Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir nál. 1. minni hl. sjútvn. um frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa, á þskj. 1111. Þennan 1. minni hl. skipar ásamt mér hv. 8. þm. Reykn. Jóhann Einvarðsson. Í nál. segir:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og voru eftirtaldir kallaðir á fund hennar: Páll Sigurðsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, en Sveinn Hjörtur kom einnig á fund nefndarinnar sem fulltrúi Landssambands íslenskra útvegsmanna ásamt Kristjáni Ragnarssyni og Sigurði Einarssyni, Örn Pálsson og Haraldur Jóhannsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Snær Karlsson frá Verkamannasambandi Íslands, Árni Benediktsson frá Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson, Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal og Ragnar I. D. Hermannsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Dagbjartur Einarsson frá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Ólafur B. Ólafsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sturlaugur Sturlaugsson, Arnar Sigurmundsson og Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Sigurgeir Sigurðsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Komu þeir Kristján Skarphéðinsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson oftar en einu sinni til fundar við nefndina.
    Umsagnir um frv. bárust frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sjómannasambandi Íslands. Enn fremur bárust nefndinni ýmsar upplýsingar frá sjútvrn.``
    Vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram áðan vil ég biðja menn að leggja hlustir við þennan lestur því það hafa vissulega ýmsir verið kallaðir til að fjalla um þetta mál, eins og ég gat um hér áðan en margir sem þá töluðu vildu ekki kannast við. En áfram segir í nál.:
    ,,Það ósamræmi, sem verið hefur á milli afkastagetu fiskiskipaflotans og afrakstursgetu fiskistofnanna, hefur verið eitt af meginvandamálum íslensks sjávarútvegs á undanförnum árum. Stafar þetta fyrst og fremst af þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað í fiskiskipaflotanum á áttunda áratugnum. Afleiðingarnar eru þær að nauðsynlegt hefur reynst að setja víðtækar reglur um stjórn fiskveiða og takmarkanir á veiðiheimildir einstakra fiskiskipa. Í þessu frv., sem hér er til umfjöllunar, er lagt til að stofnaður verði sjóður sem hafi það hlutverk að stuðla að fækkun fiskiskipa. Með því móti einu er hægt að auka veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir verða í flotanum. Starfsemi sjóðsins mun þannig geta leitt til aukinnar hagkvæmni í útgerð og jafnframt haft jákvæð áhrif á samsetningu fiskiskipaflotans og komið í veg fyrir skipulagslausa fækkun fiskiskipa.

    Fyrsti minni hl. nefndarinnar leggur til nokkrar brtt. við frv. Með þeim vill 1. minni hl. ná fram tveimur markmiðum. Annars vegar að sjóðurinn verði efldur og hins vegar að hlutverk hans verði aukið með tilliti til atvinnuöryggis í byggðarlögum sem byggja allt sitt á sjávarútvegi.
    Fyrsti minni hl. leggur til að við bætist ný grein á eftir 4. gr. frv. Í greininni er gert ráð fyrir að sjóðurinn verði efldur með því að honum verði árlega úthlutað þeim veiðiheimildum sem ekki nýtast vegna álags á útflutning á óunnum fiski. Þessi úthlutun verði þó aldrei meiri en sem nemur 12 þús. þorskígildistonnum. Þá er gerð tillaga um lækkun á því gjaldi sem eigendur skipa 10 brúttólestir og stærri skulu greiða árlega. Er gjaldið fært til samræmis við það gjald sem eigendur þessara skipa greiða nú til Aldurslagasjóðs. Er hér um 30 millj. kr. lækkun á tekjum Hagræðingarsjóðs að ræða.
