Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Góðir dagar fara í hönd. Vorið er gengið í garð, hlýrri og mildari vindar blása, allt fær á sig nýtt yfirbragð. Hlátrar óma um strætin, ferðalögin og sumarfríin nálgast. Skemmtilegasti tíminn er fram undan í sveitinni. Það eru forréttindi að vera Íslendingur, eiga þetta land og búa við þau lífskjör og möguleika sem hér eru til staðar.
    Þegar við alþingismenn nú opnum eldhúsglugga Alþingis til að hleypa sólskininu inn til okkar og segja ykkur frá störfum þingsins og hvernig ríkisstjórninni er að takast að slá verðbólguna niður, þjóðarsátt í kjaramálum orðin staðreynd, þá komist þið þó ekki hjá því að heyra svartagallsrausið og sjóðandi afbrýðisemi sjálfstæðismanna. Sjálfstfl. er skrýtin skepna. Sé stefnuskráin skoðuð er þar eitthvað fyrir alla. Sjálfstfl. er eiginlega líkur glæsilegri kvöldmáltíð þar sem kalt borð er framreitt, allir finna eitthvað við sinn smekk og sitt hæfi. Veislan gengur upp sé flokkurinn í stjórnarandstöðu en eigi hann aðild að ríkisstjórn veikjast gestirnir. Það stendur alls ekki til að standa við öll þau fögru fyrirheit. Allt þetta fólk á alls ekki heima í þessum stóra flokki.
    Ríkisstjórnin býr hér á Alþingi við mikinn innanhúskulda. Sjálfstfl. hefur sem áður rótast og barist gegn öllum góðum áformum. Þannig er Sjálfstfl. líkur þeim veðrasama vetri sem nú er að ljúka. Bölsýni og niðurrifsstarf er blettur á hverjum manni. En slíkt einkennir stærsta flokk landsins, þeir sjá ekki sólina, þeir sjá ekki vorið. Ég hugsa að Þorsteinn Pálsson og Geir Haarde setji ekki niður kartöflurnar sínar í vor, svo svartsýnir hafa þeir verið hér í vetur. Þó liggur það á borðinu að mikill árangur er að nást vegna starfa og staðfestu ríkisstjórnarinnar. Fyrirtækin eru hvert af öðru að skila af sér með hagnaði.
    Vorið er gengið í garð í efnahagsmálum okkar. Framtíðin er þess vegna björt. Hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni er að takast í annað sinn að marka þáttaskil í efnahagsmálum okkar Íslendinga. Það tókst honum í sinni fyrstu ríkisstjórn 1983--1987 en þá tóku við ár hinna miklu mistaka og 13 dýrustu mánuðir Íslandssögunnar þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar glutraði árangrinum niður. Þá skiluðu fyrirtækin ekki hagnaði, nema kannski heildsalarnir. Hafa menn gleymt hvernig mál þróuðust 1987--1988? Hver man ekki t.d. ummæli Sverris Hermannssonar um Þorsteinsstjórnina: ,,Menn reka fyrirtækin lóðrétt til andskotans,,, sagði Sverrir Hermannsson. Öll frystihúsin voru að stöðvast. Íslenskir grunnatvinnuvegir lágu á hliðinni. Háir vextir og fast gengi var boðskapur ungu mannanna í Sjálfstfl., þó nú sé fróðlegt að heyra Þorstein Pálsson halda öðru fram. Þegar við loksins komum þessum fuglum burt úr Stjórnarráðinu þurfti 7 milljarða til að koma sjávarútveginum á fæturna. Blómlegasta sjávarþorp landsins, Vestmannaeyjar, þurfti fyrirgreiðslu sem sýnir best hvernig þessi helstefna lék byggðirnar. Var einhver að segja að hann vildi Sjálfstfl. á nýjan leik

í Stjórnarráðið? Þeim voru ofar í huga hagsmunir heildsalanna en frystihúsanna, ofar í huga hagsmunir þeirra fáu og ríku en fjöldans.
    Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur í andstöðu við Sjálfstfl. velt um borðum víxlaranna. Við urðum að berja á fingur fjármögnunar- og kaupleigufyrirtækjanna, taka bankana taki. Við breyttum lánskjaravísitölunni í hag fólksins og fyrirtækjanna. Þannig hefur þessi ríkisstjórn markvisst unnið að því að skapa hér nýtt efnahagsumhverfi.
