þessar umræður en þær fullyrðingar sem ýmsir hafa verið að halda fram um það að ákvæðið um forkaupsrétt sveitarfélaga komi að nokkru gagni til þess að halda fiskveiðikvóta í byggðarlögunum. En ég kem nú að því máli síðar í ræðu minni.
    Önnur setning er sérstök hér og hún mun lifa að einhverju leyti enn þá. Hún er um þann fisk sem til sjóðsins skuli ráðstafað og hljóðar þannig í þessari grein: ,,Sjóðnum verði árlega fengnar til ráðstöfunar aflaheimildir er nema helmingi þeirra aflaheimilda sem ekki nýttust árið á undan vegna skerðingar á aflamarki við ísfisksútflutning.`` Við sem höfum rætt þessi mál við öll kvótafrv. höfum gengið út frá því sem vísu að skerðingin á ísfisksútflutningnum sé ekki í eðli sínu skerðing á kvóta, hún sé fyrst og fremst viðurkenning á rýrnun í sambandi við útflutning á ísfiski, fyrst og fremst slík viðurkenning. Og ef á nú að fara að taka rýrnunina, þetta er góð hagfræði og gengur kannski vel upp þegar á að fara að gylla hlutina fyrir mönnum, og gera hana að stofni til úthlutunar, ja, það getur vel verið að það sé hægt að segja fólki að þetta sé mögulegt. Og það er vitaskuld alltaf hægt að búa til einhverjar tölur. En þetta er ekkert annað en blekking. Sá kvóti sem tekinn verður til þessara hluta orsakast ekki af þessu heldur verður hann tekinn frá einhverjum öðrum. Það getur ekki gerst öðruvísi vegna þess að hér er ekki um neinn eðlilegan kvóta að ræða heldur eins og ég sagði áðan, hér er fyrst og fremst verið að taka mið af því hvað fiskurinn rýrnar í flutningum og það er eðlilegt að skerða viðkomandi skip um þetta kvótahlutfall vegna útflutnings á ísfiski.
    Í þessari grein er líka farið að ýja að því að nota Úreldingarsjóðinn og þennan rýrnunarfisk til að úthluta til byggðarlaga sem af einhverjum ástæðum hafa ekki nægilegan fisk til vinnslu, kvóti þeirra hefur minnkað.
    Ég ætla þá, virðulegur forseti, með leyfi að lesa áfram. Þá er það annar liður:
    ,,Tómstundaveiðileyfi. Lagt er til að skilyrðum frv. til að fá leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni verði haldið

óbreyttum sem og skilgreiningu á veiðum í atvinnuskyni og tómstundaveiðum en niður verði fellt ákvæðið um að sérstakt leyfi þurfi til að stunda tómstundaveiðar.``
    Í þessum punkti kom fram tillaga sem meginhluti nefndarnanna var sammála um. Þarna er lagt til að felld verði niður sú merkilega klásúla í frv. að hver sá sem léti sér detta í hug að skjótast fram á skemmtibát eða öðru til, ja, jafnvel sjóstangaveiða, eða hvað annað, þyrfti til þess sérstakt leyfi ráðuneytisins og að þessi hluti hafi ekki verið gagnrýndur og yfirleitt hafi menn tekið undir það að nóg sé nú miðstýringin og stjórnunin þó að menn þurfi ekki að sækja um leyfi til þess að iðka tómstundir sínar.
    Þá er það þriðji liðurinn, virðulegi forseti.
    ,,Framkvæmd. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á útgerðarháttum og stjórn fiskveiða á undanförnum árum hafa stóraukið þau verkefni sem stjórnsýslunni er falið að leysa á sviði upplýsingaöflunar og úrvinnslu, eftirlits og stjórnunar. Þessi verkefni hafa verið leyst af þeim stofnunum sem fyrir voru án verulegra breytinga á mannafla eða tilkostnaði. Enda þótt þessi lausn hafi verið skynsamleg og sé tvímælalaust ódýrust er ljóst að æskilegt er að gera ýmsar endurbætur á skipulagi stjórnsýslu á sjávarútvegssviðinu. Hins vegar hafa allar slíkar breytingar óhjákvæmilega nokkurn kostnaðarauka í för með sér. Í tengslum við umfjöllun um frv. um stjórn fiskveiða hafa einkum þrjár hugmyndir í þessu efni verið ræddar.``
    Hér er líka verið að nefna í fyrsta skipti frá hendi ríkisstjórnar tillögur um breytingar á stjórnsýslunni og nefndir hér á eftir þættir sem til greina kæmi frá hendi stjórnsýslunnar að breyta í tengslum við eða í framhaldi af samþykkt frv. Þá er það þeir punktar, virðulegi forseti:
,,1. Að sett verði á fót sérstök stofnun er annist m.a. útgáfu veiðileyfa, öflun og skráningu upplýsinga, almennt veiðieftirlit og úrskurði um upptöku ólöglegs sjávarafla. Stofnun þessi (Fiskveiðistofnun) taki við hlutverki veiðieftirlits sjútvrn., hluta af öðrum verkefnum ráðuneytisins, skýrslusöfnun og úrvinnslu Fiskifélags Íslands, rekstri tölvumiðstöðvar Hafrannsóknastofnunar og skráningu og vinnslu ýmissa gagna er nú á sér stað á Hafrannsóknastofnun. Störf við stofnunina yrðu nálægt 35--40. Frá ráðuneyti flyttust 2--4 starfsmenn og 21 veiðieftirlitsmaður, frá Fiskifélagi flyttust 3--5 starfsmenn og frá Hafrannsóknastofnun 2--4 starfsmenn. Bæta þyrfti við 5--10 nýjum stöðugildum. Sé talið rétt að fara þessa leið má kveða á um það í III. kafla frv. um stjórn fiskveiða.``
    Hér koma fram allmerkilegar tillögur sem ég held að sé rétt að vekja svolitla athygli á. Það er í fyrsta lagi að þarna er lagt til að koma á fót stofnun sem í einu og öllu á að annast það verkefni sem sjútvrn. hefur gert á undanförnum árum og margir hafa talið vera of viðamikið í höndum eins ráðuneytis og of margþætt. Það er lagt til að stofnunin annist útgáfu veiðileyfa, öflun og skráningu upplýsinga og almennt

