Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Gott kvöld, góðir áheyrendur og gleðilegt sumar.
    Síðasti ræðumaður, hv. þm. Ingi Björn Albertsson, talaði hér áðan og eyddi drjúgum hluta ræðutíma síns í áhyggjur sínar af heilsufari Alþb. Okkur þykir að sjálfsögðu vænt um þessa umhyggju en um það vil ég fullvissa hv. þm. að Alþb. mun verða til og við góða heilsu löngu eftir að Frjálslyndi hægri flokkurinn teygir upp tærnar.
    Nú loksins eftir langan og strangan vetur er vor í lofti. Og það er ekki aðeins að mildari veðrátta leiki við landsmenn heldur horfir að ýmsu leyti betur í okkar þjóðarbúskap og efnahagsmálum. Ýmis teikn eru á lofti um það að langvinnt samdráttarskeið sé á enda runnið og í hönd fari betri tímar. Það er fyllilega raunhæft nú í fyrsta sinn um nokkurt árabil að gera sér vonir um bata í okkar þjóðarbúskap og grósku í þjóðlífinu og það ekki aðeins um stundarsakir heldur stöðugan bata sem betra jafnvægi í efnahagsmálum á að geta veitt okkur. Reynslan kennir okkur að stöðugleiki í þessum efnum er meira virði en stórar sveiflur. Efnahagsstefnan sem tvær ríkisstjórnir hafa nú fylgt í hátt á annað ár hefur byggst á því að laga hægt og bítandi aðstæður og færa til hlutföll í efnahagsmálum okkar, þannig að heilbrigðari skilyrði sköpuðust fyrir útflutningsstarfsemi og atvinnulíf, vextir og fjármagnskostnaður lækkaði og unnt yrði að ná tökum á verðbólgu. En hér hafa margir lagt hönd á plóginn. Það er jafnfráleitt að eigna ríkisstjórninni einni allan heiðurinn af því sem vel hefur tekist eins og hitt er að neita að viðurkenna það að sú efnahagsstefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt á sinn stóra þátt í þeim árangri sem nú er að nást, eins og við reyndar heyrðum hv. þm. Þorstein Pálsson reyna hér áðan. En vissulega kemur fleira til. Má þar nefna batnandi ytri skilyrði, hækkandi verð fyrir afurðir okkar og síðast en ekki síst hefur launafólkið í landinu fært verulegar fórnir í þágu stöðugra verðlags, lækkandi
verðbólgu og heilbrigðari og bættra skilyrða í þjóðarbúskap okkar. Framlag launafólks vegur hér í raun mjög þungt og batanum ber að skila þangað, til launafólksins sem sjálft hefur að verulegum hluta lagt grunninn að þessum árangri.
    Eitt stærsta og um leið vandasamasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda um þessar mundir eru samskiptin við hinar stóru viðskiptaheildir umhverfisins og þátttaka í viðræðum um samskipti okkar á viðskiptasviðinu við nágrannaríki og samtök. Ber þar að sjálfsögðu hæst viðræður EFTA-ríkjanna, og Íslands þar með talið, við Evrópubandalagið. Þar er um vandasamt verkefni að ræða, að halda svo á hagsmunum Íslands að vel takist til. Annars vegar er þar spurningin um aðgang að mikilsverðum mörkuðum sem okkur er vissulega lífsnauðsynlegt að standi opnir, en hins vegar er varðstaðan um óskert sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Sú skylda hvílir á okkur að afsala engum réttindum sem okkur hefur fallið í

skaut að gæta. Þar setur Alþb. sterka fyrirvara og er ekki tilbúið að ganga til neinna viðræðna sem yrðu undir formerkjum valdaafsals eða skerðingar á íslensku sjálfstæði eða fullveldi til yfirþjóðlegra stofnana. Þá er betur heima setið en af stað farið ef slíkir eiga að verða kostirnir. Staða Íslands er langt frá því að vera veik í þessum samskiptum. Þvert á móti höfum við yfir að ráða mikilvægum auðlindum og getum boðið framleiðsluvörur, fyrst og fremst fisk, sem markaði nágrannalandanna hungrar eftir. Það eru því ekkert síður þau, nágrannalöndin, sem eiga hagsmuna að gæta í viðskiptum við okkur en öfugt. Ísland hefur alla möguleika til á grundvelli auðlinda sinna, sérstöðu og landfræðilegrar legu að halda hagstæðum viðskiptasamböndum og tengslum opnum til ýmissa átta og í þeim efnum er mikilvægt að loka engum dyrum á eftir sér.
