Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég er flm. að till. til rökstuddrar dagskrár á þskj. 1185, ásamt þeim Skúla Alexanderssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni og Karvel Pálmasyni. Mér þykir því rétt að taka til máls við þessa umræðu, bæði vegna þessarar tillögu, svo hef ég og ekki tekið til máls í dag í þessu máli, þó að við höfum rætt það frá því kl. 11 í morgun, og á raunar ýmislegt vantalað.
    Efst í huga manns nú er málsmeðferð þessa frv. sem við nú ræðum. Ýmsir hafa rætt það í dag og ég skal stytta mál mitt þess vegna en þessi málsmeðferð er búin að vera löng. Hún byrjaði í samráðsnefndinni árið 1988. Málið er búið að vera í meðferð þingsins frá því í febrúar þótt það hafi ekki verið hér til umræðu eftir að það kom úr nefnd nema í einn dag.
    Það er mikið ráðleysi og ringulreið sem einkennir alla meðferð þessa máls þrátt fyrir að það hafi verið svona lengi til meðferðar. Allt er þetta með ólíkindum en mér kemur það ekki á óvart. Það er vegna þess að eftir að núverandi fiskveiðistefna var tekin upp með lögunum frá 1983 hefur fiskveiðilöggjöfinni alltaf hrakað og meira ráðleysi verið við hverja endurskoðun. Og þó er það svo að við skulum hafa í huga þegar við minnumst þessarar sögu að þegar lögin voru fyrst sett í desember 1983 var talað um að þau væru til bráðabirgða. Og það var þá að frv. að þessum lögum var hespað í gegnum þingið í fljótheitum fyrir jólaleyfi, allt á handahlaupum. Og það hefur verið einkenni við endurskoðun og framlengingu þessara laga að þau hafa alltaf
verið afgreidd í flýti og tímaþröng, þetta mikilvægasta mál þjóðarinnar á hverjum tíma. Þetta er umhugsunarefni og alltaf hefur þessu farið hrakandi, málsmeðferðinni hér í þinginu.
    Endurskoðunin núna stefnir beint út í foræði í þessum málum. Þær tillögur sem eru ættaðar frá ráðherrunum og meiri hl. sjútvn. hefur gert að sínum hér og búið er að samþykkja við 2. umr. bæta gráu ofan á svart.
    Hvað er til ráðs í þessu máli? Ekki að endurskoða kvótakerfið heldur að endurskoða fiskveiðistefnuna með það fyrir augum að hverfa frá kvótakerfinu. Það var á þeirri forsendu sem ég greiddi atkvæði með frávísunartillögunni við 2. umr., eins og ég gerði grein fyrir við atkvæðagreiðslu. Þess vegna legg ég til ásamt meðflm. mínum að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá samkvæmt tillögunni á þskj. 1185.
    Hvers vegna er ég á móti kvótakerfinu? Um það má flytja langt mál. En ég skal leitast við að halda mig við það sem ég álít að séu aðalatriðin. Ég tel að ekki sé undan því snúist, það verði að gerast því mér þykir nokkuð hafa brostið á að aðalatriði þessa máls kæmu vel fram í umræðunum í dag þó margt hafi verið vel sagt í þeim efnum af einstökum þingmönnum, kvótaandstæðingum. ( StG: Ekki hinum?) Ég skal koma að því, hv. 3. þm. Norðurl. v., hvað formælendur kvótakerfisins og þessa frv., eins og það er nú orðið, hafa sagt og ég skal meira að segja víkja

aðeins að hv. 3. þm. Norðurl. v.