veiðieftirlit og úrskurði um upptöku ólöglegs sjávarafla. Það er komið allt saman á eina hendi.
En þessu fylgir nokkuð. Það er ekki nóg að þetta verði tekið út úr sjútvrn., heldur þarf að gera nokkuð meira. Það er sagt að það eigi að taka við hlutverki sjútvrn., hluta af hlutverki veiðieftirlits sjútvrn., hluta af öðrum verkefnum ráðuneytisins, skýrslusöfnun og úrvinnslu Fiskifélags Íslands. Þetta hef ég nú ekki séð á prenti eða nefnt fyrr.
    Hér er sem sagt farið að hugleiða það að leggja niður Fiskifélag Íslands, grunninn undir starfsemi þess og færa það í einhverja allsherjar fiskveiðistofnun sem yrði búin til, eins og hér er lagt til, við hliðina á sjútvrn. Og ekki nóg með það heldur er lagt til að það skuli dregið svolítið úr starfsemi Hafrannsóknastofnunar og ákveðinn hluti þeirrar stofnunar færður til þessarar nýju stofnunar sem ráðuneytið var að hugsa sér að búa til. Og til þess að mönnum lítist nú ekki vel á þetta, því að margir eru á móti því að leggja niður Fiskifélag Íslands og margir vilja ekki veikja starfsemi Hafrannsóknastofnunar og flestir eru á því að báknið sé nógu stórt og flestir eru á því að ekki eigi að fjölga mjög starfsfólki á þessu sviði nema til þess sé þá brýn þörf, þá er dæmið sett upp á þann máta að jafnvel þó að teknir séu menn frá Hafrannsóknastofnun og Fiskifélagi og allir starfsmenn sem starfa að þessu í sjútvrn., þá þyrfti samt að bæta 5--10 starfsmönnum við. Vitaskuld er verið að setja þarna upp mynd af dýru kerfi þannig að hv. þingmenn verði hræddir við það að breyta einhverju og hugsi að það sé best að hafa þetta allt óbreytt eins og það er. Sama miðstýrða kerfið inni í ráðuneytinu.
    Þetta voru samt merkilegar tillögur og segja nokkuð frá hugrenningum þeirra sem stjórna í sjútvrn. ef svo skyldi fara að þingmenn og almenningsvilji í landinu mundi þrýsta á sjútvrn. á þann veg að það yrði að sleppa einhverju af þessu miðstýringarvaldi sínu.
    Þá kemur að b-lið í þessari upptalningu, virðulegi forseti:
    ,,Að endurskoða í heild lögin um upptöku ólögmæts sjávarafla. Slík endurskoðun er nokkuð tímafrek og því óraunhæft að ætla að afgreiða ný lagaákvæði um þetta efni í heild sinni á þessu þingi. Í tengslum við afgreiðslu frv. um stjórn fiskveiða gæti sjútvrh. hins vegar lýst því yfir að frv. um þetta efni verði lagt fyrir Alþingi þegar á næsta hausti.``
    Um þennan þátt þarf að vísu ekki að fjölyrða. Þetta er góð yfirlýsing og þessi yfirlýsing hefur haldið áfram í því samningamakki sem ráðherrarnir hafa verið í og skiluðu af sér inn í sjútvn. sem brtt. nú fyrir helgina. ( HBl: Og þoldi ekki dagsins ljós.) Ekki nema sumt af því. Ég held að almennt séu menn á því að lögin frá 1976, um upptöku sjávarafla, séu á þann hátt að nauðsynlegt sé að endurskoða þau. Og eftir því sem ég hef heyrt mun hv. þm. Guðmundur Ágústsson, formaður þingflokks Borgfl., hafa fengið þá yfirlýsingu frá ríkisstjórnaraðilum að skipuð verði nefnd virtra lögfræðinga til þessara starfa. Tel ég það

hið besta mál og þetta mál þá væntanlega komið í þá höfn að við fáum frv. og síðan væntanlega lög á næsta hausti, ný lög um upptöku ólöglegs sjávarafla sem við margir hverjir teljum mjög nauðsynlegt og hér er sem sagt viðurkennt af ráðuneytinu. Þá kemur c-liður, virðulegi forseti:
    ,,Að kveða á um að úrskurðir um upptöku á ólögmætum sjávarafla skuli uppkveðnir af þriggja manna nefnd er sjútvrh. skipi og að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslukerfisins. Sjútvrn. annist áfram eftirlit og geri kröfur um upptöku til nefndarinnar. Ákvæði um slíka nefnd mætti hugsanlega stinga inn í III. eða IV. kafla frv. um stjórn fiskveiða enda þótt slík lagasmíð sé óneitanlega mjög klúðursleg.``
    Ég held nú að það sem verið er að leggja til hér sé að meginhluta til allt klúðurslegt, þannig að þessi tillaga er að mínu mati, ef ég lít á þetta á jákvæðan hátt, fyrst og fremst fyrsta uppástunga um það hvernig að skuli standa. Ég tel að hér séu ekki mótaðar tillögur um þennan þátt og það þurfi að standa einhvern veginn öðruvísi að en hér er lagt til. En samt, hér er verið að viðurkenna að þeirri aðferð sem notuð hefur verið hingað til, þ.e. að þessir hlutir séu allir í höndum ráðuneytisins, þurfi að breyta, og hér eru sem sagt fyrstu tillögur, fyrsta uppástunga um það hvernig væri hægt að leysa þetta mál. En tillögu um þennan þátt er ekki að finna í brtt. sem fram hafa verið lagðar.
    Þá er það fjórði liðurinn, virðulegi forseti:
    ,,Framsal aflaheimilda. Lagt er til að framsal aflaheimilda verði háð því skilyrði að það fiskiskip sem framselt er til hafi fyrir aflahlutdeild af þeirri tegund sem framseld er. Ráðherra verði heimilt að víkja frá þessu skilyrði að fenginni umsögn samráðsnefndar.``
    Það mun vera brtt. sem hnígur að þessu málefni í brtt. 1. minni hl. og tel ég að þarna sé frekar en hitt verið að laga frv.
    Fimmti liðurinn:
    ,,Hagkvæmnisathugun. Lagt er til að við frv. verði bætt ákvæði til bráðabirgða þar sem Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands verði falið að gera úttekt á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða og hagkvæmni þeirra. Skýrsla stofnunarinnar skal lögð fyrir sjávarútvegsnefndir Alþingis fyrir árslok 1991.``
    Um svona hugmyndir er allt gott að segja og einhver tillaga þessu lík mun vera í bráðabirgðaákvæðum í tillögum 1. minni hl. sjútvn.
    Og sjötti liðurinn og síðasti í þessum hugmyndum til að samræma sjónarmið er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Smábátar. Lagt er til að smábátar er bætist í flotann á árinu 1990 án þess að sambærilegir bátar séu úreltir fái aflahlutdeild er svari til meðalaflahlutdeildar báta í sama stærðarflokki. Um aflahlutdeild þessara báta gilda sömu reglur og um aflahlutdeild annarra skipa að öðru leyti en því að framsal hennar er óheimil í fimm ár frá gildistöku laganna með sama hætti og varðar framsal

aflahlutdeildar stærri skipa sem rekja má til uppbótar, sbr. 4. mgr. 11. gr. Aflahlutdeild þeirra báta teljist ekki með við ákvörðun aflahlutdeildar annarra smábáta skv. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II.``
    Þessi breyting mun líka vera í tillögum 1. minni hl. og það má segja að þetta sé fyrst og fremst útfærsla á samkomulagi sem gert var við Landssamband smábátaeigenda.
    Ég taldi rétt að einmitt þetta skjal sem lagt var fram á fundinum 21. apríl kæmi hér inn í umræðuna og vildi undirstrika það að hér var ákveðið breytt um tón. Hér kom það allt í einu inn að fara að tengja samþykkt Úreldingarsjóðsins við samþykkt á stjórn fiskveiða og nota Úreldingarsjóðinn til þess að lappa upp á kerfið, beinlínis vitandi vits að kerfið gæti aldrei gengið upp á annan máta en þann að það hlytu að koma upp vandamál í sjávarþorpunum vítt um landið og það þyrfti að vera til einhver stofnun sem þá gæti bjargað, þá gæti komið til aðstoðar á einhvern hátt. Og ég verð að segja að ekki er nú mikil reisn yfir hugmyndunum, hvorki þeirri sem
hér kom fram fyrst né þeirri sem lagt er til í tillögum 1. minni hl. að notuð verði.
    Það er verið að leggja til að þegar byggðarlög sem lenda í því að frá þeim er seldur kvótinn, einhver fjársterkur aðili hefur til þess möguleika að kaupa skip, kaupa kvótann úr byggðarlaginu, og skilja byggðarlagið eftir bjargarlaust, verði til einhver stóra mamma hér suður í Reykjavík sem verði tilbúin til að bjarga en bjarga á nokkuð sérstökum forsendum. Það á að meta það hvort viðkomandi byggðarlag eða viðkomandi fiskvinnslustöðvar á þessum stöðum, atvinnureksturinn á þessum stöðum, hefur burði til þess að borga þann kvóta eða þær veiðiheimildir, það bjargræði sem má verða til þess að byggð geti haldist áfram á viðkomandi stað, einhver stofnun hér suður í Reykjavík, Byggðastofnun held ég að sé nefnd í þessu tilliti. Og ef útkoman verður nú sú að þessir vísu menn telja að þessi staður sé nú svo illa kominn, það sé farið svo illa bæði fyrir sveitarfélagi og byggðinni og atvinnutækjunum þar að það sé nú ekki annað að gera en gefa þessum fyrirtækjum aflakvóta og rétt til þess að lifa, þá verður til í pokahorninu hjá stóru mömmu suður í Reykjavík eitthvað til þess að redda þessu fólki og þeir geta fengið ákveðinn kvóta, það var talað um 6000 tonn, til ráðstöfunar á hverju ári, til þess að bjarga því að byggðin á þessum stað líði ekki undir lok. Og ef svo skyldi nú fara að það dygði ekki að gera þetta einu sinni, vegna þess að þessum aflaheimildum verður úthlutað árlega, heldur kannski tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, þá eru viðkomandi byggðarlög komin fullkomlega á framfæri þessarar opinberu stofnunar sem verið er að leggja til að stofna.
    Afleiðingar kvótakerfisins, aflamarkskerfisins, sem enn einu sinni er verið að leggja til að framlengja, eru þannig í hugum þeirra sem eru að samþykkja það og búa til þessar reglur að þeir búast við að byggðarlögin standi uppi ekki aðeins kvótalaus, ekki aðeins aflaheimildalaus, heldur líka í þeirri stöðu að þau geti