    Annað stórmál hefur verið mikið til umfjöllunar á liðnum vetri. Þar á ég við auknar stóriðjuframkvæmdir hér á landi. Óþarfi er að kynna þá afdráttarlausu stefnu sem Alþb. hefur í þeim málum og ótvíræðu kröfu sem við gerum til slíkrar atvinnuuppbyggingar, að hún fullnægi skilyrðum um íslenskt forræði, hagkvæmni, umhverfisvernd og önnur þau atriði sem máli skipta. Þar vil ég sérstaklega bæta við áhrifum slíkra framkvæmda á byggðajafnvægi í landinu. En þann þátt þessa máls hefur þingflokkur Alþb. dregið sérstaklega fram í nýlegri samþykkt sinni um hugsanlegar stóriðjuframkvæmdir. Það er alveg ljóst að Alþb. er ekki reiðubúið að kosta til hættunni á viðbótarbyggðarröskun og enn meira jafnvægisleysi í byggðaþróun í landinu vegna stóriðjuframkvæmda.
    Í framhaldi af umræðum um byggðaþróun er nærtækt að víkja lítillega að fiskveiðistefnunni sem hér er til umfjöllunar á Alþingi í formi tveggja stjfrv. Alþb. hefur mótað skýra stefnu í sjávarútvegsmálum og hefur kjarninn í okkar stefnu hvað fiskveiðistjórnunina snertir byggst á nokkrum grundvallaratriðum. Hinu fyrsta að auðlindir sjávarins væru, eins og aðrar meiri háttar auðlindir þjóðarinnar, sameign landsmanna allra. Það væri óverjandi að afhenda fáeinum útvöldum til eignar slíkar auðlindir. Í öðru lagi höfum við lagt mikla áherslu á réttindi byggðarlaga og fiskvinnslufólks í þessum efnum. Og í þriðja lagi að tryggja betur en gert hefur verið að öll
meðferð þessara mála samræmdist góðum réttarfarsreglum í þjóðfélagi okkar. Um þetta mál hefur jafnan staðið nokkur styr. Í þeirri málamiðlun sem tekist hefur er komið til móts við þessar áherslur Alþb. í veigamiklum atriðum þó ýmsir hefðu að sönnu viljað ganga lengra.
    Nú stendur yfir mikil vinna að stefnumörkun í landbúnaðarmálum sem vonandi skilar tvíþættri niðurstöðu fyrir haustið. Annars vegar í formi samnings milli ríkisvaldsins og Stéttarsambands bænda um nýjan grundvöll fyrir búvöruframleiðsluna í landinu og þá til nokkurra næstu ára, og hins vegar í formi almennrar stefnumörkunar sem væntanlega yrði lögð fyrir Alþingi í formi þáltill. að hausti.

Landbúnaðurinn hefur að sönnu ekki farið varhluta af erfiðleikum í íslensku efnahagslífi. Hafa þar verið einna fyrirferðarmest í umfjöllun vandamál nýbúgreina, eins og loðdýraræktar og fiskeldis, og mikil vinna verið lögð í að reyna að tryggja tilveru og framtíð þessara greina í landinu.
    Ég sé ástæðu hér í þessum umræðum til að nefna sérstaklega jákvæða þátttöku bændasamtakanna í síðustu almennu kjarasamningum og í raun mikilsvert framlag bænda í landinu til þeirrar kjarasáttar sem þar tókst. Það er einlæg von mín að þar hilli undir nýja tíma þar sem samstarf og samskipti neytenda, bænda og aðila vinnumarkaðarins aukast og fara batnandi.
    Á sviði samgöngumála fer ég fljótt yfir sögu. Hér bíða afgreiðslu á þingi bæði flugmálaáætlun og vegáætlun. Þá bíður enn fremur till. til þál. um að flýta jarðgangaframkvæmdum á norðanverðum Vestfjörðum. Um þá tillögu hefur nú tekist góð samstaða og vonast ég til að Alþingi afgreiði á morgun þetta stóra og mikla hagsmunamál Vestfirðinga sem er að sjálfsögðu málefni okkar allra. Mér er til efs að stærra og hábyggðapólitískara mál hafi verið til umfjöllunar á Alþingi um langa hríð. Þá hefur mikil vinna verið lögð í ýmiss konar stefnumörkun á sviði samgöngumála og ekki síst ferðamála. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein að umfangi og mikilvægi sem skilar nú um 10% af gjaldeyristekjum vegna útflutnings á vöru og þjónustu. Till. til þál. um almenna stefnumörkun í ferðamálum hefur verið kynnt á Alþingi og fengið góðar viðtökur.