    Við skulum hafa það í huga, og um það erum við öll sammála, að við stöndum frammi fyrir miklum vanda um fiskveiðistjórnina. Sóknargeta fiskveiðiflotans er meiri en samsvarar veiðiþoli fiskstofnanna. Þetta er aðalatriði og grundvallaratriði. Það verður að minnka sóknargetuna, annaðhvort með því að takmarka fiskveiðiflotann eða takmarka not skipaflotans. Menn geta þá sagt sér sjálfir hvort sé skynsamlegra eða þjóðhagslega hagkvæmara, að takmarka fjárfestinguna sem lagt er í eða að takmarka nýtingu þeirrar fjárfestingar sem kostað er til. Þegar alls er gætt er nauðsynlegt að hafa hugfast hver tilgangurinn er með fiskveiðistjórnun. Hver er tilgangurinn? Grundvallaratriði er verndun fiskstofnanna, jafnframt hámarksafrakstri af fiskveiðum. Og hver er þá okkar hlutur í þessum efnum?
    Á undanförnum árum hefur fiskveiðiflotinn stækkað, nýting skipastólsins versnað og afrakstur fiskveiða farið eftir því, verndun fiskstofnanna hefur hrakað og veiðiþolið minnkað. Þetta eru staðreyndir. Menn þegja þunnu hljóði við þessum staðreyndum en það má láta tölurnar tala, það er af nógu að taka. Ég skal nefna örfá dæmi: Á árunum 1984--1988 fjölgaði fiskiskipum um 121 skip og smálestatala þeirra jókst um 9879. Auk þess fjölgaði opnum vélbátum um 162 skip og smálestatala þeirra jókst um 1725. Á árunum 1979--1983 fækkaði hins vegar skipum um 71 en smálestatala jókst um 5357, auk þess sem opnum vélbátum fjölgaði um 517 og smálestatala þeirra jókst um 1663 brúttólestir. Ég held áfram: Á árunum 1980--1983 fór þorskafli 64 þús. tonn fram úr tillögum fiskifræðinga um veiði. Á árunum 1984--1988 fór þorskafli hins vegar 489 þús. tonn fram úr tillögum fiskifræðinga um veiði. Þetta eru athyglisverðar tölur.
    Þjóðhagsstofnun hefur reiknað út áhrif vannýtingar fiskiskipa á afkomu botnfiskveiða. Samkvæmt athugun gæti, svo dæmi sé nefnt, hagur útgerðar árið 1987 hafa batnað um nálægt því einn milljarð króna eða nálægt 5% í hlutfalli við tekjur, ef fiskiskipum yrði fækkað um 10%. Vilja menn draga ályktanir af þessu? Auðvitað segir þetta sína sögu. Það má koma með fleiri tölur ef vill. Þessum ósköpum veldur röng fiskveiðistefna. Það fer ekki á milli mála að þessi óheillaþróun magnast um allan helming eftir að ný fiskveiðistefna var tekin
upp með lögunum frá 1983, um fiskveiðistjórn. Það er að berja höfðinu við steininn að neita að draga ályktanir af þessari staðreynd. Samt er það sá skollaleikur sem stjórnvöld hafa leikið.
    Ég hef þráfaldlega bent á þetta, bent á þessar staðreyndir og bent á að stjórnvöld skella skollaeyrunum við þeim. Við 1. umr. þessa máls ræddi ég ítarlega um þetta, ég ræddi um þessar staðreyndir og ég benti á að stjórnvöld lokuðu augunum fyrir þeim.
    Við 1. umr. var ég með nokkrar spurningar til hæstv. sjútvrh. af þessu tilefni. Ég spurði hæstv. ráðherra beint nokkurra spurninga. Ég hef ekki enn

fengið svar við þeim. Ég hef reiknað með því að áður en málið fer úr deildinni svari hæstv. ráðherra þeim og þess vegna minni ég hæstv. ráðherra á þetta. Ég vil rifja upp þessar spurningar til glöggvunar fyrir ráðherra. Ég spurði: Hvað gengur hæstv. ráðherra til að flytja annað eins frv. og hér er til umræðu? Mín spurning til hæstv. sjútvrh. var: Hvers vegna vill hæstv. ráðherra halda áfram kvótakerfinu með tilliti til reynslunnar af því í sex ár? Ég spurði hæstv. ráðherra að þessu og ég spurði enn fremur: Kemur ekki til greina með tilliti til reynslunnar að taka upp á ný fiskveiðistjórnun sem byggðist á sóknarstýringu eftir almennum reglum líkt sem var 1976--1983? Ég spurði ráðherra enn fremur: Er kvótakerfið góð aðferð til fiskveiðistjórnunar með tilliti til fiskverndar þegar því fylgir að farið er margfalt meira en áður fram úr tillögum fiskifræðinga um leyfilega heildarveiði? Og enn spurði ég: Hvernig stendur á því að haldið er við kvótakerfi sem aðferð til fiskveiðistjórnunar þegar það er staðreynd að því fylgir tvisvar sinnum meiri aukning fiskiskipastólsins en áður var?
