Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Áður en hæstv. varaforseti settist í stólinn flutti aðalforseti þessarar deildar okkur þingmönnum nokkuð aðvörunarorð og minnti á að hér væru æðimörg mál á dagskrá og var frekar að ýta á eftir því að þessari umræðu gæti lokið sem fyrst. Það er vissulega svo að við þingmenn Sjálfstfl., eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv., erum reiðubúnir að greiða fyrir þessu máli og erum sammála því, þ.e. erum efnislega fylgjandi því frv. sem hér liggur fyrir. Við höfum þegar stigið, vil ég segja nokkuð óvanaleg skref til þess að greiða fyrir málinu með því að taka það fyrir í iðnn. þessarar hv. deildar í morgun. Þar sátum við á þriggja og hálfs klukkutíma löngum fundi til þess að ræða málið og fá ýmsa gesti til þess að fræða okkur. ( FrS: Fjögurra klukkutíma.) Já, það er rétt, við sátum frá átta til hálfeitt --- fjórir og hálfur klukkutími. Ég tel þess vegna að við höfum nú þegar reynt að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að greiða fyrir því að þetta mál geti fengið skjótan framgang hér í þinginu. Það breytir hins vegar ekki því að auðvitað er nauðsynlegt að ræða þetta mál ítarlega og þó að hæstv. ríkisstjórn hafi lýst áhuga sínum á því að ljúka þingi nk. laugardag og við séum reiðubúnir til samstarfs um það, þá felst þó engan veginn í því að við séum að afsala okkur neinum rétti til þess að ræða, ég vil segja þau mikilvægustu mál sem hér eru á þessu þingi sem er tvímælalaust þetta frv. um raforkuver og það frv. sem verið er að ræða í hv. Ed., þ.e. frv. um stjórn fiskveiða.
    Ég held satt að segja að hæstv. ríkisstjórn verði að átta sig á því að ef það á fram að ganga sem hún hefur eindregið óskað eftir, að þingi verði lokið nk. laugardag, þá verður hún auðvitað að fara að velja og hafna úr þeim langa lista mála sem enn liggur fyrir og verið er að reyna að þrýsta hér fram. Það eru mörg mál á dagskrá sem ágreiningur er um eins og fyrir liggur í nál. Og það er auðvitað alveg ljóst að þau mál munu ekki öll ná fram að ganga á þessu
þingi ef samkomulag á að nást um það að ljúka þingstörfum á laugardag.
    Þetta vildi ég aðeins segja í tilefni af áminningarorðum hæstv. forseta þessarar deildar áður en ég vík að því að ræða þetta mál nokkuð efnislega. Eitt atriði vil ég þó aðeins nefna áður en ég vík að frv. og þeim málum sem eru á dagskrá en það er mál sem kemur æðioft upp í umræðum á hv. Alþingi og m.a. í kvöld hjá nokkrum ræðumönnum. Ég minnist t.d. sérstaklega ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Það er um réttarstöðu Landsvirkjunar. Menn hafa það mjög á orði að nauðsynlegt sé að breyta lögum um Landsvirkjun til þess að knýja fram vilja ýmissa þingmanna t.d. um breytingu á raforkuverði í landinu. Ég held það sé alveg ljóst að slíkt verður ekki gert nema með samkomulagi eignaraðila Landsvirkjunar. Menn tala nefnilega gjarnan oft um Landsvirkjun eins og hún sé ríkisfyrirtæki sem hæstv. Alþingi geti bara ráðskast með að eigin vild. Því fer fjarri. Ríkissjóður á ekki nema 50% í Landsvirkjun. Það eru tvö sveitarfélög,

Reykjavík og Akureyri, sem eiga hinn helminginn. Og að baki Landsvirkjunar eins og hún er í dag, bæði skipulagi hennar og þeim lögum sem í stórum dráttum gilda um fyrirtækið, liggja samningar, ítarlegir samningar sem þessir aðilar komu sér saman um á sínum tíma. Þeim hefur reyndar verið breytt einu sinni, að ég hygg. Alþingi getur því ekki tekið sig til og breytt Landsvirkjun eða mikilvægum atriðum sem snerta þetta fyrirtæki öðruvísi en um það sé fullt samkomulag milli eignaraðila. Ég vil nú segja sem betur fer vegna þess að ég hygg að alveg frá upphafi hafi einmitt þessi vitund um að Landsvirkjun væri ekki hreint ríkisfyrirtæki sem lyti vilja Alþingis eða einstakra ráðherra gert það að verkum að menn hafa rekið Landsvirkjun