Raforkuver
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég vil segja það við hv. 1. þm. Reykv. að ég held ég hafi sagt það í mínu máli áðan að sá útreikningur sem hann er með og forsendur ganga ekki upp. Við verðum að vera þess minnugir hvernig áratugurinn 1970--1980 var í sambandi við vexti. Það kann að vera að hann geti sýnt fram á það að miðað við þann áratug hafi einhver getað borgað niður töluvert af þeim skuldum sem Ísal ætti að greiða miðað við orkunotkun þeirra, en við erum í því umhverfi núna að það eru ekki 10 millj. sem kostar að fjárfesta jafnmikið og Ísal notar, það er ósköp ámóta og Fljótsdalsvirkjun sem kostar yfir 20 milljarða. Gígawattstundirnar sem Ísal notar og Fljótsdalsvirkjun framleiðir eru mjög líkar. Ef ég fæ ekki svör frá hæstv. iðnrh. í sambandi við útreikninga mína mun ég setja mig niður eftir þingið og skrifa honum opið bréf og senda honum þessa útreikninga og knýja fram svör við þeim.
    Hæstv. ráðherra sagði í sinni ræðu áðan að mjög margt yrði gert til að koma í veg fyrir mengun. Að gefnu því tilefni ætla ég að vitna í samninginn sem var gerður við Ísal. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Ísal mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.`` Þeir hafa ekki náð því, ekki einu sinni að hálfu. Það er ekki hægt að orða þetta skýrara en er í þessum samningi. Ég vil að það komi hér til skila hvað er í þessum samningi, ég er búinn að skoða þetta mál.
    Hæstv. ráðherra taldi að ekki hefði verið óeðlilegt að hann skrifaði þessum 42 sveitarfélögum og spyrðist fyrir um það hvað þau vildu vinna til að fá álver. En þá vil ég spyrja: Voru bændurnir í Eyjafirði spurðir? Þeim kemur það kannski ekkert við. Ég veit að það eru einir tveir oddvitar sem töluðu en þeir eru nú bara ... ( Viðskrh.: Eru þeir ekki kosnir?) Þeir eru ekki fulltrúar fyrir bændurna að ráðstafa þeirra eignum eða jörðum í þessu samhengi. En það kann að vera að það þurfi að láta þá vita um að betra sé fyrir þá að vakna vegna þess að hæstv. ráðherra skilur það svo að þessir talsmenn sveitanna hafi eitthvert umboð í þessu efni. Þeir hafa ekkert umboð í þessu efni, og það kom fram á fundinum í Hlíðarbæ á sunnudaginn var.
    Nei, ég held að ráðherrann ætti nú að fara til Eyjafjarðar og ég skal mæta honum þar á fundi og ræða þessi mál. Já, við skulum gera það og þá kemur kannski í ljós hver svör þeirra verða.