ekki keypt sér þennan rétt. Og þá kemur til kasta stóru mömmu að bjarga byggðinni. Mikið er þetta nú félagslega fallega hugsað. Og þetta er verið að segja við fylgismenn Alþb., að þetta sé hinn mikli byggðakvóti og ef ég leita hér að setningu hjá okkar ágæta formanni þá er sagt í sambandi við þetta, með leyfi forseta, að þessar tillögur feli sumar í sér ,,endanlegt og afgerandi samþykki við þau meginsjónarmið``, þ.e. sjónarmið Alþb. um byggðakvóta.
    Endanleg stefna Alþb. er sú í byggðakvótanum að halda gangandi byggðarlagi með gjafakvóta frá ríkisstofnun eða einhverri stofnun hér í Reykjavík. Slíkri útfærslu á byggðakvóta mótmæli ég persónulega og ég veit að ég er að mótmæla þar fyrir meginhluta stuðningsmanna Alþb. vítt og breitt um landið.
    En það er ekki nóg með það að þannig sé að staðið og þessi kvóti, eins og ég sagði áðan, sé jafnvel hugsaður sem rýrnunarkvóti, hafi orðið til út á rýrnun, það er gott að verða ríkur af rýrnun, heldur er líka talað um það, eins og ég nefndi hér í upphafi, að það sé mjög mikill byggðakvóti að sveitarfélögin fái forkaupsrétt á þeim skipum sem selja eigi í byggðarlaginu. Það getur vel verið að formaður Alþb. hafi nefnt þar að það væri hin endanlega lausn. Það væri það að sveitarfélögin hefðu forkaupsrétt að þeim skipum sem seld væru úr byggðarlaginu. Ég hef sagt inni í þingflokki Alþb. að þetta væri brosleg setning. Ég hverf ekki frá því og ég vil segja hér í ræðustól á hv. Alþingi að þetta er gagnslaus bókstafur vegna þess að forkaupsréttur er vitaskuld
gagnslaus þegar hlutirnir standa þannig að viðkomandi byggðarlag hefur ekki möguleika til að kaupa skipið. Sá tími verður liðinn vegna þess að það byrjar alltaf á því að viðkomandi heimaaðilar reyna að kaupa þau skip sem eru þar til sölu, en vegna þess að boðið er hærra, peningamennirnir bjóða hærra en bolmagn er fyrir á viðkomandi stað, hærra en möguleiki er til á viðkomandi stað til að kaupa skipið, þá ráða þeir ekki við það. Forkaupsréttur við þær aðstæður er gagnslaus. Hann er ósköp svipaður og það sem var í frv., að það skyldi auglýsa þessa hluti, það skyldi auglýsa þá, og vitaskuld má segja að með því að auglýsa fór ekkert fram hjá viðkomandi byggðarlagi. Það mátti segja að það væri jákvætt. Þá leituðu menn eftir því hvort hægt væri að kaupa skipið miðað við það fjármagn sem var til í viðkomandi byggðarlagi. Forkaupsréttur þar ofan á er, eins og ég sagði, brosleg viðbót.
    Því er og nú verr og miður að við þær aðstæður sem ég er að lýsa hér ... ( HBl: Svo er forkaupsrétturinn tekinn upp úr jarðalögunum ...) Fyrirmyndin úr jarðalögum. Já, það er einmitt það. Forkaupsréttarfyrirmyndin er úr jarðalögum. En því miður er staðan ekki sú að hér sé verið að keppa við fjársterk fyrirtæki með góðan rekstur. Hér á ég við það þegar verið er að keppa um kaup á skipum í sambandi við sölu úr byggðarlögum. Maður gæti oft og tíðum fellt sig við það ef fyrirtæki sem hefði sýnt góðan rekstur, hefði sæmilega góða eiginfjárstöðu og væri enn að styrkja sína stöðu með því að kaupa skip

á eðlilegan viðskiptamáta. Það væri ekki svo óeðlilegt að fallast á það að þar væru hlutir að eiga sér stað sem alltaf hlytu að koma upp, menn væru að byggja sig upp og efla sig af eigin fjármagni og eigin dugnaði. En í því þjóðfélagi sem við búum við eru hlutirnir ekki á þann veg, því miður. Þeir eru meira og meira á þann veg að opinbert fjármagn er notað til þess að kaupa skip án þess að þau fyrirtæki sem eru að kaupa þau hafi raunverulega nokkurn rekstrargrundvöll. Það er verið að nota opinbert fjármagn, og þar á ég við bara fjármagn banka og jafnvel sjóða eins og Hlutafjársjóðs og Atvinnutryggingarsjóðs, til þess að kaupa veiðiskip og þar með fiskveiðikvóta oft og tíðum frá aðilum sem eru sæmilega stæðir og gætu haldið áfram rekstri viðkomandi skipa en freistast til að selja skip sín þegar vel er boðið. Þá er verið að gera þetta fyrir fjármagn sem viðkomandi viðskiptabanki hins aðilans hefur boðið. Kauptu kvóta, þú átt að fá meiri kvóta til þess að þetta geta staðið sig hjá þér. Það er sem sagt verið að byggja upp fyrirtæki, meira og minna hringinn í kringum landið, sem hafa ekki eðlilegan rekstursgrundvöll með því að kaupa skip frá öðrum stöðum og viðkomandi byggðir hafa ekki möguleika á að keppa við þau, hvort sem um forkaupsrétt er að ræða eða annað. ( HBl: Svo lánar Atvinnutryggingarsjóður ...) Svo segir hv. þm. Halldór Blöndal: Svo lánar Atvinnutryggingarsjóður öðru fyrirtækinu en Byggðasjóður hinu. Vel má það vera að hlutirnir séu á þann veg, en mörg eru þau fyrirtæki sem eru vel rekin hringinn í kringum landið og hafa ekki þurft á því að halda að fá lán hjá Byggðasjóði og jafnvel ekki Atvinnutryggingarsjóði heldur og ekki Hlutafjársjóði, en það er verið að stefna að þessum fyrirtækjum meira og minna með því kerfi sem við búum við og með því fiskveiðistjórnarkerfi sem nú er verið að leggja til að verði samþykkt hér einn ganginn enn. ( GHG: Refsa þeim sem standa sig.) Refsa þeim sem standa sig, eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson segir. (Gripið fram í.) ( GHG: Það heyrðist ekki hvað fyrrv. formaður Alþb. sagði.)
    Hæstv. menntmrh. benti á það að hv. 14. þm. Reykv. stóð að því að samþykkja fiskveiðistefnuna sem við höfum búið við og búum við enn þá. ( GHG: Ekki þessa sjóði.) En sjóðirnir eru nú að meginhluta til afleiðingin af þessari stefnu sem við búum við, hv. þm. ( Gripið fram í: Nei.) ( GHG: Það er rétt. Þess vegna þarf að skoða það allt aftur í nýju ljósi.) ( Gripið fram í: Nei.) ( HBl: Frá nýjum vettvangi.) Farið þið nú ekki að koma með vettlinginn hér inn í hv. deild. ( Menntmrh.: Það eru engin vettlingatök hér í þessari deild.) Hér verða engin vettlingatök, nei.
    Það sem við blasir, þær brtt. sem fram hafa komið eru að mínu mati í hróplegu ósamræmi við samþykktir Alþb., í hróplegu ósamræmi við þá vinnu sem ég vann í ráðgjafarnefndinni. Þar tel ég mig allan tímann hafa gefið þær upplýsingar til félaga minna í flokknum á þann veg sem ég hafði bestar og lýsti fyrir þeim hvað ég væri að leggja til í nefndinni og ég fékk stuðning við þessa stefnu, hvað eftir annað.