    Varðandi aukið hlutverk sjóðsins leggur 1. minni hl. til að gerðar verði breytingar á 1. gr. og að bætt verði inn nýrri grein á eftir 7. gr. Gert er ráð fyrir að nafni sjóðsins verði breytt úr ,,Úreldingarsjóður fiskiskipa`` í ,,Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins`` og honum fengið það tvíþætta hlutverk að stuðla að fækkun fiskiskipa og koma til aðstoðar í byggðarlögum sem höllum fæti standa vegna sölu fiskiskips eða fiskiskipa þaðan. Skilyrði fyrir aðstoð sjóðsins verði þó bundið við að sala skipa úr byggðarlaginu leiði til fyrirsjáanlegrar fækkunar starfa og að byggðaröskun sé yfirvofandi af þeim sökum.`` --- Ég vildi gjarnan biðja hv. þm. Halldór Blöndal að leggja við hlustir þar sem hér segir: ,,Allt að helming þeirra veiðiheimilda sem gerð er tillaga um að sjóðurinn fái úthlutað geti sveitarstjórnir fengið til ráðstöfunar þar sem þær aðstæður hafa skapast sem réttlæta aðstoð af hálfu sjóðsins enda hafi bæði Byggðastofnun og stjórn Hagræðingarsjóðs samþykkt aðstoðina.`` Það er ástæða til þess að beina þessu sérstaklega til Halldórs Blöndals sem hér talaði og fór mikinn áðan vegna þess að eins og allir vita er hann stjórnarmaður í Byggðastofnun. ( HBl: Heldurðu að ég þurfi að blessa þetta?) ,,Með þessu ákvæði er tryggt að slík aðstoð fái ítarlega umfjöllun.
Úthlutun veiðiheimilda í þessu skyni verði bundin við að aflanum verði landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Stjórn Hagræðingarsjóðs skal ákveða verð fyrir slíkar veiðiheimildir er taki mið af gangverði sambærilegra heimilda á hverjum tíma með sama hætti og við á um þann hluta veiðiheimilda sjóðsins sem fiskiskip fá árlega forkaupsrétt á. Nýti sveitarstjórnir ekki slíkan ráðstöfunarrétt verða heimildirnar boðnar út til skipa gegn sömu skilyrðum um ráðstöfun aflans, þ.e. að honum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Fáist hins vegar ekkert skip til veiðanna er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða lægra endurgjald eða fella það niður. Ólíklegt er hins vegar að ætla að slík staða komi upp þar sem fiskiskipaflotinn er það afkastamikill að fremur auðvelt ætti að vera að fá skip til veiðanna.

    Fyrsti minni hl. leggur til að 6. gr. frv. verði breytt þannig að hlutfall þeirra veiðiheimilda, sem sjóðurinn getur haft ráðstöfunarrétt á, verði hækkað úr 3% í 5% af heildarveiðiheimildum. Er það til samræmis við þá tillögu að sjóðnum verði úthlutað sérstökum veiðiheimildum. Ef sjóðurinn á einhverjum tíma nær að eignast meira en sem nemur 5% heildarveiðiheimilda mun þeim heimildum verða skipt milli fiskiskipa 10 brúttólesta og stærri í hlutfalli við aflaheimildir þeirra skipa sem eftir verða í flotanum. 1. minni hl. leggur áherslu á að með þessu fyrirkomulagi er ekki verið að stíga skref í átt að auðlindaskatti. Sjóðnum er fyrst og fremst ætlað að stuðla að fækkun fiskiskipa og bæta þannig rekstrargrundvöll þeirra skipa sem eftir verða í flotanum. Öllum tekjum sjóðsins verði varið til að stuðla að fækkun fiskiskipa og engu af þeim er ætlað að renna til samneyslunnar í þjóðfélaginu. Því er hér um lokaðan sjóð að ræða sem fyrst og fremst mun vinna fyrir sjávarútveginn í heild. 1. minni hl. hafnar með þessu alfarið þeirri skoðun að með stofnun sjóðsins sé verið að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn. Þá munu þau ákvæði, er lúta að aðstoð við byggðarlög er standa höllum fæti, tryggja að hægt sé að leysa slík vandamál án þess að til komi fjölgun fiskiskipa. Slík staðbundin vandamál yrðu fyrst og fremst leyst með því að nýta þá umframafkastagetu sem er fyrir í fiskiskipaflotanum.
    Auk þeirra brtt. sem raktar hafa verið hér að framan leggur 1. minni hl. til að gerð verði breyting á ákvæði um gildistíma þannig að hann verði miðaður við 1. jan. 1991.
    Þá eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar á texta frv. til samræmis við frv. til laga um stjórn fiskveiða.
    Að lokum leggur 1. minni hl. til að bætt verði við frv. ákvæði I og II til bráðabirgða. Fyrra ákvæðið fjallar um úthlutun veiðiheimilda til sjóðsins á árinu 1991 en í síðara ákvæðinu er lagt til að verði frv. að lögum skuli þau koma til endurskoðunar fyrir árslok 1992.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.``
    Undir nál. rita Stefán Guðmundsson og Jóhann Einvarðsson.
