Stjórn fiskveiða
Fimmtudaginn 03. maí 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Um það frv. til laga um stjórnun fiskveiða sem hér liggur fyrir má auðvitað hafa mörg orð. Það er alla vega ljóst að hér er um að ræða einhverja umsvifamestu löggjöf sem hefur verið sett á Íslandi, þ.e. hér er verið að ræða um löggjöf sem takmarkar atvinnufrelsi stórs hluta þjóðarinnar. Í því ljósi lít ég á þessa lagasetningu sem mjög alvarlegs eðlis, sér í lagi vegna þess að takmörkun á atvinnufrelsi er mjög alvarleg löggjöf. Og ég verð að segja það í upphafi að ég sakna þess að hér í hv. Alþingi skuli ekki vera meira til af einhverjum gögnum eða við getum talað um vinnureglur, hver sé skylda stjórnvalda þegar um er að ræða takmörkun á atvinnufrelsi landsmanna. Atvinnufrelsi er einn af grundvallarhornsteinum lýðræðisríkja. Því er það ákaflega alvarlegur hlutur í mínum huga þegar þarf að beita jafnharkalegum takmörkunum og gert er í því frv. sem hér liggur fyrir og gert er með stjórnun fiskveiða í dag. Mér finnst eins og ekki hafi verið farið nægilega mikið ofan í þennan hluta málsins og ég vil því leggja ríka áherslu á þetta, sér í lagi hvað snertir 69. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt henni er ekki heimilt að setja neina takmörkun á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji.
    Það hefur verið litið þannig á að almenningsheill krefjist þess að fiskveiðar væru takmarkaðar til þess að fiskstofnunum yrði ekki útrýmt. Í því ljósi á löggjöfin fullan rétt á sér. En þá kemur næsta spurningin: Hverjar eru skyldur stjórnvalda á Íslandi eða ráðherra og hv. Alþingis þegar verið er að takmarka atvinnufrelsi? Ég ætlaði mér að vera búinn að fá svar hjá lögmanni við þessari spurningu en það hefur því miður ekki verið hægt vegna þess að hann hefur verið upptekinn í öðru. En því miður, ég sakna þess að sú beiðni sem var send til Lagastofnunar Háskólans fjallaði ekki um þennan þátt málsins. Ég átti þátt í að skrifa undir þá beiðni en var nú þarna síðastur á lista og tók þátt í þessu með mikilli ánægju því að það var virkilegt gagn í þeim
spurningum sem svarað var. En í áliti Lagastofnunar kemur einmitt fram varðandi 69. gr. stjórnarskrárinnar að í bréfi þingmannanna sé einungis óskað umsagnar um það ,,hvort tímabundinn og takmarkaður afnotaréttur fiskstofna myndi aldrei einstaklingsbundna stjórnarskrárvarða eign og hvort það að væntanleg lög verði ótímabundin myndi ekki frekar neinn framtíðareignarrétt. Er því ekki tilefni til þess að fjalla um 69. gr. stjórnarskrárinnar sem annars hljóðar svo: ,,Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.``"
    Sem sagt, um þessa grein stjórnarskrárinnar var ekki fjallað og það litla sem til er um túlkun á þessu atriði stjórnarskrárinnar er í bók Ólafs Jóhannessonar. Það vantar nýja útgáfu, nýja túlkun á þessari grein stjórnarskrárinnar því að auðvitað hefur lögfræði þróast og breyst eins og aðrir hlutir.