    Ég hélt því fram að hæstv. sjútvrh. yrði að skýra betur ástæður en fram hefðu komið í framsöguræðu hans fyrir þessu frv. og ég vil leggja áherslu á þetta enn fremur nú.
    Ég fékk ekkert svar, ráðherra hefur ekki svarað. Mér finnst að það verði að svara þessu og ég lýsi eftir svörum. Ég lýsi eftir svörum frá ráðherra. Ég lýsi líka eftir svörum frá öðrum kvótaunnendum ef þeir geta svarað þessum spurningum. Mér er sama hvaðan upplýsingarnar koma en ég hef ekki fengið þær. Ég verð að segja að það er allt of lítið fjallað um þetta grundvallaratriði, hvernig kvótakerfið hefur haft gagnstæð áhrif á stærð fiskiskipaflotans frá því sem þarf að vera og hvers vegna fiskverndinni hefur hrakað undir kvótakerfinu.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v., formaður og frsm. sjútvn., kom nokkuð inn á þetta og það er lofsvert að hann skyldi gera það. Hann gerði það í sinni ræðu og ég hnaut nú eitthvað um þetta líka í nál. frá 1. minni hl. sjútvn. Þar er ein setning sem ég tók sérstaklega eftir, með leyfi hæstv. forseta, svohljóðandi: ,,Með þeirri lagasetningu``, --- þ.e. frá 1983 þegar kvótinn var innleiddur --- ,,var stigið mikilvægt skref af þeirri braut skipulagslausrar fjárfestingar og sóunar á verðmætum sem átti sér stað í sjávarútvegi á áttunda áratugnum.``
    Þetta er ekki góð einkunn sem áttunda áratugnum er gefin. Var það ekki sá áratugur sem Framsfl. gumaði mest af og kallaði ,,framsóknaráratuginn``? Ég kalla eftir skýringum frá hv. 3. þm. Norðurl. v. á þessum fullyrðingum um þróun þessara mikilvægu mála á áttunda áratugnum --- framsóknaráratugnum.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði að við værum allir sammála um að fiskiskipastóllinn væri of stór og það er alveg rétt. Hv. þm. drepur þarna á kjarna málsins. En þá spyr ég: Erum við þá ekki allir sammála um að skipan fiskveiðimála eigi að vera slík að stuðli að samdrætti í skipastólnum? Ég spyr, ég ætla að við ættum öll að vera líka sammála um þetta. Við eigum

að vera sammála um að fiskiskipastólinn er allt of stór og við eigum að vera sammála um að löggjöfin eigi að stuðla að samdrætti í fiskiskipastólnum. En þá spyr ég: Ef við getum verið sammála um þetta, getum við þá ekki verið sammála um staðreyndir svo við þurfum ekki að deila um þær? Getum við ekki verið sammála um staðreyndir? Getum við ekki verið sammála um staðreyndir sem komu fram í þeim tölulegum upplýsingum sem ég gat um áðan um stærð fiskiskipastólsins, stækkun fiskiskipastólsins, bæði fyrir og eftir að kvótakerfið kemur til sögunnar og um umframveiði fram yfir tillögur fiskifræðinga, bæði fyrir og eftir að kvótakerfið kom til. Það er nú kannski ekki til mikils mælst þó að farið sé fram á að við séum sammála um þessar staðreyndir. En það er ákaflega þýðingarmikið að við séum ekki að deila um þetta.