    Þær brtt. sem 1. minni hl. leggur til eru á þskj. 1112 og eru þannig, með leyfi forseta:
,,1. Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    Stofna skal sjóð er nefnist Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins og hafi það tvíþætta hlutverk að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum er standa höllum fæti vegna breytinga á útgerðarháttum.
    Sjóðurinn skal stuðla að aukinni hagkvæmni með því að laga stærð og afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. Í þessu skyni skal sjóðurinn kaupa fiskiskip sem kunna að vera til sölu á hverjum tíma og selja þau úr landi eða eyða þeim og ráðstafa veiðiheimildum sem honum eru framseldar

eða úthlutað er til hans. Þá er sjóðnum heimilt að veita styrki til úreldingar skipa enda sé tryggt að í stað hinna úreltu skipa komi ekki ný skip í fiskiskipaflotann eða að afkastageta flotans aukist með öðrum hætti.
    Sjóðurinn skal koma til aðstoðar í einstökum byggðarlögum með því að efla vinnslu sjávarfangs á þeim stöðum þar sem straumhvörf hafa orðið í atvinnulífi vegna sölu fiskiskipa. Í þessu skyni getur sjóðurinn framselt tímabundið veiðiheimildir enda verði aflanum landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.
    2. Við 2. gr. Í stað orðsins ,,Úreldingarsjóðs`` í 1. málsl. 1. mgr. komi: Hagræðingarsjóðs.
    3. Við 3. gr. Í stað orðsins ,,Úreldingarsjóðs`` í 1. málsl. komi: Hagræðingarsjóðs.
    4. Við 4. gr.
    a. Í stað orðsins ,,Úreldingarsjóðs`` í 1. málsl. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. komi: Hagræðingarsjóðs, og í stað orðsins ,,Úreldingarsjóð`` í 1. málsl. 3. mgr. komi: Hagræðingarsjóð.
    b. Í stað orðsins ,,úreldingarsjóðsgjalds`` í 3. málsl. 1. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. komi orðið: hagræðingarsjóðsgjalds, og í stað ,,úreldingarsjóðsgjald`` í 3. málsl. 4. mgr. komi: hagræðingarsjóðsgjald.
    c. Í stað ,,1.200`` og ,,370.000`` í 2. málsl. 1. mgr. komi: 800 og 240.000.
    d. Í stað orðanna ,,október 1989, þ.e. 153,7 stig`` í niðurlagi lokamgr. komi: janúar 1990, þ.e. 159,6 stig.
    5. Á eftir 4. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Hagræðingarsjóði skal árlega úthlutað þeim aflaheimildum sem ekki nýttust á næstliðnu fiskveiðiári vegna álags á aflamark við útflutning á óunnum fiski,
sbr. 7. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða. Aflaheimildir þessar skulu þó aldrei vera meiri en 12 þús. þorskígildistonn árlega miðað við verðmætahlutföll er ráðherra ákveður. Skal allt að helmingi þessara aflaheimilda varið til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum er höllum fæti standa, sbr. 9. gr., en að öðru leyti skulu aflaheimildir þessar framseldar skv. ákvæðum 8. gr. til að standa undir kaupum á skipum til úreldingar.
    6. Við 5. gr. (er verði 6. gr.). Í stað orðsins ,,Úreldingarsjóðs`` í 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. komi: Hagræðingarsjóðs.
    7. Við 6. gr. (er verði 7. gr.).
    a. Orðin ,,sbr. nú lög nr. 3/1988`` í 2. málsl. 2. mgr. falli brott.
    b. 3. málsl. 2. mgr. falli brott.
    c. 1. málsl. 3. mgr. greinarinnar orðist svo: Aldrei skal Hagræðingarsjóður þó fá ráðstöfunarrétt umfram 5% af heildaraflaheimildum af botnfiski eða 5% af heildaraflaheimildum af einstökum tegundum sérveiða.
    8. Við 7. gr. (er verði 8. gr.).
    a. Í stað orðsins ,,Úreldingarsjóður`` í 1. málsl. 1. mgr. komi: Hagræðingarsjóður.
    b. Í stað orðsins ,,almanaksárs`` í 1. málsl. 1. mgr. komi: fiskveiðiárs, og í stað orðsins ,,almanaksári`` í

2. málsl. 2. mgr. komi: fiskveiðiári.
