Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég sakna iðnrh. í salnum. Ég vildi helst ekki hefja mál mitt fyrr en hann kæmi. ( Forseti: Forseti telur að iðnrh. hljóti að vera hér á næstu grösum, en mun gera ráðstafanir til að kalla hann til fundarins.)
    Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frv. til laga um breytingar á lögum um raforkuver o.fl. Þótt frv. sé til 1. umr. hefur þingnefnd þegar byrjað að vinna í málinu og haldið tvo fundi um það þrátt fyrir að við höfum ekki getað vísað málinu til nefndar. Þetta hefur verið í góðu samkomulagi, en ég tel að sjálfsögðu nauðsynlegt að málið komi til nefndar.
    Eins og fram kemur bæði í athugasemdum við frv. og hér í umræðunni er þetta frv. flutt til að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi. Þótt frv. sé í sjálfu sér eingöngu um raforkuverin þá er ekki hægt að komast hjá því að ræða málið í víðara samhengi og í samhengi við álversuppbyggingu hér á landi.
    Það er einkennileg þráhyggja að það eina sem forráðamenn virðast trúa að geti bjargað íslensku efnahagslífi sé bygging nýs álvers. Þetta hefur tekið hugi þeirra svo að varla hefur örlað á viðleitni til að líta til annarra kosta fyrir atvinnulífið. Fullvinnsla sjávarafla, önnur matvælaframleiðsla og iðnaður sem hentar íslensku atvinnulífi virðist ekki ofarlega á vinsældalistanum hjá þessum herrum. Nú hefur áróðurinn haft þau áhrif að æ fleiri eru farnir að trúa vitleysunni. Það sem einna helst hefur komið í hug núna á síðasta ári er að setja á stofn svokallaðar atvinnumálanefndir sem í eru fyrst og fremst karlar. Mér reiknast svo til að 16 karlar og ein kona hafi komið þar nálægt. Í ummælum hæstv. umhvrh., sem þá var ráðherra Hagstofu Íslands, kom fram að nefndin sem hann skipaði væri hugarflugsnefnd og meira hefur maður varla heyrt frá henni. Þetta virðist vera það eina sem komið hefur frá ríkisstjórninni annað en þessi eilífa þráhyggja um álver. Það er verið að tala um fjölbreytni í atvinnulífinu en það verður varla til að auka fjölbreytni að bæta enn einu álverinu við.
    Þetta getur varla verið atvinnustefna sem er farsæl fyrir Íslendinga. Eins og alþingismönnum er kunnugt hefur Rannsóknasjóður úthlutað styrkjum til ýmissa verkefna gegn því að atvinnurekendur komi til móts við styrkumsækjendur og styrki rannsóknir og því hefur verið mjög vel tekið í atvinnulífinu. Það hafa borist umsóknir að heildarupphæð núna 325 millj. kr. og umsækjendur gátu lagt fram 407 millj. kr. En það var ekki hægt að verða við nema litlum hluta umsókna vegna niðurskurðar. Rannsóknaráð vakti athygli á þessu með fréttatilkynningu sem það sendi frá sér þann 13. mars sl. Í lok ályktunarinnar segir, með leyfi forseta: ,,Með fréttatilkynningu þessari vill Rannsóknaráð ríkisins vekja athygli á þeirri stefnu sem í þessari þróun felst. Vilji stjórnmálaforustan í landinu bera ábyrgð á henni er ekki um það að fást. Hins vegar verða stjórnmálamenn þá um leið að vera

sjálfum sér samkvæmir og hætta að tala opinberlega eins og þeir hafi áhuga á nýsköpun í atvinnulífinu.`` Það er eins og þessi álversþráhyggja hafi raunverulega blindað ráðamenn þannig að þeir sjá ekki að aðrir möguleikar eru fyrir hendi hér á landi.
    Ég vildi vekja athygli á þessu við þessa umræðu þar sem það hefur greinilega komið fram að kvennalistakonur telja að stóriðjuuppbygging eins og hér er verið að tala um henti okkur ákaflega illa. Eðlilegra er að stuðla að nýsköpun og fullvinnslu þeirra hráefna sem við sjálf höfum hér innan lands.