með viðskiptaleg sjónarmið mjög mikið í huga og miklu meir en flest önnur opinber fyrirtæki. Rekstur ýmissa opinberra fyrirtækja eins og RARIK hefur verið á þann veg að þau spor hræða þar sem teknar hafa verið alls konar stjórnmálalegar ákvarðanir í stundarhagsmunaskyni án þess að sjá fyrir endann á afleiðingum þeirra. Það hefur svo auðvitað gert það að verkum að fjárhagur þess fyrirtækis hefur oft og tíðum verið mjög slæmur og ef ekki hefðu komið til stórfelldar björgunaraðgerðir ríkissjóðs, ég vil segja af og til, þá væru Rafmagnsveitur ríkisins fyrir löngu orðnar gjaldþrota. Þessu hefur verið hægt að forða með rekstri Landsvirkjunar einmitt vegna þess að þrátt fyrir gífurlegan vilja, ja kannski allra þeirra manna sem hafa setið í stóli iðnrh. eða flestra a.m.k., til þess að geta ráðskast svolítið með málefni þessa fyrirtækis, þá hefur það ekki tekist eða ekki verið gert vegna þess hvernig eignaraðild fyrirtækisins og skipulagi þess er háttað. Þetta vildi ég aðeins minnast á svona að gefnu tilefni oft á hv. Alþingi, m.a. í þessum umræðum í kvöld.
    Það er alveg ljóst að um þá stefnu hvort nýta eigi okkar ónýttu orkulindir til uppbyggingar stóðriðju hefur verið mikill pólitískur ágreiningur í landinu. Skemmst er að minnast þegar teknar voru ákvarðanir um álverið í Straumsvík á tímum viðreisnarstjórnarinnar. Fá mál í íslenskum stjórnmálum hafa verið eins hatrömm deilumál og sú ákvörðun að byggja álverið í Straumsvík, taka upp samstarf við Alusuisse og virkja Búrfellsvirkjun og síðan
þær virkjanir sem í kjölfarið fylgdu. Fá mál hafa orðið jafnhatrömm deilumál eins og þetta mál á sínum tíma. Það vantaði auðvitað ekkert hrakspárnar þegar verið var að ræða þessi mál. Það er mjög fróðlegt að kynna sér deilurnar um álverið í Straumsvík vegna þess að þær eru eiginlega að ganga aftur, næstum í óbreyttri mynd í sambandi við ágreining um hugsanlegt álver Atlantal-hópsins. Spáð var mikilli mengun og að allt mundi fara í auðn á Reykjanesi. Ekki hefur reynslan orðið sú. Því var spáð að þetta yrði láglaunafyrirtæki og menn birtu miklar lýsingar af því hvernig stórverksmiðjur af svipuðu tagi væru reknar úti í Evrópu og ýmsum öðrum löndum þar sem ynni láglaunafólk, nánast eins og þrælar. Þetta hefur auðvitað ekki reynst rétt því að álverið í Straumsvík

er hálaunafyrirtæki á íslenskan mælikvarða, vinna þar mjög eftirsótt og hreyfing á starfsmönnum mjög lítil. Því var spáð að rafmagnsverðið væri allt of lágt og mundi hafa í för með sér stórfellda bagga fyrir þjóðina í hækkuðu rafmagnsverði fyrir Íslendinga. Ekkert af því hefur komið fram. Þvert á móti hefur verið sýnt fram á það að tekjur af rafmagnssölu til Ísal hafa þegar greitt þann hluta Búrfellsmannvirkja sem talið er að iðjuverið noti. Eftir fimm ár verða öll Búrfellsmannvirkin uppgreidd með tekjum frá álverinu í Straumsvík. Þá er átt við Búrfellsvirkjun, Þórisvatnsmiðlun, báðar Búrfellslínurnar, Straumsvíkurlínu, spennistöðina við Geitháls og gasaflsstöðina við Straumsvík. Þar með eru öll þessi mannvirki í gegnum þessar tekjur á þessum tiltölulega stutta tíma, sem er auðvitað miklu styttri en þeirra líftími og endingartími, orðin skuldlaus eign íslensku þjóðarinnar og malar okkur gull. Enda er það svo að rafmagnsverð hér á landi hefur farið ört lækkandi í raunverði á síðustu árum og stefnir allt niður á við eftir þeim spám sem unnið er eftir, hvort sem byggð verður stóriðja eftir þeim hugmyndum sem nú eru uppi eða ekki. Og það er svo komið að rafmagnsverð á Íslandi er að verða með því lægsta í Evrópu. Um þetta var birt mjög athyglisverð skýrsla af hálfu Sambands ísl. rafveitna ekki alls fyrir löngu sem sýndi að rafmagnsverð á Íslandi, hvort sem er til heimilisnotkunar eða iðnaðar, er mjög samkeppnisfært og það eru ekki mörg lönd sem hafa lægra raforkuverð en við Íslendingar.
