Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Því meira sem við tökum tillit til mannlegu sjónarmiðanna, því meira drögum við úr hagkvæmninni. Þetta setningarbrot heyrðu landsmenn í Ríkisútvarpinu einn morguninn af vörum eins þeirra sem unnið hafa að mótun fiskveiðistefnu. Ég hef oft hugleitt þessa setningu síðustu dagana eftir því sem að afgreiðslu þess frv. dró. Því meira sem við tökum tillit til mannlegu sjónarmiðanna, því meira drögum við úr hagkvæmninni. Þvílíkur sannleikur. Eða skyldi þetta e.t.v. vera sá sannleikur sem hafður er að leiðarljósi við almenna stefnumótun í þjóðfélaginu?
    Við umfjöllun um fiskveiðistefnuna fluttu kvennalistakonur viðamiklar brtt. Í hnotskurn fela þær í sér að við viljum auka hagkvæmni með því að taka tillit til mannlegra sjónarmiða og þá auðvitað um leið til byggðasjónarmiða. Við teljum nauðsynlegt að rjúfa sambandið milli skips og kvóta með því að úthluta honum til byggðarlaga.
    Með byggðakvóta er átt við að sveitarstjórnir á útgerðarstöðum hafi rétt til að úthluta kvóta til einstaklinga, útgerðarfélaga og fiskvinnslustöðva, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Í lögum stendur skýrt og ákveðið að nytjastofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að afhenda fisk sem syndir í sjónum örfáum aðilum til frjálsrar ráðstöfunar án þessa að réttur eigandans, þ.e. þjóðarinnar, sé að nokkru leyti virtur. Byggðakvótinn mundi stuðla að valddreifingu en um leið auka möguleika fólks til að skipuleggja þessa mikilvægu atvinnugrein með tilliti til aðstæðna og útgerðarhátta á hverjum stað. Reynslan hefur sýnt fram á réttmæti þessara sjónarmiða og nauðsyn þess að tryggja sanngjarnari dreifingu atvinnu og arðs af fiskimiðunum.
    Það var fróðlegt en ekki alltaf uppörvandi að taka þátt í umfjöllun um fiskveiðistefnuna. Það sem fyrst og fremst vakti athygli var að skynja það
hvernig kerfið berst um og engist í viðleitni sinni til þess að viðhalda sjálfu sér. Ógerlegt reyndist að hnika því til. Þrátt fyrir þann fjölda hugmynda og tillagna sem fram kom og þrátt fyrir þær staðreyndir sem blasa við víða um land og rekja má til fiskveiðistefnunnar varð engu um þokað. Þó var e.t.v. enn alvarlegra að skynja það áhugaleysi sem sýnt var á að kynna sér og ræða hugmyndir annarra. Því hljóta að vakna spurningar um það hvernig komið er fyrir Alþingi og hvort þar fer yfirleitt fram frjótt og skapandi starf. Ef menn innan þessa húss hlusta ekki hver á annan, hvað má þá ætla um að þeir hlusti á raddir fólksins? Er það ekki að verða þjóðsaga að Alþingi endurspegli vilja þjóðarinnar? Þegar allt var komið í eindaga voru endalokin þau að formenn ríkisstjórnarflokkanna komu sér saman um afgreiðslu fiskveiðimálsins í skjóli þess meirihlutavalds sem þeir hafa í þinginu. Að mínu mati er sú þróun hættuleg að ekki fari fram umræða um nýjar hugmyndir á löggjafarsamkundunni heldur séu ákvarðanir teknar af

formönnum fyrir luktum dyrum. Þetta var örugglega ekki markmið þeirra framsýnu manna sem stofnuðu Alþingi Íslendinga. Það var örugglega ekki þeirra ætlun að þingið yrði vettvangur fyrir sviðsettar rökræður þar sem niðurstaðan var fyrir fram ákveðin. Þess konar vinnubrögð eru ekki til þess fallin að vekja traust manna á stjórnmálamönnum.