Auk þess sem er að gerast varðandi rannsóknir þá hefur allt of lítið verið hugað að fullnýtingu sjávarafla og að reyna að koma þeim vörum á markað og eins að líta til annarra þátta sem eru mjög hentugir fyrir okkur Íslendinga.
    Mikið hefur verið rætt um þá fullyrðingu hæstv. iðnrh. að eitt tonn af áli gæfi jafnmiklar gjaldeyristekjur og eitt tonn af þorski úr sjó. Ég ætla ekki að rekja þau ummæli. Það hefur verið gert hér fyrr í umræðunni, en greinilega er þarna um einhvern misskilning að ræða. Alla vega eru þessir útreikningar ákaflega einkennilegir. Ég get ekki skilið útreikningana þar sem eitt tonn af þorski samsvarar einu tonni af áli og hefði gjarnan viljað fá skýringu á þeim. Þarna hljóta einhverjir þættir að hafa verið verið skildir eftir. Í grein í DV fimmtudaginn 26. apríl er talað um að eitt tonn af þorski samsvari nær níu tonnum af áli. Þó ég geti ekki farið ofan í þá útreikninga frekar en þá sem fá út eitt tonn af áli þá virðist sú röksemdafærsla miklu nær sanni. Það er því einkennilegt að nota slíkan áróður til að reyna að afla fylgis hugmyndinni um frekari álframleiðslu hér á landi. Það hlýtur að koma inn í þessa útreikninga að líkur eru á að meiri hlutinn af þeim arði sem hugsanlega kemur af þessu álveri verði fluttur úr landi en ekki notaður hér innan lands. Það hlýtur að koma mjög sterkt hér á móti því þó einhverjar gjaldeyristekjur fáist fyrir ál þá koma bæði innflutt aðföng og arðurinn sem er fluttur úr landi þarna á móti. Hefði mér nú þótt fróðlegt að fá frekari útlistanir á þessari fullyrðingu. Í hv. iðnn. höfum við óskað eftir frekari útreikningum á þessu en tími okkar er mjög þröngur ef takast á að ljúka því að afgreiða þetta mál fyrir þinghlé sem ég raunar skil ekki að sé nokkur þörf á ef þetta frv. er skoðað aðeins betur.
    Gert er ráð fyrir að álver muni kosta um 50 milljarða kr. og virkjanir því tengdar í kringum 40 milljarða. Eftir að byggingarframkvæmdum lýkur er áætlað að í kringum 600 manns vinni við álverið. Það er því gert ráð fyrir óhemju fjárfestingu fyrir hvert starf. Álver er því ekki lausn fyrir þá fjölmörgu sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum. Innflutningur landbúnaðarvara og útflutningur á óunnum fiski tilheyra einnig boðskap þeirra sem hæst hrópa um hve nauðsynlegt er að fá álver í hvern fjörð. Þá er ekki verið að reikna út hve margir missi atvinnu sína við það. Má þá búast við því að það yrðu nokkuð fleiri en 600 manns sem misstu atvinnuna og væri rétt að reikna út margfeldisáhrif af

því eins og gert er við þessa útreikninga hér. Þarna er því verið að tala um verulega dýr störf og væri nær að nýta þessa fjármuni til einhvers annars betra.
    En það sem er kannski einkennilegast í þessu öllu saman miðað við þær fullyrðingar sem bæði koma fram sums staðar í athugasemdum við frv. svo og í þeim fullyrðingum og yfirlýsingum sem hafa verið bornar á borð bæði af hálfu hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. um að að sjálfsögðu verði gerðar ýtrustu kröfur til mengunarvarna. Ég hef nú orðið verulegar áhyggjur af því að svo verði ekki gert.
    Mig langar, virðulegur forseti, að vitna í fréttabréf Landsvirkjunar frá 6. sept. 1988 þar sem verið er að ræða um álmarkaðinn. Þar segir Halldór Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar, í lok greinar sem hann skrifar um þessi mál, með leyfi forseta: ,,Öðru máli gegnir um þá sem þurfa til lengri tíma litið á áli að halda til úrvinnslu á eigin vegum en standa frammi fyrir því að þurfa að loka óhagkvæmum álbræðslum á næstu árum og eiga í erfiðleikum með að byggja nýjar álbræðslur í staðinn í heimalöndum sínum, svo sem vegna hækkandi rafmagnsverðs og annars rekstrarkostnaðar auk umhverfisvandamála eins og á sér stað um þá álframleiðendur sem nú ræða við íslensk stjórnvöld um að færa út kvíarnar hér á landi.``
    Forstjóri Landsvirkjunar gerir þannig ráð fyrir því að eigendur álvera sem hafa orðið að hrökklast frá löndum þar sem umhverfiskröfur eru miklar komi til Íslands vegna þess að þeir telji e.t.v. að hér verði ekki gerðar eins miklar kröfur til umhverfismála.
