Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Karvel Pálmason):
    Virðulegur forseti. Ég vildi gjarnan spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta hver meining væri með áframhaldið hér í kvöld að því er bæði þetta mál varðar og það mál sem líka mun hafa verið ætlað að ræða hér á eftir. Ég hélt að orðið væri nokkurs konar samkomulag um það að ljúka þessu tiltölulega fljótlega, eða í kringum kvöldmat. Ég sé að slíkt hefur ekki verið og ég hlýt því að spyrja hæstv. forseta: Er samkomulag um það núna að ljúka þessum málum hér frá deildinni í kvöld til hv. Nd.? Ég geri ráð fyrir að málið eigi þó alla vega að fara þangað áður en þingi lýkur. ( ÞK: Ekki ef tillaga þín verður samþykkt.) Það þykist ég vita, hv. þm. Þorvaldur Garðar, þarf ekki forsetareynslu til þess.
    Ég vildi gjarna spyrja hæstv. forseta um þetta. Er eitthvert samkomulag um þetta eða er það bara meiningin að tala hér í alla nótt? Ef svo er þá er ég til í það. En ég vil á engan hátt vera að tefja umræður ef samkomulag hefur orðið. Enginn hefur talað við mig um þetta mál.
    Meðan verið er að grennslast fyrir um þessa hluti er kannski rétt að fara hér örfáum orðum um það sem hér hefur komið fram og ég verð að segja það --- nú, hv. þm. Stefán Guðmundsson er genginn úr salnum. Ég skil nú bara ekkert í því hvað hv. þm. eru að ræða vandamál íslensku þjóðarinnar eftir þá yfirlýsingu sem þessi hv. þm. gaf hér í kvöld, að Framsfl. hefði leyst bókstaflega öll mál sem borið hafa að með vandræði meðan hann hefur verið í ríkisstjórn. Og hvað ætli það sé lengi? Það er a.m.k. yfir 20 eða 25 ár. Og svo eru menn hér að ræða vandamál á Íslandi þegar fulltrúar Framsfl., frammámenn í Framsfl., tala með þessum hætti hér á Alþingi. Það hlýtur einhver ruglingur að vera í þessu. ( EgJ: Sagði hann fyrir fullt og allt?) Nei, ég er alveg undrandi á mönnum að tala með þessum hætti. Ég held það væri miklu frekar að orða það á þann veg að Framsfl. hafi búið til vandamál en ekki leyst
þau. Að vísu hefur hann gert það í samtíningi með öðrum flokkum. Hins vegar hefur hann oft verið í fararbroddi en ekki fyrst og fremst í því að leysa vandamálin.
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður sjútvn., gagnrýndi þau ummæli mín hér í dag að ég teldi að málið, eins og það væri núna til umræðu hér á Alþingi, væri illa undirbúið því það hafa verið gerðar grundvallarbreytingar á þessu máli á tæpri viku, með samkomulagi ráðherranna á sínum tíma. Ég gagnrýndi ekki hvernig málið kom fyrr í vetur þegar það var lagt hér fram eftir að hafa farið í gegnum hendur svokallaðrar ráðgjafarnefndar og hún búin að ræða málin. Menn höfðu eitthvað mismunandi skoðanir. En að leggja málið upp með þessum hætti og gera grundvallarbreytingar á því á viku án þess í raun og veru að tala við þá sem hefði nú kannski verið eðlilegast að tala við, þó þeir væru ekki endilega samþykkir þessum málum, sem voru menn í sjútvn. Ed.

    Ég skal ekki eyða fleiri orðum að hv. þm. Stefáni Guðmundssyni nema frekari ástæða komi til. ( StG: Nóttin er eftir.) Já, og dagurinn líka á morgun, hann er eftir líka. En ef þeir sem hér ætla sér að leiða málin með þessum hætti vilja endilega drepa því á dreif þá er það til staðar.
    Út af orðum hv. 4. þm. Reykn. Karls Steinars Guðnasonar, sem nú situr í forsetastól, vil ég segja aðeins örfá orð. Mér kom það heldur spánskt fyrir sjónir, vægt til orða tekið, þegar hv. þm. sagði í fyrsta lagi, sem hann sagði rétt frá að ég væri andvígur þessu frv. og hefði gert grein fyrir því en ,,við``, sagði hv. þm., ,,höfum haft náið samstarf við formann sjútvn.`` sem er nú trúlega þá annarra flokka maður en hv. 4. þm. Reykn. --- Við höfðum náið samstarf við formann sjútvn. Ed. Við vissum auðvitað um hann Karvel, hann á sína skoðun, en það tók því ekki að vera að tala við hann. --- Ég hefði ekki átt von á því að fyrra bragði að minn ágæti vinur, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, hagaði orðum sínum með þessum hætti. Þetta er auðvitað einn anginn af því sem hefur verið að gerast innan Alþfl. Auðvitað má hann Karvel vera í flokknum en hann má ekkert segja. Það er þetta sem verið er að tala um í raun og veru og menn eiga auðvitað alltaf að tala íslensku.