Ég tilkynnti þetta félögum mínum í flokknum og við vorum svona í sameiningu við það að samþykkja minn fyrirvara við nál. Ég lýsti því að það væri stefna mín, vinnutilhögun mín í nefndinni, að reyna að lagfæra þá fiskveiðistefnu sem við hefðum búið við á þann veg að hún væri viðunanlegri fyrir landsbyggðina og það var sameiginlegt álit okkar í þingflokki Alþb. að það skyldi ég gera. Þegar síðan kemur að því að taka málið út úr nefndinni legg ég fram svohljóðandi bókun, með leyfi forseta:
    ,,Í október sl. lagði vinnuhópur sem starfaði sl. sumar á vegum ráðgjafarnefndarinnar fram tillögur í formi frv.
    Tillögur þessar hafa síðan verið til umfjöllunar í nefndinni.
    Ekki hefur náðst allsherjarsamkomulag í nefndinni um ýmis atriði í frumvarpsdrögunum. Um önnur atriði virðist vera fullt samkomulag, t.d. um afnám sóknarmarksins, veiðitímabil verði ekki miðað við almanaksárið og að væntanleg lög verði ekki tímabundin.
    Mínir fyrirvarar um frumvarpsdrögin nú við lokaafgreiðslu í nefndinni eru aðallega við eftirtaldar greinar:
     9. gr. um skerðingu botnfisksaflamarks vegna sérveiða,
    10. gr. um álag og vigtun á fiski sem fluttur er óunninn á erlendan markað,
    11. gr. úr síðari frumvarpsdrögunum um aflahlutdeild sem fylgi skipi við eigendaskipti og flutning milli byggða, sbr. tillögur Alþb. um sjávarútvegsstefnu og byggðakvóta,
    17. og 18. gr. um eftirlit sjútvrn. með framkvæmd væntanlegra laga.
    Ég mun fylgja brtt. sem fram kunna að koma við frumvarpsdrögin við meðferð málsins á Alþingi og í ríkisstjórn telji ég þær til bóta.``
    Hér eru taldar upp þær greinar sem ég gat ekki fellt mig við í frv. og ég taldi að nauðsynlegt að ræða frekar þegar það kæmi hér til umfjöllunar á hv. Alþingi. Svo gerist nokkuð sérstakt. Ályktun mín var ekki nógu hvöss og ekki nógu ákveðin þegar frv. kom til umfjöllunar í þingflokki Alþb. Þá er enn samþykkt ný ályktun þar sem þessir hlutir eru enn ítrekaðir og nefndir fleiri þættir. Ég var vitaskuld mjög ánægður með þá samþykkt flokksins. Þegar ráðherrar Alþb. fóru með hana í ríkisstjórnina taldi ég náttúrlega alveg víst að um þessa samþykkt yrði fjallað allrækilega í ríkisstjórninni. Og þegar að því kæmi að fjalla um þetta í sjútvn. þyrfti ég ekki lengi að bíða eftir því að ráðherrarnir mínir kæmu hver sem betur gæti til þess að styðja og ná fram þessum markmiðum Alþb. ( Forseti: Það er að koma að matarhléi. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann sé að ljúka ræðu sinni eða vilji gera hlé á henni.) Ég á allmikið eftir. ( Forseti: Þá þarf ég að biðja hv. þm. að fresta ræðu sinni.) --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Ég var þar staddur í ræðu minni sem ég var að ræða um stöðu fiskveiðistjórnarmálsins í þingflokki Alþb. Ég sé að félagar mínir hér í

deildinni, hæstv. menntmrh. og 4. þm. Suðurl., eru hvorugir komnir til fundar þannig að ég held að það sé rétt hjá mér að fresta því að ræða frekar um þau viðskipti. Ég hef ekki áhuga fyrir því að fara að tala um þau mál öðruvísi en
þeir séu hér viðstaddir og mun fresta því að fjalla frekar um það, taka það upp aftur þegar hæstv. menntmrh. og formaður þingflokks Alþb. koma til fundarins en þeim hefur dvalist eitthvað.
    Ég nefndi jafnan í umfjöllun um væntanlegar tillögur Alþb., bæði hér á hv. Alþingi sem og annars staðar, að byggt var á samþykkt sem Alþb. hafði gert á miðstjórnarfundi árið 1987 og samþykkt hafði verið í stofnunum flokksins og síðan aftur staðfest með nokkrum breytingum á landsfundi flokksins sl. haust. Bókun mín í ráðgjafarnefndinni og samþykkt þingflokksins byggðust á þessari samþykkt. Frv. er í veigamiklum atriðum í miklu ósamræmi við þessa samþykkt. Fiskveiðistefna Alþb. byggist á því að auðlindir innan fiskveiðilandhelgi Íslands séu þjóðareign, sameign allra Íslendinga, og veiðiheimildum verði úthlutað til byggðarlaga. Veiðrétturinn verði þó eftir sem áður tengdur skipum. Alþb. leggur til að 2 / 3 hlutum veiðiheimildanna verði úthlutað til byggðarlaga samkvæmt sérstakri reiknireglu. Í fyrsta lagi felur sú reikniregla í sér að fjórðungur þessa nýja byggðakvóta yrði reiknaður út frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögunum eins og sú úthlutun var að meðaltali árin 1984--1986. 3 / 4 hlutar verði hins vegar reiknaðir út frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögunum í árslok 1987.
    Í öðru lagi verði þriðjungi veiðiheimilda úthlutað til útgerðar á skip og skal sá hluti reiknaður með sama hætti og ákveðið var í reglugerð fyrir árið 1987. Eftir að byggðakvóti hefur verið reiknaður skal honum deilt á milli þeirra skipa sem fá kvóta úthlutað í viðkomandi byggðarlagi í hlutfalli við veiðiheimildir þeirra. Við sölu skipa úr byggðarlagi fylgir þeim einungis sá þriðjungur aflakvótans sem fór til útgerðarinnar. 2 / 3 hlutar verða áfram í byggðarlaginu og þeim endurúthlutað þar í samræmi við ákveðnar reglur. Hagur byggðarlaganna er þannig gerður að forgangsatriði. Með því að binda veiðiheimildir við byggðarlög er verið að tryggja hag sjómanna og starfsfólksins í fiskiðnaði og allra íbúa þeirra byggðarlaga sem byggja afkomu sína á öruggri og skipulagðri nýtingu sjávarafla. Þær reiknireglur sem Alþb. leggur til að notaðar verði hafa einnig í för með sér að komið verði nokkuð til móts við þau byggðarlög sem tapað hafa mestum aflakvóta á undanförnum árum vegna ranglætis þess kerfis sem ríkt hefur og enn er lagt til að gildi áfram. Byggðakvótinn kemur auk þess í veg fyrir brask í tengslum við skipa- og kvótasölu sem þróast hefur í skjóli ríkjandi fiskveiðistefnu. Óeðlilegt verð á fiskiskipum mundi hverfa að mestu. Keppni milli byggðarlaga um kaup á skipum til að komast yfir afla mundi hætta og þannig yrði stuðlað að aukinni hagkvæmni í útgerð. Raunhæfara arðsemismat mundi

