Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Fyrir skömmu heyrði ég eina af fremstu myndlistarkonum Íslendinga lýsa því hversu dásamlegt það væri að lifa á þessum tímum. Hún var þá með hugann við allar þær breytingar sem nú eru að eiga sér stað í veröldinni. Hún lýsti nútímanum sem endurreisnartíma almennrar skynsemi. Sósíalisminn er fallinn. Berlínarmúrinn er hruninn. Frjálslyndir borgarar hafa fengið völdin í lýðræðislegum kosningum þar sem ógnarstjórn sósíalista sat fyrir fáum mánuðum á fleti fyrir. Evrópuþjóðirnar eru að ryðja úr vegi hindrunum í viðskiptum, fjármálum og þjónustustarfsemi. Fram undan er tími frjálsræðisþróunar, vaxandi gildis einstaklinganna, aukinna áhrifa kvenna í atvinnulífi, mikilla markaðsmöguleika í fjarlægum heimsálfum, nýrra verkefna á sviði umhverfismála, vaxandi skilnings á trúrækni, menningu og þjóðerni í heimi aukinna alþjóðlegra samskipta. Áður treystu stærri þjóðir viðskipta- og framleiðsluhagsmuni sína með vopnavaldi. Í þeim heimi var hlutur smáþjóðanna fyrir borð borinn. Í dag tryggja þjóðirnar sömu hagsmuni með gagnkvæmum samningum um frelsi á öllum sviðum. Í þeim heimi styrkist staða smáþjóðanna.
    Í raun og veru er því full ástæða til bjartsýni í dag, ekki síst fyrir okkur Íslendinga. Við hljótum að eygja marga nýja möguleika, sjá mörg ný tækifæri og fjöldann allan af nýjum verkefnum og viðfangsefnum til þess að takast á við á nýjum tímum. Við vitum að það er ekki einungis vaxandi samstaða á meðal þjóða. Við finnum á sjálfum okkur að það er minni ágreiningur en áður á milli fólksins í landinu um markmið og leiðir í þjóðfélagsmálum. Með falli sósíalismans hafa frjálslynd viðhorf orðið ofan á og við þurfum ekki af þeim sökum að eyða jafnmiklum tíma og jafnmiklum kröftum í innbyrðis deilur og áður. Við getum, ef við viljum, staðið betur saman og náð meiri árangri en við höfum gert á síðustu árum. Þannig blasir við okkur úti í þjóðlífinu mynd betri samstöðu og meiri einingar en verið hefur um langan tíma.
    En á hinn bóginn blasir við önnur og gjörólík mynd af Alþingi Íslendinga. Hér er vaxandi sundrung, meira sundurlyndi, fleiri smáir, ósamstæðir og stríðandi hópar en nokkru sinni fyrr. Þessi mynd er vissulega ekki í samræmi við þjóðarviljann eins og við skynjum hann í önn dagsins. Slíkar aðstæður á Alþingi draga úr möguleikum okkar til markvissrar sóknar, til stöðugleika og betri lífskjara. Ástæðulaust er að reyna að koma sök á einhvern einstakan. Hér eiga allir hlut að máli sem sitja á Alþingi og það er reynsla mín af setu í tveimur ríkisstjórnum og í andstöðu við þá þriðju að sundurlyndi og ólíkar skoðanir í fjölflokkaríkisstjórnum hafi í allt of ríkum mæli leitt til ómarkvissrar stefnu í efnahagsmálum og valdið því að of seint hefur verið brugðist við í ýmsum efnum. Eftir á að hyggja geta sérfræðingar ugglaust dregið í efa að ráðlegt hafi verið af minni hálfu sem fjmrh. árið 1986 að verða við tilmælum

þáv. forsrh. og forustumanna launþega og atvinnurekenda að lækka skatta og minnka þar með tekjur ríkissjóðs til þess að greiða fyrir þeirri frægu þjóðarsátt sem þá var gerð á vinnumarkaði og allir voru sammála um. Hún veikti sannarlega stöðu ríkissjóðs en enginn sá fyrir þá hversu mikil uppsveiflan yrði og þá snöggu kreppu sem kom í kjölfarið. Það sem allir töldu vera árangursríkt meðal gegn verðbólgu reyndist til lengri tíma heldur auka á þenslu.