    Ég kem þá að því að ræða mína persónulegu skoðun á þessu. Hún er sú að þegar sett verður

takmörkun á atvinnufrelsi þá sé jafnréttisreglan sú regla sem hv. alþm. eiga að hafa í heiðri. Við skulum líta á það lauslega hvernig þessari jafnréttisreglu hefur verið framfylgt, t.d. í skattalögum. Í skattalögum er það svo að allir þeir sem hafa 70, 80, 90 eða 100 þús. kr. á mánuði borga sama tekjuskatt. Þar er um að ræða jafnréttisreglu. Það er ekki um að ræða að menn borgi mismunandi skatta sem hafa sömu tekjur. En í kvótalöggjöfinni er þetta því miður upp og niður allt saman. Það má vera að ekki sé hægt að búa til fullkomna löggjöf en það er a.m.k. lágmarkskrafa að það sé fjallað um þennan þátt málsins, jafnréttisregluna, þegar verið er að leggja bönd á atvinnufrelsi manna. Og ég vildi leggja sérstaka áherslu á að þetta fái nánari skoðun. Hvort sem tími vinnst til þess áður en þetta verður samþykkt nú eða síðar þá er mjög þýðingarmikið að hv. alþm. fái góða greinargerð um það hverjar eru skyldur þeirra hvað varðar jafnréttisregluna, bæði þegar verið er að takmarka atvinnufrelsi í sjávarútvegi, landbúnaði og fleiri atvinnugreinum og á fleiri sviðum.
    Við getum líka komið að atriði eins og því hverjir megi flytja út ferskan fisk. Það er reyndar þar í umræðunni sem ég hef viljað byrja að vinna slíkt mál sem þetta, þ.e. að búa til leikreglur um hverjir megi flytja út ferskan fisk. Stjórnarskráin segir að ekki megi leggja bönd á atvinnufrelsi manna nema samkvæmt lagaheimild. Hvaða lagaheimild er til í dag til að takmarka atvinnufrelsi varðandi útflutning á ferskum fiski? Það vantar slíka löggjöf. Það er byggt á lögum um útflutningsleyfi, en sú löggjöf heimilar ekki takmörkun á atvinnufrelsi í víðtækri merkingu og ekki í þeim skilningi sem ég legg í það mál. Þau lög voru samþykkt um útflutning á unnum afurðum en ekki útflutning á hráefnum.
    Ef við fjöllum lauslega um byggðaþáttinn í þessu máli þá tel ég einsýnt að nái þetta frv. fram að ganga þá muni hefjast hér veruleg byggðaröskun í landinu, svo ekki sé meira sagt, því að þessi ríkisstjórn sem í upphafi kenndi sig við jafnrétti og félagshyggju og hataðist út í frjálshyggju, eins og hún kallaði það, ætlar núna að láta einhverja örgfúlustu frjálshyggju allra tíma
grisja landsbyggðina eftir einhverju autómatísku hagræðingarkerfi. Þá er hægt að nota slíkt orð þó menn hafi misnotað það í sambandi við fjármagnskostnað og annað þar sem menn vildu ekki viðurkenna staðreyndir í sambandi við eigin óstjórn í peningamálum og töluðu um að allt væri það frjálshyggjunni að kenna og hef ég sagt það hér áður að það þyki mér jafnsnjallt og að kenna loftvoginni um veðrið. ( Gripið fram í: Það lagast þegar Veðurstofan fer til umhverfisráðherra.) Það kann að vera að það lagist já, að hægt verði að ná stjórn á þessu þegar hæstv. umhverfisráðherra fer að stjórna Veðurstofunni. Þá verði bara hægt að setja nálina á ,,smukt`` og hafa hana þar. Þá þurfum við ekki að kvíða veðráttunni.
    En byggðaröskun sem ég sé að muni verða hér fram undan er mjög alvarlegt mál og þá dugar ekki

að hafa einhvern hrossalækningasjóð sem eigi að úthluta kvóta hingað og þangað. Menn tala um að þeir hafi 12 þús. tonn í einhverjum sjóði sem megi ráðstafa svona eftir því sem þurfa þykir, eftir því sem hentar pólitískum duttlungum ónefndra aðila. En það gleymist alltaf að það er önnur hlið á málinu. Þessi kvóti er tekinn af öðrum. Það er verið að skapa ný og ný vandamál alls staðar um leið og kvótinn er tekinn af mönnum sem á að fara að úthluta einhverjum öðrum, en 2-2 er náttúrlega 0 eða 5-5. En þá á bara handstýringin að ráða því hverjir eiga að fá kvótann o.s.frv. Það er dæmalaus sjálfsblekking að halda að það sé verið að leysa einhvern vanda með slíku. Það á sem sagt að láta frjálshyggjuna grisja og svo eiga þeir að ákveða hvar hún á að virka minna en annars staðar.