    Á bls. 15 í athugasemdum við frv. er talað um umhverfismálin. Þar er talað um að Atlantal-aðilarnir hafi lagt mikla áherslu á að samningur um umhverfisvernd og þá fyrst og fremst væntanlega mengunarvarnir, að skilmálarnir liggi fyrir áður en undirritun verði. Og síðan að verið sé að vinna að rannsóknum á umhverfisáhrifum af álveri og á grundvelli þeirra sé hægt að ákveða mengunarvarnir.
    Á bls. 16 í athugasemdum við frv. er einnig talað um að hugsanlegt sé að krefjast mismunandi mengunarvarna eftir því hvar staðsetningin verður. Samt sem áður er alltaf talað um að það verði að krefjast ýtrustu og fullkomnustu mengunarvarna. Ég átta mig alls ekki á hvað þarna er á ferðinni. Hvers vegna í ósköpunum er ekki miðað við fullkomnustu mengunarvarnir sama hvar álverið er staðsett? Það sem e.t.v. hefur verið talað einna mest um varðandi nýtt álver er brennisteinsdíoxíðmengun. Slík mengun hefur t.d. verið mjög mikil frá álverinu í Straumsvík og ekki verið um neina hreinsun á því að ræða. Í athugasemdunum við frv. er talað um að eitt helsta álitaefni varðandi mengun frá nýju álveri sé hvort krefjast skuli vothreinsunar á SO2. Orðrétt segir að forsendur þess að gera kröfur um vothreinsun geti verið nokkuð aðrar en t.d. í Noregi og Svíþjóð sem einkum hefur verið horft til. Hvað er eiginlega hér á ferðinni? Af hverju er verið að ræða um að það þurfi að gera einhverjar aðrar kröfur varðandi brennisteinsdíoxíð hér á landi en t.d. í Noregi? Ég hef heyrt þá röksemd að jarðvegur hér á landi sé basískari

en annars staðar og þess vegna sé í lagi að þangað berist svo og svo mikil sýra og að ,,buffer``-eiginleikar jarðvegsins séu það miklir að það sé í lagi að svo og svo mikið af brennisteinsdíoxíði komi út í andrúmsloftið. Þetta finnst mér einkennilegar fullyrðingar. Það hljóta allir að vita að þegar plöntur skemmast og drepast af loftmengun er það vegna þess að brennisteinsdíoxíðið, sýran, fer á blöðin en ekki að það sogist upp úr jarðveginum. Sú mikla skógareyðing sem á sér stað í Evrópu er því fyrst og fremst út af loftmenguninni, þar sem sýran fellur á sjálf blöðin og barrið, en ekki vegna þess að jarðvegurinn súrni svo mjög. Hins vegar skiptir ,,buffer``-eiginleikinn að sjálfsögðu máli varðandi súrnun í ám og vötnum. Mér finnst ekki koma til greina að veita nokkurn afslátt af kröfum um hreinsun á brennisteinsdíoxíði hvar sem þetta álver er staðsett ef af byggingu verður.
    Það hefur jafnvel verið rætt um að gera megi minni kröfur um mengunarvarnir vegna þess að það sé svo mikið rok, t.d. hér á Reykjanesi. Þar af leiðandi megi kröfurnar vera heldur minni þar en annars staðar af því að dreifingin er meiri. Mér finnst hreint ótrúlegt að við sem þykjumst ætla að hafa forustu í umhverfismálum og viljum líta á Ísland sem fyrirmynd annarra varðandi umhverfi og umhverfisvernd skulum láta okkur detta í hug að við getum bara sent súrt regn eitthvað burt, sent það út á haf og sagt að aðrir geti tekið við, það
skipti okkur ekki neinu máli. Við verðum að athuga það að við berum líka ábyrgð í víðara samhengi og getum ekki bara horft á einhvern lítinn blett á Suðurnesjum og sagt: Úr því hann mengast minna en einhver annar staður þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur. Mér þykir þess vegna rétt að fá upplýst hvað hér er á ferðinni.
    Mér finnst líka dálítið skrýtið þegar ég les hérna í athugasemdum að setja þurfi á laggirnar nýja nefnd sem heitir nefnd sérfróðra aðila um umhverfisáhrif stóriðju. Ég veit ekki betur en við höfum ágæta aðila sem hafa fjallað um þessi mál lengi, þ.e. mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins. Þó ég sé síst að lasta þá sem þarna hafa tekið að sér verkefni þá er ég hrædd um að málinu verði drepið allt of mikið á dreif ef fleiri og fleiri aðilar eiga að koma að málinu. Við höfum mengunarvarnareglugerð sem er nokkuð ströng að því er varðar loftmengun, alla vega að því er varðar brennisteinsdíoxíð. Við höfum líka fólk sem hefur kynnt sér mjög mikið um þessi mál og á erfitt með að sjá að þetta verði skilvirkara eða meiri líkur á að niðurstaða náist sem sé ásættanleg ef allt of margir er hafðir í þessum málum.
    Ekki hef ég séð neitt í athugasemdum með frv. um aðra mengun en loftmengun, svo sem kerbrot og annað og hvaða hugsanlegar kröfur þyrfti að gera að því er það varðar, en það er eitt af því sem við höfum verið í vandræðum með hér að því er varðar álverið í Straumsvík. Ég verð þess vegna að viðurkenna að eftir að hafa lesið það sem fram kemur í þessum athugasemdum varð ég enn órólegri og hafði enn meiri áhyggjur en áður, sem voru þó ærnar fyrir,

af því að mjög illa væri séð fyrir umhverfismálunum í þessu máli, því miður. Ég hafði ekki átt von á því þrátt fyrir allt og hafði vonað að hægt yrði að setja fram kröfur um það atriði. Þó mér þyki aðrir þættir varðandi þetta álver nógu slæmir þá líst mér mjög illa á það sem virðist vera hér á ferðinni. Ég bendi á að í þætti í Ríkisútvarpinu ekki alls fyrir löngu og í fréttum reyndar líka kom fram að á markað væri að koma mjög fullkominn mengunarvarnaútbúnaður bæði fyrir brennisteinsdíoxíð, flúoríð og ryk og fleiri þætti. Þætti mér fróðlegt að vita hvort eitthvað hefði verið athugað um þennan útbúnað. Það sem mestu máli skiptir er að enginn afsláttur verði veittur af mengunarvörnum.
    Mikið er talað um öll þau jákvæðu þjóðhagslegu áhrif sem álverið muni hafa. Talað er um hvað landsframleiðslan muni aukast mikið, hvað hagvöxtur muni aukast mikið o.s.frv., o.s.frv. Þetta eru mælikvarðar sem eru ákaflega illa til þess fallnir að nota til að vita hvernig fólki líður og hvernig fólk hefur það í raun og veru. Félagsleg áhrif og margir fleiri þættir eru ekki teknir inn í hagvaxtardæmið auk áhrifa á umhverfið sem óhjákvæmilega verða. Hvað sem við höfum miklar mengunarvarnir þá er alveg ljóst að ekki er hægt að komast hjá því að mengun verði veruleg. Þegar metin eru áhrif byggingar álvers á hagvöxt, þessi jákvæðu áhrif svokölluð, sem alltaf er verið að flagga, þá er mengunarþátturinn ekki tekinn með í reikninginn. Í útreikningum er einnig miðað við verulega hækkun álverðs, eftir því sem upplýst er. M.a. er gert ráð fyrir því í forsendum Þjóðhagsstofnunar að 25% hækkun verði á álverði fram til 1994. Ég efast um að þær forsendur standist. Það er spá margra að verulega dragi úr framleiðslu á ýmsum samgöngutækjum, sem svo eru kölluð en eru í raun notuð til hernaðar, eins og flugvélum, bílum og fleiru. Ég held að eftirspurn eftir áli muni minnka mjög, sem betur fer vil ég segja, vegna þess að afvopnun er vonandi í sjónmáli, eitthvað frekar en verið hefur. Talað hefur verið um að eftirspurn eftir áli til að nota í umbúðir muni aukast, t.d. í drykkjarvöruumbúðir. Þá vil ég geta þess að heyrst hefur um rannsóknir sem benda til að ál geti verið orsakavaldur varðandi Alzheimer-sjúkdóminn. Þetta eru rannsóknir sem mér finnst fyllsta ástæða til að huga að vegna þess að ef þetta er rétt hlýtur það að leiða til þess að drykkjarvörur verði ekki lengur settar í áldósir. Ég er því hrædd um að þær forsendur sem þarna eru gefnar séu rangar og alls ekki hægt að reikna með að þær standist. Þarna eru því margir lausir endar.