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v., frsm. sjútvn., veður reyk í þessum málum. Hann fullyrðir að eftir að kvótakerfið kom til hafi verið samdráttur í fiskiskipastólnum, hann fullyrðir þetta. Hann fullyrðir þetta, þó að það sé staðreynd og er skjalfest í skýrslum Siglingamálastofnunar að flotinn óx helmingi meira eftir að kvótinn kom til en á árunum á undan. Ef við getum ekki verið sammála um þessar staðreyndir, ef menn ætla að neita tölum Siglingamálastofnunarinnar, þá er náttúrlega erfitt að ræða um þessi mál. En það var dálítið fróðlegt hvernig hv. 3. þm. Norðurl. v. ætlaði að snúa sér út úr þessu til þess að geta þverskallast við staðreyndum. Hvað gerði hann? Hann
vísaði í svar til Skúla Alexanderssonar á þskj. 698 og sagði að þar væri sönnunin fyrir hans máli. Þar væri sönnunin fyrir því að eftir að til kom kvótakerfið, sem vitað er að hefur innbyggðan hvata til þess að halda hverri fleytu á floti, hefði flotinn minnkað. Tölurnar sem ég tek upp úr skýrslum Siglingamálastofnunar segja að á árunum 1984--1988 hafi flotinn aukist um 9879 brúttólestir. Þetta er svart á hvítu.
    En hvað segir í svarinu til Skúla Alexanderssonar og hvað dugar það hv. 3. þm. Norðurl. v. til þess að skella skollaeyrum við staðreyndum? Þar segir að á árunum 1984--1988 hafi flotinn aukist um 8328 brúttólestir --- 8328. Hin skýrslan, sem ég legg nú meira upp úr án þess ég fari nú nánar út í það, segir 9879. Munurinn er um 1500 brúttólestir, en við erum að tala um aukningu sem nemur 10 þús. brúttólestum. Þó að við tökum tillit bæði til skýrslunnar og svarsins til Skúla, sem ég vil nú kannski taka með nokkrum fyrirvara, ég ætla ekki að fara að skýra það, en það skiptir ekki máli, er ekki svo mikill munur þarna á. Og að segja það, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði í sinni annarri eða þriðju ræðu, að flotinn hefði minnkað eftir að kvótinn kom til, er fals og ósannindi. Ég gæti sagt ýmislegt fleira um þetta efni, en ég ætla nú frekar að stytta mitt mál og skal ekki fjölyrða frekar um þetta atriði.
    Hver er mikilvægasta ályktunin sem við getum dregið af þessum staðreyndum sem ég hef verið að leggja áherslu á? Hver er hún? Hún er auðvitað sú að við eigum að hverfa frá kvótaskipulaginu. Það er

engin rökrétt ályktun önnur af þessum staðreyndum. En þá segja kvótamennirnir: Það er ekki á neinu öðru völ. Ég er nú svo oft búinn að svara þessu að ég ætla að leyfa mér að sleppa því núna. Ég er búinn að halda svo margar ræður hér og annars staðar um það hvað á að taka við. Og ég vísa til frv. um stjórn fiskveiða sem ég flutti ásamt 8. þm. Reykv. og hæstv. umhvrh. á síðasta þingi. Þar var gert ráð fyrir að horfið yrði frá kvótakerfinu og tekin upp önnur stefna, önnur stefna þar sem komið yrði á þeirri skipan sem tryggir verndun fiskstofnanna og miðast við að atgervi þeirra sem sjóinn stunda fái að njóta sín og sjávarútvegurinn geti lagað sig sem frjáls atvinnuvegur að landsháttum og fiskimiðum svo að gefi sem bestan rekstrargrundvöll til að ná hámarksafrakstri af auðlindum hafsins.
