Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við því að stytta þingskapaumræðuna en allt getur það nú farið eftir því hver viðbrögð verða við þeirri málaleitan sem hér hefur verið höfð í frammi. Vegna þeirrar ræðu sem hv. 13. þm. Reykv., sem er forseti Sþ., flutti og þeirrar tillögu sem hv. þm. flutti hér um framgang mála í nótt, þá verður hún ekki skilin á annan veg en þann að það sé tillaga forseta Sþ. að riðla því samkomulagi um þingstörf á morgun, þar á meðal eldhúsdagsumræðum sem menn höfðu fallist á. Því verður vart trúað að í raun og veru séu fluttar slíkar tillögur um málsmeðferð af hálfu forustumanna hæstv. ríkisstjórnar. En það má öllum vera ljóst að ef ræða á þetta mál hér í nótt með þessum hætti, þá riðlast það samkomulag sem áður hafði verið gert um þingstörf á morgun. Við viljum fyrir okkar leyti í Sjálfstfl. stuðla að því að unnt sé að halda þingstörfum áfram á morgun og föstudag og ljúka þeim á laugardag eins og um hafði verið talað.
    Það kom hér fram af forsetastóli að hæstv. forsrh. gerði tillögu um sátt í málinu. Því hefur verið lýst yfir af hálfu sjálfstæðismanna á hvaða grundvelli væri hægt í ljósi þess tilboðs að komast að niðurstöðu í málinu. Við lítum svo á að þar hafi af hálfu hæstv. forsrh. verið gerð tilraun í fullri alvöru til að ná sáttum í þessu mikla deilumáli. En ég sé ekki betur, og ekkert annað hefur komið fram í yfirlýsingum hér á Alþingi, að enn sé ekki samkomulag innan hæstv. ríkisstjórnar um það tilboð. Ég veit að það tilboð var gert í fullri alvöru og í þeim tilgangi að ná sáttum en eigi að síður er sú staða enn uppi að ekki hefur komið fram í þinginu að um það sé samkomulag innan hæstv. ríkisstjórnar. Þegar af þeirri ástæðu, herra forseti, sýnist mér að tímanum sé betur varið til þess að gefa þeim aðilum sem að hæstv. ríkisstjórn standa tækifæri til að fjalla frekar um málið. Það væri líklegra til að niðurstaða fengist fyrir laugardag ef tímanum yrði varið með þeim hætti fremur en að stefna því í hættu að það sem um var talað um þingstörf á morgun og föstudag næði fram að ganga. Ekki síst í þessu ljósi vil ég ítreka þær óskir sem hér hafa komið fram hjá fjölda þingmanna, herra forseti, að þessum fundi verði nú lokið.