Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Sighvatur Björgvinsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ekki dettur mér í hug að gera tilraun til þess að hræra hjarta hv. 1. þm. Norðurl. v. Það er ekki auðhlaupið að því að gera slíkt og ég treysti mér ekki til þess.
    En ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði hér áðan að það kom fram frá hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánssyni ekki einu sinni heldur tvisvar að hv. formaður þingflokks Framsfl. hefði komið í veg fyrir að þetta mál fengist tekið á dagskrá þingflokksfundar í Framsfl. frá því að það var lagt fram á Alþingi í desember og þangað til nokkrum dögum áður en það var tekið til umræðu hér á Alþingi mörgum vikum síðar. Hv. þm. Alexander Stefánsson sagði einnig að það hefði verið fyrir kröfu forsrh. að málið hefði fengist tekið fyrir. Þetta held ég því að hv. þm. Páll Pétursson geti fundið í þingtíðindum ef hann hefur fyrir því að lesa þau. En hv. þm. ætlar auðsjáanlega að beita sömu vinnubrögðum í fjh.- og viðskn. þessarar deildar gagnvart þessu máli og hann hefur beitt í Framsfl. samkvæmt því sem hér hefur komið fram.
    Um orðalag hv. þm. að öðru leyti ætla ég að hafa sem fæst orð. Mér kemur í því sambandi í hug gamall og genginn framsóknarmaður, Kristján frá Garðsstöðum, sem aldrei talaði svo um mann eða málefni að hann legði ekki gott til. Ég hef aldrei heyrt hv. 1. þm. Norðurl. v. ræða þannig um menn eða málefni að hann hafi haft gott til þess manns eða þess málefnis að leggja.