    Því miður verð ég að segja það að mér finnst margt í þessu frv. áhyggjuefni fyrir landsbyggðina og þá komum við aftur að jafnréttisreglunni. Hverjir standa sterkastir að vígi í þessu kerfi eins og frv. liggur hér fyrir? Hverjir standa sterkastir að vígi? ( SV: Þeir sem hafa fjármagn.) Við skulum bara skoða jafnréttisregluna. Þeir sem hafa fjármagn, segir hv. þm. Stefán Valgeirsson. Hann þekkir það hvaða áhrif fjármagn hefur. En skoðum jafnréttisregluna. Hverjir hafa sterkari stöðu í þessu kvótakerfi? Hverjir eru með sterkari stöðu en hinir? Er það t.d. jafnréttisregla þegar það er vitað mál að þeir fá sama kvóta sem sigla með fiskinn og hinir sem landa honum hér heima? Það er ekki verið að úthluta sömu verðmætum. Er jafnréttisreglan í gildi þar? Ég spyr. Sú jafnréttisregla sem alþingismönnum er skylt að virða samkvæmt stjórnarskránni. Er það jafnréttisregla að frystitogarar hafa miklu sterkari stöðu en aðrir í þessu dæmi af mörgum ástæðum? Er það jafnrétti?
    Síðan er þriðji flokkurinn, þeir sem geta landað hér á mörkuðum. Og hverjir standa veikastir fyrir? Það eru þeir sem landa fiskinum úti á landi og þetta vita allir. Það eru þeir sem standa veikast. Og hvernig fer svo hagræðingin fram? Hvernig verður svo hagræðingin, þessi sjálfvirka frjálshyggja jafnréttis og félagshyggju í byggðagrisjun? Það verður skelfilegt upplifelsi. Ég kvíði því að horfa á þetta. Það fer auðvitað þannig fram að sá veikasti verður keyptur. Það er það sem þessir hæstv. ráðherrar eru að ákveða. Þeir eru að ákveða það að hér skuli fara fram byggðagrisjun þar sem leikreglurnar eru ójafnar, jafnréttisreglan er brotin og þeir sem eru veikastir verða keyptir. Þetta er ákvörðun um stærstu búferlaflutninga á Íslandi fyrr og síðar þrátt fyrir alla hrossakaupasjóði og hrossalækningasjóði sem eiga að borga mönnum inn um bakdyrnar. (Gripið fram í.) Já, í sambandi við hrossaræktina væri það nú ekki úr vegi að þessi hæstv. ríkisstjórn hefði hrosshaus fyrir skjaldarmerki, slík eru hrossakaupin.
    Ef við víkjum örlítið að hinum fiskifræðilega þætti málsins sem er nú kannski grunnurinn að þessari löggjöf, þ.e. takmörkun á atvinnufrelsi er einungis heimil ef almenningsheill er í veði og það er verið að takmarka fiskveiðar vegna þess að álitið hefur verið

að almenningsheill væri í veði. Það væri verið að ofnýta fiskstofnana. En er það svo? Ég held að það verði að fara fram hreinskilin umræða núna næstu missiri, þó seint sé, af því að allt of litlum fjármunum hefur verið varið í hafrannsóknir og rannsóknir á vistfræðinni hér í kringum Ísland. Þó vel hafi verið gert á mörgum sviðum, það skal tekið fram, þá höfum við ekki verið nærri nógu opin fyrir því að fjalla um þessi mál því að það er svo langt, langt frá því að við höfum aflað okkur nægilegrar þekkingar á lífkeðjunni hér í kringum Ísland.