    Hv. þm. vék líka að því eins og margir áður --- að vísu talaði hann nú fyrst og fremst við hv. þingmenn Sjálfstfl., ekki ætla ég að svara fyrir þá, það geta þeir gert sjálfir, en mér fannst það snúa líka að okkur hinum sem höfum haft aðrar skoðanir á þessu máli og hv. þm. sagði: Þessir menn hafa engar tillögur. Hvar eru tillögurnar þeirra? Það hefur ekkert komið frá þeim. ( KSG: Sagði hver?) Hv. þm. Karl Steinar Guðnason. (Gripið fram í.) --- Þetta hefur dunið á þeim sem hafa verið annarrar skoðunar en hæstv. sjútvrh. og þeir sem hafa stutt hann í gegnum árin í þessu máli. Það hefur aldrei verið litið við tillögum frá öðrum. Það hefur aldrei mátt sjást. Það er bara sagt: Hvar eru tillögurnar ykkar? Komið þið með þær. Ef þær eru sýndar þá verður að fjarlægja þær. Þetta er málsmeðferðin. (Gripið fram í.) Agi í hernum? Já, það var víst líka agi í hernum, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, þegar Sjálfstfl. lét glepjast til þess að samþykkja kvótafrumvarpið 1987, það kvótafrumvarp sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason nefndi áðan og er í gildi og er verra en það sem
núna er verið að koma með, og þó samþykkti hv. þm. Karl Steinar Guðnason þetta frv. líka ásamt íhaldinu. Þar lögðust menn í eina sæng til þess að knýja þetta fram. (Gripið fram í.) Með Framsfl. þá líka auðvitað. Ekki mátti nú þriðji aðilinn vera út undan. Svona tala menn hér þvers og kruss í þessu mikilvæga máli.
    Og síðast út af ummælum hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar: Mig langar til að spyrja hv. þm. sem er nú varaformaður Verkamannasambands Íslands: Hefur það lagt blessun sína yfir veiðileyfasölu og auðlindaskatt sem nú er verið að stíga fyrsta skrefið af? Fulltrúi Verkamannasambandsins sem mætti á fund nefndarinnar fyrir örfáum dögum hafði sína persónulega skoðun á þessu, hann var andvígur því,

og ég spurði þennan fulltrúa hvort framkvæmdastjórn Verkamannasambandsins hefði rætt þetta mál. Hann sagði nei, það hefur ekki verið gert formlega en það hefur verið rætt og menn eru andvígir því, grundvallaratriðinu í þessu máli sem varaformaður Verkamannasambandsins er hér að tala fyrir. Hvað á maður að halda? Ég er alveg sannfærður um að Verkamannasambandið sem heild er algjörlega andvígt því að stíga það skref sem nú er verið að stíga inn í auðlindaskatt og veiðileyfasölu. Nóg um þetta.
    Þá er rétt líklega að víkja örfáum orðum að hv. þm. Guðmundi Ágústssyni, þm. Borgfl. (Gripið fram í.) Ja, best væri nú ef hv. þm. væri inni. ( Forseti: Á ekki að ná í hann?) Já, virðulegi forseti, það væri mjög æskilegt vegna þess talsmáta sem hann leyfði sér að viðhafa áðan.
    Það er kannski rétt á meðan, vegna þess að hæstv. umhvrh. gengur í salinn, sem á nú sæti í deildinni en hefur lítt látið í sér heyra um þetta mál nú. ( GHG: Ekkert.) Það er rétt, ekkert, ekkert enn. ( GHG: Hann þorir það ekki.) Ja, ekki ætla ég að dæma hæstv. ráðherra svo hart. Það er ástæða til að rifja það upp hvernig þessi hæstv. ráðherra var í kvótamálunum, stóð hér í málþófi ( Umhvrh.: Málþófi?) í desember 1987, hörkuumræðum í málþófi til þess að drepa það kvótafrumvarp sem þá var til umræðu. ( HBl: Stóð alla nóttina.) Alla nóttina, já. Rétt, hv. þm. Halldór Blöndal. Á móti því frv. Jæja, og auðvitað allur þingflokkurinn og var hann stærri þá en nú. Næsta skrefið hjá þessum hæstv. ráðherra er það að skrifa undir það í vor fyrir þinghlé að afnema kvótakerfið og auðvitað allur þingflokkurinn með. En ,,nota bene``, þá var þessi hv. þm. ekki orðinn hæstv. ráðherra. ( HBl: Þá var ekki búið að grisja í ...) Þá var ekki búið að grisja neitt, það er rétt, hv. þm. ( Gripið fram í: Jú, það var búið.) Það var ekki búið að grisja eins og nú er þegar búið að gera. ( GHG: Hver segir að hann sé hæstv.?) Ja, ég bara leyfði mér að gera það. Er það ekki rétt, virðulegi forseti? Á ekki að ávarpa ráðherra með því ávarpsorði? ( Forseti: Það er alveg rétt hjá ræðumanni.) Já. Ég þóttist vita það, en æðimörgum verður á í messunni í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ég tilgreindi engan. --- Þetta var önnur útgáfan. Síðan skrifar hæstv. umhvrh. núna, þá í þriðja skiptið, undir það frv. sem var lagt hér fram í janúar og síðan hefur hann auðvitað kokkað þá grundvallarbreytingu sem hér er verið að ræða um á þessum frv. núna. Þetta eru fjórar útgáfur á gildistíma gildandi laga um kvóta sem þessi hæstv. ráðherra, og þingflokkur hans, hefur ruglað með allan tímann, sitt á hvað. Og svo situr þessi hæstv. ráðherra undir umræðum hér í allan dag --- ja, þann tíma sem hann hefur setið hér, kannski er rétt að bæta því við ( Gripi ð fram í: Já, ég held að rétt sé að gera það.) --- án þess að segja orð. ( Umhvrh.: Ég kemst ekki að.) Það er rangt. Við skulum, hæstv. ráðherra, vera hér áfram ef hæstv. ráðherra vill lofa okkur að heyra í sér, hvort enn ein skoðunin er komin fram hjá Borgfl. í þessum málum.
