Yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Pálmi Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér kemur það í sjálfu sér ekki á óvart þó ekki sé mikill tími til þess að fást við öll mál sem fyrir liggja nú á þessum síðustu dögum úr því að hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar hafði eigi tóm til þess að halda fundi í nefndinni í þrjár vikur svo sem hér kom fram fyrir fáum dögum. Hins vegar brýni ég það mjög fyrir hv. nefnd að hér er um mikilvægt mál að tefla, mál sem mikil vinna hefur verið lögð í af hálfu fjárveitinganefndarmanna, mál sem allir fjárveitinganefndarmenn flytja, sem eru líklega kunnugri framkvæmd ríkisfjármála en flestir aðrir þingmenn. Ég hlýt að líta svo á að sú skoðun okkar að nauðsyn sé að ná þarna betra vinnulagi, sem ætti að gerast að verulegu leyti með því frv. sem hér er á ferðinni, ef samþykkt verður, ætti að vera nokkurs virði í augum allra hv. alþm.
    Ég skora á hv. 1. þm. Norðurl. v., enda þótt hann hafi ekki áttað sig á þessum einföldu staðreyndum um mikilvægi málsins, að láta það ekki hindra að málið verði afgreitt út úr nefndinni þannig að það megi koma til afgreiðslu á hinu háa Alþingi.