Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ég get verið stuttorður. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. um leið og ég talaði um það mál sem hér var á undan enda er hér um heild að ræða. Það er ekki hægt að tala um annað frv. án hins. Það er búið að breyta eðli Úreldingarsjóðsins og ekki aðeins eðlinu heldur líka nafninu, heitir Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins. Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu þá eru þeir framsóknarmenn sjóðvitlausir í sjóði. Það var eftirtektarvert að heyra formann sjútvn. lýsa því yfir hér áðan að einungis með því móti að skattleggja sjávarútveginn með þessum hætti og leggja á auðlindaskatt væri hægt að fækka fiskiskipum. Þetta er alveg gagnstætt því sem hann sagði í sinni fyrri ræðu þegar hann var að reyna að halda því fram að með kvótakerfinu hefði tekist að fækka fiskiskipum. Þá hélt hann því fram að flotinn hefði minnkað vegna þess að það væri innbyggt í kvótakerfið að útgerðarmenn reyndu að úrelda skip og fækka skipum til að draga til sín meiri afla. Nú heldur hann hinu gagnstæða fram og kórónaði svo fyrirhyggjuhugsunarháttinn með því að tala um að með þessum hætti væri hægt koma í veg fyrir skipulagslausa fækkun fiskiskipa. Sjálfur ætlar hann að sitja á einhverjum tróni hér í Reykjavík og segja: hér á að fækka og hér á að fækka en ekki þarna.
    Þetta er nú satt að segja hálfgerð fimmáraáætlun eins og hjá Jósef Stalín sáluga á sínum tíma, sem fór nú eins og hún fór, og næsta ömurlegt að þessi hugsunarháttur skuli gægjast fram hér á Alþingi á því herrans ári 1990, en lýsir auðvitað því sem hér er verið að gera. Það er verið að leggja á auðlindaskatt öðrum þræði til þess að reyna að hafa stjórn á byggð í landinu, sem ekki gengur, og svo öðrum þræði til þess að reyna að afla fjár í eyðsluhít ríkissjóðs sem er auðvitað næsta skrefið. ( Gripið fram í: Hafa skipulag á skipulagsleysinu.) Hafa skipulag á skipulagsleysinu. Ef það væri nú. En það er ekki aldeilis. Það á að koma í veg fyrir skipulagslausa fækkun
fiskiskipa. Það er verkefnið sem stjórnarherrarnir hafa sett sér og raunar þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Orð formanns sjútvn. skýra það sem hér er um að ræða. Það er verið að búa til nýja úthlutunarnefnd.
    Ég vil eiginlega hafa það mín lokaorð að ég ætla að vona að þessi nýja skömmtunarstjórn verði a.m.k. aldrei jafnmannfrek og sú vitlausa skömmtunarstjórn á húsnæði sem félmrh. er að efna til. En framsóknarmennirnir eru greinilega byrjaðir í kapphlaupinu og ekki mun líða á löngu þar til sömu tilhneigingar gætir hér og hjá félmrh.
    Við flytjum frávísunartillögu við þetta frv. en var kannski misskilningur. Það hefði kannski verið hreinlegra að fella frv. og munum við auðvitað greiða atkvæði á móti því ef frávísunartillagan nær ekki fram að ganga.
    Ég vil taka það fram að ég var andvígur þeim breytingum sem voru gerðar á Aldurslagasjóðnum með hinu fyrra óbreytta frv. um Úreldingarsjóð fiskiskipa

til að það fari ekki milli mála. Það var búið að spilla þeirri hugmynd líka. En nú tekur steininn úr og yfirlætið auðvitað í takt við frv.