    Þegar verið er að meta áhrif á hagvöxt og þau margfeldisáhrif sem bygging álvers hefur er aldrei reiknað með því að nein önnur atvinnuuppbygging geti verið fyrir hendi og eitthvað af þessu fé sé sett í aðra þætti í atvinnumálunum. Miklu farsælla er fyrir okkur að fara aðrar leiðir, að fara í aðra þætti og láta ekki alla okkar aukningu fara eingöngu í virkjanir, sem byggðar eru að verulegu leyti fyrir erlend lán. Einnig er talað um

að það þurfi að taka verulega mikið af innlendum lánum og er ég ekki búin að sjá fyrir endann á því hvernig í ósköpunum það er hægt og hvaða áhrif það hefur. Þá er líka trúlegt að vextir hækki ef eftirspurn eftir innlendu lánsfé eykst.
    Það eru alls ekki allir sammála þeim útreikningum varðandi þenslu og hagvöxt og ýmislegt fleira sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram. Höfum við m.a. fengið í okkar hólf rit frá Jóhanni Rúnari Björgvinssyni sem efast stórlega um að þær forsendur sem gefnar eru standist. Kemur hann með ýmsar röksemdafærslur sem ég hirði ekki um að tíunda hér nú. En ég býst við að hæstv. iðnrh. hafi kynnt sér þær sem og annað í þessu máli.
    Það sem mér þykir einna sérkennilegast í þessu máli, og þá er ég eingöngu að tala um þetta frv. sem við erum nú að fjalla um, er að talað er um að verja eigi 300 millj. kr. í undirbúning að Fljótsdalsvirkjun og stækkun Búrfellsvirkjunar. Það er að vísu ekki alveg ljóst hvort þarna er eingöngu um undirbúning að ræða, þ.e. þá væntanlega hönnun og undirbúning útboðsgagna, eða hvort þarna er um að ræða framkvæmdir, því það er ekki samræmi milli frv. sjálfs og athugasemda við greinarnar, en þar er talað um framkvæmdir. Ég vildi gjarnan vita í hvað þessar 300 millj. eiga að fara.
    Ekki eru margar vikur síðan við vorum að ræða um ráðstafanir vegna kjarasamninga sem gerðir voru fyrr í vetur. Það þurfti að gera ýmsar ráðstafanir, draga úr fjárfestingum og draga úr útgjöldum ríkisins um 1 milljarð vegna þess að það mundi skapast svo mikil þensla og verðbólga og allt mundi fara á fulla ferð ef ekki væri hægt að draga úr fjárfestingum. Nú er allt í einu í lagi að skella inn 300 millj. kr. Ég á mjög erfitt með að skilja hvers vegna þessar 300 millj. skipta engu máli í þessu dæmi en milljarðurinn var algert skilyrði þegar verið var að reyna að kveða niður verðbólguna með því að laun hækkuðu nánast ekki neitt, þá var þetta einn liðurinn í því til þess að standa við kjarasamningana.
    Talað er um að samdráttur verði í framkvæmdum hins opinbera á meðan á byggingu álvers og virkjana stendur. Mér þætti fróðlegt að vita hvaða hugmyndir þar eru á ferðinni. Fyrst kemur í hugann að þarna sé verið að ræða um byggingarframkvæmdir og vegaframkvæmdir. Ég er ekki alveg viss um að allir verði jafnánægðir að heyra að ætlunin sé að draga þar verulega úr. En það hlýtur að vera til einhver áætlun um hvað þarna er á ferðinni og þætti mér vænt um að fá einhverjar hugmyndir um það. Án þess að farið sé út í smáatriði væri ágætt að fá þær upplýsingar og um leið hvaða landshlutar eigi að verða út undan.