    Þessi söngur sem ég hef reifað er byrjaður aftur og gengur aftur í öllum sínum sömu myndum eins og hann gerði á sínum tíma. Rökin eru öll þau sömu og nú vil ég hvetja menn til að kynna sér dálítið umræðurnar sem þá fóru fram einmitt til þess að átta sig á því að hrakspárnar sem fluttar voru hafa ekki staðist og hrakspárnar sem enn eru fluttar nú vegna þessara fyrirhuguðu framkvæmda munu auðvitað heldur ekki standast.
    Það hefur verið stefna íslenskra iðnaðarráðherra frá árinu 1983 að auka stóriðju hér á landi. Það varð að taka upp þráðinn að nýju vegna þess að á árunum 1978--1983 fór ráðherra Alþb. með málefni iðnaðarmála og þar var sú stefna rekin að helst ætti að hrekja í burtu þá aðila sem hér voru fyrir og alls ekki að taka upp samstarf við útlendinga til reksturs nýrra stóriðjufyrirtækja. Það þurfti því verulegt kynningarstarf af hálfu Íslendinga á þeim möguleikum sem hér væru til staðar og ýmsir möguleikar voru kannaðir og jafnvel gengið svo langt að samningaviðræður voru hafnar, eins og t.d. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. En eftir ítarlegar athuganir og m.a. vegna þess hversu verð á þeirri afurð lækkaði meðan á samningaviðræðunum stóð reyndist hún ekki fjárhagslega hagkvæm og var lögð á hilluna, a.m.k. í bili. Það var þáv. hæstv. iðnrh. Friðrik Sophusson, 1. þm. Reykv., sem náði því að gerður var samningur við hinn svokallaða Atlantal-hóp, samningur sem upphaflega var gerður milli sænska fyrirtækisins Grangers, hins hollenska

Hoogovens og Alusuisse um að rannsaka möguleika á því að byggja nýtt álver hér á landi. Við þekkjum þá sögu alla síðan. Alusuisse hvarf út úr þeirri mynd en Alumax, sem er mjög traust og gott fyrirtæki, kom í staðinn. Nú er málið komið á þann rekspöl sem raun ber vitni og endurspeglast m.a. í því frv. sem hér liggur fyrir.
    Okkar samningamenn í þessu máli, þ.e. þeir sem af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar hæstv. hafa verið fengnir til þess að standa að samningsgerð fyrir okkar hönd, hafa ekki unnið í góðu pólitísku andrúmslofti
að þessum samningum. Ég er ekki í neinum vafa um að það hefur tafið fyrir þessu máli og spillt því þessi yfirlýsti og opinberi klofningur í hæstv. ríkisstjórn um þetta mál. Við munum eftir því að fljótlega eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð gáfu ýmsir hæstv. ráðherrar yfirlýsingar sem lýstu beinum óvilja til þess að gengið væri áfram á þessari braut. Ég minnist þess líka að á sl. hausti þegar hæstv. núv. iðnrh. reifaði sínar hugmyndir um nýja stóriðju, sem voru nokkuð stærri í sniðum en það sem við höfum á borðinu núna, þ.e. bæði hugmyndir um stækkun álversins í Straumsvík og byggingu nýs álvers, hugsanlega í Eyjafirði, þá voru satt að segja viðbrögð annarra hæstv. ráðherra afar blendin, svo að ekki sé meira sagt. Hæstv. forsrh. virtist ekkert vera yfir sig hrifinn og sagði í Morgunblaðinu að hann minnti á að menn hefðu fyrr verið bjartsýnir á að koma upp orkufrekum iðnaði hér en ekki gengið. Ég held að þetta verði að koma eftir því hvernig þetta fellur inn í
okkar eigin efnahagsmála- og atvinnuástand og fleira, ekki viljum við ofþenslu af þessum sökum, sagði hæstv. forsrh. og kvaðst ekki vera reiðubúinn til að tjá sig frekar um þetta mál. Ekki voru þetta verulega jákvæð viðbrögð frá hæstv. forsrh.