gilda í viðhorfum til skipakaupa. Fiskveiðistefna Alþb. opnar nýjar leiðir til þróunar og nýsköpunar og hvetur til bættrar meðferðar á afla og afurðum og til aukinnar framleiðni
innan sjávarútvegsins, svo og þess að fiskstofnarnir verði nýttir með það fyrir augum að hámarksafrakstur fáist miðað við ákveðin tímabil.
    Það frv. sem við fjöllum hér um beinist til annarra átta. Þar er verið að festa í sessi miðstýrt kerfi sem á undanförnum árum hefur ekki skilað þeim markmiðum sem því var ætlað að ná. Fiskveiðistjórn síðustu sex ára hefur brugðist hrapallega. Hún hefur brugðist mikið meir heldur en fiskveiðistefna Norðmanna, Grænlendinga og Kanadamanna, þó að hv. formaður sjútvn. Stefán Guðmundsson væri að hæla sér af því að fiskveiðistefna okkar hefði ekki farið eins illa og hjá Kanadamönnum og Norðmönnum. Staðreyndin er nefnilega sú að hjá þessum þjóðum stendur fiskurinn undir einungis broti af þjóðarframleiðslunni. En það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve stór hluti þjóðarframleiðslu okkar byggist á sjávarafurðum. Þess vegna eru mistök í fiskveiðistefnu hér á Íslandi margfalt, margfalt verri en einhver mistök sem eiga sér stað þar sem þetta eru nokkur prósent þjóðartekna og skiptir sáralitlu máli, eins og t.d. hjá Kanadamönnum miðað við það sem þetta skiptir máli hjá okkur.
    Fiskveiðistefna sú sem við höfum búið við á undanförnum árum hefur mistekist í meginþáttum. Þorskstofninn hefur ekki styrkst, sem átti að vera aðalatriðið þegar kvótalögin voru sett á. Hann hefur ekki styrkst, þorskstofninn hefur jafnvel veikst. Fiskiskipastofninn hefur ekki minnkað. Það er ekki rétt sem hv. þm. Stefán Guðmundsson var að halda fram í framsöguræðu sinni að þar væru einhverjir góðir hlutir að gerast á þann veg að flotinn væri að minnka. Það er allt á hinn veginn. Jafnvel þó að hann sjái einhverja framtíðarsýn í því að ekki séu neinar kröfur um smíði nýrra skipa á þessu eða næsta ári þá er staðreyndin sú að flotinn hefur stækkað og hann hefur eflst og er margfalt öflugri en þegar farið var af stað með þetta kerfi. Sóknarmöguleikar þess flota sem við eigum núna er miklu meiri en þess flota sem var til í upphafi þessarar fiskveiðistjórnunar, þ.e. í lok árs 1983. Það er náttúrlega það alvarlegasta að við höfum byggt upp stóran verksmiðjutogaraflota. Hv. þm. nefndi það nú ekki að þar hefur það gerst að frá því að þessi stefna varð ofan á hefur sá floti stækkað úr þremur skipum í 25. Það er náttúrlega hrikaleg uppákoma, bara sú þróun, og gengur þvert á þau markmið sem lágu til grundvallar þeirri fiskveiðistefnu sem samþykkt var.
    Enn stefnir í svipaða átt með því kerfi sem á að fara að lögfesta hér. Mestar líkur eru fyrir því að þeir sem hafa mest umleikis hafi á næstu árum mesta möguleika til að sölsa undir sig veiðiréttinn, annaðhvort á þann veg sem ég var að segja hér áðan að lánastofnanir, jafnvel sjóðir eins og Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingarsjóður komi til með að lána fyrirtækjum til þess að komast yfir kvóta frá öðrum

eða þá, sem við verðum nú að vona að frekar eigi sér stað, að þessi fyrirtæki eflist svo af eigin peningaeign að þau geti beitt peningavaldinu til þess að kaupa upp heilu byggðirnar.
    Fiskiskipaflotinn hefur ekki minnkað og gæði hráefnis, sem átti að vera eitt af stóru markmiðunum, hafa ekki aukist. Oftar sjáum við greinar og umfjöllun í fjölmiðlum um að það sé ein af meinsemdunum í okkar sjávarútvegsstefnu að við séum ekki með nógu gott hráefni. Þar þurfi að fara að breyta til, þar þurfi að fara að haga sér öðruvísi á þeim vettvangi. Við þurfum að stefna að því að flytja út reglulega ferskan fisk, góðan fisk, hvort sem hann er þá undirbúinn til þess útflutnings sem ferskur fiskur í ís eða frystur fiskur, sem er gæðavara ef fiskurinn er ekki margra daga gamall, og mismunandi búinn til þess að smakkast mönnum vel þegar á neytendaborð er komið. ( HBl: Ekki má gleyma að samþykkja hana.)
    Það eru ýmsar blikur uppi í saltfiskverkuninni, hv. þm. Halldór Blöndal, en þó er það nú svo að menn komast frekar fram hjá því í saltfiskverkuninni að vera að selja mönnum einhverja vöru sem ekki er vitað hvernig er. Saltfiskverkunin er þannig að þar er flokkað eftir gæðum þegar fiskurinn fer á markað neytenda og neytandinn veit nokkurn veginn hvað hann er að kaupa, hvort hann er að kaupa fyrsta flokks vöru eða annars flokks. Við erum vitaskuld með allt of mikið af annars flokks saltfiski á boðstólum, en þó ekki á þann veg sem frysta varan er, með leynda galla. Viðskiptavinur okkar kaupir frysta vöru og býst við því að það sé ferskur, góður fiskur. En þegar hann fer að neyta hennar finnur hann á bragðinu að það er alls ekki ferskur fiskur í þess eiginlegu merkingu heldur kannski átta eða tíu daga gamall fiskur sem telst ekki boðleg markaðsvara.
    Þessu fylgir að kostnaður við útgerðina hefur aukist. Það sem hefur mistekist mest af öllu í sambandi við þessa fiskveiðistjórn er að sjávarbyggðirnar okkar vítt og breitt um landið hafa ekki eflst nema í undantekningartilvikum þar sem einhver sérstök staða hefur komið upp. Við stöndum frammi fyrir því vítt um landið að sjávarbyggðirnar okkar eru að láta undan, ekki kannski endilega komnar á það stig í dag að menn finni fyrir því að þar sé komið upp atvinnuleysi eða erfiðleikar í sambandi við rekstur fyrirtækja, en það er ótti meðal allra, öryggisleysi. Það tengist einmitt þessu kerfi sem við búum við, óttinn við
það að sá sterki komi á morgun, sá sterki sem er annaðhvort með lánsfé eða sitt eigið aflafé og kaupi upp rétt byggðarinnar til þess að halda uppi atvinnu. Það er það sem er innifalið í þessu kerfi. Við stöndum frammi fyrir því að ef þetta verður samþykkt núna munu margir hugsa sig mikið um hvort þeir eigi að halda áfram að búa áfram í þessum eða hinum sjávarbyggðum.
    Það er meira en vafasamt að ætla að framlengja slíkt kerfi, en kapp þeirra sem viðhalda vilja þessu mislukkaða stjórnkerfi er hins vegar mikið og málsvarar þess eru svo vel settir í stjórnsýslu- og