    9. Á eftir 7. gr. (er verði 8. gr.) komi ný grein er verði 9. gr. og orðist svo:
    Sjóðurinn veitir aðstoð sína til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum, er höllum fæti standa, með því að framselja veiðiheimildir sem honum hafa verið úthlutaðar í því skyni skv. 5. gr. Aflaheimildirnar skulu framseldar gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Skal sveitarstjórn í viðkomandi byggðarlagi eiga ráðstöfunarrétt að veiðiheimildum þessum gegn endurgjaldi skv. 1. mgr. 8. gr. Neyti sveitarstjórn ekki ráðstöfunarréttar síns skulu veiðiheimildir framseldar til skipa og gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 8. gr. þá um endurgjald fyrir veiðiheimildir þessar eftir því sem við á. Fáist ekki skip til veiðanna með þeim skilmálum getur stjórn sjóðsins, að fengnu samþykki ráðherra, ákveðið lægra endurgjald eða fallið frá endurgjaldi standi sérstaklega á. Forkaupsréttarákvæði 1. mgr. 8. gr. gildir ekki um framsal veiðiheimilda samkvæmt þessari mgr.
    Skilyrði fyrir aðstoð sjóðsins er að sala fiskiskips eða fiskiskipa hafi valdið straumhvörfum í atvinnumálum viðkomandi byggðarlags þannig að fyrirsjáanleg sé veruleg fækkun starfa og byggðaröskun sé yfirvofandi. Sjóðstjórn skal taka ákvörðun um aðstoð að fengnu samþykki Byggðastofnunar.
    Þær aflaheimildir skv. 1. mgr., sem ekki verða nýttar á viðkomandi fiskveiðiári til aðstoðar samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skulu framseldar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr.
10. Við 8. gr. (er verði 10. gr.). Í stað orðsins ,,Úreldingarsjóðs`` í 1., 2. og 3. mgr. komi: Hagræðingarsjóðs.
11. Við 9. gr. (er verði 11. gr.). Í stað orðanna ,,Úreldingarsjóður fiskiskipa`` í 1. málsl. komi: Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins.
12. Við 10. gr. (er verði 12. gr.). Í stað orðanna ,,Úreldingarsjóð fiskiskipa`` komi orðin: Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
13. Við 11. gr. (er verði 13. gr.). Greinin orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991. Jafnframt fellur úr gildi II. kafli laga nr. 37 11. maí 1978, um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Gjald skv. 4. gr. skal lagt á í fyrsta skipti fyrir árið 1991.
14. Við bætast tvö ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
    a. (I.) Fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1991 skal Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins úthlutað þeim aflaheimildum sem ekki nýttust á árinu 1990 vegna álags á aflamark eða aflahámark á útflutningi á óunnum fiski skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988--1990. Aflaheimildir þessar skulu þó ekki vera meiri en sem nemur 8 þús. þorskígildistonnum. Um ráðstöfun þessara heimilda fer eftir 5. og 9. gr. laganna.
    b. (II.) Sjútvrh. skal fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjútvn. Alþingis og helstu hagsmunasamtök í sjávarútvegi við

þá endurskoðun.
15. Fyrirsögn frv. verði: Frv. til laga um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.``
    Ég hef þá, virðulegi forseti, farið yfir þær brtt. sem 1. minni hl. leggur til. Nefnd sú sem samdi tillögur um frv. að löggjöf um afnám sjóðakerfisins sem samþykkt var sem lög frá Alþingi vorið 1986 ráðgerði að á síðara stigi yrði Úreldingarsjóður endurvakinn samhliða endurskoðun á Aldurslagasjóði.
Tillögur nefndarinnar um að varðveita eftirstöðvar Úreldingarsjóðs voru því lögfestar til þess að síðar gæfist kostur á að endurvekja hann. Hugmyndir um að koma slíkum sjóði á laggirnar eru því ekki nein stefnubreyting á því sem Alþingi hefur áður ákveðið. Ástæðan fyrir því að lagt er til að setja þennan sjóð á laggirnar er fyrst og fremst að stuðla að því að minnka það misræmi sem er á milli afkastagetu fiskiskipaflotans og afrakstursgetu fiskistofnanna. Er talið að hægt sé að ná sama aflamagni með um 70--80% af þeim fiskiskipaflota sem til er í landinu. Flestir eru sammála um að þetta meginmarkmið sjóðsins sé af hinu góða og sé liður í því að stuðla að aukinni hagkvæmni við veiðarnar. Í því frv. sem ráðgjafarnefnd um fiskveiðistjórnun skilaði af sér í byrjun þessa árs var gert ráð fyrir starfsemi Úreldingarsjóðs. Þrátt fyrir mörg sérálit og bókanir einstakra nefndarmanna gerði enginn athugasemd við það ákvæði frv.
    Á undanförnum árum höfum við getað beint umframafrakstursgetu flotans að áður vannýttum tegundum og vegur þar þyngst aukin veiði á úthafsrækju og grálúðu. Nú er hins vegar svo komið að fiskifræðingar hafa lagt til að verulega sé dregið úr sókn í báða þessa stofna og því hefur þurft að setja reglur til að draga úr sókninni. Vegna mikilla takmarkana í sókn í hefðbundna fiskistofna er nauðsynlegt að leita nýrra verkefna fyrir fiskiskipaflotann og þá trúlega hagkvæmast að leita fyrir sér í ónýttum eða vannýttum stofnum. Íslendingum ætti að vera það metnaðarmál að búa sem best að fiski- og hafrannsóknum þannig að sem haldbestar upplýsingar liggi ætíð fyrir um ástand hafsins og fiskstofna.
    Innan fiskveiðilögsögu okkar eru miklir ónýttir möguleikar, trúlega alveg ótrúleg verðmæti. Við megum ekki halda svo á málum að hlutskipti okkar verði að verða aðeins veiðiþjóð við fengsæl fiskimið. Það væri mikil ógæfa fyrir þessa þjóð. Því er ekki síður nauðsyn að efla stórlega sölu- og markaðsmál jafnframt því að auka vöruþróun með það í huga að á næsta leiti eru stórkostlegar breytingar að verða í sölu- og markaðsmálum sem við getum ekki látið sem við sjáum ekki.
    Þau sjónarmið hafa komið fram að eðlilegast sé að útgerðarmenn sjái alfarið um að fækka fiskiskipum sjálfir með því að sameina veiðiheimildir skipa. Ýmsir óttast hins vegar að slík fækkun skipa yrði alfarið á kostnað bátaflotans. Ég tel að með stofnun sjóðsins verði til tæki sem getur haft jákvæð áhrif í þá veru að tilflutningur veiðiheimilda verði ekki allur á einn veg

og sjóðurinn gæti t.d. beint kröftum sínum að því að kaupa togara frekar en báta, telji menn það stuðla að betri nýtingu fiskstofnanna. Hvað sem öðru líður hlýtur það að vera forgangsmál að fiskiskipum fækki og eignum gamla Úreldingarsjóðsins og Aldurslagasjóðsins verði ráðstafað í því skyni.
    Til að standa undir þessu verkefni er jafnframt nauðsynlegt að sjóðurinn fái tekjur. Ég efast um að samstaða sé um að hið opinbera reiði fram fé í þessu skyni, enda væri um miklar fjárhæðir að ræða. Því er ekki óeðlilegt að í frv. sé gert ráð fyrir að sjóðurinn standi undir starfseminni með því að taka gjald fyrir þær veiðiheimildir sem hann kann að fá ráðstöfunarrétt á.
    Eigendur fiskiskipa 10 brúttólesta og stærri fengju árlega forkaupsrétt að þessum veiðiheimildum til samræmis við aflahluti skipa sinna. Eignist sjóðurinn á einhverjum tíma meira en sem nemur 5% af heildarveiðiheimildum, sem lætur nærri að séu um 30 þús. þorskígildistonn, mun því verða skipt á milli skipa miðað við aflahlutdeild án endurgjalds. Ég endurtek: Mun því verða skipt á milli skipa miðað við aflahlutdeild án endurgjalds. Hér er um lokaðan sjóð að ræða sem vinnur fyrir sjávarútveginn í heild. Það er því víðs fjarri í mínum huga að með stofnun þessa sjóðs sé verið að stíga skref í átt til auðlindaskatts. Í mínum huga er auðlindaskattur það að rentan af fiskveiðunum sé tekin og færð til almenningssjóðs til samneyslu í þjóðfélaginu. Hlutverk sjóðsins er hins vegar fyrst og fremst að stuðla að því að auka rentuna af fiskveiðunum, en hún er einmitt allt of lítil vegna þess hversu flotinn er stór. Það eru því alveg fáránlegar kenningar hjá þeim er halda því fram að með slíkri sjóðsstofnun, hagræðingarsjóði innan greinarinnar sjálfrar, sé verið að stíga skref að auðlindaskatti. Í mínum huga er með þessu stefnt í þveröfuga átt og þeir sem halda öðru fram ættu hið allra fyrsta að sjá til þess að láta stilla hjá sér kompásinn.