    Hæstv. landbrh. sagði: Þetta eru auðvitað einkaáhugamál Jóns Sigurðssonar sem stendur og hafa ekki aðra stöðu því þau hafa ekki verið rædd í ríkisstjórninni, þessi áform, og eru þess vegna í raun og veru algerlega upp á hans. Hæstv. menntmrh. sagði að þessar hugmyndir væru ekki tímabærar og þær væru loftkastalar iðnrh. Hæstv. sjútvrh. tók hins vegar sterklega undir þessar hugmyndir og sýndi þeim fullan stuðning og hæstv. umhverfisráðherra gerði það að vissu leyti líka, en með ákveðnum fyrirvörum þó. Ég nefni þetta sem dæmi um það hvernig það andrúmsloft hefur verið sem okkar samningamenn hafa unnið í. Auðvitað skynja okkar viðsemjendur nákvæmlega hver staða hæstv. iðnrh. er í þessu efni. Þess vegna er ég sannfærður um það að þessi viðbrögð, þessar óheppilegu yfirlýsingar, jafnvel hæstv. forsrh., hafa spillt fyrir í þessu máli.
    Enn koma hæstv. ráðherrar og reyna að draga lappirnar. Hæstv. menntmrh. flutti ræðu í Ed. Alþingis þegar þetta mál var til umræðu þar og gerði grein fyrir fyrirvara sem samþykktur var í þingflokki Alþb. hinn 9. apríl sl. þar sem segir m.a. að þingflokkur Alþb. minni á að enn séu engar forsendur fyrir hendi til þess að unnt sé að meta hvort hagkvæmt sé fyrir Íslendinga að ganga til samninga við erlenda aðila um

byggingu 200 þús. tonna álvers hér á landi. Meðan meginatriði væntanlegra samninga liggja ekki fyrir er tvímælalaust óhyggilegt að hefja virkjunarframkvæmdir, enda hlyti það að veikja samningsstöðu Íslendinga að binda nokkur hundruð millj. kr. í nýjum virkjunarframkvæmdum án þess að orkuver hafi verið ákveðin.
    Ég ætla ekki að lesa meira úr þessari ályktun en öll var ræða hæstv. ráðherra á þann veg að hún sýnir óskaplega mikla tvöfeldni Alþb. í þessum málaflokki.
    Hv. 2. þm. Austurl. hélt ræðu í þessari umræðu hér fyrr í dag og lýsti sinni skoðun mjög ákveðið í þessu efni. Ég vil segja þeim hv. þm. það til hróss að hann hefur aldrei sýnt neina tvöfeldni í þessum málum, hans stefna og hans skoðun hefur verið alveg skýr og klár og hefur hann þess vegna verið fullkomlega samkvæmur sjálfum sér í öllum málflutningi í þessu máli alveg frá upphafi. Hið sama verður hins vegar ekki sagt um hæstv. ráðherra Alþb. Þeir hafa á öllu þessu máli fulla fyrirvara sem auðvitað spilla fyrir framgangi málsins, það er alveg ljóst. Hins vegar held ég að okkur sé það öllum ljóst að þeir muni vinna það til áframhaldandi setu í hæstv. ríkisstjórn að samþykkja það sem þarf og nauðsynlegt sé í þessu efni. Það er hins vegar alveg jafnljóst að á því augnabliki sem þessir hæstv. ráðherrar sitja ekki lengur í ríkisstjórn, eru ekki lengur í stjórnaraðstöðu, á því augnabliki sem þeir verða komnir í stjórnarandstöðu, munu þeir snúast af mikilli heift gegn öllum hugmyndum um byggingu nýs álvers samkvæmt þeim hugmyndum sem hér eru uppi.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, herra forseti, að einhver af ráðherrum Alþb. tjái sig í þessari umræðu hér í Nd. þannig að þeir lýsi því yfir með skýrum og ákveðnum hætti hver sé raunveruleg stefna Alþb. í þessu máli og hvernig þeir hyggist halda á því innan hæstv. ríkisstjórnar. Þó að ég saki ekki, hæstv. forseti, hv. 2. þm. Austurl. um tvöfeldni í þessu máli, þvert á móti, hann er sjálfum sér samkvæmur, þá gefur ræða hans auðvitað tilefni til þess að inna hæstv. ráðherra Alþb. eftir stöðu þeirra í þessu máli og hver sé raunveruleg stefna flokksins. Hv. 2. þm. Austurl. er aðaltalsmaður Alþb. í orku- og iðnaðarmálum. Hann er formaður iðnn. Nd. og leiðir það starf sem lýtur að vinnu við þetta frv. ( Gripið fram í: Þeirra langfróðastur.) Það skal ég taka undir með heilum hug, hv. þm., að það verður ekki af hv. 2. þm. Austurl. skafið að hann er mjög vel að sér í þessum málaflokki þó að ég sé ekki sammála hans málflutningi. En einmitt þetta leiðir til þess að við verðum að krefjast þess að ráðherrar Alþb. tjái sig hér í þessari umræðu og geri nánari grein fyrir hver sé stefna og staða flokksins í þessu máli öllu.
