Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér hefði þótt eðlilegra að forsrh. sjálfur hefði flutt þessa tilkynningu í kjölfar þeirrar sem hann flutti hér áðan um að það væri enn þá ætlast til þess að þingi lyki á laugardaginn. Það væri sem sagt ákvörðun ríkisstjórnarinnar og er út af fyrir sig ekkert við því að segja. Ég geri ráð fyrir að hann muni staðfesta það hér að það sé hans ákvörðun að svo verði. Ekki síst þegar formaður þingflokks Borgfl. hefur sagt þau orð sem þýða á venjulegri íslensku að formaður hans flokks, hæstv. umhvrh., hafi farið með ósatt mál hér áðan þegar hann sagði að þingfundir yrðu í næstu viku. Ég fagna þessum lyktum en skora á forsrh. að lýsa því sjálfur yfir hér og hafa enga milligöngumenn um það að svona muni þetta verða. Þá höldum við áfram störfum hér eins og um var samið, annars ekki.