Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það frv. um raforkuver sem hér er til umræðu er stórt og mikið mál. Því er það þýðingarmikið að vel farnist og hefði verið ágætt að ekki hefði þurft að vinna það hér í tímahraki. En ég vil segja í sambandi við þetta mál, í sambandi við orkuver og stóriðju, að þetta er eitt af þeim málum sem ég vil flokka undir byggðamál og sé tækifæri til þess að koma jákvæðri byggðastefnu í framkvæmd hér á Íslandi. Með jákvæðri byggðastefnu á ég við að stjórnvöld reyni eftir því sem frekast er unnt að koma í veg fyrir frekari byggðaröskun en orðin er í landinu. Menn geta haft á því ýmsar skoðanir hvers vegna sú byggðaröskun hefur orðið. En mér finnst einsýnt að óstjórn í efnahagsmálum Íslendinga undanfarna áratugi hafi því miður átt þátt í þeirri byggðaröskun og sérstaklega núna síðustu tvö árin.
    Í sambandi við stórframkvæmdir eins og hér eru til umræðu er ljóst að þeim munu fylgja ýmsar aukaverkanir sem er náttúrlega ekki aðalkjarni málsins því að kjarni málsins er að þetta er jákvætt mál og af því getur þjóðin haft mikið gagn. En því er ekki að neita að ýmsum atriðum varðandi stjórn efnahagsmála og peningamála þarf að gæta að svo að ekki verði gert tjón með annarri hendinni og gagn með hinni þannig að árangurinn verði enginn. Landsmenn vantar ekki fleiri klúður í efnahagsmálum. Ég vil því leyfa mér að koma hér örlítið inn á þann þátt þessara mála sem varðar mikla þenslu í hagkerfinu svona til aðvörunar. Þessu fylgir mikið innstreymi af erlendu fé inn í landið og þá verða stjórnvöld auðvitað að gæta þess vandlega að það valdi ekki þenslu og röskun og skapi þar af leiðandi tjón hjá þeim atvinnugreinum sem fyrir eru í landinu. Ef ráðamenn þjóðarinnar beina augum sínum að þessu þá tel ég að vel geti farnast, en hins vegar ef menn gá ekki að sér þá geti illa farið. Efnahagsstjórnun hefur verið á þá leið undanfarin missiri að menn hafa talað um að setja verðjöfnunarsjóð aftur á sjávarútveginn þó að verð á erlendum mörkuðum hafi hækkað lítillega. En minnst af þeim hækkunum er nú komið heim til Íslands. Þó að verð hafi hækkað á erlendum mörkuðum þá er það sýnd veiði en ekki gefin fyrr en greiðslur fara að berast til landsins. Samt eru menn strax búnir að tengja þetta saman og farnir að tala um einhverja þenslu og eru þá væntanlega að nota tækifærið og telja þensluna af völdum verðhækkana á sjávarafurðum erlendis, en þetta er
auðvitað þensla vegna þess hve miklu núverandi stjórnvöld hafa dælt af fjármunum, af verðlausum peningaseðlum, inn í bankakerfið. Og það er einmitt það sem er varasamt í sambandi við stórframkvæmdir sem þessar ef þess verður ekki gætt að hafa hemil á peningakerfinu. Það er ekki nóg að taka nokkur hundruð milljónir og setja í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegs og halda síðan áfram að prenta verðlausa peningaseðla fyrir milljarða. En það er hlutverk seðlabanka þjóðarinnar að sjá til þess að jafnvægi sé á peningamarkaðnum í landinu og það hefur nú ekki

gengið allt of vel undanfarin missiri.
    Í þessu sambandi vil ég einnig minna á það að hér var lagt fram merkt frv. sem ekki hefur gengið að fá afgreitt. Það er frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Það situr nú fast í hv. fjh.- og viðskn. Virðist þar allt frosið fast og ekki hægt að fá málið afgreitt út úr nefndinni. En einmitt þetta frv. væri mikilvægt fyrir íslenska þjóð að fá afgreitt hér á þessu hv. Alþingi til þess að stíga á bremsurnar varðandi þenslu einmitt af slíkum framkvæmdum sem þessum. Ég vil einnig minna hæstv. viðsk.- og iðnrh. á það að fram þarf að fara frekari athugun á smærri virkjunarkostum. Augum hefur ekki verið beint nægilega mikið að þeim, en fyrir raforkukerfið getur verið mikið gagn að smærri virkjunum til að koma í veg fyrir orkutap í flutningi. Slíkar smærri virkjanir þjóna mjög jákvæðum tilgangi til að koma í veg fyrir töp í flutningslínum.
    Ég minni einnig á það í sambandi við framkvæmd sem þessa að hlutverk stjórnvalda er alltaf að koma á jafnvægi þegar ójafnvægi ríkir í þjóðfélaginu, að leitast við að beita jákvæðum aðgerðum til þess að koma jafnvægi á, hvort sem um er að ræða byggðamál, fiskveiðistjórnun, atvinnumál, vinnumarkaðsmál eða peningamál. Það er alltaf hlutverk stjórnvalda að reyna að koma jafnvægi á þessa markaði þegar illa gengur, ekki með því að þvinga hlutina niður á við heldur með því að leita jafnvægisástands með jákvæðum aðferðum.
    Ég vil í þessu sambandi að lokum leggja áherslu á að það er skylda stjórnvalda hér á Íslandi að beita jákvæðum aðgerðum til þess að byggðaþróun verði hagstæð fyrir þjóðina alla því að það er hvorki hagstætt fyrir höfuðborgarsvæðið né landsbyggðina að meiri fólksflutningar verði hér í landinu en þegar eru orðnir. Það er einfaldlega til tjóns fyrir alla þjóðina. Þess vegna er það mjög mikilvæg lausn á því máli sem fram undan er að leysa hjá stjórnvöldum varðandi staðsetningu stóriðju að sú stóriðja verði staðsett á landsbyggðinni. Ég tel það skyldu stjórnvalda að staðsetja þá stóriðju, sem hér er verið að ræða um, úti á landsbyggðinni til þess að leitast við að gegna þeirri skyldu sinni að halda jafnvægi í byggð landsins. Einnig er það skylda stjórnvalda að haga stjórn peningamála og vinnumarkaðsmála þannig að lífskjör
allra landsmanna geti dafnað sem best um allt land.