Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Ólafur G. Einarsson :
    Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að standa í hálfgerðu þrefi við hæstv. forseta sem mjög ranglega hefur legið undir ámæli fyrir að drífa ekki þetta mál áfram. Ég segi það alveg fullum fetum að hæstv. forseti hefur gert það sem í hans valdi hefur staðið til þess að koma þessu máli áfram. Það fullyrði ég.
    Málið snýst einfaldlega um það hvort menn vilji halda áfram hér að tala í máli sem er ekkert samkomulag um hvernig muni leysast. Þetta vita allir. Það hefur ekki náðst samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það hvernig þessu máli skuli lokið á þessu þingi. Ef menn halda í alvöru að það sé líklegt til þess að greiða fyrir lausn þessa máls að halda áfram að tala hér um það í nótt þá vaða menn í villu, í mjög alvarlegri villu. Þetta á ekkert skylt við það hvort menn séu eitthvað að tapa þreki til að vaka hér í nótt eins og mér virtist hv. þm. Guðrún Helgadóttir telja, það er alls ekki það. Þetta er bara spurning um það hvort menn ætla að halda við þá ákvörðun að ljúka þingstörfum á laugardaginn kemur og hvort við höldum áfram að þrefa um þetta mál í nótt breytir engu um þá staðreynd, ef það má þá kalla það staðreynd.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir talaði líka um að menn hlytu orðið að þekkja þetta mál. Ég dreg það bara mjög í efa eftir því sem menn tala hér í hv. þingdeild að þeir þekki málið enn þá. Ég get ekki dregið þá ályktun af málflutningi ýmissa manna hér, þar á meðal málflutningi hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, að menn þekki þetta mál nægilega vel. Og staðreynd er að ýmsir þingmenn eiga eftir að tjá sig um málið en mundu kannski stilla sig um það ef einhverjar líkur væru á að samkomulag næðist um hvernig það leystist. Það samkomulag er sem sagt ekki enn í augsýn. Ég held að það væri skynsamlegra að nota tímann til þess að reyna að ná samkomulagi á bak við tjöldin en standa hér í ræðustól og tala áfram um málið. Það er mitt mat og ég fer nú enn fram á það við hæstv. forseta, þó ég viti að hann liggi undir þessu ámæli eins og hann hefur hér sagt, að hann sé að tefja fyrir þessu máli. Það er alrangt.