Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Í framsögu minni fyrir frv. sem nú er til 2. umr. gerði ég grein fyrir því að um mál þetta varð ekki fullkomin samstaða í þeirri nefnd sem falið var að undirbúa þetta lagafrv. Það kemur reyndar fram í grg. með frv. og í framsögunni las ég upp úr nefndarálitum beggja aðilanna sem að samningu frv. stóðu þannig að það kæmi skýrt fram þá þegar að um ágreining væri að ræða og í hverju sá ágreiningur væri fólginn.
    Það var spurt hér áðan af hv. 17. þm. Reykv. hver væri ástæðan fyrir því að ég valdi þann kostinn að leggja frv. fram með þeim breytingum sem fulltrúar Alþýðusambandsins og Atvinnuleysistryggingasjóðsins gerðu að tillögu sinni í sambandi við breytingar á lögunum. Þar var annars vegar um það að ræða að verkalýðshreyfingin lagði mikla áherslu á það að ákvæðin um stéttarfélög héldust óbreytt og það væri undirstrikað að aðild að stéttarfélagi væri áfram forsenda fyrir atvinnuleysisbótunum en einnig að í þeirra tillögum var gerð stór breyting á þessum ákvæðum þrátt fyrir allt þar sem það var opnað að ýmsar starfsgreinar sem áður höfðu verið utan atvinnuleysistrygginga gætu nú átt aðild að þessum tryggingum þó svo að áfram væru ákvæðin um stéttarfélög.
    Fulltrúar ýmissa hagsmunafélaga sem höfðu gengið á minn fund og óskað eftir aðild að atvinnuleysistryggingunum höfðu líka lýst því yfir að þau teldu að þetta væri ásættanlegt, að það væri opnað fyrir aðild að tryggingunum þó að ákvæði um stéttarfélög væru enn þá skilyrði, og fulltrúar Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins gerðu líka grein fyrir því í sínu nefndaráliti að þeir teldu verulega réttarbót fólgna í þessu þó svo að þeir vildu ganga lengra.
    Þetta voru ástæðurnar fyrir því að ég valdi að leggja frv. fram í þessu formi og tel enn rétt að samþykkja það þannig, óbreytt.
    Þar til viðbótar kemur svo það sem er ítarlega rakið í nál. frá meiri hl. heilbr.- og trn. og formaður og frsm. nefndarinnar gerði grein fyrir hér áðan og ástæðulaust er að rekja aftur ítarlega eða tíunda, en þar kemur m.a. fram að ekki er tilskilinn meiri hluti í embættismannanefnd á vegum Evrópuráðsins sem um þessi mál fjallar þannig að talið var eðlilegt og er talið eðlilegt að bíða eftir áliti sérfræðinganefndarinnar og embættismannanefndarinnar á þeirri skýrslu sem nú er unnið að hér heima um framkvæmd sáttmálans á árunum 1988 og 1989. Það álit mun liggja fyrir á næsta ári eða næsta sumri og ég fyrir mitt leyti er tilbúinn til þess að verða við þeim tilmælum sem meiri hl. nefndarinnar leggur til hér í nál. sínu, að félmrh. og heilbr.- og trmrh. beiti sér fyrir viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins um þetta efni með hliðsjón af afstöðu Evrópuráðsins til skýringa íslenskra stjórnvalda þegar að því kemur. Nú er auðvitað ekki ljóst að sá sem hér stendur verði heilbr.- og trmrh. á

þeim tíma, en verði svo, þá ítreka ég það að ég fyrir mitt leyti er tilbúinn til að verða við þessum tilmælum og álít að það muni þeir ráðherrar verða sem skipa viðkomandi stóla sem tilmælum er beint til frá nefndinni og veit að þeir muni taka á málinu í ljósi þess sem þá kemur þar fram.
    Þetta vil ég aðeins láta koma skýrt fram, herra forseti, af minni hálfu hvað varðar málið og tel ekki ástæðu til að orðlengja um það frekar. Ég tel að afstaða mín til málsins hafi komið skýrt fram, bæði í framsögu minni fyrir frv. og svo þeim skýringum sem rækilega eru tíundaðar í nál. frá meiri hl. heilbr.- og trn.