Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Pálmi Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Vegna þess að hér er hafin umræða um þingsköp vil ég leyfa mér að spyrjast fyrir um hvað líði afgreiðslu á frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði sem gert var að umtalsefni hér fyrir fáum dögum. Ég rifja það upp að hv. formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar lýsti því yfir að frv. yrði tekið fyrir og yrði síðan afgreitt úr nefnd. Nú eru senn þinglausnir og ég leyfi mér því að spyrjast fyrir, úr því að það er ekki komið hér á dagskrá, hvort hv. fjh.- og viðskn. hafi ekki getað fundið sér tóm til þess að halda fund og taka þetta mál fyrir til afgreiðslu. Ef það er raunin að enn sé ekki farið að fjalla um þetta mál innan nefndarinnar þá sýnist mér að stefni í það óefni að málið geti ekki verið tekið til afgreiðslu hér á Alþingi sem ég tel ekki koma til mála annað en stefnt sé að eins og áður hefur fram komið.