    Frv. okkar félaga á síðasta þingi benti á leiðina til þess að ná þessum markmiðum þar sem lagt var til að horfið yrði frá stjórn fiskveiða með veiðileyfum og komið yrði á stjórn á fiskiskipastólnum, sóknarstýringu á veiðitíma, veiðisvæðum, gerð skipa, búnaði veiðarfæra og meðferð afla, eftir því sem heimilaður hámarksafli á hverja fisktegund leyfði.
    Um þetta má náttúrlega tala mjög langt mál, en ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að leyfa mér að vísa til þess sem ég er svo oft búinn að segja hér í
þessum ræðustóli og annars staðar í þinginu, vísa til þess og líka til þess frv., meginatriða þess frv., meginhugsunar þess frv., sem ég lagði fram ásamt félögum mínum á síðasta þingi.
    Það er eitt í þessum umræðum og í meðferð málsins núna sem hefur komið sérstaklega til umræðu, að nú hafði hæstv. sjútvrh., og ríkisstjórnin, horfið frá þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru áður, að hafa samstöðu með hagsmunasamtökum útgerðarinnar, með LÍÚ. En nú er svo komið, eins og hér hefur verið bent á af öðrum, að þessi samstaða og þessi samvinna virðist hafa verið rofin með þeim vinnubrögðum sem nú hafa viðgengist. Ég held að þetta ætti að verða útgerðarmönnum, þeim útgerðarmönnum sem hafa trúað á fiskveiðikvótann og þá stefnu, nokkur aðvörun. Satt að segja er mesta undrunarefni í mínum augum afstaða forustumanna í útgerðarstétt, meiri hluta, ekki eiga allir þar óskipt mál, til kvótans. Þeir segja að kvótinn og kvótaskipulagið þjóni hag útgerðarinnar. Ég hef alltaf haldið því fram að það væri hreinn misskilningur og skammsýni að slíkt væri og ætti sér stað. Ég held að framhald kvótakerfisins geti ekki þýtt annað, þessi ríkisafskipti og miðstýring í þessum grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, en að þeir sem frá fyrstu tíð hafa haft forustuna og borið veg og vanda af þessari atvinnugrein geri það alltaf minna og minna vegna þess að skipulagið ber dauðann í brjósti sér fyrir viðgang frjálsrar útgerðar.
    Þetta er mín skoðun, og ég hef oft bent á þetta, og mér sýnist að hinir síðustu atburðir bendi mjög í þessa átt. Bæði er það sem ég sagði áðan um þann brest sem hefði orðið milli stjórnvalda og hagsmunaaðila í útvegi í sambandi við mótun stefnunnar og svo að maður hefur ástæðu til að ætla

að hjá ýmsum ríkisafskiptamönnum, miðstýringarmönnum, liggi sá fiskur undir steini í sambandi við afstöðuna til fiskveiðistefnunnar að það sé af hinu góða að minnka sjálfstæði, minnka valdsvið, minnka mikilvægi hinnar frjálsu útgerðar. Ég gæti nefnt ýmislegt þessari skoðun til stuðnings. En ég skal enn leitast við að stytta mál mitt og ég skal því aðeins vitna í eitt. Ég vitna í grein eða samtal er það nú að forminu, sem birtist í Þjóðviljanum í gær, við formann Alþb., Ólaf Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh. Á hátíðardegi verkalýðsins finnur hæstv. fjmrh. og formaður Alþb. köllun hjá sér til þess að ræða um fiskveiðistefnuna. Og það er augljóst þegar þessi grein er lesin að hæstv.
fjmrh. hugsar útgerðarmönnum þegjandi þörfina. Ég bið menn að taka eftir þessu, hugsar þeim þegjandi þörfina.