    Við erum að tala um að það þurfi að takmarka fiskveiði vegna ofveiði. Og ef það er svona lítill fiskur í sjónum, af hverju kemur þá fram í þessu nýjasta togararallíi að meðalþyngd þorsks á Íslandsmiðum er 5--10% minni en á fyrra ári? Ef það hefði verið meiri fiskur í sjónum eins og Hafrannsóknastofnun hefur lagt til, væri þá fiskurinn enn þá léttari? Fimm ára fiskur er núna 5--10% léttari en hann var fyrir ári síðan samkvæmt niðurstöðum úr togararallíinu.
    Í frétt í Morgunblaðinu frá því á sunnudaginn segir að meðalþyngd þorsks hafi lækkað um 5--10% fyrir Suðurlandi og um 10% fyrir norðan. Sé þetta umreiknað yfir í heildarstofninn þá munar þarna 60--120 þús. tonnum sem heildarstofninn er minni en reiknað var með að hann væri. Hvað þýðir þessi niðurstaða? Hún þýðir áframhaldandi skerðingar á þorskveiðum. Ég lít þannig á.
Stofninn er minni en hann var og einhverra hluta vegna er kerfið í sjónum þannig að hann stækkar ekki jafnhratt og hann gerði. Og hvers vegna? Þurfum við ekki að leita að því? Það verður auðvitað ekki gert á einum sunnudegi, en ég segi það að það þurfa að fara fram miklu meiri rannsóknir á lífkeðjunni hér í kringum Ísland því að þorskstofninn og aðrir fiskstofnar á Íslandsmiðum eiga að geta gefið jafnmikið af sér og þeir gerðu hér á árum áður og oft hefur verið rætt. Við erum upptekin hér á hæstv. Alþingi við að búa til skömmtunarkerfi, við beinum öllum kröftum okkar að því þing eftir þing. Af hverju beinum við ekki meiri kröftum að því að reyna að finna hvað er að í hafinu? Hvers vegna gefa fiskstofnarnir minna af sér en þeir gerðu áður?
    Ég rakst hér á mjög fróðlega ritstjórnargrein í nýjasta sjómannablaðinu Víkingi og ég ætla að lesa hana vegna þess að hún kemur inn á þetta mál: ,,Blaðið er bara að verða trúarbragðarit hjá þér, sagði þingflokksformaður á Alþingi við mig, ritstjórann, um daginn þegar hann var að skoða síðasta Víking. Hann vísaði þar til talsverðrar gagnrýni á fiskveiðistefnu okkar Íslendinga.``
    Og ritstjórinn segir hér: ,,Á vissan hátt get ég verið þingmanninum sammála. Blaðið fjallar um trúmál, en það berst gegn trúboði um óskeikulleika kenninga þeirra sem farið er eftir við stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum.``
    Enn fremur segir hérna: ,,Lítum á tölur úr opinberum veiðiskýrslum. Á átta ára tímabili, 1981--1988, bæði árin meðtalin, var meðalveiði þorsks

við Ísland 363.159 tonn. En næstu átta árin þar á undan var veiðin 368.195 tonn. En á
átta ára tímabili árin 1928--1935 var meðalþorskveiðin 484.618 tonn. Á öðru átta ára tímabili árin 1953--1960 var meðalveiðin á þorski 495.000 tonn. Og þar af mest árið 1957 546.000 tonn. Er nema von að spurt sé.`` --- Segir hér í þessari ágætu grein. --- ,,Hvenær var þessi ofveiði á þorski sem við erum nú að súpa seyðið af? Var hún fyrir 35 árum eða var hún ef til vill fyrir 60 árum? Tæplega hefur hún verið á síðustu tveim áratugum þegar veiðin hefur verið miklu minni en á tveim fyrrnefndum tímabilum.``