    Það hlýtur að vera umhugsunarefni ef atvinnuuppbygging og aðrar framkvæmdir eiga að bíða þangað til stóriðjuuppbyggingu er lokið. Ég á erfitt með að sjá hvernig það er hægt ef það á að vega alveg á móti öllum þeim fjárfestingum sem þarna eru á ferðinni. Auk þess virðist eiga að leggja það í hendurnar á erlendum álfurstum hvar á landinu þetta álver eigi að vera og hefur verið talað um afslátt á

raforku í því sambandi eða skattaafslátt ef þeir vilji vera svo penir að setja þetta einhvers staðar annars staðar en hér á suðvesturhorninu. Það hefur komið fram að Landsvirkjun sé jafnvel tilbúin að veita verulegan afslátt á raforku fyrstu árin. Það hefur vafist fyrir Landsvirkjun að veita afslátt á raforku til húshitunar á landsbyggðinni en það virðist ekki vefjast fyrir þeim að veita afslátt á raforku ef hún er til álvers. Ekki veit ég hvort það er eitthvað tengt því hvar álverið er staðsett, ég býst ekki við að þeir skipti sér af því. En það virðast vera álfurstarnir sjálfir sem eiga að ráða hvar álverið er staðsett. Auðvitað eigum við að geta haft það í valdi okkar hvar við viljum hafa atvinnuuppbyggingu á landinu. Þannig að ef þetta verður ákveðið ættum við eins að geta sett skilyrði varðandi staðsetningu. Þetta tengist áhyggjum mínum af því að erlendir aðilar verði orðnir mjög ráðandi í íslensku atvinnulífi og tengi ég það þá enn frekar þeirri áætlun að leyfa erlendum aðilum að fjárfesta ótakmarkað í íslensku atvinnulífi.
    Það er kominn tími til að snúa við blaðinu og snúa okkur að innlendum kostum eins og fullvinnslu sjávarafla og iðnaði sem hentar okkur betur í fámennu og viðkvæmu landi. Er það miklu vænlegri kostur en þessi stóriðja sem nú er einblínt á. Ég er viss um að ef rétt er á málum haldið eru miklir möguleikar í þeirri atvinnugrein sem ferðaþjónustan er. Það verður hins vegar erfitt að skapa jákvætt viðhorf til Íslands sem matvælaframleiðslu- og ferðamannalands ef ekki verður breytt um stefnu nú þegar. Það þýðir ekkert fyrir okkur að segja við erlenda ferðamenn: Komið til Íslands og sjáið okkar ósnortna og ómengaða land, ef við verðum síðan með stóriðjuver í hverjum firði. Margir óttast að mengun héðan sé að verða jafnmikil og í mörgum iðnríkjum og mér finnst það slæmt ef við eigum að auka hana enn frekar. Við eigum frekar að draga úr mengun en auka hana, eins og við erum að gera núna. Þó að mengun sé sem betur fer enn minni hér en í mörgum iðnríkjum þá eykst hún stöðugt.
    Fólk er almennt að vakna til vitundar um að jörðinni hefur verið ofboðið með mengun og eyðingu auðlinda og hér þarf að snúa við blaði. Álframleiðslu tengir enginn við friðsamlega og óspillta náttúru heldur fremur mengun og ófrið því stór hluti álframleiðslu fer til framleiðslu hergagna. Álver á hverju landshorni er ekki líklegt til að laða hingað ferðamenn né heldur til að skapa jákvæða ímynd um matvælaframleiðslu á Íslandi. Það er sama hve margir verða til þess kallaðir að þeysast um heiminn til að sannfæra fólk um að hér sé að finna frið og ró, óspillta og ómengaða náttúru. Staðreyndin sem við blasir er önnur ef ekki verður hér á stefnubreyting.
    Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að hafa mál mitt lengra hér að þessu sinni. Ég reikna með því að í nefndinni fáist upplýst ýmislegt af því sem er óljóst í þessu máli. Ég reikna með því að þegar málið kemur til 2. umr. muni frekari
upplýsingar liggja fyrir um þau atriði. En ég vænti þess að áður en þessari umræðu lýkur muni hæstv.

iðnrh. gefa svör við þeim spurningum sem ég hef hér varpað fram.