    Ég vitna hér í þetta samtal, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.:
    ,,Það gleymist stundum í orrahríð hins daglega skaks að það koma af og til umfjöllunaratriði sem eru svo stór í eðli sínu að allt annað ætti í reynd að víkja til hliðar. Ég veit að félagar og stuðningsmenn þessa málstaðar sem Alþb. hefur barist fyrir sjá í hendi sér að þetta atriði er í sjálfu sér miklu stærra heldur en skipulag fiskveiðistjórnunar frá ári til árs``, miklu stærra, það sem á bak við liggur. Enn fremur önnur tilvitnun. Samtalinu lýkur með þeim orðum. Hæstv. ráðherra hefur áður verið að túlka og lofsyngja samkomulag stjórnarflokkanna í kvótamálinu. Svo segir ráðherrann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Kosturinn við þessa niðurstöðu núna er að hún lokar ekki málinu. Við sem viljum halda áfram að þróa þetta kerfi í ákveðnar áttir getum haldið okkar umræðu áfram því að í lögunum er bráðabirgðaákvæði um að það skuli endurskoða þau eftir tvö ár. Þá mun nefnd stjórnarflokkanna starfa áfram í sumar og haust og skila áliti fyrir lok október. Ballið á því að halda áfram.
    Það er eðli lýðræðisins að þegar uppi eru jafnmörg og jafnólík sjónarmið og í stjórn fiskveiðanna þá haldi dansleikurinn áfram.`` Þetta sagði Ólafur Ragnar að lokum.
    Ja, nú geta menn lagt út af þessum orðum. Ég ráðlegg mönnum líka að lesa greinina í heild og finna þann anda sem þar kemur fram. En ég tel þetta staðfestingu á því sem ég sagði áðan að þessir miðstýringarmenn og ríkisafskiptamenn, eins og hæstv. fjmrh., hugsa íslenskri útgerð þegjandi þörfina. Það á að halda áfram að þrengja að þessum aðilum, taka völdin og áhrif af þeim, ábyrgðina frá þeim. Og það eru unnendur og formælendur kvótans sem bjóða upp á þennan dans, þennan hrunadans íslenskrar útgerðar. Það er þess vegna, þegar á allt er litið, hvað afstaða kvótamannanna er þjóðhættuleg. Þeir forherðast bara við hverja raun, ef þeim er bent á staðreyndir. Þeir endurskoða og hver endurskoðun er til hins verra. Og ríkisafskiptin og miðstýringin sem er auðkenni þessa kerfis eru með eindæmum. Það breytir engu þó að engin dæmi séu þess í hinum svokallaða vestræna

heimi að nokkur önnur þjóð búi undirstöðuatvinnuvegi sínum svo þröngan kost miðstýringar og ríkisforsjár sem við Íslendingar gerum. Og jafnvíst er það að kvótamennirnir hafa getað átt sína aðdáendur austan járntjalds áður en þar var lagt inn á braut markaðsbúskapar.
    Hætt er við að lítið færi fyrir markaðslögmálum ef beitt væri ráðum kvótamanna víðar en við fiskveiðistjórnun. Gæðin eru mörg takmörkuð önnur en fiskurinnn í sjónum, en samt byggir markaðsbúskapurinn á frjálsri samkeppni en ekki skömmtun. Það kemur því spánskt fyrir sjónir þegar frjálshyggjumenn ganga fram fyrir skjöldu í lofinu um ríkisforsjá kvótakerfisins og bregðast þá krosstré sem önnur tré.
    En forvitnilegast af öllu er framlag hinna lærðu manna í umræðunni um kvótann, háskólamanna og vísindamanna. Þar er að finna miklar og gagnlegar upplýsingar og fróðleik um sjálfstæðar athuganir og jafnvel vísindarannsóknir. En einn er galli á gjöf Njarðar. Þessi lærða umræða kemur yfirleitt of lítið eða alls ekkert inn á það sem í upphafi skyldi skoða. Það er gengið fram hjá spurningunni um hvort halda skuli við kvótakerfið eða falla frá því og hvað væri þá að velja um. Menn þessir gefa sér sem forsendu að einstaklingsbundin stjórnun með aflatakmörkunum á hvert skip skuli það vera. Umræðan snýst því ekki um grundvöllinn að kvótakerfinu heldur um útfærslu og framkvæmd þess. Þar er að sjálfsögðu um veigamikil atriði að ræða, svo sem hvort úthluta eigi kvóta ókeypis eða selja veiðileyfi, hvort kvóti eigi að vera til sölu á uppboði eða fyrir fast gjald, hvort kvóti eigi að vera framseljanlegur eða ekki og svo hverjum beri eignarrétturinn af fiskimiðunum.