    Miðað við þær brtt. sem ég gerði grein fyrir hér áðan er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái úthlutað allt að 12 þús. þorskígildistonnum árlega. Umfang þeirra heimilda sem sjóðurinn getur keypt með fiskiskipum án þess að þeim verði úthlutað endurgjaldslaust til skipa er því um 18 þús. þorskígildi, en það samsvarar því, svo að dæmi sé tekið, að hann geti á starfstíma sínum keypt 8--10 togara. Ljóst er því að sjóðurinn getur aldrei staðið fyrir nema hluta af þeirri fækkun fiskiskipa sem nauðsynlegt er að stefna að. Því er mikilvægt að sem minnstar skorður verði settar við því að einstakir útgerðarmenn geti tekið ákvarðanir um að sameina veiðiheimildir, eins og raunar er gert ráð fyrir í frv. um stjórnun fiskveiða. Með því móti gefst aflamönnum kostur á að njóta sín því að sjálfsögðu leita aflaheimildirnar til þeirra sem aflanum ná með sem minnstum tilkostnaði.
    Það er hins vegar nauðsynlegt að menn geri sér ljóst að framsalsheimildum fylgja einnig vandamál. Eins og ég gat um áðan óttast margir að flutningur veiðiheimilda geti valdið röskun í fiskiskipaflotanum

innbyrðis, t.d. milli báta og togara. Þá getur flutningur veiðiheimilda eða sala fiskiskipa skapað staðbundin vandamál í byggðarlögum sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Í ráðgjafarnefndinni var mikið rætt um það hvernig hægt væri að takast á við þann vanda sem getur skapast í ákveðnum byggðarlögum af þessum sökum. Fram komu skoðanir um að rígbinda eigi aflaheimildir við fiskiskip og/eða byggðarlög. Ég er þeirrar skoðunar að slíkt leiði einungis til stöðnunar og komi í veg fyrir eðlilega þróun.
    Það er einu sinni svo að auðlindin er takmörkuð og aukinn afli í einum stað hlýtur ávallt að þýða minni afla fyrir einhvern annan stað. Milli sjónarmiða þeirra sem leggja áherslu á aukna hagkvæmni og þeirra sem vilja rígbinda allt verður því að fara einhvern milliveg. Tillagan um að sjóðnum verði gert kleift að úthluta veiðiheimildum til byggðarlaga í sérstökum tilvikum er málamiðlun milli þessara sjónarmiða. Hún byggir á því að nýta umframafkastagetu fiskiskipaflotans til að leysa tímabundið úr erfiðleikum byggðarlaga þar sem sala fiskiskips eða fiskiskipa hefur fyrirsjáanlega fækkun starfa í för með sér og byggðaröskun er yfirvofandi af þeim sökum. Hér er því um hreinan öryggisventil að ræða sem nauðsynlegt er að fara varlega með. Því er gert ráð fyrir að bæði stjórn Hagræðingarsjóðs og Byggðastofnunar þurfi að samþykkja slíka aðstoð. Með því móti er tryggt að slík aðstoð fái ítarlega umfjöllun sem hlýtur að vera nauðsynleg þar sem ákvarðanir af þessu tagi hljóta ávallt að verða umdeildar. Þessi afli verður eftir sem áður sóttur af fiskiskipum og skerðir því ekki kjör útvegsmanna og sjómanna frekar en sá umframafli sem verið hefur á undanförnum árum vegna ákvæða um sóknarmark og veiði smábáta. Úthlutun sjóðsins ræðst þó af því hversu mikill útflutningur verður á næstu árum af óunnum fiski. Minnki hann hins vegar umfram það sem nú er lækka þær veiðiheimildir sem sjóðurinn fær í þessu skyni.
    Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég trúi því að öllum sé ljóst sem um þessi mál hugsa að brýna nauðsyn ber til að minnka núverandi fiskiskipaflota til að ná fram aukinni hagkvæmni og arðsemi í greininni. Það er grundvallaratriðið. Deila má um leiðir að því marki. Það er, held ég, öllum ljóst. Hér er sett fram stefna sem að vísu er byggð á ákveðinni málamiðlun frá upphaflegu frv. en það sem máli skiptir í þessu máli stendur óbreytt.