    Ég tel að tilkoma þeirrar ríkisstjórnar sem tók við völdum haustið 1988 hafi að ýmsu leyti markað tímamót í byggðamálum í landinu. Sú gerbreyting sem orðið hefur í afkomu undirstöðuatvinnugreina landsbyggðarinnar, fjölmargar aðgerðir í jöfnunarátt, aðgerðir á sviði samgöngumála og fleira sem má telja, marka í mínum huga alvörutilraun til að snúa óheillaþróun í byggðamálum við. Á þessu ári hefur það gerst sem mikið hefur verið um rætt en fram til þessa aldrei framkvæmt, að tvær opinberar stofnanir hafa hafið starfsemi úti á landi, með flutningi Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað og stofnun Hagþjónustu landbúnaðarins á Hvanneyri. Það fer vel á því að það sé innan landbúnaðarins sem þannig er riðið á vaðið en fleiri þurfa að fylgja í kjölfarið.
    Það væri freistandi í þessari umræðu að fjalla um þá spennandi tíma sem við lifum í alþjóðamálum. Gjörvallt mannkyn hlýtur að fagna þeim jákvæðu breytingum sem orðið hafa í samskiptum risaveldanna og fleiru sem gerst hefur á alþjóðavettvangi. Það er stórkostlegt að upplifa það svo að segja á einu og sama árinu að Berlínarmúrinn sé rifinn til grunna, að lýðræðislegar kosningar og réttlátara þjóðskipulag sé innleitt í löndum Austur-Evrópu og að Nelson Mandela sé frelsaður úr sinni löngu prísund sem hann hefur sætt vegna baráttu sinnar fyrir mannréttindum hins þeldökka meiri hluta heimalands síns. Og þessi jákvæða þróun teygir anga sína víða og lætur engan ósnortinn. Eftirlegukindur kaldastríðsáranna hafa hér uppi á Íslandi um árabil kyrjað sönginn um nauðsyn

á nýrri hernaðarframkvæmd í landinu, herflugvelli, og hafa seilst ótrúlega langt í leit að málamyndarökum í því máli. Látið hefur verið að því liggja að við Íslendingar værum alls ófærir um slíkar framkvæmdir á eigin vegum rétt eins og flugvallargerð, sem er með einföldustu mannvirkjum, væri verkefni ofvaxið íslenskum vitsmunum eða kröftum. Nei, í þessum efnum sem öðrum eigum við Íslendingar að treysta okkur sjálfum til þeirra framkvæmda sem þarf að ráðast í. Nærfellt tveggja ára undirbúningur að byggingu íslensks varaflugvallar eða varaflugvalla kemur nú í góðar þarfir þegar áhugi erlendra hervelda er skyndilega gufaður upp.
    Innan skamms fara fram kosningar til bæjar- og sveitarstjórna í landinu. Eins og jafnan þegar hin staðbundnu viðfangsefni sveitarstjórnanna eiga í hlut taka málin nokkurt mið af aðstæðum og mönnum á hverjum stað. En jafnan er það þó svo að ákveðin pólitísk grundvallarviðhorf skipta líka máli. Alþb. hefur gegnum tíðina átt að breyttu breytanda góðu gengi að fagna í sveitarstjórnarkosningum. Það er að mínu mati vegna þess að sú stefna sem Alþb. stendur fyrir, eindregin vinstri stefna, krafa um jöfnun í lífskjörum og áherslur á félagsleg réttindi og velferðarmál þegnanna, á, í því návígi sem sveitarstjórnarmálin eru, ríkum skilningi að mæta. Það er að mínu mati mikilvægara en oftast áður að útkoma Alþb., G-listanna, og þeirra framboða sem Alþb. stendur að, verði góð í þessum kosningum. Þannig geta kjósendur sett fram kröfuna um aukinn jöfnuð í lífskjörum og lífsaðstöðu fólks í landinu.
Þannig geta kjósendur sett fram kröfuna um róttækar áherslur í byggðamálum, þannig geta kjósendur sett fram kröfuna um manninn og velferð hans í öndvegi.
    Ég hvet allt vinstra fólk til að leggja sitt af mörkum og styðja framboð Alþb. með öflugu kosningastarfi. --- Góðar stundir.