Afbrigði um frumvarp um stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. 1. dagskrármálið er um stjórn fiskveiða og þarf að leita afbrigða. Samkvæmt þingsköpum þarf að líða ein nótt frá 2. umr. máls þar til það kemur til 3. umr. Nú er ætlunin að afgreiða þetta mál á einni og sömu nóttu bæði 2. og 3. umr. Það er nokkuð óvenjulegt. En oft er leitað afbrigða. En það er líka oft ekki góður siður að veita afbrigði. En þó getur það verið meinlaust ef um smámál er að ræða og mál sem er ágreiningslaust.
    Það er líka til í því að nauðsynlegt sé að veita afbrigði um mál sem er mikilvægt, eins og t.d. getur komið fyrir með frv. um skattamál eða tollamál þar sem eru miklir hagsmunir í veði ef mál er ekki afgreitt á ákveðnum degi eða innan ákveðinnar klukkustundar. En ég held að óhætt sé að fullyrða að það sé ekki góð þingvenja og ekki eðlilegt að veita afbrigði ef um stórmál er að ræða, ef um ágreiningsmál er að ræða, ef um mál er að ræða sem ekki eru í tímaþröng.
    Það mál sem hér er um að ræða og er ætlunin að leita afbrigða við, frv. til laga um stjórnun fiskveiða, er allt þetta í senn. Það er stórmál og það er svo stórt að það er naumast hægt að hugsa sér stærra mál. Það er ágreiningsmál og það er svo mikið ágreiningsmál að það er varla hægt að hugsa sér meiri ágreining í nokkru máli. Og það er mál sem ekki er í tímaþröng því að ef frv. þetta verður að lögum tekur það ei gildi fyrr en 1. janúar 1991. En það er heldur ekki í tímaþröng að mínu viti vegna þess að það liggi á að afgreiða í nótt þetta mál til Nd. Ég læt mér ekki detta í hug fyrr en ég horfi upp á það og þreifa á því að mögulegt sé að afgreiða þetta mál frá Nd. á einum eða tveimur dögum. Það er reginhneyksli að ætla að afgreiða þetta mál hér í nótt úr Ed. En það er að sjálfsögðu hálfu verra ef Nd. á ekki að hafa þetta mál, stærsta mál þessa þings og stærsta mál margra þinga, nema einn eða tvo daga.
    Það er talað um að búið sé að gera samkomulag um þetta. Við heyrðum í þingskapaumræðunum áðan í hvers konar ráðleysi þetta mál er. En ég spyr hæstv. forseta: Ætlar hann að samþykkja það og leggja til að þetta svokallaða samkomulag verði framkvæmt hér í nótt? Ætlar hann að gera það? Að sjálfsögðu er hann ekki bundinn við þetta samkomulag. Hann er bundinn aðeins við eitt, hann er bundinn við þingsköp og að framfylgja þingsköpum og anda þingskapa. Það reynir á forseta undir slíkum kringumstæðum sem nú að vera á varðbergi og gæta sóma þingsins. Þess vegna skora ég á hæstv. forseta að leggja ekki til að þessi afbrigði verði veitt og bera þau ekki undir atkvæði og taka málið ekki á dagskrá.