    Ívaf rökræðunnar um þetta allt saman er sjálfur auðlindaskatturinn og er þá gefin sú forsenda að ekki sé hægt að skattleggja sjávarútveginn sem skyldi nema kvótakerfi sé til staðar. Svo vafasamar sem forsendurnar eru má hitt vera ljóst að öll atriði þessarar lærðu umræðu hafa þá náttúru að efna til slíks ágreinings að með eindæmum er. Þessi ágreiningsmál kljúfa þjóðina niður í andstæðar fylkingar eftir mismunandi sjónarmiðum hagsmunaárekstra, siðferðisskoðana, byggðamála og stéttaágreinings. Hér er um að ræða djúpstæð mál sem höfða til réttlætiskenndar og tilfinninga sem valda sundurþykkju, úlfúð og illvígum deilum og til þess eins fallin að sundra þjóðinni þegar mest ríður
á samstilltu átaki til úrlausnar þeim vanda sem nú er á höndum til mótunar fiskveiðistefnu. Og vissulega er það kaldhæðnislegt að svo miklu skuli fórnað í vonlausum lífgunartilraunum á þeirri aðferð við fiskveiðistjórnun sem er undirrót erfiðleikanna sem við er að fást. Hins vegar verður því ekki neitað að býsna fróðlegt er og eftirtektarvert að fylgjast með fræðilegum vangaveltum hvers og eins, svo að ekki sé minnst á leikni, rökfimi og skylmingar hinnar nýju skólaspeki þegar menn leiða saman hesta sína.
    En á meðan þessu fer fram magnast eldurinn sem fer eyðandi hendi um þjóðarbúið. Dansinn dunar.

Annmarkar kvótakerfisins færast meir og meir í aukana. Stöðugt verður augljósara að með kvótakerfinu næst ekki tilgangurinn með fiskveiðistefnu, hámarksafrakstur fiskveiða og verndun fiskstofnanna. Alltaf verður þungbærara að kvótakerfinu fylgir kostnaður langt umfram það sem þarf til að bera að landi það aflamagn sem kostur er á. Af þessum ástæðum er ekki einungis sjómannshluturinn æ rýrari og útgerðin lakar sett en vera þarf. Þess vegna er framleiðslukostnaðurinn, hráefnis til vinnslunnar, meiri og meiri en nauðsyn krefur. En af því leiðir að útflutningsframleiðslan kallar á sífellt lægra gengi krónunnar en vera þarf. Það leiðir hins vegar til hærra og hærra verðs á lífsviðurværi almennings. Þannig dregur kvótakerfið dilk á eftir sér. Það er þjóðin í heild sem verður að axla byrðarnar af kvótakerfinu í stöðugt lakari lífskjörum en vera þyrfti.
    Herra forseti. Og enn er verið að endurskoða kvótakerfið til þess að viðhalda því og styrkja í sessi. Það er verið að skara í eldinn. Þar kennir ýmissa kynlegra grasa sem væri freistandi að fara fleiri orðum um en ég ætla að láta það ógert að þessu sinni. Ég hef hins vegar talið rétt að víkja hér að nokkrum grundvallaratriðum varðandi fiskveiðistefnuna, grundvallaratriðum sem ráða sköpum fyrir heill lands og lýðs, vekja athygli á þessu til stuðnings tillögu til rökstuddrar dagskrár sem ég og félagar mínir höfum flutt á þskj. 1185. Þessi tillaga er skýr og skýrir sig sjálf. Ég skal því ekki hafa fleiri orð að þessu sinni.