    Samstarfsflokkur okkar sjálfstæðismanna á þeim tíma, Framsfl., var andvígur því að beita vöxtum til að örva sparnað og stuðla að betra jafnvægi. Fyrir þá sök var brugðist of seint við á því sviði efnahagsstjórnar. Einmitt þetta atriði er eitt af höfuðgagnrýniefnum í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um Ísland sem birt var í gær.
    Það er líka vert upprifjunar nú að árið 1988 var gengi krónunnar ekki breytt eins og þörf krafði vegna andstöðu Framsfl. og Alþfl. eftir verulegt verðhrun á erlendum mörkuðum og fall bandaríkjadals. Sá ágreiningur leiddi ekki einasta til stjórnarslita heldur jók mjög á vanda útflutningsframleiðslunnar. Kaupmáttarrýrnunin varð meiri og atvinnuleysið alvarlegra vegna þess að þessir flokkar voru of seinir að skilja þörf gengisbreytingarinnar. Þannig má finna fjölmörg dæmi um hvernig sambræðslustjórnir margra ólíkra flokka leiða til þess að réttar ákvarðanir eru ekki teknar á réttum tíma og viðbrögð verða of lin og seinvirk. Þetta er því sárgrætilegra sem ætla má að miklu meiri samstaða sé um meginstefnu og aðgerðir í efnahagsmálum úti á meðal fólksins í landinu en hér í þingsölunum. En er þá ekki ástæða til að spyrja hvernig bæta megi úr þannig að Alþingi endurspegli betur þjóðarviljann? Ég tel að það þurfi m.a. að koma til grundvallarbreytinga á því fyrirkomulagi sem nú gildir um kjör alþingismanna og breytingar á skipan og starfsháttum Alþingis. Um leið og alþingismönnum yrði fækkað niður í 60 á nýjan leik tel ég vel koma til greina að taka upp kjördæmaskipan þar sem helmingur þingmanna yrði hugsanlega kjörinn í einmenningskjördæmum en hinn helmingurinn af landslistum. Höfuðverkefnið innan Alþingis er að sameina það í eina málstofu. Það mundi draga úr kostnaði við þinghaldið en umfram allt koma hér á skilvirkari vinnubrögðum er fullnægðu betur nútímakröfum kjósenda um skipulega og málefnalega starfshætti. Þjóðin
þarfnast nú umfram allt festu í stjórnarháttum og frjálslyndrar stefnu sem varðað getur veg Íslendinga að því aukna alþjóðlega samstarfi sem hlýtur að vera farvegur nýrra átaka og framfara. Nú megum við ekki láta deilur og afturhaldssöm sjónarmið verða til þess að við drögumst aftur úr öðrum þjóðum og tökum ekki ákvarðanir á réttum tíma og bregðumst ekki við nýjum aðstæðum vegna innra sundurlyndis. Komið hefur á daginn að allar athugasemdir okkar sjálfstæðismanna fyrr í vetur um viðræðurnar við Evrópubandalagið höfðu við rök að styðjast. Formaður framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins hefur

beinlínis hvatt til þess nú alveg nýlega að undirbúningur hefjist án tafar að tvíhliða viðræðum eins og við höfum lagt til.