    Nú heyrir viðskiptahallinn sögunni til. Nú er gengið skráð í hag útflutnings- og samkeppnisfyrirtækjanna, það lægsta um árabil, leiðrétt hægum en föstum skrefum án kollsteypu, eins og hæstv. forsrh. sagði hér áðan. Framsfl. hefur alltaf gert þá kröfu að undirstöðuatvinnuvegirnir hafi rekstrargrundvöll. Það er hin raunhæfa byggðastefna.
    Það er ekki sama hver á heldur, það er ekki sama hver stjórnar heimili, fyrirtæki eða ríkisstjórn. Þetta stjórnarsamstarf hefur reynt á þolinmæði Steingríms Hermannssonar. En hann hefur notið þess að hafa einhuga flokka á bak við sig og vita hvert ferðinni var heitið, enda uppskeran sigurlaun erfiðisins.
    Þjóðarsáttmáli náðist milli aðila vinnumarkaðarins með aðild bænda. Forsendur hans eru þær að ríkisstjórninni hefur tekist vel, verðbólgan hrapað, útlánsvextirnir hafa lækkað frá áramótum úr um 30--35% niður í 13--14%. Unga fólkið með dýru lánin finnur batann á veskinu sínu, fjármagnskostnaður fyrirtækjanna hverfur og enn á verðbólgan eftir að lækka þegar líður á árið.
    Þessi þjóðarsátt fer í taugarnar á Sjálfstfl., enda reyndi höfðinginn á Seljavöllum að hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi með því að láta íhaldið í stjórn Áburðarverksmiðjunnar samþykkja 18% hækkun í stað 12% hækkunar sem kjarasáttmáli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins var byggður á. Ríkisstjórninni hefur þó tekist að koma í veg fyrir þetta skemmdarverk Sjálfstfl. Bændurnir þurfa á öðru að halda en að vera bitbein. Það er hart vegið að þeirri stétt. Ýmis öfl heimta innflutning á
landbúnaðarvörum erlendis frá. Það verður að opna glufu, sagði borgarstjórinn og varaformaður Sjálfstfl. á frægum fundi. Við framsóknarmenn stöndum vörð um íslenskan landbúnað. Þéttbýlisfólkið á mikið undir því að sveitirnar dafni. Annars hrynur allt í rúst.
    Ég ætla svo að lokum að segja ykkur frá þingmáli sem ég flutti hér á Alþingi ásamt tveimur öðrum þingmönnum Framsfl. Það er kunnara en frá þurfi að segja að málefni lífeyrissjóðanna eru á villigötum. Við leggjum til að það verði kannað hvort ekki eigi að stofna eigin eftirlaunasjóði einstaklinga innan bankakerfisins en tryggingaþátturinn verði settur inn í almenna tryggingakerfið. Þessi leið sparar kostnað, lífeyrissjóðirnir segja að þeir þurfi 20% af öllum launum til að standa við skuldbindingar sínar í stað 10% nú. Okkar hugmyndir miða við að 10% nægi. Útreikningar sýna að einstaklingur með 70 þús. kr. á mánuði ætti 13,5 millj. kr. í starfslok. Annar sem hefur 100 þús. kr. á mánuði ætti 19,4 millj. kr. í

starfslok. Þeir gætu greitt sjálfum sér í eftirlaun næstu 30 árin annars vegar 73 þús. kr. á mánuði, hins vegar 102 þús. kr. Þessi tillaga er andstæð kerfinu en fólkið styður hana. Hér sannast það að þeir sem deila og drottna með peninga fólksins vilja gera það áfram. Þeir þola ekki gagnrýnina sem beint er að þessu staðnaða kerfi. Sá sem hefur fjóra ása á hendi kærir sig ekki um að spilin verði gefin upp á nýtt.
    Góðir Íslendingar. Framsfl. er hið róttæka umbótasinnaða afl sem þorir að takast á við hið nýja tungl framtíðarinnar. Framsfl. er að takast að leiða þjóðina út af eyðimörk frjálshyggjunnar. Framsfl. er einhuga, á sterka forustumenn og vinnur fyrir landið allt. Framsfl. skilur að hagsmunir atvinnulífsins og launþeganna eru í sömu körfu. Þess vegna blasir nú við betri tíð með blóm í haga. Þess vegna er vor fram undan í okkar efnahagsmálum og þjóðlífi. --- Góðar stundir.