Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegur forseti. Gott kvöld, góðir áheyrendur. Ekki blasir við fögur sjón þegar skyggnst er yfir svið íslenskra stjórnmála nú um stundir. Í landinu er við völd stefnulaus vinstri stjórn. Innan stjórnarflokkanna er hver höndin uppi á móti annarri, líkt og umræður og störf á Alþingi síðustu daga bera glöggt vitni, hvernig svo sem forsrh. reynir að telja sjálfum sér trú um annað í ræðustólnum í kvöld. Við hverju er raunar að búast þegar forusta ríkisstjórnarinnar er í höndum manna sem hvorki virðast skilja eðli þeirra starfa sem þeir hafa tekist á hendur né þær skyldur sem lýðræðisþjóðskipulagið leggur á herðar forustumönnum framkvæmdarvaldsins?
    Vegna ummæla hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar í kvöld vil ég minna á að haustið 1988 þegar hann myndaði ríkisstjórn hafði Framsfl. setið í ríkisstjórn nærfellt í 17 ár. Sjálfur hafði hann verið ráðherra í nærfellt tíu ár, þar af forsrh. í fjögur ár. Framsfl. hafði farið með sjávarútvegsmál í átta ár, hann sjálfur í þrjú ár og núv. hæstv. sjútvrh. í fimm ár. Ég læt svo hlustendum eftir að dæma um hver ber ábyrgðina og hver ekki.
    Frá upphafi núv. ríkisstjórnar hafa, í stað stefnumörkunar og almennra aðgerða sem miða að því að allir hafi sama rétt og allir sömu tækifæri, hvers kyns hrossakaup ráðherra við stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar einkennt stjórnarfarið. Framvinda mála á Alþingi hefur verið háð slíkum vinnubrögðum frá degi til dags. Allur hefur þessi atgangur miðað að því að kaupa ríkisstjórninni fylgi í sölum Alþingis en stjórnarherrarnir hafa kært sig kollótta um stuðning eða álit almennings á málunum. Nærtækustu dæmin eru nú, þegar afgreiða á frá Alþingi jafnþýðingarmikil mál og stjórnun fiskveiða og umhverfismála, þrátt fyrir mikinn ágreining innan stuðningsliðs ríkisstjórnar um afgreiðslu þeirra. Og sjútvrh. tekur þátt í þessum vinnubrögðum.
    Í upphafi beitti forsrh. sér fyrir pólitísku sjóðakerfi, eins og hér hefur komið fram í kvöld, og aukinni miðstýringu og hinn margnefndi Stefánssjóður leit dagsins ljós. Sá sjóður einn hefur lagt milljarða króna ábyrgðir á ríkissjóð en það bíður næstu ríkisstjórnar að ákveða með hvaða hætti þau vandamál sem af störfum hans hefur leitt verða leyst.
    Eftir því sem hefur liðið á feril ríkisstjórnarinnar hafa fleiri sjóðir af þessu tagi bæst við. Hlutafjársjóður og nú síðast Hagræðingarsjóður. Hvert er svo álit þeirra manna sem reynslu og þekkingu hafa á slíkum stjórnaraðferðum? Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambandsins, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag: ,,Það er mál til komið að pólitísk íhlutun í atvinnugreinar tilheyri fortíðinni og fagmennska taki við af pólitík og hentistefnu.`` Svipað álit kemur fram í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem nýlega var birt. Þar er lögð áhersla á atvinnustefnu sem byggir á minni afskiptum stjórnvalda sem leið til bættra lífskjara á Íslandi.
    Á sama tíma og margar Austur-Evrópuþjóðir varpa

af sér oki fátækrastefnu kommúnismans og lýsa yfir vilja sínum til að auka frelsi í hagkerfinu ræður afturhald og stjórnlyndi fjármálastjórn Íslands. Þrátt fyrir aukna skattheimtu um marga milljarða, auknar erlendar lántökur sem nálgast nú hættumörk, er stöðugur og gífurlegur halli á ríkissjóði. Fjmrh. hefur svo fengið að ráða því að fyrirvarar eru settir af Íslands hálfu í fjölþjóðlegu samstarfi. Efnahags- og framfarastofnunin hvetur hins vegar til opnunar hagkerfisins og að aukið verði frelsi varðandi fjármagnsflutninga milli Íslands og annarra landa. Afleiðingin af stefnu fjmrh. verður sú að Íslendingar dragast aftur úr öðrum þjóðum og dýrmætur tími fer forgörðum sem annars ætti að nýta til að laga íslenskt efnahagslíf að þeim breytingum sem nú eru að verða í heiminum í kringum okkur.