    Mér finnst það alveg með ólíkindum að hafa

upplifað þetta á þremur árum, slíka kúvendingu einstaklinga sem kosnir eru af almenningi til þess að fara með mál hans. Það hlýtur eitthvað að vera bogið við þetta allt saman, nema menn séu svona fljótir bara að skipta um skoðun í hvert skipti sem einhver talar við þá. Kannski er það skýringin. En hitt skal tekið fram að núv. hæstv. sjútvrh. hefur allt of oft tekist að vefja mönnum nánast um fingur sér varðandi fiskveiðistefnuna. Og auðvitað hafa þeir í Borgfl. velkst um í þessu allan þennan tíma, ég tala nú ekki um eftir að þeir nálguðust ráðherrastólana, að vera þar innan dyra, eins og raunar það frv. sem við erum að ræða hér nú glögglega sýnir.
    Ég hefði átt von á að heyra í hæstv. umhvrh. hér í dag og í kvöld þó að væri á svipaðri skoðun, þó það væri ekki nema svipuð skoðun, og hann var síðast. Bara svipuð, þó hún væri ekki alveg eins en væri í nánd við þá skoðun sem hann var síðast á. Ekkert slíkt heyrist. Ekki kvak. Og kannski er ekkert við því að búast. Mér finnst það raunar vera einkenni á þessum umræðum hvað þeir sem vilja ryðja þessu fram með þessum hætti hafa hægt um sig hér í umræðunum. Það er, að mér finnst, eins og þessir einstaklingar hafi ekki ýkja mikla sannfæringu fyrir þeim málflutningi og þeim gjörðum sem hér er verið að leika með. Það vantar a.m.k. í mínum huga sannfæringarkraftinn hjá þessum hæstv. ráðherrum og þeim hv. þm. sem þetta styðja. Það vantar þann sannfæringarkraft sem sannfærir mig um það að menn telji sig hér vera að gera rétt.
    Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að ég skyldi ekki lengja þessa umræðu en mig er farið að lengja eftir hv. þm. Guðmundi Ágústssyni. Hefur ekki hafst upp á honum? ( F orseti: Hann er á fundi með forsetum þessa stundina.) Hvað vill þá hæstv. forseti gera, að ég bíði? ( HBl: Fari með það í 3. umr. kannski.) Það verða nóg umræðuefni þá, hv. þm. Halldór Blöndal. En ef forseti vill skal ég stoppa hér. ( SalÞ: Þingmaðurinn má tala þrisvar, hann er frsm.) Það er ljóst en það þarf að nota allan tímann vel sem til þess gefst að tala í svona máli. En ef það er einhver hagræðing fyrir hæstv. forseta, að því er varðar vinnubrögðin ... ( F orseti: Ég tel að það væri nú rétt því að það er mjög óþénugt að hann fari af fundinum.) En er þá meiningin að fresta þessum fundi? ( Forseti: Það er meiningin að halda fundi áfram og ljúka þessu máli.) Ja, ég skil þá forseta svo að hann vilji að ég fresti minni ræðu hér. ( Forseti: Það er ekki ósk mín en þú gerir það.) En er þá ósk forseta að ég haldi áfram? ( Forseti: Það verður þingmaðurinn að ákveða sjálfur.) Mér finnst það nú slæmt þegar maður vill eiga vinsamleg samskipti við stjórnendur þingsins að svara með þessum hætti, að menn bara ráði því sjálfir hvað þeir geri, þegar maður er að bjóða upp á samkomulag um hlutina.
    Mér finnst heldur óviðeigandi að ég sé hér að tala um þingmann sem ekki er viðstaddur. En ef þess er krafist af stjórnendum þingsins að slíkt sé gert, þá verður kannski að verða við því. Mér finnst það þó heldur óviðkunnanlegt. ( HBl: Það er óhætt að bregða

sér frá fyrst þingmaðurinn ætlar að bíða.) --- Ætli það verði ekki svo að ég taki ráðin af hæstv. forseta og láti sjá hvað gerist.