    Landsfundur Sjálfstfl. og þingflokkur mörkuðu nýja, frjálslynda stefnu í efnahags- og atvinnumálum sl. haust. Henni hefur verið fylgt eftir í málflutningi og tillöguflutningi hér á Alþingi. Athyglisvert er að margt af því sem Efnahags- og framfarastofnunin segir í skýrslu sinni frá því í gær að brýnast sé að gera hér á Íslandi er í fullu samræmi við þessa stefnumörkun. Þannig telur stofnunin til að mynda óhjákvæmilegt að Ísland tengist frjálsum fjármagnsviðskiptum Evrópubandalagsins til þess að auka hagkvæmni í dreifingu fjármagns og bæta jafnvægi í hagþróuninni. Sjálfstæðismenn hafa flutt þáltill. um þetta efni hér á Alþingi í vetur, en þeirri tillögu hefur algjörlega verið hafnað í stjórnarflokkunum.
    Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar er lögð mikil áhersla á að ný löggjöf verði sett er miði að því að auka fjárfestingu erlendra aðila í öðrum greinum en sjávarútvegi í þeim tilgangi að nýta erlent áhættufé til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Sjálfstfl. hefur flutt viðamikið frv. til nýrrar löggjafar á þessu sviði en stjórnarflokkarnir fást ekki einu sinni til þess að taka það til umræðu á þessu þingi.
    Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar kemur enn fremur fram að nauðsynlegt sé að hverfa frá ríkisrekstri í bankakerfinu og að dregið verði úr sjálfvirkum ríkisábyrgðum í opinberum sjóðum. Sjálfstfl. hefur einnig flutt frv. um þetta efni á þessu þingi. Alþfl. hefur viðurkennt að nauðsynlegt sé að breyta bönkunum til þess að aðlaga fjármálakerfið nýjum aðstæðum, en vegna andstöðu í tveimur stjórnarflokkanna situr þetta mál fast og alþýðuflokksmenn þora ekki að ljá frv. sjálfstæðismanna atfylgi sitt. Þetta er lýsandi dæmi um stöðnun vinstri stjórnar.
    Ég ætla ekki að væna andstæðinga mína hér á Alþingi um að vilja ekki vel. En hafi sundurleit sjónarmið verið hindrun í samstarfi í tveimur síðustu ríkisstjórnum er ljóst að þau eru þessari ríkisstjórn fótakefli. Í raun og veru er þessi ríkisstjórn aðeins venjuleg gamaldags vinstri stjórn sem eðli máls samkvæmt getur ekki tekið á verkefnum nýs tíma.
    Sú mikla ólga og upplausn sem nú er á vinstri væng stjórnmálanna endurspeglast glöggt í starfi ríkisstjórnarflokkanna hér á Alþingi um þessar mundir og hún hefur lamað stjórnina til allra markvissra og skapandi starfa. Nú sýnist ekki vera unnt að ljúka þingstörfum eins og áformað hafði verið á laugardag vegna innbyrðis hótana í ríkisstjórninni um samstarfsslit sem enginn tekur þó mark á. Að hætti gamaldags vinstri stjórna var vandamálunum strax í byrjun skotið á frest með því að stofna millifærslu- og styrkjasjóði af ýmsu tagi. Slíkir sjóðir leysa engan vanda nú fremur en fyrir 30 árum þegar Íslendingar héldu að þeir hefðu sagt skilið við slík vinnubrögð. Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir 20 milljarða kr. tilfærslum í formi styrkja, lána, skuldbreytinga og gjafapeninga. Áætla má að gjaldþrot

millifærslusjóðanna verði nær 5 milljörðum kr. við lok kjörtímabilsins að ári liðnu. Það er sá hluti tilfærslunnar sem væntanlega mun falla á skattgreiðendur, 5 þús. millj. kr. Það er hinn óleysti vandi hefðbundinna vinstristjórnarúrræða.
