Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Við skulum svo sannarlega ljúka þessu þinghaldi á laugardaginn en fyrst skulum við ljúka þessu máli hér í kvöld. Ég sé ekki betur en að þingið sé um það bil að falla enn einu sinni í hendur pólitískra hryðjuverkamanna hér í stjórnarandstöðunni þar sem minni hlutinn ætlar sér áfram að kúga meiri hlutann. ( Forseti: Forseti verður nú að áminna hv. þm. um að nota ekki orðbragð af þessu tagi.) Ég hef notað það áður hér án áminninga, en ég bið forseta afsökunar og þingheim. Samt sem áður er þetta mín tilfinning.
    Hér hefur verið haldið uppi málþófi. Hér hafa sömu ræðurnar verið fluttar klukkustund eftir klukkustund og lesið upp úr sömu fylgiskjölunum. Stjórnarandstaðan getur sjálfri sér um kennt ef hún er þreytt í dag. Hún er búin að þreyta sjálfa sig. Stjórnarliðar hafa sem minnst sagt um þetta mál enn þá. Það getur vel verið að við höfum ýmislegt til málsins að leggja. Stjórnarandstaðan hlýtur að kannast við það að hún er hér í minni hluta. Meiri hlutinn óskar eftir að þessu máli verði lokið fyrir þinglok og að þessu máli verði lokið hér í nótt í þessari hv. deild.
    Stjórnarandstaðan getur t.d. litið hér yfir Austurvöllinn að borgarstjórnarskrifstofunum þar sem fyrirmynd stjórnarandstöðunnar situr og bíður þess að koma hingað yfir og taka við völdum í hv. stjórnarandstöðu. Þar leikur ekki vafi á að meiri hlutinn er meiri hluti og ræður í því húsi. En hér telur stjórnarandstaðan að minni hlutinn eigi stöðugt að ráða ferðinni. Því treysti ég því, hæstv. forseti, að minni hlutinn fái ekki að ráða ferðinni í þessu máli áfram.