Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Kæru hlustendur. Í kvöld ætla ég að tala aðeins við ykkur um kolkrabba. Tímaritið Þjóðlíf gerði merkilega úttekt á viðskiptalífi landsmanna í síðasta tölublaði, hvernig fáeinir menn eru að sölsa undir sig bróðurhlutann af viðskiptalífinu með því að kaupa hlutabréf hver í annars fyrirtækjum og kallaði tímaritið þessa þróun kolkrabbann. Er mikill sannleikur fólginn í þessu nafni.
    Kolkrabbinn teygir anga sína einkum um þau fyrirtæki sem búa við ríkiseinokun í samgöngum, ríkiseinokun í verktakastarfsemi, einokun á sölu afurða, fyrirtæki sem annast opinbera umsýslu, um sjóði fjöldans, sjóði ríkisins, banka, ríkisbanka og aðrar þær eignir sem við öll eigum eða eigum að hafa aðgang að en fáir stjórna og njóta góðs af. Þetta eru ríkiskapítalistar íslensku þjóðarinnar. Þetta eru ekki gömlu, góðu kapítalistarnir sem treysta á mátt sinn og megin heldur sú nýja tegund kapítalista sem treystir á ríkið, ríkisforsjá og einokun. Treystir á háa vexti og vísitölur. Keppinautum þeirra hefur verið rutt úr vegi. Hafskip er sokkið og stjórnendur þess og starfsmenn, margir af ágætustu mönnum þjóðarinnr, eru nú dregnir fyrir rétt og senn munum við sjá þau málalok. Arnarflug er að tapa flugi, búið er að selja Stöð 2 og víglínan færist að öðrum fyrirtækjum í landinu þar sem reynt er að halda uppi samkeppni. Frammi fyrir kolkrabbanum stendur einstaklingurinn og einyrkinn í atvinnulífinu frammi fyrir þrítugum hamrinum. Gömlu flokkarnir hafa tekið að sér að verja kolkrabbann í þjóðfélaginu. Þeir eru varðhundar kolkrabbans enda eru þeir smám saman að ganga sér til húðar. Fyrstu merkin, alvarlegu þreytumerkin eru núna í komandi borgarstjórnarkosningum og sveitarstjórnarkosningum þar sem flokkarnir eru að hrynja. Hluti af þeim er þegar hruninn og þess verður ekki langt að bíða að þeir sem enn standa uppi fari sömu leið.
    Nýr vettvangur er fyrsta skrefið þar sem fólkið kemur saman í opið prófkjör, fólk úr öllum áttum og býr til sinn sameiginlega lista meðan aðrir flokkar hafa ýmist lokuð prófkjör eða fella niður prófkjör.
    Góðir landsmenn. Það er aðeins eitt ár til næstu alþingiskosninga. Fyrir þær kosningar þurfa einstaklingurinn og einyrkinn í atvinnulífinu að ná saman og fylkja liði. Það þarf að fylkja liði fyrir hönd einkaframtaksins sem á nú undir högg að sækja hjá kolkrabbanum. Við sem trúum á að kjarninn í þjóðfélaginu sé smáreksturinn en ekki samantvinnaður stórrekstur í höndum fárra þurfum að fylkja liði fyrir næstu kosningar.
    Ég býð ykkur gleðilegt sumar. --- Góða nótt.