    Við kvennalistakonur höfnum slíkum vinnubrögðum, enda teljum við okkur rétt og skylt að kynna okkur rækilega allar þær hugmyndir og tillögur sem hér eru fram bornar og taka til þeirra málefnalega afstöðu. Ef vel er að gáð má segja að í tillögum ríkisstjórnarinnar um að setja á stofn Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins felist örlítil viðurkenning á réttmæti byggðasjónarmiða í anda þess sem við kvennalistakonur höfum oft bent á. Undarleg var lendingin samt. Ef betur er að gáð er hún þó dæmigerð fyrir byggðastefnuna. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar er nú ætlunin að úthluta kvóta til sveitarfélaga, ýmist gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, ,,standi sérstaklega á,,, eins og segir orðrétt í tillögunum. Í þessum orðum endurspeglast kjarninn í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar. Engar áætlanir liggja fyrir um átak í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni og greinilegt er að áfram er stefnt að því að hefja björgunaraðgerðir, ,,standi sérstaklega á,,. Þessi stefna hefur sýnt og sannað að hún dugir ekki til annars en að leysa staðbundin vandamál í bili en vanda heildarinnar leysir hún ekki til frambúðar.
    Ríkisstjórnin hælir sér af því að hafa náð fram efnahagslegu jafnvægi. Það jafnvægi hefur staðfest enn frekar óeðlilegt launabil og ójafna tekjuskiptingu sem kemur verst niður á konum. Kvennalistakonur hafa reynt að fá upplýsingar um raunverulegan framfærslukostnað einstaklinga og fjölskyldna. Þær upplýsingar virðast ekki liggja á lausu. Þó hafa menn treyst sér til að leggja mat á framfærsluþörf námsmanna sem liggur töluvert yfir því sem fólk á taxtalaunum býr við. Fer þó fjarri að námsmönnum sé skammtað ríflega en þetta mat staðfestir að lægstu launin eru úr öllum tengslum við raunverulegar þarfir fólks til lífsviðurværis og miðast einungis við hagsmuni vinnuveitenda.
    Kvennalistakonur hafa í vetur sem endranær unnið ötullega hér á Alþingi. Við höfum borið fram margar nýjar tillögur sem varða velferð fjölskyldna og
heimila og atvinnusköpun fyrir konur. Sem betur fer hafa nokkrar þeirra hlotið samþykki. Má sem dæmi nefna till. um fjarvinnustofur sem felur í sér áskorun
til ríkisstjórnarinnar um að flytja verkefni út um landið og veita fólki atvinnu um leið og því gefst kostur á að vera þátttakendur í þeirri tölvu- og fjarskiptatækni sem á eftir að verða vaxandi þáttur í lífi okkar á komandi árum. Takist vel til með uppbyggingu fjarvinnustofa má ætla að fólk fái þar verkefni og vinnuaðstöðu sem leiði til traustari búsetu. Þá vil ég nefna till. um uppbyggingu mötuneyta og heimavista fyrir nemendur framhaldsskóla sem stunda nám fjarri sinni heimabyggð. Enn vil ég nefna frv. um aukin tengsl grunnskólans við lista- og

fræðslustofnanir þar sem gert er ráð fyrir að börn læri að skynja og skilja gildi menningar, lista og þjóðlegs handverks, sem við erum því miður að glata með öllu.
    Ég vil einnig geta till. um nýja aðferð til að reikna þjóðhagsstærðir þar sem tekið er tillit til umhverfisþátta og auðlindanýtingar þegar hagvöxtur er metinn. Það væri of langt mál að tíunda nákvæmlega efni allra þeirra mála sem við kvennalistakonur höfum haft fram að færa. En í síðasttöldu till. er að finna grundvöllinn að þeirri hugarfarsbreytingu sem konur telja brýnast alls að ráðamenn temji sér. Að þeir hætti að líta á líf okkar hér á þessu landi með gagnaugunum einum saman en skynji að okkar eina auðsuppsprétta er jörðin sjálf. Hún er undirrót allra þeirra auðæfa sem skapast og þess vegna verðum við að virða hana og ganga um hana með gát. Og því kem ég enn að upphafsorðum mínum sem ég vil nú snúa við og segi: Því meira tillit sem við tökum til mannlegra sjónarmiða því betur mun okkur farnast í þessu landi. Þetta hafa konur löngum skynjað, undir þessu er velferð okkar í landinu komin.
    Ég óska landsmönnum öllum góðs og gjöfuls sumars.