    Til viðbótar hafa nú verið sett Íslandsmet tvö ár í röð í söfnun erlendra skulda. Þær eru nú hærra hlutfall af landsframleiðslu en nokkru sinni fyrr. Á flestum sviðum gætir svo tilhneigingar til aukinnar miðstjórnar. Í skipulagsmálum á að færa vald frá sveitarfélögum til ríkisins. Í húsnæðismálum er markvisst stefnt frá séreignastefnu að leiguíbúðastefnu að skandinavískum hætti og ætlunin er nú að svipta Reykjavíkurborg yfirráðum yfir þeim íbúðum sem hún á sjálf og nýtir í félagslegum tilgangi.
    Frú forseti. Við höfum um alllangan tíma búið við tvöfalt hagkerfi í landinu þar sem atvinnuvegir landsbyggðarinnar hafa verið háðir miðstýringu og sjóðavaldi en atvinnulíf þéttbýlisins notið meira frelsis. Núverandi ríkisstjórn hefur dýpkað þessa gjá í stað þess að brúa hana. Frv. að nýrri löggjöf um stjórn fiskveiða hefur legið mánuðum saman án umræðu hér á Alþingi vegna þess að ríkisstjórnin kom sér ekki saman. Á síðustu stundu var það dregið inn í hefðbundin hrossakaup stjórnarflokkanna. Frv. sem var í flestum grundvallaratriðum ásættanlegt að mínu mati hefur nú verið eyðilagt með nýjum sjóði. Þar er verið að ögra sjávarútveginum með því að stíga fyrsta skref að auðlindaskatti. Með geðþóttaúthlutunum nýja sjóðsins á veiðileyfum má fullyrða að stefnt er að aukinni óhagkvæmni í veiðum. Framtíðarhagsmunum sjávarútvegsins í landinu er því stefnt í hættu eins og nú horfir.
    Sjálfstfl. hefur þess vegna lagt til að málið verði skoðað betur í sumar, ráðgjafarnefnd sjávarútvegs og stjórnmálaflokkanna fái að fjalla um hina nýju stöðu, Alþingi komi síðan saman til sérstaks aukafundar í september til þess að fjalla einvörðungu um þetta mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar. Þessu sáttatilboði hafa stjórnarflokkarnir og sjútvrh. hins vegar hafnað.
    Umhverfismálin, sem eru eitt af viðamestu verkefnum næstu ára, hafa verið gerð að hreinu fíflskaparmáli í þessari ríkisstjórn svo sem atburðir síðustu daga bera gleggst vott um.
    Að undanförnu hafa ýmsar ytri aðstæður gengið í haginn. Aðilar vinnumarkaðarins lögðu ríkisstjórninni til nýjan efnahagsgrundvöll með djörfum kjarasamningum. Bandaríkjadalur hefur aukist að verðgildi og verðlag á erlendum mörkuðum hefur hækkað langt umfram björtustu vonir manna. Af þessum ástæðum hefur rekstur útflutningsatvinnugreinanna skánað og viðskiptahalli er ekki jafnmikill vegna þess að kaupmáttarrýrnunin hefur eðlilega haft þær afleiðingar að almenningur hefur ekki haft efni á innkaupum í sama mæli og áður. Það má því segja að þrátt fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafi rofað nokkuð til. En alvarlegustu staðreyndirnar sem við stöndum nú frammi fyrir eru þær vísbendingar sem fram koma í skýrslu Efnahags-

og framfarastofnunarinnar frá því í gær að á næstu árum og jafnvel næsta áratug verði hér að óbreyttum aðstæðum stöðnun og of lítill hagvöxtur til þess að við getum fylgt öðrum þjóðum eftir í sókn til betri lífskjara. Það eru þessar forsendur sem þarf að breyta með frjálslyndri stefnu Sjálfstfl.
    Fjölflokkastjórnir leiða jafnan til glundroða og stöðnunar. Vinstri stjórnir eru úreltar. Nútíminn kallar því á samhenta, frjálslynda ríkisstjórn. Og endurreisnartími almennrar skynsemi á líka að verða að íslenskum veruleika. --- Góðar stundir.