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að halda langa ræðu um þetta mál. Mér fannst nauðsynlegt að vekja athygli á þessu hér við umræðuna. Ég er samþykkur efni þessa frv. í meginatriðum. Efni frv. sjálfs er að vísu ekki mjög flókið, lítur sakleysislega út, en að baki því eru auðvitað þær hugmyndir sem nú eru uppi um

samninga um byggingu nýs álvers. Ég held hins vegar að það sé brýn nauðsyn á því að fá þetta frv. samþykkt hér á þessu þingi. Ég held að það sé alveg ljóst eins og fram kom hér í umræðum fyrr í vetur að Landsvirkjun t.d. getur ekki gengið lengra í undirbúningi virkjana þeirra sem um ræðir nema fá til þess skýrar heimildir frá Alþingi. Þess vegna er ég sammála efnisatriðum þessa frv.
    Eitt atriði vil ég þó gera athugasemdir við í sambandi við þessa málsmeðferð áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, og það er hvernig unnið er að staðsetningarmálum hins nýja væntanlega álvers. Mér finnst satt að segja aðferðir hæstv. iðnrh. í þeim efnum ekki góðar. Mér hugnast satt að segja ekki
þessi aðferð að etja sveitarfélögunum saman eins og gert hefur verið með bréfaskriftum til þeirra. Það minnir mann óneitanlega á aðferð þá sem Egill Skallagrímsson vildi hafa á sínum tíma þegar hann vildi dreifa silfrinu og láta þingheim berjast. Ég hefði talið miklu æskilegra að vinna á annan hátt að staðsetningarmálinu og í því sambandi vil ég láta það koma fram hér í þessari umræðu að ég tel að það yrði óskaniðurstaða í þessu máli að næsta álver risi við Eyjafjörð. Þó ég sé þingmaður af þessu svæði, þ.e. úr Reykjavík, þá held ég að vegna byggðaþróunar í landinu væri það mjög æskilegt að sú gæti orðið niðurstaðan að álverið yrði risi norðan lands. Ég held að sú öra fólksfjölgun sem orðið hefur hér í Reykjavík sé ekkert allt of góð fyrir þetta svæði ef hún heldur áfram. Þess vegna væri það mjög æskileg niðurstaða að álverið gæti risið fyrir norðan. En um það er auðvitað allt of fljótt að tala af fullu viti fyrr en við sjáum nákvæmlega í hverju sá hugsanlegi munur kann að liggja, þ.e. hver kostnaðarmunur kann að vera á því að reisa álverið við Eyjafjörð annars vegar og svo t.d. hér á Reykjanesi hins vegar.
    Ég vildi láta þetta koma fram til þess að ekki yrði misskilin sú gagnrýni sem ég flutti á hæstv. iðnrh. fyrir það á hvern hátt yrði staðið að staðsetningarmálinu því að ég held að þar hafi þurft ákveðnari og meiri leiðsögn og meiri stjórnun af hálfu hæstv. ráðherra en raun ber vitni. Og alls ekki að nota aðferð Egils Skallagrímssonar með silfurpeningana til þess að ná niðurstöðu í þeim efnum. Ég reikna með að við vinnum áfram í þessari nefnd, þ.e. iðnn. Nd., að þessu frv., byrjum eldsnemma í fyrramálið. Við þingmenn Sjálfstfl. munum gera okkar til þess að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi.