Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Alexander Stefánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Því miður heyrði ég nú ekki þetta upphlaup sem hafði orðið hér í þingskapaumræðu um þetta mál. En ég held að það sé mjög aðgengilegt sem ég sagði í umræðu um þetta mál fyrr á þinginu. Það er ekkert nýtt fyrir mér að hv. 1. þm. Norðurl. v. sé andvígur þessu máli. En hitt er staðreynd að þetta er ekki stjfrv. Ég lét útbýta þessu frv. hjá þingflokknum strax þegar það var tilbúið frá fjvn. Oft var talað um að taka málið til umræðu en ekki varð af því. Og ég get staðfest það sem hér kom fram að hæstv. forsrh. hafði forgöngu um að málið yrði sérstaklega tekið til umræðu á fundi þingflokksins, sem og varð eftir að frv. var búið að liggja hér útbýtt í hv. deild.
    Um skiptar skoðanir manna um þetta mál ætla ég ekki að ræða hér. En ég verð að taka undir það að það er ákaflega miður að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar skuli ekki hafa áttað sig á mikilvægi þessa máls. Ekki það að endilega þyrfti að samþykkja frv. óbreytt frá fjvn. heldur efni þess og aðalkjarna.
    Ég held að allir hv. þm. séu sammála um það að hér þarf um að breyta. Og þetta frv. sem öll fjvn. hefur sameinast um, aðilar úr öllum þingflokkum hér, það er mikilvægt skref í þá átt. Ég harma það mjög að hv. Alþingi skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að taka þetta til efnislegrar umræðu og afgreiðslu jafnvel þótt menn hefðu viljað gera á því talsverðar breytingar frá því sem það liggur fyrir í dag. Það er kjarni málsins.