    Samskipti okkar við Evrópuþjóðirnar eru tvímælalaust eitt stærsta og þýðingarmesta málið sem við höfum til umfjöllunar og ákvörðunar á næstunni. Miklu máli skiptir hvernig viðræðum Fríverslunarbandalagsins og Evrópubandalagsins reiðir af. Við verðum jafnframt sjálfir að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og standa þannig að málflutningi okkar að á okkur sé hlustað og mark tekið á orðum okkar. Sú nöturlega staðreynd blasir hins vegar við að utanrrh. mætir til samningagerðarinnar á vettvangi EFTA og EB og túlkar þar sjónarmið sem ekki njóta stuðnings stjórnarflokkanna. Slíkur málflutningur er ekki sannfærandi, svo vægt sé til orða tekið.
    Í áður tilvitnaðri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar eru horfur taldar á tiltölulega hægum hagvexti á Íslandi á næstu árum. Bygging nýs álvers hefur verið lengi í undirbúningi en ákvörðun liggur ekki fyrir um staðarval, það er látið bíða fram yfir bæjarstjórnarkosningar. Varðandi staðarval virðast einkum tveir staðir koma til greina ef gengið er út frá sjónarmiðum hagkvæmni. Það eru Straumsvík og Keilisnes á Vatnsleysuströnd. Ljóst er af því sem fram hefur komið í fjölmiðlum af hálfu forsrh. og iðnrh. að til pólitískra hrossakaupa getur auðveldlega komið um staðarval að loknum sveitarstjórnarkosningum og hvorugur þessara staða orðið fyrir valinu.
    Aðeins nokkrum vikum fyrir síðustu kosningar lýsti umhvrh. því yfir að nauðsynlegt væri að stofna hægri flokk til að veita Sjálfstfl. aðhald frá hægri. Helsta afrek þessa ráðherra felst á hinn bóginn í því að framlengja líf einhverrar verstu vinstristjórnar sem hér hefur setið. Að launum hefur hann hlotið ráðherrastól og ýmislegt fleira, sem öllum er kunnugt. Forsrh. var reiðubúinn til hrossakaupa um þau mál, rétt eins og önnur, enda sýnist hann ekki hafa mótaðar hugmyndir um stjórn umhverfismála og það hvort yfirleitt væri þörf á sjálfstæðu umhverfisráðuneyti.
    Þeir eiga það sameiginlegt, forsrh. og umhvrh., að vilja fórna miklu fyrir ráðherradóminn. Það ber raunar enginn eins mikla ábyrgð á þeim glundroða og stefnuleysi sem einkennir störf ríkisstjórnarinnar og forsrh. Hvernig hefur honum tekist að rækja skyldur sínar við þing og þjóð? Í efnahagsmálum tóku aðilar vinnumarkaðarins málin í sínar hendur og mörkuðu

stefnu í atvinnumálum sem þeir nú standa að og hafa haft stuðning stjórnarandstöðunnar. Og ég vil minna Guðna Ágústsson sem hér talaði í kvöld á það að formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, knúði ríkisstjórnina til þess að standa við gefin loforð frá kjarasamningunum varðandi áburðarverð í landinu. Varla er unnt að ímynda sér meiri eymd, úrræðaleysi og metnaðarleysi þessara aðila sem formlega séð eiga þó að hafa með höndum forustuhlutverk í ríkisstjórn.
    Í lýðfrjálsu landi eins og Íslandi á hjarta stjórnkerfisins að slá í þinginu. Þjóðin hefur kosið fulltrúa á þing til þess að ráða málum sínum þar en ekki til þess að afsala sér völdum til ríkisstjórna eða einstakra ráðherra sem leysa málin með það eitt í huga að halda ráðherradómi. Það er skoðun mín að núv. ríkisstjórn og stjórnarflokkar hafi oft á tíðum gleymt því hvert sé hlutverk Alþingis og skyldum sínum gagnvart því.
    Góðir áheyrendur. Laugardaginn 26. maí fara fram sveitarstjórnarkosningar en yfirstandandi kjörtímabili Alþingis lýkur í apríl á næsta ári. Oft hefur það verið svo að kjósendur hafa látið ríkisstjórn finna til tevatnsins í sveitarstjórnarkosningum. Sýnist mér ærin ástæða fyrir kjósendur nú að gera svo. Góður sigur sjálfstæðismanna um land allt í sveitarstjórnarkosningunum mun styrkja þá kröfu að núv. ríkisstjórn láti af völdum og efnt verði til alþingiskosninga svo fljótt sem verða má. Því fyrr sem ríkisstjórnin fer frá og Sjálfstfl. tekur við forustu þjóðmála hefst nýtt framfaraskeið hjá íslensku þjóðinni. Ég vona að Guðna Ágústssyni og öðrum hans líkum komi til með að líða mun betur en Guðna Ágústssyni leið hér í kvöld. --- Góða nótt.