hagsmunakerfinu að lítil von er til þess að því verði breytt í höfuðatriðum, þó að skoðanakönnun Háskóla Íslands nú nýverið hafi upplýst okkur um það að blessuð þjóðin okkar er á allt annarri skoðun en þeir sem eru að leggja til að þetta kerfi verði framlengt. Aðeins 1% eða rúmlega 1% af þeim sem spurðir voru, sem voru á annað þúsund, mæltu með því að haldið yrði á eignarréttinum í sambandi við aflamarkið eða aflaheimidirnar á þann veg sem gert hefur verið, aðeins 1%. En upp í 89% af sérstökum hópum, þ.e. sjómanna, töldu æskilegt að tengja veiðikvótann við byggðir. En það sem við erum að samþykkja núna er alveg þveröfugt, þveröfugt við það sem er ætlast til af almenningi í landinu. Þannig er haldið á málum.
    Ég hef hugsað mér að flytja brtt. við 3. umr. en eins og kunnugt er þá er ég ásamt þrem öðrum þingmönnum flm. að tillögu um að máli þessu verði vísað frá deildinni eða vísað til samráðsnefndarinnar aftur og þar verði fjallað um þetta mál frekar. Síðan verði Alþingi kallað saman aftur til þess að fjalla um fiskveiðistefnuna. Ég geri mér von um það enn að þessi tillaga verði samþykkt og læt því bíða til 3. umr. að túlka frekar brtt. mínar. Vil ég þó aðeins nefna það að ég legg til að farið verði að tillögu Alþb. um það að kvótanum eða aflamarkinu verði skipt á þann máta sem ég var að lýsa hér áðan. Ég legg og til að 9. gr. frv., eða sá þáttur 9. gr. þar sem lagt er til að búinn verði til nokkurs konar aflatryggingasjóður fyrir loðnuskipin á kostnað bolfisksins, verði felldur niður. Ég mun og leggja til að settar verði svokallaðar girðingar á milli kvótasölu, ekki verði hægt að selja varanlegan kvóta á milli skipa, þ.e. það yrði flokkað eftir stærðum. Frá minnstu skipum og upp í 30 tonn megi ekki selja kvóta til skipa sem eru stærri en 30 tonn. Síðan yrðu bátar frá 30 tonnum að togurum, innan þess marks mætti selja kvóta en ekki upp til togara, síðan héldust togarar innan ákveðins marks og svo frystitogarar sér. Um þessar tillögur mínar mun ég fjalla við 3. umr.
    Það virðist nú vera svo að mínir ágætu flokksfélagar hafi ekki meiri áhuga á frv. um stjórn fiskveiða en svo að þau láta vera að mæta hér til fundar. Ég hafði hugsað mér að útlista í þeirra áheyrn tillögur þingflokksins, minna þau aðeins á hvað þau höfðu samþykkt og lagt til í ríkisstjórn. Ég mun því halda ræðu minni áfram enn um stund og vita hvort ... ( Gripið fram í: Betra bara að láta kalla á þau.) Ég held það sé ástæðulaust að trufla þau ef þau eru kannski í afslöppun og hvíld. Ég mun því aðeins halda áfram með ræðu mína og fjalla í nokkrum orðum um þá álitsgerð sem okkur hefur borist frá Lagastofnun Háskólans, þ.e. þeim Sigurði Líndal prófessor og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni. Samkvæmt ósk okkar nokkurra þingmanna sömdu þeir álitsgerð um þetta frv. Svar þeirra barst okkur í gærdag. Þingmenn hafa
fjallað lítillega um það en mönnum hefur gefist takmarkaður tími til að skoða jafnviðamikla skýrslu eða álitsgerð sem þessi er og því ekki hægt að fjalla um hana nema á takmarkaðan hátt. Ég vil þó þakka

fyrir það að þessi álitsgerð hafi borist okkur í hendur áður en þessi umræða átti sér stað. Ég vil benda á það að þeir álitsgerðarmenn undirstrika það að álitsgerð þessi sé á þann veg að þeir beri þar einir ábyrgð á. Vitaskuld gerum við okkur fyllilega grein fyrir því að hér er ekki um annað að ræða en álitsgerð tveggja valinkunnra manna og sjálfsagt er að líta á þeirra niðurstöður sem slíkar en ekki sem sérstakan dóm í þessu máli. Það er mjög gott að hafa fengið þessa álitsgerð og ég er alveg viss um að hún kemur af stað umræðum um þetta mál á nýjum grunni. Og það á þeim grunni sem var mjög nauðsynlegt að kæmi fram í þjóðfélaginu, þ.e. fjallað verði um stjórnsýsluna og eignarhaldið. Það verður sjálfsagt fjallað um það að einhverju leyti út frá þeim rökum sem hér koma fram í skýrslunni, í álitsgerðinni. En ég er nokkurn veginn viss um það og veit það reyndar að ýmsir aðilar hafa nokkuð aðrar skoðanir á þessum málum sem hér er um fjallað heldur en hér kemur fram. Þess vegna segi ég að ég er nokkurn veginn viss um það að þessi skýrsla mun vekja miklar umræður á komandi tímum.
    Ég vil benda á nokkra þætti í þessari skýrslu. Á bls. 4 er sagt, með leyfi forseta: ,,Eftirlit ráðuneytis takmarkast þó að jafnaði við það sem kalla má almennt eftirlit með því að fylgt sé ákvæðum laga og reglna fremur en að ráðuneyti sinni eftirliti með því hvort tilteknir einstaklingar eða lögaðilar hafi fylgt lögum og reglum. Vakni efasemdir um það hefur ráðuneyti að jafnaði frumkvæði að því að tilkynna slíkt til hlutaðeigandi eftirlitsaðila eða löggæsluyfirvalda.``
    Þessi niðurstaða þeirra Sigurðar Líndals og Tryggva Gunnarssonar um eftirlit ráðuneytisins finnst mér vera mjög athyglisverð og einmitt sá aðalþáttur sem
ég hef gagnrýnt í meðferð sjútvrn. á þessum málum. Ég hef haldið því fram að það væri ósköp eðlilegt og sjálfsagt að ráðuneytið annaðist úthlutun veiðileyfa á því skipulagsformi sem við búum við, út frá þeim reglum sem samþykktar hafa verið. En að ráðuneytið haldi áfram og sé eftirlitsaðili og rannsóknaraðili, það hefur mér alltaf fundist mjög vafasöm aðgerð og hef gagnrýnt það. Ég er því mjög feginn þegar þessi niðurstaða kemur frá hendi þeirra Lagastofnunarmanna. Það finnst mér mjög mikilsvert. Hinir þættirnir hafa ekki verið eins gagnrýnisverðir út frá mínu sjónarmiði. Ég hef ekki talið mjög gagnrýnisvert, eftir að annar aðili en ráðuneytið sjálft hefði rannsakað hluti og bent á misferli og rökstutt misferli, að ráðuneytið úrskurðaði þá um málið. Ég hef ekki talið það neitt sérstaklega varhugavert þó vitaskuld sé það ekki rétt að ráðuneytið hafi mjög mikið vald á þessum vettvangi. Fyrst og fremst á það að vera úthlutunaraðili. En þetta er sú þungamiðja sem ég hef gagnrýnt og tel því að hér hafi komið fram hjá Sigurði Líndal prófessor og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni niðurstaða sem kemur mjög vel heim og saman við þær skoðanir sem ég hef haft á þessu máli.
    Síðar á bls. 4 segja þeir, einmitt í sambandi við