    Þetta eru athyglisverð skrif og ég legg engan dóm á þau. En ég geri ráð fyrir því að þau séu skrifuð í þeim tilgangi að fjalla hreinskilið og opinskátt um þetta mál sem er almikilvægasta mál okkar Íslendinga, þ.e. fiskstofnarnir og hvernig viðkoma þeirra er hér í höfunum. Og ýmsar spurningar vakna í framhaldi af þeirri litlu ófullkomnu umfjöllun sem hefur farið fram hér í þingnefndunum í vetur því sjútvn. Nd. átti þess kost að sitja nokkra fundi með hv. nefndarmönnum í Ed. Mér persónulega finnst að fleiri spurningar hafi vaknað en hefur verið svarað. Þar á meðal spurði ég einnar spurningar, þ.e. um sóknarþunga á Íslandsmiðum, og einu gögnin sem eru til um sóknarþunga á Íslandsmiðum eru gögn sem eru reiknuð út frá stærð þorskstofnsins á hverju ári. Það eru ekki einu sinni til gögn um sóknarþunga reiknuð út frá fjölda skipa, stærð skipa, vélarstærð skipa og hvernig tæknin hefur breyst við fiskveiðar. Gögn um sóknarþunga að þessu leyti eru ekki til og hafa aldrei verið til. Samt skortir ekki að alls konar fræðingar eru að reikna og reikna og vilja reikna sér til hagsbótar auðlindaskatt og margt fleira sem þeir segja að sé einmitt patentlausn á öllu. En hvernig í ósköpunum geta allir þessir menn reiknað svona þegar frumgögnin eru ekki til? Sókn í þorskstofninn er reiknuð út frá ástandi þorskstofnsins. Það finnst mér vægast sagt ófullkomin aðferð. Ef þorskstofninn hefur minnkað þá hefur sóknin aukist. En hvað með fæðukerfið? Menn vita ekkert það um fæðukerfið að menn geti reiknað sig svona áfram. Þetta eru algerar ágiskanir. Ég viðurkenni þetta ekki sem vísindi. Ef rjúpnastofninn væri talinn á sambærilegan hátt á þá að segja: Samkvæmt þessari niðurstöðu hafa svona margir veiðimenn verið á ferðinni sl. haust með svona mörg skot. --- Þetta er nákvæmlega sams konar aðferð. Það þætti ekki gáfulegt að reikna þannig. En þetta er nú ekki sagt neinum til minnkunar heldur verða menn að ræða þetta í hreinskilni, þetta verður að ræðast eins og það er en ekki í neinu pukri.
    Ég verð að segja það líka, ítreka það að ég hef af því miklar áhyggjur að sá sterkari kaupi þann veikari í þessu kerfi. Leikreglurnar sem lagt er af stað með eru ójafnar og óréttlátar og það hefur ekki verið unnið í því að lagfæra þær til eftir faglegum leiðum. Og hvað með stjórnarskrá landsins? Hvaða grundvallarleikreglur gilda um löggjöf sem þessa? Um þann punkt hefur aldrei verið rætt. Það kemur fram í áliti Lagastofnunar. Svo er nú það að raunverulega er

ekki verið að greiða atkvæði um þetta kerfi hér. Þá erum við nú komin að samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það er ekki verið að greiða atkvæði um þetta kvótakerfi hér á hæstv. Alþingi. Það er verið að greiða atkvæði um framhaldslíf þessarar hrossakauparíkisstjórnar. Stjórnarliðinu er hreinlega stillt upp og sagt við það: Ætlar þú að fella stjórnina? Og allir eru settir í þessa varnarstöðu, þessi aumingja þú. Ætlar hann að fella stjórnina. Hann er ekki að greiða atkvæði með þessu kerfi, hann er að greiða atkvæði með því hvort þessi hrossakaupastjórn á að lifa áfram eða ekki. (Gripið fram í.) Nei, sem er náttúrlega ekkert líf, það er rétt hjá hv. þm.
    Það verður að mótmæla harðlega svona hrossakaupaaðferðum í mikilvægri löggjöf eins og þessari. Ég ítreka það að þetta er einhver sú alvarlegasta löggjöf sem hæstv. Alþingi hefur sett. Það er mitt mat. Og að afgreiða slíka löggjöf á nokkrum klukkutímum með hrossakaupum og þvingunum finnst mér vera fyrir neðan allt velsæmi.