þessa hluti: ,,Eftirlit af því tagi sem veiðieftirlitsmönnum er ætlað að sinna er almennt ekki á verksviði ráðuneyta.`` Og svo síðar c-liður: ,,Ekki er kostur á að bera athafnir eða niðurstöður veiðieftirlitsmanna undir æðra stjórnvald.``
    Þessir þættir báðir eru mjög athyglisverðir og raunverulega undirstöðuatriði í sambandi við stjórnsýsluna og hvernig hún hefur verið framkvæmd á undanförnum árum. Ég fagna því sérstaklega þessum niðurstöðum.
    Og svo í lokin á þessum þætti á bls. 5 segja þeir: ,,Við teljum að hér komi því til álita hvort það samrýmist ekki betur grundvallarreglum stjórnsýsluréttar að veiðieftirlitinu verði búinn staður hjá sjálfstæðri stofnun í stjórnkerfinu en ekki í sjútvrn. sjálfu.`` Enn staðfesta þeir, Sigurður Líndal prófessor og Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður, þær skoðanir sem ég hef haldið hér fram á hv. Alþingi í hvert skipti sem fjallað hefur verið um þessi mál og þennan þátt ráðuneytisins.
    Af einhverjum ástæðum, kannski af því að fréttamönnum hefur ekki gefist tími til þess að lesa þetta gagnmerka plagg, þá hefur í fréttum sem ég hef heyrt nú undanfarið þetta grundvallaratriði einhvern veginn farið fram hjá þeim. Þeir hafa svo aftur á móti lagt mikla áherslu á það að ráðuneytinu væri heimilt að úrskurða, það stangaðist ekkert á við stjórnarskrá og væri löglegt að öllu leyti, en þennan aðalþátt hafa þeir af einhverjum ástæðum ekki áttað sig á að láta almenning í landinu vita um, að þessir umsagnaraðilar okkar telja og er undirstrikað frá þeirra hálfu í þessari álitsgerð að eftirlitskerfi það sem haldið hefur verið við stenst varla eðlilegt réttarfar.
    Ég mun nú stytta mál mitt en það eru ýmsir fleiri þættir í þessari álitsgerð sem eru mjög áhugaverðir og er ánægjulegt að komi fram í slíku plaggi sem þessu. ( HBl: Þá verður samningin samt að vera skýr.) Myndin er mjög skýr að þessu leyti til en ég vil undirstrika það líka, hv. þm., að einmitt þættir sem sumir hafa verið að tala um að ættu ekki að vera í sjútvrn. og ég hef aldrei lagt mikið upp úr, eins og t.d. úthlutun veiðileyfa, ég tel það sjálfsagðan hlut að sjútvrn. annist það ef við erum með slíkt kerfi sem við búum við núna, það er bara sjálfsagður hlutur. Og ég hef líka sagt það að ég tel ekkert athugavert við það þó að ráðuneytið úrskurði þegar það hefur í höndunum unnin gögn frá öðrum aðilum en því sjálfu. Og það er einmitt það sem kemur fram í þessu gagni hér, þessari álitsgerð, sem ég er að fjalla um og var unnin samkvæmt okkar ósk af Lagastofnun Háskólans.
    Mér finnst svo aftur á móti umfjöllun þeirra um eignarréttinn koma nokkuð á óvart. Sérstaklega umfjöllun þeirra um þann rétt sem skapist af hefð og atvinnuréttindum og þá sérstöku umfjöllun sem þar er á þann veg fyrst og fremst, þó það sé ekki sagt berum orðum, að hugsanlega skapist einhver eignarréttur út á áunnin atvinnuréttindi. Mér finnst umfjöllunin vera á þann veg að hugsanlegur eignarréttur sem þannig myndast væri þá fyrst og fremst á vettvangi útgerðar og kannski sjómanna. En

sá eignarréttur ætti þá vitaskuld um leið, ef þetta er fyrir hendi, að tengjast þeim sem nýtt hafa þessa auðlind á þann veg að gera úr henni verðmæti, þ.e. fiskvinnslu og fiskvinnslufólki. Það er eins og þeir aðilar séu einhvern veginn til hliðar í þessari umfjöllun og ekki leitað að því hvort hugsanlegt sé, ef einhver eignarréttur skapast út frá þessum þætti, að hann sé mikið breiðari og víðfeðmari en svo að tilheyra eingöngu útgerð eða útgerð og sjómönnum. Athuga þyrfti hvort sá eignarréttur er þá ekki líka í höndum þeirra sem í áraraðir hafa verið samstarfsmenn þessara hópa við að nýta aflann og gera úr honum aukin verðmæti.
    Mér finnst einmitt þessi þáttur vera á þann veg að þessir ágætu menn hliðri sér nokkuð við það að segja ákveðna hluti. M.a. á bls. 19, þar sem þeir hafa fjallað um eignarréttinn og óafturkallanlegt stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum, þá er sagt þar neðarlega: ,,Ef allt þetta stenst er ekki líklegt að við samþykkt frumvarpsins stofnist
einstaklingsbundinn stjórnarskrárvarinn eignarréttur yfir veiðiheimildum, jafnvel þótt væntanleg lög verði ótímabundin.``
    Ég skrifaði undir þetta plagg með beiðni um að þeir sem legðu í það að svara okkur --- það var sjálfsagt að búast við því að þessari beiðni yrði hafnað --- en að fá svar á þennan máta um þennan stóra þátt finnst mér mjög miður. Að prófessorinn og hæstaréttarlögmaðurinn segi í þessu tilfelli: ,,Ef allt þetta stenst er ekki líklegt ...`` o.s.frv.
    Þetta er náttúrlega ekki niðurstaða þarna en greinilega hafa þessir ágætu menn, af einhverjum ástæðum, ekki viljað kveða fastar að en þetta. En þetta nálgast það að vera tiltölulega lítið svar við þeirri spurningu sem við vorum að bera fram í svo veigamiklu máli.
    Ég vil endurtaka það að mér finnst þessi álitsgerð góð og ég fagna henni. Ég vil láta koma fram þakklæti mitt til þessara manna að hafa skilað okkur þessu plaggi þó mér finnist að æskilegra hefði verið að þeir hefðu kveðið svolítið fastar að orði. Þó er, eins og ég sagði í upphafi, það sem þeir segja hér vitaskuld aðeins álit þeirra en ekki neinn dómur. Þetta er álitsgerð sem við fáum til umfjöllunar og þjóðin fær líka til umfjöllunar á næstu tímum.
    Þá er komið að því sem ég hafði lofað að ég skyldi ekki gera nema mínir flokksfélagar væru hér viðstaddir. ( KP: Þeir eru farnir aftur.) Ég held ég verði að biðja hæstv. menntmrh. að gefa sér pínulítinn tíma og hlusta á það sem mig langar til að segja um þessi mál, og eins væri nú æskilegt ef formaður þingflokksins væri kominn líka. ( Gripið fram í: Fjmrh.?) Hann er ekki í þingflokknum, hv. 3. þm. Vestf. Herra forseti. Væri hægt að biðja hæstv. menntmrh. að gefa sér tíma til þess að vera hér, og eins er það með virðulegan formann þingflokks Alþb.
    Ég ætla að halda áfram máli mínu og fresta umræðu um þetta sérstaka efni enn um sinn. Ég vil benda á það, eins og ég sagði áðan, að ég ásamt

þremur þingmönnum öðrum legg til að þessu máli verði frestað. Fleiri hafa tekið undir það að málinu verði frestað. Ég vil láta það koma fram hér í þinginu að Birting, félag jafnaðar- og lýðræðissinna, gerði sérstaka ályktun um kvótafrv. og sú ályktun var send okkur þingmönnum. Þessari merku ályktun vildi ég gjarnan koma í þingtíðindi og vil leyfa mér að lesa hana hér upp. ( Gripið fram í: Frá Birtingu?) Frá Birtingu, félagi jafnaðar- og lýðræðissinna. (Gripið fram í.) Yfirlýsingar eru farnar að koma frá þessum og hinum mönnum hér í salnum meðan ég er að halda ræðu mína. Ég vil benda á það að ég er hér flm. þess að málinu verði frestað og vísað til ráðgjafarnefndarinnar aftur og sú nefnd verði búin að skila áliti í lok ágúst. Í framhaldi af því verði Alþingi kvatt saman til fundar til þess að samþykkja lög um stjórn fiskveiða. Ég ætlaði að koma því hér að að Birting, félag jafnaðar- og lýðræðissinna, hefur gert ályktun í málinu. ( KP: Á það ekki við hæstv. fjmrh. líka?) Ég hef bent á það að hæstv. fjmrh. er ekki í þingflokki Alþb. og þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess að vera sérstaklega að spjalla við hann um þau málefni sem eru að gerast og um er visst ósamkomulag á milli þingflokksins og mín. ( KP: Þetta er formaður flokksins.) Hann er formaður flokksins, rétt er það, en þau mál ræði ég við formanninn á vettvangi flokksins sjálfs, framkvæmdastjórn og á félagsfundum og
flokksfundum. (Gripið fram í.) Og vitaskuld ræði ég við formanninn um það þar, en hann hefur ekki atkvæðisrétt á þingflokksfundum.
    Ég vil bara láta það koma fram aftur og enn, virðulegi forseti, fá að lesa hér upp samþykkt frá félaginu Birting, félagi jafnaðar- og lýðræðissinna. ,,Ályktun stjórnar Birtingar um sjávarútvegsmál``, með leyfi forseta:
    Stórum stöfum stendur: ,,Frestið kvótafrumvarpinu. Stjórn Birtingar, félags jafnaðar- og lýðræðissinna, tekur undir þá kröfu Geirs Gunnarssonar alþingismanns og ýmissa samtaka sjómanna að frestað verði afgreiðslu frv. um stjórnun fiskveiða til næsta hausts.`` Hér kemur fram, herra forseti, að þessi stofnun er nokkuð róttækari en við fjórmenningarnir sem leggjum hér fram tillögu um það að fresta þessu til --- virðulegi menntmrh. Það er nú vont að þurfa að trufla ráðherrann mikið, en ég var bara kominn inn í annað efni heldur en ég ætlaði að fjalla um þegar ég var að biðja ... ( Menntmrh.: Kláraðu Birtingu. Þú getur það án mín.) Til þess að það sé alveg öruggt að þetta komist nú í þingtíðindi þá ætla ég að endurtaka það sem hæstv. menntmrh. sagði þegar ég var að fara þess á leit við hann að hann hinkraði aðeins við. Hæstv. menntmrh. sagði: ,,Kláraðu Birtingu. Þú getur það án mín.`` Þá er þetta nú vonandi komið í þingtíðindi. ( KP: Þú getur það án mín, þetta eru skilaboð.)
    Og áfram, virðulegi forseti, er sagt í þessari samþykkt: ,,Ljóst er að mikill ágreiningur er um framtíðarskipan í þessum efnum og óeðlilegt við þær aðstæður sem nú eru uppi að samþykkja ótímabundið

framhald núverandi kerfis. Stjórn Birtingar telur að nýta eigi næstu mánuði og missiri til stefnumótunar í sjávarútvegsmálum. Sú stefnumótun verður að miðast við gagngera endurskipulagningu á þessum undirstöðuatvinnuvegi. Í því sambandi vísar stjórnin einkum til hugmynda um kvótagjald, um söluskyldu á innlendum fiskmörkuðum og afnám opinberra afskipta af fiskverði, um að rjúfa einokun
stóru sölusamtakanna og opinbera byggðastefnu sem taki bæði mið af arðsemiskröfum í sjávarútvegi og ólíkum aðstæðum í byggðarlögum. Málefnahópur Birtingarmanna hefur að undanförnu unnið að stefnumótun á vegum félagsins í þessum málum og er árangurs af þeim verkum að vænta innan skamms. Stjórn Birtingar telur að samþykkt kvótafrv. í lítt breyttri mynd nú geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þróun í sjávarútvegi, veiðum og vinnslu og þar með fyrir atvinnulíf og efnahagsástand hérlendis á næstunni.
    Samþykkt á fundi á sumardaginn fyrsta.``
    Vegna þess að ég er ekki félagi i Birtingu og hef leitt það félag mikið hjá mér ætla ég ekki að fjalla um efni þessarar samþykktar. En ég taldi rétt að þessi samþykkt félagins kæmi hér fram og menn gætu áttað sig á þessu síðar, eins og segir hér í lokin, að hlutirnir muni verða mjög alvarlegir á þessum vettvangi fyrir atvinnulíf og efnahagsástand á næstunni. Þessi aðvörun þessa merka félags kemst því hér til þingmanna.
    Ég frestaði því að ræða um tilkynningu frá þingflokki Alþb. ( KP: Formanni.) Og ég taldi rétt að ég væri ekki að lesa upp slíka samþykkt öðruvísi en félagar mínir hér í deildinni væru áheyrendur. Ég mun lesa þessa samþykkt núna þó að formaður þingflokksins sé því miður ekki kominn hér. Ég held mér verði að nægja að hæstv. menntmrh. sé hér viðstaddur. Með leyfi forseta les ég þá þessa tilkynningu frá þingflokki Alþb. sem var samþykkt 12. febr. 1990:
    ,,Þingflokkur Alþb. tekur undir bókun Skúla Alexanderssonar í ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu varðandi tillögur að frv. um fiskveiðistjórn.
    Jafnframt vill þingflokkurinn benda sérstaklega á eftirfarandi atriði:
    1. Að athugað verði hvort nauðsynlegt er að útfæra betur í lögunum það grundvallaratriði þeirra, sbr. 1. gr., að tímabundinn og takmarkaður afnotaréttur myndi aldrei einstaklingsbundna og stjórnarskrárvarða eign.
    2. Að í lögunum verði ákvæði sem draga úr útflutningi á óunnum fiski.
    3. Að gætt verði byggðasjónarmiða og vísast í því sambandi til stefnuyfirlýsingar sem samþykkt var á síðasta landsfundi flokksins.
    4. Sett verði ákvæði í lögin sem girða fyrir röskun stærðarhlutfalla milli smábáta- og báta-, og báta- og togaraflota.
    5. Þá telur þingflokkurinn að sjávarútvegsráðuneytið eigi hvorki að annast eftirlit með framkvæmd laganna né að úrskurða vegna brota á þeim.

    Þingflokkurinn samþykkir að frumvarpsdrögin eins og þeim var skilað frá ráðgjafarnefndinni með fullum fyrirvörum og bókunum verði lagt fram á Alþingi.
    Þingmenn Alþb. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum og munu síðan meta afstöðu sína til samþykktar frv. á Alþingi þegar fyrir liggur við afgreiðslu málsins hverjar af athugasemdum þingflokksins ná fram að ganga.``
    Þetta er sú samþykkt sem þingflokkur Alþb. gerði og taldi ástæðu til að samþykkja og hnykkja á, ef svo má orða það, samþykkt þeirri eða bókun sem ég gerði í ráðgjafarnefndinni og er, eins og þingmenn hafa heyrt, öllu ákveðnari en bókun mín. Ég taldi því sjálfgefið þegar að því kom að farið var að líta á þetta frv. að reynt yrði að nálgast skoðanir flokka ríkisstjórnarinnar. Það vissu allir að í frv. sjútvrh., því frv. sem lagt var fram, voru lagðar fram skoðanir sjútvrh., Framsfl. sjálfsagt, en Alþfl., Alþb. og Borgfl. voru allir með fyrirvara um samþykkt frv. Ég taldi og gekk út frá því sem vísum hlut að það hlyti að verða verkefni ríkisstjórnarinnar sem fékk þessa samþykkt og fékk samþykkt til að leggja fram frv. með þessum fyrirvara að innan þeirrar stofnunar yrði farið að vinna að því að samræma þessi sjónarmið. Samræming þessara sjónarmiða varð á þann veg að fram komu nýjar hugmyndir frá Alþfl. 21. apríl. Eftir nokkurt þóf milli ráðherra, ekki inni í sjútvrn., var sú tillaga orðin að tillögu fulltrúa sjútvrh. í nefndinni. En af tillögum okkar um byggðakvóta eða einhvern þátt sem breytti aðstöðu byggðanna var ekki nefndur stafur.
    Þessu vil ég mótmæla og ég taldi ástæðu til þess að tala ekki sérstaklega um þessa hluti öðruvísi en að félagar mínir í flokknum væru hér. Ég mun halda áfram að mótmæla þessum vinnubrögðum. Ég tel að þarna hafi verið unnið á óheiðarlegan máta, gengið fram hjá sjálfsögðum kröfum okkar sem við lýstum strax í ráðgjafarnefndinni, þingflokkurinn lýsti síðan aftur í ríkisstjórn en tillit til þeirra er ekki tekið en tillit til tillagna sem komu fram á síðustu stundu. ( HBl: Og er farið með sem leyndarmál.)
    Ég hef lokið máli mínu.